Nýtt
Vísindi og trú
Siðferði og trú
Stjórnmál og trú
Rökin gegn guði
Kristindómurinn
Heilagur hryllingur
Nýöld
Kjaftæðisvaktin
Fleyg orð
Ófleyg orð
Hugvekjur
Skeptíkus
Efahyggjuorðabókin
Guðlast
Rökvillur
Vísanir
Lesendabréf
Vefbókasafn
FAQ
Aftur á Vefbókasafn

Trú og trúleysi

Pjetur G. Guðmundsson

 

Trú og trúleysi

 

Orðið trú hefur margar merkingar í íslensku máli, eins og öllum er kunnugt. Þessi merkingarmunur er þráfaldlega notaður til þess að rugla saman ólíkum hugtökum og torvelda skilning og ályktanir. Jeg hef heyrt menn halda því fram, spauglaust, að trúleysi væri ekki til með mönnum, engin maður væri trúlaus, enginn fullþroska maður og heill á sál og líkama væri til, sem ekki tryði þráfaldlega því, sem honum væri sagt, t. d. frásögnum um hversdagslega og almenna viðburði.

Í þessu erindi mun jeg nota orðið trú í merkingunni guðstrú. En guðstrú nefni jeg þá ímyndun manna, að til sje guð eða guðir. Og að trúa á guð verður það þá, að taka tillit til hins ímyndaða guðs, eiga við hann andleg viðskifti sem koma fram í trausti, þjónkun eða ótta.

Í rauninni er þó skilgreiningin ekki tæmd með þessu, því eftir er að tala um hvað er meint með orðinu guð. Skilningur manna á því hugtaki er víst æði misjafn. En þó held jeg að flestum geti komið saman um þann eignleika guðs, að hann sje skynrænn máttur, manninum yfirsterkari, máttur, sem maðurinn telur sig verða að gjalda varhuga við, beygja sig undir, haga sér eftir eða koma sjer vel við.

Öll trú er bygð á vanmáttartilfinningu, andlegri eða líkamlegri.

Á frumstigi menningarinnar er þekkingin á lágu stigi, skilningur lítill á náttúrulögmálunum og orakasamhengi atburðanna. Þegar mennirinir gátu ekki ráðið gáturnar með aðstoð rökrænnar skynsemi, þá gripu þeir til getgátunnar. Þegar þekkingiu vantaði til þess að skýra orsakir einhvers náttúruviðburðar, þá var litið á viðburðinn sem dutlungaframkvæmd einhverrar skynrænnar veru. Ráðningin varð þá tilgáta um tilveru einhvers guðs. Í náttúrunni voru ótal fyrirbæri, sem höfðu áhrif á hag manna og óskir, til betra eða verra vegar. Þessi fyrirbæri urðu efniviður í sköpun ótal guða. Alt sem manninum var ofvaxið að skilja, eða hafa vald á, varð efniviður í guð og tilefni átrúnaðar. Menn trúðu á sólina, stjörnurnar, eldinn, vindinn, sjóinn, vötnin, árnar, lækina, fjöllin, trjen, fuglana, viskana, dýrin, stokka og steina, - yfir höfuð alla skapaða hluti á jörð, í jörð og yfir jörð.

Þessi guðasmíð var í upphafi mesta klambur, því fáir eru smiðir í fyrsta sinn. Guðirnir voru ófullkomnir að fyrstu gerð, og að því þurftu mennirnir sí og æ að laga þá til eða gera þá upp að nýju.

Í öllu þessu guðasmíði var maðurinn sjálfur fyrirmyndin sem notuð var. Mennirnir sköpuðu guðina í sinni mynd, í öllum aðalatriðum. Þessvegna höfðu guðirnir alla mannlega eiginleika. Þeir voru ýmist góðir eða illir, vitrir eða heimskir, fagrir eða ljótir og þar fram eftir götunum.

Viðskiptum sínum við guðina varð maðurinn að haga eins og viðskipti sínum við menn. Hann varð að blíðka þá með matargjöfum eða öðrum verðmætum, ausa á þá hóli og skjalli, hræra þá til meðaumkunar með bænum og harmatölum, beita þá brögðum, heita þeim fylgi og fulltingi gagnvart öðrum guðum, hóta þeim uppsögn allrar hollustu eða blátt áfram siga á þá öðrum og sterkari guðum.

Öll þessi guðaframleiðsla hefur á öllum öldum haft einn og sama tilgang: að bæta upp vanmátt mannsins í lífsbaráttunni og vera hjálpartæki til þess að koma fram vilja og óskum, vera tæki til að afla matar og annara lífsþarfa, og ná valdi yfir öðrum mönnum eð mannflokkum.

Samkomulag mannanna hefur aldrei verið beisið. Og auðvitað kom þeim ekki saman um notkun guðanna, fremur en annað. Hver hópur manna leitaðist við að vera sjálfum sjer nógur og hafa sem minst saman við aðra hópa að sælda, fram yfir nauðsynleg verslunarviðskifti. Hver þjóðflokkur vildi um fram alt hafa sína eigin guði, sem hann löggilti sjerstaklega fyrir sig. En af því leiddi að aðrir guðir, sem ekki hlutu þessa löggildingu voru útskúfaðir, hæddir og hataðir. Innan þjóðflokksins fór einnig fram skipulagning á hagnýtingu guðanna. Sumir voru ráðnir til að vera ættarguðir, aðrir til þess að vera heimilisguðir o. s. frv.

Með vaxandi notkun mannvitsins, aukinni tækni og ráðkænsku í lífsbaráttunni, mynduðust stærri og stærri valdasveipir. Vald heimilisins hvarf undir yfirvald ættflokksins, vald ættflokkanna undir vald þjóðhöfðingjans og stundum runnu völd margra þjóðhöfðingja saman undir yfirvald ríkistjórnar. Alt þetta varð til þess, að hagnrýting hinna minniháttar guða varð óþörf, og þeim var varpað á sorphauginn í hundraðatali. Eftir stóðu að eins þeir guðir, sem væru verkfæri hinna stærri valdasveipa. Drottinvald þjóðar eða ríkis fann sjer ekki henta að hafa í þjónustu sinni marga guði, jafnmáttuga. Þeir gátu orðið ósamþykkir, og sá sem komst í hallstöðu við ríkisvaldið var altaf líklegur til þess að efla andstöðu gegn því.

Bein afleiðing af þessu var löggilding eins guðs, lögleiðing eingyðistrúar. En þó að eingyðistrú væri lögleidd, var æfinglega allmörgum guðum lofað að hjara, sem undirtyllum aðalguðsins.

Þetta er það ástand í trúarbrögðum, sem nútíminn á við að búa í stórum dráttum.

Oft kom það fyrir að þjóðhöfðingi óskaði eftir vináttu eða aðstoð annarar þjóðar til þess að halda völdum sínum eða efla þau. Til þess að fá þá ósk uppfyllta, varð hann stundum að sæta því skilyrði að taka við guði þeirrar þjóðar, sem hann leitaði fulltingis hjá. Með því seldi hann þjóð sína að vísu undir nokkur yfirráð annarar þjóðar, en á þann hátt, sem alment vakti litla eða enga eftirtekt. En persónuvaldið og bráðabirgðahagnaðurinn sat æfinlega í fyrirrúmi.

Á þennan hátt var kristin trú lögleidd á Norðurlöndum.

Með þessu móti gat einn guð orðið guð margra ríkja. Þessar tiltektir riðu þó í bág við eðli og ætlun eingyðistrúar. Það kom fljótt í ljós, að guðinn gat ekki þjónað mörgum herrum í senn. Þegar tvær þjóðir, sem höfðu sama guði, ruku saman í ófrið, heimtaði hvor þjóðin um sig alla aðstoð guðsins sjer til fulltingis, og hinni þjóðinni til ófarnaðar. Dæmi upp á þetta eru mörg og augljós frá síðustu heimstyrjöld. Þetta hefur oft komið fyrir áður og orðið guðum til hins mesta hnekkis.

Það er alveg augljóst, að sá guð, sem nú er yfirguð Evrópu og Ameríku, er kominn í mjög athyglisverða aðstöðu. Það er að verða greinilegra með hverjum degi sem líður, að hann getur ekki annað sínu upphaflega hlutverki. Þeim fer því sí og æ fjölgandi, sem telja hans hlutverki lokið.

En eftir er samt mikill sægur manna, sem ekki telur sig geta án hans verið. Eftir er sægur manna sem eru frá blautu barnsbeini svo andlega þrælkaðir af trú, að þeir telja sjer nauðsynlegt að hafa guð, hvernig svo sem hann er, eða verður, og án þess að íhuga nokkuð tilganginn með því.

Enn eru aðrir menn, sem vilja bjarga þessum guði frá glötun með því að gera hann upp að nýju, fá honum nú hluverk, nýjan tilgang. Þessi endursmíð stendur nú sem óðast yfir, og hjá þessum mönnnum breytir guðinn mynd og eðli með hverju ári sem líður, eftir því, sem smíðavinnunni vindur fram.

Nú geri jeg ráð fyrir því að mörgum muni ofbjóða þessi umsögn mín um guðina. Menn muni hugsa sem svo, að þetta sje sprottið af illum hug trúleysingja til trúarinnar, og svona tali engir aðrir en trúleysingjar.

Móti því ber heg hiklaust fram þá staðhæfingu. að það eru einmitt áköfustu trúmennirnir, sem á öllum tímum hafa harðast leikið guðina og háðulegast - aðra en sinn eigin guð. Á öllum tímum eru það trúleysingjarnir, sem mildasta og sanngjarnasta dóma fella um guði og trúarbrögð, og svo mun verða hjer.

Trúleysingjar hafa verið til á öllum öldum og með öllum þjóðum. Þeim má með nokkrum sanni skifta í fjóra höfuðflokka.

Í fyrsta lagi tel jeg börn. Þau eru öll trúlaus, skamt eða langt fram á aldur. Þau eru að vísu haldin vanmáttarkend, sem er skilyrði trúar. En þau bera bera ekki áhyggjur fyrir sínum hag, sem nái nokkuð verulega út fyrir líðandi auknablik. Þau varpa öllum áhyggjum sínum á það fullorðna fólk, sem veitir þeim forjá, og þurfa því ekki á guði að halda.

Í öðrum flokki tel jeg þá fullorðnu menn, sem skortir undirstöðuskilyrði trúar, vanmáttarkendina, eða finna svo lítið til hennar, að þeim þykir ekki þörf að bæta upp vanmátt sinn með svo vafasömum ráðstöfunum, sem trúin er. Þessir menn eru talsverður hluti af mannfólkinu á hverjum tíma. Þeirra verður vart í fornritum okkar, og þar er um þá sagt, að þeir trúðu ekki á guð, heldur mátt sinn og megin. Það var að vísu engin trú, þó svona sje að orði kveðið, heldur sjálfstraust. Það er ekki ómerkilegt, að sagnaritararnir skyldu þekkja ástæðuna fyrir trúleysi þessara manna og tilgreina hana, einmitt höfuðástæðuna, skort á vanmáttakend.

Í þriðja flokki eru þeir trúlausir menn, sem skilja trúna, vita hvernig hún er undir komin, og fyrir þá sök telja hana gagnslausa fyrir sig til uppbóta á vanmætti, en vilja hinsvegar ekki nota hana sem vopn eða vjel í viðskiftum sínum við aðra menn.

Í fjórða flokki eru þeir trúlausir menn, sem af ráðunum hug nota trúna sjer til hagsbóta, nota hana sem yfirvarp í viðskiftum við aðra menn, til þess að villa þeim sýn eða gera trúarfortölur sjer að atvinnu.

Þessa menn, trúarhræsnara, tel jeg hjer fyrir samræmis sakir. Annars eru þeir æfinlega taldir með trúmönnum og oft fremst í flokki þar. Mjer er þó svo ókært að telja þá meðal trúleysingja, að jeg skil þá alveg undan því, sem jeg segi um trúleysingja hjer á eftir.

Trúmönnum vil jeg skifta í tvo flokka, í stórum dráttum.

Í fyrra flokki tel jeg þá , sem trúa af innilegri sanfæringu og leita traust hjá guði til uppbótar vanmætti sínum í lífsbaráttunni og eru sannfærðir um að fá frá honum uppfyllingu óska sinna og vona, þessa heims eða annars heims.
Það er trú þessara manna, sem allir sæmilega mentaðir trúleysingjar hljóta að bera fulla virðingu fyrir.

Í síðari flokki tel jeg allan þann fjölda manna, sem játar og rækir trú sína sem sið, alveg eins og menn rækja þann sið að heilsast og kveðjast. Þessir menn nota guð eins og einskonar hjálpargagn, þegar sjerstaklega þarf á að halda, ákalla hann þá eða skjalla, en láta alveg lönd og leið þess á milli.

Þetta eru og verða kostir trúrarinnar svo lengi, og að svo miklu leyti, sem þetta hluverk hennar verður ekki leyst á annan hagkvæmari og siðrænni hátt.

Á fyrri tímabilum menningarinnar höfðu flestir fullþroska menn þörf fyrir trú, meiri eða minna, sökum vanmáttar síns og vanþekkingar. En sú trúarþörf hefur farið þverandi að sama skapi, sem þekking manna tók framförum, og að sama skapi, sem þekking manna tók framförum, og að sama skapi, sem samvinna manna og fjelagslíf þroskaðist. Þau fyrirbrigði, sem menn skildu ekki, urðu orsök til trúar. En þau gátu ekki verið orsök eftir að menn skildu þau.

Þegar viðurkendar siðareglur fjelagslífsis gerðu hinum sterkari að skyldu að bera byrðar hins máttarminni, þá þurfti hin máttarmini ekki að leita annara úrræða til þess að fá byrðarnar bornar. Þannig hlýtur vaxandi samhjálp manna og aukin þekking sí og æ að fækka stoðum undir trúnni.

Við trúalausir menn lítum svo á, að þekking og samhjálp komi mannkyninu meira að notum en trú. við viljum því efla þekkingu og samhjálp, og eyða trúnni að sama skapi sem það tekst.

Þegar ég taldi upp mikilsverða kosti trúarinnar, hafa sumir áheyrendur mínir vafaluast á það sem viðurkenningu mína á ágæti trúarinnar, sem komi í mótsögn við önnur ummæli mín um trúna.

Þessum mönnum vil jeg svara því einu, að benda þeim á alkunna staðreynd sem er þessi: Rammasta eitur getur verið lífgjafi, - og leiði jeg læknana sem vitni í því máli. Trúin á sammerkt við marga hluti um það, hún er út af fyrir sig hvorki góð eða ill, heldur fær þá eiginleika fyrir notkun. Og þó að trúin hafi orðið til blessunar fyrir notkun, þá verður því ekki móti mælt, að hún hefur í annan stað orðið til bölvunar fyrir notkun.

Þessum orðum vil ég finna nokkurn stað, enda þótt fllutningstími minn hjer marki mjer svo þröngan bás, að jeg get að eins tæpt á því helsta.

Þeir, sem telja menn á að meta trú meira en skynsemi, þeir vinna á móti skynseminni. Og þar sem skynsemi mannsins er grundvöllur allrar siðmenningar, þá er með þessu verið að vinna á móti þroska siðmenningarinnar. Skynsemin sannar staðhæfingar sínar með vitnisburðum orsakalögmálsins, - með skírskotun til þeirra reglna, sem orsakir og afleiðingar hlýða og altaf má prófaað eru samræmar, og einu nafni nefnast rök.

Þó að mannkynið hafi búið til 100 þúsund guði, þá hafa ekki enn í dag fengist rökrænar sannanir fyrir tilveru eins einasta guðs.

Þessi fullyrðing mín sætir væntanlega ekki miklum andmælum, því jeg veit ekki betur en kennimenn kirkjunnar haldi því iðulega fram, að eðli guðdómsins verði ekki mælt á kvarða þekkingarinnar. Jeg fullyrði líka að kennimenn íslensku kikjunnar, hver einn og einasti, samsinnir því, sem jeg sagði nú um guðina - að einum guði undanskildum.

Á öllum sviðum mannlífsins, öðrum en trúarsviðinu, er þess krafist, að menn hagi hugsun og athöfnum eftir rökrænum reglum. Engin banki í veröldinni vill kaupa af mjer víxil með tryggingu í þeirri staðhæfingu minni, að guð muni borga víxilinn á gjalddaga. en þegar andleg velferð einstaklingsins er að ræða, ekki að eins í þessu lífi heldur eilíflega, þá segja trúmennirnir að einstaklingnum sje nóg að trúa því, sem honum er sagt um þá hluti, þó að engin rök renni þar undir.

Ef jeg segi við trúmanninn, að á hans guð vilji jeg ekki trúa. En jeg þekki sjálfur annan guð, sem jeg trúi á, og það skuli hann líka gera, þá bregst trúmaðurinn illa við og harðneitar að trúa. Eftir því ætti jeg að vera skyldur til að trúa, sem hann hefur eftir öðrum. Hann aftur á móti ekki skyldur til þess að trúa mínum orðum. fyrir honum er ómerkileg sögusögn, sem búin er að flækjast milli manna og þjóða í 2000 ár - höfð eftir einhverjum mentunarsnauðum manni austur í Asíu - gullvægur sannleikur og óvéfengjanlegur. En orð mín sæmilega mentaðs nútíðarmanns, sem hann getur krafið frekari skýringa, þau eru honum einskis virði.

Þessi fyrirlitning trúmannins á heilbrigðri skynsemi er vissulega ráðin til þess að verka spillandi á dómgreind hans yfirleitt.

Að þessu leyti verkar trúin afmentandi.

Því er haldið fram, að trúin sje ekki aðeins trygging fyrir velfarnaði í öðru lífi. heldur líka siðabótamál í þessu lífi.

Þess má finna mörg dæmi, að trúin hefur verkað í átt til siðbótar. En hin eru líka dæmin til, að trúin hefur verkað siðspillandi. Og því miður eru þau dæmin augljósari og stórbrotnari. Flest hin hræðilegustu siðspjöll sem mannkynssagan hefur að segja, hafa verið framin í nafni trúarinnar. Viltar og hálfviltar þjóðir hafa verið rændar, þrælkaðar og myrtar í nafni trúarinnar. Allar ógnir rannsóknarrjettarins á Spáni voru framdar í nafni trúarinnar. Allar galdrabrennur miðaldanna fóru fram í nefni trúarinnar. Sórfeldar styrjaldir, með öllum þeim ógnum, sem eru jafnan samfara, voru háðar í nafni trúarinnar, og svo mætti lengi telja.

Þessum staðreyndum eru margir menn vísir til að hólka fram af sjer með því að segja sem svo, að þetta heyri til horfnum tímum og komi trú nútímans ekkert við. Og jeg skal ganga inn á það, að láta þau dæmi vera gleymd, ef trúin nú á tímum reynist vera siðbætandi. En jeg get ekki fundið að svo sje. Jeg hef ekki orðið þess var á minni æfi, að trúmenn sjeu siðbetri menn yfirleitt en bændur og verkamenn.

Siðgæðið er lögmál fjelagslífsins og fullkomnast með fullkomnun þess. Allar umbótaframfarir fjelagslífsins mæta andúð hjá trúnni yfirleitt. Trúin er í eðli sínu íhaldssöm og ófús á breytingar. Um hana gildir það, sem Stephan G. Stephansson segir um Jahve: Hann hefur aldrei of fljótt stutt uppástungur góðar.

Í framfaramálum verkar trúin eins og dragbítur á sleða. Það er einn af hennar miklu ókostum.

Þá vil jeg minnast á þá staðreynd, að trúin hefir verið, er, og mun æfinlega verða verkfæri í hendi valdsins. Það styður hvort annað. Trúin viðheldur valdinu og valdið viðheldur trúnni. Með orðinu vald á jeg hjer sérstaklega við auðvaldið, því að er nú sterkast og áhrifaríkast allra tegunda valds. Auðvitað er andstæða fjelagslífsins, samstarfs manna og bræðralags. Það hefur á hverjum tíma og hverjum stað aðstöður, sem það þarf að verja gegn áhrifum breytinganna, framfaranna, og er því í eðli og veru íhaldssamt. Valdið finnur í trúnni - sem er íhaldsöm eins og það - útvalið verkfæri til þess að aftra breytingum, hefta mentun lýðsins, með því að beina fræðslunni sjerstaklega að áhugamálunum valds og trúar, spyrna gegn öllum nýungum, sem líklegar eru til að raksa aðstöðu valds og trúar, þar með talið mestum umbætum í fjelagsmálum manna. Auðvaldið styður kirkjuna og birgir hana af fje, svo hún geti haldið uppi her af atvinnu-trúmönnum, málaliði, sem hefur það hlutverk, að halda lýðnum við trúna og frá þekkingunni. Þessir málamenn kirkjunnar, sem hafa það fyrir atvinnu að troða í fólkið, verða auðvitað að vinna eitthvað fyrir kaupi sínu. Enda ganga hinir röskustu þeirra hart að verki. Þeirra hlutverk er að þrengja trúnni upp á fólkið, hvar sem við því verður komið. Þeir gera sjer enga rellu út af því, hvort maður þarf á trú að halda eða þarf ekki, hvort líklegt er að trúin verði honum til gagns, einskis gagns eða ógagns. Þetta sannast best á því, að þeir eru hvergi eins aðsúgsmiklir eins og við börn og unglinga. Ekkert barn í þessu landi á nokkursstaðar friðlýstan blett eða hæli eða hæli gegn áróðri þessara atvinnu-trúmanna. Þeim er hið mesta kappsmál að vekja vanmáttartilfinninguna sem víðast og mest, og sem fyrst hjá hverjum manni, svo trúin fái þar jarðveg að vaxa í. Með þessu eru þeir vitandi - og þó reyndar langt um fleirri óvitandi - að búa til mein, svo trúnni gefist sem flest tækifæri til að græða mein. Þessi áróður atvinnu-trúmannanna verður svo vjelrænt starf, að þeir eru oftast starblindir fyrir ýmsu athæfi sínu, sem jafnvel er fullkomlega ósamboðið virðingu hins ímyndaða guðs. Er skamt að seilast til dæmis um það, þar sem er bænin. Atvinnu-trúmennirnir halda því fast að fólki að biðja guð um hin og önnur hagsmuna- og geðþóttaatriði. Fólkinu er kent, að það eigi ekki að sætta sig við forsjá guðs, heldur skuli það gera sjer alt far um að hafa áhrif á gerðir hans og fyrirætlanir, það á að snúa guði eins og snældu, eftir sínum eigin hagsmuna- og áhugamálum. Trúlausum mönnum hlýtur að blöskra slíkt virðingarleysi trúamannanna fyrir hinum ímyndaða guðdómi. Hróplegt dæmi upp á virðingarleysi trúamannanna fyrir guði eru áheitin. Jafnvel sjálfur biskupinn svífist ekki þess að auglýsa opinberlega, að þessi maður eða hinn hafi heitið á Strandarkirkju og orðið vel til (og gefur þar með öðrum óbeint bendingu um að gera hið sama). Með þessu er okkur gefið í skyn, að forsjónin, sjálfur guð, hafi unnið það til fyrir 2 kr. hagnað til handa Strandarkirkju að breyta áður gerðu áformi sínu. Slíkt og þvílíkt sem þetta er óræk sönnun þess, að trúin hefir lamandi áhrif á sómatilfinningu manna.

Vegna þess að trúin er handbendi auðvaldsins, eða að því leyti sem hún er það, hlýtur hún að hafa afturdræg áhrif á alla menningu.

Jeg hefi nú drepið á nokkra ókosti trúarinnar sem jeg tel vera þess eðlis, að hafa miður æskileg áhrif á þjóðmenninguna yfirleitt.

Hinsvegar vil jeg forðast að kasta rýrð á trúna sem einkamál einstaklingsins, þegar einstaklingurinn rækir trú af innri þörf, einlægri sannfæringu, og án þess að veraldleg hagsmunasjónarmið sjeu þar undir falin. Þá trú á hver maður að mega rækja óáreittur af öllum, og hafa fjelagsskap við skoðanabræður sína um rækslu slíkrar trúar, hverju nafni sem hún nefnist.

Á sama hátt krefjumst við trúlausir menn þess að vega vera óáreittir af trúnni, og mótmælum því harðlega að trúmenn beiti valdi til þess að gera okkur að kauplausum vinnumönnum trúarinnar. En það eru nú einmitt það sem þeir gera. Þeir beita ríkisvaldinu til þes að láta okkur róa undir krikjunni, hvort sem við viljum það eða viljum ekki.

Stjórnarskráin lætur líta svo út sem hjer sje trúfrelsi í landi. Þetta trúfrelsi nær þó ekki lengra en það, að mönnum er heimilað að velja á milli trúarbragðanna. Þar er blátt áfram gengið framhjá trúlausum mönnum, svo sem væru þeir ekki til, enda þótt þeir skipi vafalaust meirihluta þjóðarinnar.

Í stjórnarskránni er ofur sakleysislega kveðið svo að orði:

„Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, sem hann sjálfur aðhyllist“.

En hvað er um hina, sem enga guðsdýrkunar aðhyllast? Stjórnarskráin steinþegir um það.

Auk þess verður skaleysissvipurinn á þessari grein heldur lítils virði, þegar til framkvæmdarinnar kemur. Þá er alt aftur tekið, sem þarna var lofað, En það stafar af því, að í annari grein í sömu stjórnarskrá er ákveðin kirkja löghelguð til að vera ríkiskirkja og ríkisvaldinu fyrirskipað að styðja hana og vernda. Þetta verður ríkisvaldið að gera, og gerir, með því að birgja hana að fje úr ríkissjóði, - fje sem tekið er af skattþegnum ríkisins, án tillits til þess, hvort þeir aðhyllast fremur eina trú eða aðra - eða enga trú.

Þeim mönnum sem ekki eru í þjóðkirkjunni, eða örðum viðurkendum trúarbragðaflokki, er gert skylt að greiða gjöld, sem annars áttu að renna til þjóðkirkjunnar, til ríkisins (nánar tiltekið Háskóla Íslands). En þaðan rennur svo nokkuð af þeim til þjóðkirkjunnar.

Það eru ekki smáræðis hlunnindi, að fá heimild til að fara í sveig að markinu, í staðinn fyrir að fara þangað beint!
Við trúlausir menn vitum vel hvernig þessar vífilengjur allar eru undir komnar. Trúmennirnir finna vanmátt sinn til að halda kikjunni upp. Þeir vita að á eignin fótum getur hún ekki staðið. Hún verður að hafa stuðning af ríkisvaldinu. Sjer til viðhalds verður kirkjan að fá liðstyrk trúlausra manna, og þann liðstyrk knýr hún fram með valdi.

Sem trúlaus maður mótmæli jeg þessu ofbeldi, og heiti á alla trúlausa menn að taka undir þau mótmæli með mjer.

---