Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Móðir náttúra er ekki vinur okkar

Eftir Sam Harris
Gengið um skóginni Eins og svo margir aðrir treysti ég einu sinni á visku náttúrunnar. Ég hugsaði mér að það væru mörk milli hins náttúrulega og hins manngerða, milli einnar dýrategundar og annarrar, og ég hélt að með genafikti kölluðum við yfir okkur ósköp ein. Nú er ég þeirrar skoðunar að þetta rómantíska viðhorf til náttúrunnar sé bæði heimskuleg og hættuleg mýta.

Á um það bil 100 milljón ára fresti rekst loftsteinn á stærð við fjall á jörðina og drepur nánast allt líf á plánetunni. Þetta er ágætis ábending um það hversu litlu flóknar lífverur eins og við skiptum náttúruna. Saga lífsins á þessari plánetu hefur verið saga miskunnarlausrar eyðileggingar og blindrar, linnulausrar endurnýjunar.

Steingervingar gefa til kynna að sérhver dýrategund lifi í 1 til 10 milljón ár að meðaltali áður en hún deyr út. En hugtakið ,,dýrategund" er mjög loðið. Það er skilgreint þannig að hópur lífvera sem geta eignast frjó afkvæmi er sagður tilheyra sömu tegund. Hugtakið nær ekki yfir lífverur sem eru á gráu svæði milli tegunda. Þannig var enginn einstaklingur nákvæmlega fyrsta mannveran, heldur þróaðist hópurinn smám saman. Lífið er samfelldur straumur breytinga. Forfeður okkar þróuðust, kynslóð eftir kynslóð, smátt og smátt yfir í dýrategundina homo sapiens. Það er ekkert við forfeður okkar, eða líffræði mannsins í dag, sem segir nokkuð til um það hvernig við munum þróast í framtíðinni. Ekkert náttúrulögmál segir að afkomendur okkar muni líkjast okkur á nokkurn hátt. Það er meira að segja frekar líklegt að þeir muni ekki gera það. Komandi kynslóðir munu líklega breyta sjálfum sér þannig að þær munu ekkert líkjast mannverum nútímans.

DNAVerður það til góðs? Þessi spurning gefur í skyn að við höfum annan mögulegan kost. En hvað annað er til boða, en að taka stjórn á eigin líffræðilegu framtíð? Væri betra fyrir okkur að treysta á visku móður náttúru? Eitt sinn var ég viss um það. En við vitum að móður náttúru er alveg sama um einstaklinga, og alveg sama um dýrategundir. Þeir sem lifa af gera það þrátt fyrir afskiptasemi náttúrunnar. Ferlið sem kallast náttúruval hefur vissulega mótað núverandi genamengi mannsins, en það hefur ekki hámarkað hamingju mannsins, eða gefið okkur neina sérstaka hæfileika umfram það að ala af okkur og annast næstu kynslóð mannvera þar til hún getur sjálf fjölgað sér. Raunar gæti verið að ekkert við mannlíf eftir fertugt (sem var meðallíftími þangað til á 20. öld) sé háð þróun. Og með nokkrum undantekningum (eins og geni fyrir mjólkurþoli) höfum við líklega ekki aðlagast umhverfi okkar mikið síðustu tíu þúsund ár.

En umhverfi okkar og þarfir - svo ekki sé talað um þrár okkar - hafa breyst gríðarlega á þessum tíma. Við erum að mörgu leyti ekki hæf fyrir hnattvætt samfélag, og þetta er ekkert skrítið. Frá sjónarhorni þróunar hlýtur mestur hluti mannlegs samfélags, þar með talinn tilfinningalegur grunnur þess, að virðast óþarfar aukaverkanir. Náttúran ,,sér" ekki flest sem við gerum, og vonumst til að gera, og hefur ekki búið okkur undir neina af þröskuldunum sem við stöndum nú frammi fyrir.

Það er ekki hægt að eyða þessum áhyggjum með hugmyndum um að það þurfi vart að laga það sem virkar. Það er hægt að finna ótal hliðar mannlegs lífs sem virka í raun ekki mjög vel. Ef ég tek sjálfan mig sem dæmi virðist mér allir mínir hæfileikar falla einhvers staðar á samfelldan fötlunarskala: ég var til dæmis ávallt þokkalegur í stærðfræði, en það er í raun eins og að segja að ég sé jafn góður og snilldarstærðfræðingur sem hefur hlotið alvarlegan heilaskaða eftir að naut stingur hann í heilann, og tónlistarhæfileikar mínir eru álíka og hjá Mozart eða Bach hefðu þeir skaddast lífshættulega í skíðaslysi. Ef Tiger Woods rankaði við sér eftir uppskurð sem hefði í för með sér að hann væri ekki betri en ég í golfi, myndi hann eflaust bera fram ákæru um læknamistök.

Fellibylurinn RitaEf við skoðum mannkynið í heild sinni er ekkert við náttúruval sem gefur til kynna bestu mögulegu hönnun. Við erum líklega ekki hönnuð á besta máta fyrir steinöld, hvað þá fyrir 21. öldina. En við erum núna að komast yfir verkfæri sem hjálpa okkur að endurbæta hönnun okkar. Margir halda að þannig tilraunir séu mjög hættulegar. En er það hættulegra en að gera alls ekki neitt? Það gætu verið til ógnir við siðmenninguna sem við getum ekki ímyndað okkur, né heldur brugðist við með núverandi gáfnafari. Gæti nokkur rökrétt aðferð verið hættulegri en að lúta duttlungum náttúrunnar? Ekki er þar með sagt að hæfileiki okkar til að fást við genamengi mannsins gæti ekki leitt til ofmetnunar í anda Fásts, í einhverjum tilfellum. En ótta okkar á því sviði verður að stilla í ljósi þess hvernig við urðum eins og við erum. Móðir náttúra ber ekki nú, og hefur aldrei borið, hagsmuni okkar fyrir brjósti.


Birtist upphaflega á ,,The World Question Center 2008" á vefsíðunni Edge.org

Ljósmyndir:
walk in the forest eftir photo.jhassy
DNA eftir Lawrence OP
Rita eftir sparkynufc_86/

Valdimar Björn Ásgeirsson 25.02.2008
Flokkað undir: ( Erlendar greinar , Nýöld )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 25/02/08 12:12 #

Mjög áhugaverð grein. Mér leiðist alltaf þegar menn tala um "móður náttúru" vs. manninn og að við séum alltaf að eyðileggja eitthvað í náttúrunni þegar við fellum skóga til ræktar eða þurrkum upp votlendi. Þessi mismunur er bara tilbúningur.


Þorsteinn Ásgrímsson - 25/02/08 16:49 #

Sæll, Margt skemmtilegt í þessari grein, en það eru nokkrir hlutir þarna sem stinga mig, t.d.:

"Frá sjónarhorni þróunar hlýtur mestur hluti mannlegs samfélags, þar með talinn tilfinningalegur grunnur þess, að virðast óþarfar aukaverkanir. Náttúran ,,sér" ekki flest sem við gerum, og vonumst til að gera, og hefur ekki búið okkur undir neina af þröskuldunum sem við stöndum nú frammi fyrir."

Afhverju hljóta tilfinningar að vera aukaverkanir sem ættu að víkja samkvæmt þróuninni? Hefði einmitt haldið að tilfinningar væru dæmi um þróun frekar en hitt. Annars sammála með þessa hugmynd um náttúruna vs manninn.


Valdimar (meðlimur í Vantrú) - 25/02/08 17:06 #

Kristján: Já, vissulega. Síðast þegar ég vissi var mannkynið hluti af náttúrunni. Það þýðir vissulega ekki að það sé skynsamlegt af okkur að setja viðkvæm vistkerfi úr skorðum, en það er kjánalegt að ætla að lausnir náttúrunnar (þ.e. þróunar) séu á einhvern sjálfsagðan hátt merkilegri heldur en lausnir mannsins.


Valdimar (meðlimur í Vantrú) - 25/02/08 17:24 #

Þorsteinn:

Þessi pæling er hluti af hugsuninni um að náttúran hafi ekki okkar hag í fyrirrúmi; hún kærir sig ekki um það að maðurinn láti framtíð sína í hendur hennar - svo ég leyfi mér að persónugera hana svolítið.

Það deila fáir um það að það hljóti að gefa forskot í lífríkinu að bera nógu sterkar tilfinningar til barnanna þinna til að gefa lífið fyrir þau, en allt annað tilfinningalíf mannsins gæti eins verið hliðarverkun.

Að auki er ekkert sagt um að aukaverkanir ,,ættu að víkja" - heldur að þær séu aukaverkanir sem fylgja öðrum þróunum sem gefa forskot.


Þórarinn Sigurðsson - 25/02/08 17:45 #

Vísindamenn munu afhjúpa leyndardóma líffræðinnar, þar á meðal mannsheilans og meðvitundarinnar - sem er fáránlega spennandi tilhugsun! Við munum taka tauma þróunarinnar í eigin hendur.

Það er alls ekki óhugsandi að við getum t.d. útrýmt sjúkdómum og fátækt eða margfaldað líftíma okkar. Því munu jafnframt margir Guðsmenn mótmæla harkalega. Á hinn bóginn gætum við líka klúðrað þessu öllu saman...


FellowRanger - 25/02/08 18:02 #

"Móðir náttúra ber ekki nú, og hefur aldrei borið, hagsmuni okkar fyrir brjósti."

Og hvað með það? Móðir náttúru ber ekki að skipta sér af okkur, því til að gera einhverju til geðs þarf maður að vita af því. Náttúran hefur ekki meðvitund, heldur er allt sem til er, og mun vera til. Hún hefur kraft til að skapa líf sem og eyða því. Að ætlast til að hún geri einhverjum sérstökum til geðs er fásinna, rétt eins og að biðja til Yahweh og vonast til að úr rætist.

Manninum ber að virða móðir nátturu en þess í stað hefur hann nánast hrækt framan í hana og sogið öll gæðin sem Terra gefur okkur í einum gúlsopa og ætlast til að fá meira. Við eigum skilið að deyja út.


gimbi - 25/02/08 18:06 #

Það er margt undarlegt við þessa grein Harris. Helst einhver furðuleg undirliggjandi tvíhyggja um "mann og náttúru".

En segið mér; ef maðurinn "tekur þróunina í eigin hendur", gildir þá náttúruval ekki lengur um hann?


danskurinn - 25/02/08 18:21 #

Þessi grein er dæmigerð fyrir æpandi fáfræði og ótta og vanmáttarkennd sem óhjákvæmilega fylgir. Harris, blessaður karlinn, skilur ekki af hverju hann getur ekki spilað á hljóðfæri eins og Mozart eða golf eins og Woods. Harris vill eiga möguleika á að breyta gangi náttúrunnar svo hann eða honum skyldir geti allir losnað við vanmáttarkenndina og ófullkomleikan sem þjakar hann sjálfan. Svona mekalómanía er þekkt í mannkynssögunni og birtist m.a. sem misheppnaðar tilraunir brjálæðinga til að skapa ubermench. Nú halda sumir kannski að tæknin sé komin á það stig að rétt sé að halda áfram tilraunum sem áður hafa misheppnast hrapalega og að ubermench sé rétt handan hornsins.

Harris dreymir um veröld sem hægt er að stjórna, veröld sem er fyrirsjáanleg og meðfærileg. Hann skilur ekki að maðurinn getur aðeins lært af miskunnarleysi náttúrunnar. Hann skilur ekki að í fyrirsjáanlegri veröld lærir engin neitt – síst af öllu ubermench. Svona heimsendatrú og vanmáttarkennd ætti aðeins að finna hjá Ésúhoppurum og Biblíubókstafstrúarbrjálæðingum, en virðist því miður vera algengari.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/08 19:25 #

Tómir útúrsnúningar hjá danskinum. Harris er ekkert að meina þetta á þann hátt sem danskurinn kýs að túlka þetta.


Kristján Hrannar Pálsson - 25/02/08 20:34 #

Gimbi: Hvernig tvíhyggju áttu þá við? Ég skildi greinina einmitt þannig að ekki bæri að aðgreina mann og náttúru.

Hvað náttúruvalið varðar er það afstætt hvað manninn varðar í dag þótt við séum líffræðilega sama tegundin og þurfti áður að berjast fyrir lífi sínu. Við þurfum í dag ekki að hafa áhyggjur af því að deyja út vegna annarrar dýrategundar og sem stökkbreytt kyn stafaði okkur alveg jafn mikil ógn af gígantískum loftsteinum eða t.d. dauða sólarinnar og homo sapiens.


Kári Rafn Karlsson - 25/02/08 21:10 #

Maðurinn á ekki eftir að þróast meira ef hlutirnir haldast óbreyttir vegna þess að það á sér ekkert náttúruval stað lengur. Það stafar af því að það deyr nánast enginn lengur í dag vegna erfðafræðilegrar vansköpunar heldur fá allir að lifa með sína genagalla eða kosti. Siðferðilega er það góður hlutur, en þróunarlega séð er þetta pattstaða. Þess vegna er eina lausnin fyrir mannkynið að þróast áfram að taka stjórnina í sínar eigin hendur.


gimbi - 25/02/08 21:35 #

Það er nú svo margt skrýtið við þessa grein að maður veit varla hvar á að byrja. Það sem ég á við með "tvíhyggja" er að Harris virðist stundum tala um menn og náttúru sem aðskilin og óskyld fyrirbæri.

En við getum skoðað fleiri hugmyndir hans: "Komandi kynslóðir munu líklega breyta sjálfum sér þannig að þær munu ekkert líkjast mannverum nútímans...verður það til góðs?"

Til góðs fyrir mannkyn væntanlega? Og hvernig á að svara því? Miðað við hvaða gildi? Breyta sjálfum sér? Án þess að náttúran komi nálægt? Hvar þá? Í tómarúmi?

...áfram heldur hann. "En hvað annað er til boða, en að taka stjórn á eigin líffræðilegu framtíð? Væri betra fyrir okkur að treysta á visku móður náttúru?"

Það eina sem okkur stendur til boða í þróunarlegu tilliti er að lifa af. Í náttúrunni.

"En við vitum að móður náttúru er alveg sama um einstaklinga, og alveg sama um dýrategundir. Þeir sem lifa af gera það þrátt fyrir afskiptasemi náttúrunnar."

Móður náttúru alveg sama um einstaklinga og dýrategundir? Þetta er sérkennileg viðleitni til að aftengja náttúru lífi einstaklinga og tegunda. Náttúran er einstaklingar og tegundir!

Síðan segir Harris að náttúruval hafi: "ekki hámarkað hamingju mannsins, eða gefið okkur neina sérstaka hæfileika umfram það að ala af okkur og annast næstu kynslóð mannvera þar til hún getur sjálf fjölgað sér."

Þetta er einnig óskiljanlegt. Öll okkar geta, hvort heldur er til hamingjuleitar eða fjölgunar, er tilkomin vegna náttúruvals. Ekki þrátt fyrir það!

"En umhverfi okkar og þarfir - svo ekki sé talað um þrár okkar - hafa breyst gríðarlega á þessum tíma." Hvaða tímaskeið er Harris að tala um? Frá því hann fæddist? Frá Homo habilis?

"Náttúran ,,sér" ekki flest sem við gerum, og vonumst til að gera, og hefur ekki búið okkur undir neina af þröskuldunum sem við stöndum nú frammi fyrir." Náttúran hefur búið okkur bestu tækjum til að stíga yfir þá þröskulda sem á vegi okkar verða. Mistakist það, þá er það náttúruval.

Næsta málsgrein varðar athugsemdir dansksins og úr henni má vissulega lesa hugmyndir um hvernig "tækni og vísindi" geti hámarkað getu okkar. Má vera. En einnig það gerist í náttúrunni, ekki þrátt fyrir sinnuleysi "móður náttúru".

Og áfram heldur hann á sömu braut: "Ef við skoðum mannkynið í heild sinni er ekkert við náttúruval sem gefur til kynna bestu mögulegu hönnun."

Þetta er einfaldlega alrangt ef eitthvað er að marka þróunarkenninguna! Náttúruval hefur stuðlað að besta mögulega hætti okkar til að komast af.

Það má algerlega einu gilda hvort við "grípum í taumana" eða aðhöfumst ekki neitt, náttúran umhversis okkur mun veita okkur aðhald.

Andinn í þessari grein minnir um margt á kennigar Gnostíkera, þar sem til var "guðlegur neisti" í mönnum, innilokuðum í fangelsi illgjarns djöfuls, nefnilega náttúrunnar, eða heimsins.

Hjá Harris er guðlegi neistinn orðinn að mönnum, en illgjarni djöfullinn að skeytingarlausri "náttúru."


gimbi - 25/02/08 21:43 #

Kári skrifar:"Maðurinn á ekki eftir að þróast meira ef hlutirnir haldast óbreyttir vegna þess að það á sér ekkert náttúruval stað lengur. Það stafar af því að það deyr nánast enginn lengur í dag vegna erfðafræðilegrar vansköpunar heldur fá allir að lifa með sína genagalla eða kosti. Siðferðilega er það góður hlutur, en þróunarlega séð er þetta pattstaða. Þess vegna er eina lausnin fyrir mannkynið að þróast áfram að taka stjórnina í sínar eigin hendur."

Sama ruglið, því hvernig sem fer, þá er það einnig náttúruval!

Haldið þið að náttúruval sé bara það sem hentar Harris?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/02/08 22:20 #

Maðurinn á ekki eftir að þróast meira ef hlutirnir haldast óbreyttir vegna þess að það á sér ekkert náttúruval stað lengur. Það stafar af því að það deyr nánast enginn lengur í dag vegna erfðafræðilegrar vansköpunar heldur fá allir að lifa með sína genagalla eða kosti.

Þetta er alrangt. Náttúrulegt val er enn í fullum gangi hjá mannkyninu eins og rætt var um nýlega á spjallinu.

Svo er líka nýhafin sú þróun á Íslandi og víðar að útrýma öllum fóstrum sem greinst hafa með Downs-heilkenni. Stemmir illa við þessa skoðun.


Kristján Hrannar Pálsson - 25/02/08 23:05 #

Hmm já ég las spjallið og sýnist það vera rétt. Ég átti kannski frekar við að við höfum minnkað afleiðingar náttúruvals, t.d. steðjar ekki mörgum sú hætta að vera étin af rándýri eða deyja úr tiltölulega auðlæknanlegum sjúkdómum.


gimbi - 25/02/08 23:05 #

Lárus skrifar:"Svo er líka nýhafin sú þróun á Íslandi og víðar að útrýma öllum fóstrum sem greinst hafa með Downs-heilkenni. Stemmir illa við þessa skoðun."

Þetta skiptir heldur ekki máli um það hvort náttúruval er í gangi eða ekki. Annað hvort á náttúruval við um ALLT líf, eða það eru til undantekningar.

Harris virðist haldinn þeirri grillu að mennirnir standi nú með þann pálma í höndum, að geta klekkt á móður náttúru. Firra!

Þetta er farið að hljóma eins og evgeníufræði nazista.


Kristján Hrannar Pálsson - 25/02/08 23:12 #

Að sjálfsögðu hefur mannkynið getað klekkt á móður náttúru að einhverju leyti, t.d. hvað sjúkdómavarnir og nýtingu auðlinda varðar. Telur þú útilokað að einhvern tímann í (mjög)fjarlægri framtíð muni mannkynið geta haft svo til óskorað vald yfir henni?


Kristján Hrannar Pálsson - 25/02/08 23:13 #

Þó er, eins og í greininni stendur, óheppilegt hérna að tala um að mannkynið sé að "klekkja á" náttúrunni eins og um tvo andstæða póla sé að ræða.


gimbi - 25/02/08 23:17 #

Meintar klekkingar manna á móður náttúru falla undir þær aðstæður sem líf býr við. Það sem er hæfast, lifir af. Punktur og basta.

"Telur þú útilokað að einhvern tímann í (mjög)fjarlægri framtíð muni mannkynið geta haft svo til óskorað vald yfir henni?"

Ef ég gerði það, þá mynda slíkt falla undir trú. Sem gæti með nægum tíma þróast í trúarbrögð.


Haukur - 26/02/08 00:56 #

Náttúruval á íslandi er tiltölulega takmarkað. Þó, takir þú upp á því að rölta upp á jökul á stuttbuxum einum saman í blindbil þá muntu eftir vill deyja.. náttúruval. Stupid hugmynd.. afleiðing = dauði.

Ástand mannkyns hefur auðvitað batnað frá fyrrum tímum, stærri partur, en þó ekki allir, hafa aðgang að heilsugæslu, hreinu vatni, nóg af mat og svo framvegis. Í dag þurfum við ekkert að hætta okkur í vitleysur en gerum það þó sem munað til að svala adrenalín þorsta. Það er ekki þar með sagt að við hættum að þróast. Stór partur af heiminum hefur ekkert breyst, þannig séð. Í afríku, suður ameríku, í asíu og islam löndunum er ennþá mikill skortur á mat, vatni og heilsugæslu. Þar er fólk að deyja daglega úr auðlæknanlegum sjúkdómum sem við vesturlandabúar hlæjum að. Hver veit nema einn daginn stökkbreytist þetta fólk á þann hátt að ónæmiskerfi þeirra fari að höndla þessa sjúkdóma eins og ónæmiskerfið var hannað til að gera. Á meðan munu vesturlandabúar hrynja niður. Einnig má benda á það að sökum sýklalyfjanotkunar vesturlanda búa hafa einfaldar veirur, back in the days, stökkbreyst í einnþá leiðinlegri veirur með sterkara ónæmi fyrir okkur, þróun!

Ég held persónulega að þróunin hætti aldrei þó við höfum ekkert að gera. Hver veit hvað gerist, þumallinn er orðinn mjög, mjög stór partur í okkar lífi í dag sökum leikjatölva, háþróaðra síma og svo.frv. Það hlýtur að koma að því að við losnum við botnlangann því hann er vita gagnslaus.

En spurningin um það hvort að við munum einhvern daginn geta stjórnað náttúrunni .. ég held að það sé geranlegt en til þess verðum við auðvitað að bæta upp fyrir syndir mannkyns gagnvart jörðinni. laga ozon-lagið, nota eldsneyti sem mengar ekki eins og vetni. Þetta er eiginlega bara spurning um tíma og með þessu "Trú vs. vísindi" þá held ég að við munum ekki ná því í tæka tíð. En það auðvitað skiptir þannig séð ekki neinu máli fyrir jörðina hvort að við stútum henni því að þá kemur ísöld í slatta tíma og allt draslið byrjar aftur eins og það hefur gert nokkrum sinnum áður!

Það er ekki bara spurning hvort við getum stjórnað náttúrunni heldur hvort við gerum það rétt. Þó jörðin lítur út fyrir að vera sterk og vel útrétt jafna þá hefur hún víst ekki nein öfga góð skekkjumörk þannig að við verðum að vita mjög vel hvað við erum að gera áður en við gerum það.. og þá á ég ekki við kenningar heldur staðreyndir. En þeir sem að stjórna auðlindum heimsins verða ekki voðalega ákafir að taka þá í að hjálpa mannkyninu að koma hlutunum á réttan kjölinn því þá tapa þeir peningum. Þessi jafna er svo óendanlega stór að ég held við verðum búin að reikna út hvernig jörðin virkar nákvæmlega áður en við náum að leysa jöfnuna um hvernig hægt verði að skikka mannkynið til þess að nota þekkingun til góðs!!


Valdimar (meðlimur í Vantrú) - 26/02/08 02:49 #

Í þessari umræðu verðum við að skilja á milli tvær mismunandi túlkanir á náttúrunni, og taka fram hverju sinni hvora við eigum við.

  1. Sú túlkun að náttúran og og maðurinn séu tveir ólíkir hlutir.
  2. Sú túlkun að náttúran sé einfaldlega allur heimurinn sem við þekkjum, þar með talinn mannkynið, borgirnar og tækin sem það hefur mótað úr umhverfi sínu, og allt sem við getum í raun skynjað.

Það ætti að vera ljóst að Sam Harris er að tala um fyrri túlkunina, og það viðhorf að best væri fyrir mannkynið að hafa ekki afskipti af kerfinu sem hefur þróast í náttúrunni (þá sérstaklega mannslíkamanum).

Gimbi, þú notar oft strámannsrök í athugasemd þinni frá 21:35, þar sem þú gagnrýnir greinina út frá síðari túlkun á náttúrunni sem ég nefndi að ofan.

En við getum skoðað fleiri hugmyndir hans: "Komandi kynslóðir munu líklega breyta sjálfum sér þannig að þær munu ekkert líkjast mannverum nútímans...verður það til góðs?"

Til góðs fyrir mannkyn væntanlega? Og hvernig á að svara því? Miðað við hvaða gildi? Breyta sjálfum sér? Án þess að náttúran komi nálægt? Hvar þá? Í tómarúmi?

Já, til góðs fyrir mannkynið. Hann er að mótmæla þeirri hugmynd að öruggast sé fyrir mannkynið að fikta ekki í genamengi sínu.

...áfram heldur hann. "En hvað annað er til boða, en að taka stjórn á eigin líffræðilegu framtíð? Væri betra fyrir okkur að treysta á visku móður náttúru?"

Það eina sem okkur stendur til boða í þróunarlegu tilliti er að lifa af. Í náttúrunni.

Það er rétt að það eina sem stendur okkur til boða sé að lifa af. Spurningin er hvaða leið gefur bestu lífsmöguleikana. Eru betri líkur á að lifa af ef við fiktum aðeins í genunum okkar, og reynum að bæta hönnunina? Eða eru betri líkur á að lifa af ef við látum það alveg í friði?

"En við vitum að móður náttúru er alveg sama um einstaklinga, og alveg sama um dýrategundir. Þeir sem lifa af gera það þrátt fyrir afskiptasemi náttúrunnar."

Móður náttúru alveg sama um einstaklinga og dýrategundir? Þetta er sérkennileg viðleitni til að aftengja náttúru lífi einstaklinga og tegunda. Náttúran er einstaklingar og tegundir!

Í fyrri túlkun á náttúrunni er móður náttúru jafn ,,sama" um mannkynið og hvaða aðra lífveru, eða umheiminn í heild sinni. Það ,,skiptir" náttúruna engu hvort mannkynið lifir af eða deyr út. Í seinni túlkun meikar þetta að sjálfsögðu ekki sens. En það meikar heldur ekki sens að líta á greinina út frá þeirri túlkun í fyrsta lagi.

Síðan segir Harris að náttúruval hafi: "ekki hámarkað hamingju mannsins, eða gefið okkur neina sérstaka hæfileika umfram það að ala af okkur og annast næstu kynslóð mannvera þar til hún getur sjálf fjölgað sér."

Þetta er einnig óskiljanlegt. Öll okkar geta, hvort heldur er til hamingjuleitar eða fjölgunar, er tilkomin vegna náttúruvals. Ekki þrátt fyrir það!

Og áfram heldur hann á sömu braut: "Ef við skoðum mannkynið í heild sinni er ekkert við náttúruval sem gefur til kynna bestu mögulegu hönnun."

Náttúran hefur búið okkur bestu tækjum til að stíga yfir þá þröskulda sem á vegi okkar verða. Mistakist það, þá er það náttúruval.

Þetta er einfaldlega alrangt ef eitthvað er að marka þróunarkenninguna! Náttúruval hefur stuðlað að besta mögulega hætti okkar til að komast af.

Þessar þrjár tilvitnanir finnst mér koma frá grundvallarmisskilningi hjá þér á þróunarkenningunni. Þróun útvegar alls ekki bestu tækin til að yfirstíga þröskulda... hún útvegar einungis tæki sem uppfylla lágmarkskröfur til þess að komast yfir þessa þröskulda. Þróun er ekki eitthvað ferli sem ,,leitar í átt að bestu hönnun, bestu lausn", heldur aðlagast umhverfisaðstæðum hverju sinni.

Hvernig er hægt að fullyrða að náttúruval hafi stuðlað að bestu mögulegu hönnun til að lifa af? Hefur þú kortlagt alla mögulega hönnun?

"En umhverfi okkar og þarfir - svo ekki sé talað um þrár okkar - hafa breyst gríðarlega á þessum tíma." Hvaða tímaskeið er Harris að tala um? Frá því hann fæddist? Frá Homo habilis?

Setningin á undan þessari sem þú tekur út þarna er eftirfarandi: ,,[M]eð nokkrum undantekningum... ...höfum við líklega ekki aðlagast umhverfi okkar mikið síðustu tíu þúsund ár."

Það má algerlega einu gilda hvort við "grípum í taumana" eða aðhöfumst ekki neitt, náttúran umhversis okkur mun veita okkur aðhald.

Veita okkur aðhald? Hvernig þá? Varstu ekki að enda við að segja: ,,Náttúran hefur búið okkur bestu tækjum til að stíga yfir þá þröskulda sem á vegi okkar verða. Mistakist það, þá er það náttúruval."

Það sem er hæfast, lifir af. Punktur og basta.

Einmitt. Og mannkynið er við það að verða nógu hæft til að stýra genabreytingum sínum. Það getur gerst, að dýrategund ,,þróist út í horn" og deyji svo út. Við viljum það líklega ekki.

Varðandi pælingar Harris um að betrumbæta hina ýmsu mannlegu hæfileika, eins og tónlistargáfu og reiknigáfu, þá held ég að það muni alls ekki gera heiminn fyrirsjáanlegan og óspennandi. Heimurinn er mjög flókið fyrirbæri, og við erum sífellt að læra eitthvað nýtt um hann. Samt erum við búin að uppgötva svo miklu, miklu meira en fyrir hundrað árum síðan, þegar eðlisfræðingar héldu að fátt væri eftir óvitað.
Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu í það minnsta tónlistargáfu á við Mozart? Hvernig myndu samskipti mannkynsins verða, myndi jafnvígur tónlistarskilningur gefa okkur tækifæri til að segja allt sem við þurfum með tónlist, í stað orða?
En ef allir hefðu stærðfræðiþekkingu á við Isaac Newton eða Leonhard Euler? Hvaða vandamál væru þá auðveldlega innan seilingar?
Ég held að það myndi einungis opna fleiri dyr, rétt eins og stöðluð grunnskólakennsla nútímans veitir samfélaginu öllu meiri möguleika heldur en þegar fæstir voru einu sinni læsir.



danskurinn - 26/02/08 08:42 #

Valdimar skrifar: "Varðandi pælingar Harris um að betrumbæta hina ýmsu mannlegu hæfileika, eins og tónlistargáfu og reiknigáfu, þá held ég að það muni alls ekki gera heiminn fyrirsjáanlegan og óspennandi. "

Gott hjá þér. En Harris dreymir um þannig veröld. Veröld þar sem ubermench deilir og drottnar. Það er alveg augljóst að maðurinn er sauðheimskur.

Valdimar skrifar:"Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu í það minnsta tónlistargáfu á við Mozart? "

Þá myndu allir deyja 36 ára gamlir, eða hvað?

Valdimar skrifar:"En ef allir hefðu stærðfræðiþekkingu á við Isaac Newton eða Leonhard Euler? Hvaða vandamál væru þá auðveldlega innan seilingar?"

Hin óleystu vandamál eru samskiptavandi fólks. Þar gætum við einmitt lært af einstaklingum með Downs-heilkenni. Þú skilur, veröldin kemur sífellt á óvart.


gimbi - 26/02/08 10:16 #

Valdimar, satt best að segja virðist þú haldinn sömu grillunum um náttúruval og Harris. (Ég nenni nú ekki að svara meintum strámannsbrókum mínum.)

Þú skrifar: "Þessar þrjár tilvitnanir finnst mér koma frá grundvallarmisskilningi hjá þér á þróunarkenningunni. Þróun útvegar alls ekki bestu tækin til að yfirstíga þröskulda... hún útvegar einungis tæki sem uppfylla lágmarkskröfur til þess að komast yfir þessa þröskulda. Þróun er ekki eitthvað ferli sem ,,leitar í átt að bestu hönnun, bestu lausn", heldur aðlagast umhverfisaðstæðum hverju sinni."

Þú virðist (líkt og Harris) halda að við búum yfir einhverju trompi uppí erminni, sem við getum slegið fram gagnvart móður náttúru. Hvort heldur það er genarannsóknir eða nanó-tækni.

Og því spyr ég þig: Hvaðan er þetta "tromp" komið? Er það ekki náttúrval sem útvegaði okkur það? Kom það úr annarri vídd? Er það eitthvað framandi?

Öll sú geta sem við búum yfir er tilkomin vegna náttúruvals. Það að við gætum þróað ofurmenni, með súpergreind og frábæra golftakta, væri einungis þáttur í viðleitni manna til að lifa af. Sem þróunarkenningin fjallar um. Ekkert flóknara.

Þessi hugmynd Harris að við getum beitt einhverjum Barbabrellum til að klekkja á ekki-vininum, Náttúru, er einfaldlega kjánaleg.

Í von um að þú skiljir þetta skal ég koma með hliðstæðu:

Einhverntíma í árdaga uppgötvuðu forfeður okkar verkfæri til að létta þeim stritið. Þetta var upphaf tæknimenningar. Tækni hefur tekið miklum framförum. Núverandi tæknibyltingar eiga að létta okkur lífið, líkt og forðum. Í baráttunni við að lifa af.

Harris virðist dauðskelfdur maður; svo miskunnarlaus í mannhverfu sinni að manni flökrar við. Honum væri nær að hafa áhyggjur af stórfelldum útdauða annarra lífvera vegna yfirgangs manna, en hinu hvort hann gæti orðið klárari en Einstein eða betri golfari en Woods.

Ég held ég vitni bara í danskinn: "Maðurinn er sauðheimskur."


Valdimar (meðlimur í Vantrú) - 27/02/08 02:11 #

gimbi skrifaði:
Og því spyr ég þig: Hvaðan er þetta "tromp" komið? Er það ekki náttúrval sem útvegaði okkur það? Kom það úr annarri vídd? Er það eitthvað framandi?

Ég skil vel að þú skulir vilja færa rök fyrir því að allt sem mannkynið gerir sé komið til vegna þróunar þess, en það kemur þessu máli ekki alveg við, eins og ég hef reynt að útskýra.

Þróun er hægt að lýsa sem náttúruvali á hóp sjálffjölgara með fjöldatakmörkunum og ákveðnum líkum á stökkbreytingum, ef ég er ekki að fara með fleipur.

Hvað gerist ef við getum haft einhver áhrif á stikana á þessari formúlu? Erum við þá ekki farin að stýra eða beina þróun eitthvað?

Í kjölfar þess að þessar pælingar féllu inn á svið möguleika fyrir mannkynið hefur komið upp ótti um nokkuð þannig ,,fikt". Þessi ótti er ekki ekki algjörlega stoðlaus, en þessi grein Harris miðar að því að sefja hann eitthvað.

gimbi skrifaði:
Öll sú geta sem við búum yfir er tilkomin vegna náttúruvals. Það að við gætum þróað ofurmenni, með súpergreind og frábæra golftakta, væri einungis þáttur í viðleitni manna til að lifa af. Sem þróunarkenningin fjallar um. Ekkert flóknara.

Þessi hugmynd Harris að við getum beitt einhverjum Barbabrellum til að klekkja á ekki-vininum, Náttúru, er einfaldlega kjánaleg.


Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara í athugasemdum þínum, því á einn boginn virðistu vera að segja að allar þessar genarannsóknapælingar séu svo eðlilegur hluti af náttúrunni að það þurfi ekki að ræða hann, en á hinn boginn virðistu vera að skjóta niður hugmyndina.

Ertu að reyna að segja að hvaða tilraunir sem við gerum munu verða afvegaleiddar af náttúrunni, og hún muni fara í sinn fyrrverandi farveg hvað sem við reynum? Mér dettur það í hug.

En þá ertu farinn að tala um einhvern beinan farveg sem náttúran fer niður; einhver örlög, einhvern tilgang, einhverja reglu sem við mannkynið getum ekki hlutast í.

Af því sem við þekkjum til lífríkja náttúrunnar, þá hljómar það einfaldlega rangt. Þróun tekur aðeins tillit til stika sinna eins og þeir eru í núinu.

Auðvitað yrðu hvaða tilraunir að taka mið af því hvernig heimurinn virkar; framkvæmd myndi segja til um hvort forspá reynist rétt.


Finnur - 27/02/08 13:22 #

Hvað gerist ef við getum haft einhver áhrif á stikana á þessari formúlu? Erum við þá ekki farin að stýra eða beina þróun eitthvað?

Það má ekki gleyma því að við höfum haft bein áhrif á þróun ákveðinna dýrategunda undanfarin árhundruð, ef ekki árþúsundir. Íslenska lambið væri ekki til án beinna áhrifa okkar. Og ali-svínið og ali-hænsnin eru dauðadæmd án okkar -- sú kaldhæðni fer vart framhjá nokkrum að náttúruval okkar á þeim er jafnframt þeirra dauðadómur.

Sú hugmynd sem Harris er að gæla við hérna er að við erum í raun engu frábrugðin þeim húsdýrunum sem við höfum þróað svo vel í okkar hag undanfarin árhundruð. Og afhverju ættum við ekki að gera það sama við okkur sjálf?
Sauðheimska Harris felst í því að halda því fram að sú genatækni sem við höfum nú yfir að ráða geri mögulegt að rækta fólk á sama hátt og sauðfé -- og að þetta sé rétt framtíðarsýn.

Eðlilega ógnar þessi hugsunarháttur fólki. Ef Vantrúaðir eru heilshugar bak því að útmá fordóma gegn ykkur, þá mælist ég til þess að þið svarið gagnrýni á þennan hugsunarhátt af meiri metnaði en:

Tómir útúrsnúningar hjá danskinum. Harris er ekkert að meina þetta á þann hátt sem danskurinn kýs að túlka þetta.






Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/08 17:38 #

hmm.

Ofurmenni. Afhverju ekki.


gimbi - 27/02/08 20:35 #

Valdimar, það sem mér mislíkar við þessa grein er:

  1. Furðuleg sýn þar sem "móður Náttúru" er stillt upp sem andstæðingi manna.

  2. Sú kjánalega hugmynd að maðurinn sé fær um að berjast gegn þessum "ekki-vin" með nokkrum öðrum aðferðum og sami óvinur hefur látið mönnum í té.

  3. Þessi skringilega trú að ofurmaður sé svarið.

Nú hefur einnig verið tæpt á öðrum þætti, sem einn og sér dugar til að sýna hve skyni skroppinn Harris er. Þorsteinn benti fyrstur á þetta í annarri athugasemd hér. Danskurinn ítrekaði það.

Harris skrifar:"Frá sjónarhorni þróunar hlýtur mestur hluti mannlegs samfélags, þar með talinn tilfinningalegur grunnur þess, að virðast óþarfar aukaverkanir."

Svona skrifa bjánar.

Annars finnst mér með ólíkindum ef Vantrúarmenn eru slíkir hjarðmenn að vilja flykkja sér um hvern þann sem segist vera trúlaus.

Það er eins og að standa ævinlega með Liverpool-aðdáenda, bara vegna þess að hann heldur með sama liði og maður sjálfur.

Vertu viss að menn munu nýta sér genabætur og nanó-tækni til að betrumbæta sig. Það er þegar byrjað.

Og vinsamlegast láttu vera að gera mér upp örlagahyggju. Ekkert í því sem ég hef skrifað gefur tilefni til þess.


Gunnar J Briem - 28/02/08 01:51 #

1. Furðuleg sýn þar sem "móður Náttúru" er stillt upp sem andstæðingi manna.

Harris stillir "móður Náttúru" ekki upp sem andstæðingi mannanna. Þvert á móti bendir hann á að náttúran er skeytingarlaus (indifferent) um afdrif okkar. Er það persónugervingin sem þú hnýtur um? Ef svo er, þá hnýtur þú líkast til um skrif allra sem sýna meiri stílbrigði en er að finna í símaskránni.

2. Sú kjánalega hugmynd að maðurinn sé fær um að berjast gegn þessum "ekki-vin" með nokkrum öðrum aðferðum og sami óvinur hefur látið mönnum í té.

Væntanlega áttirðu við "…nokkrum öðrum aðferðum en þeim sem sami óvinur hefur látið mönnum í té"? Vissulega erum við hluti af náttúrunni eins og allt annað. En punkturinn hans Harris er einmitt sá að ef við veigrum okkur við að nota þær aðferðir sem náttúran hefur látið okkur í té (í þeim skilningi að geta okkar til að hafa áhrif á afdrif okkar er náttúruleg), þá fer þeim mun fyrr fyrir okkur eins og flestum þeim dýrategundum sem náttúran hefur fundið upp. Homo sapiens (ásamt mögulegum afleiddum tegundum) gæti allt eins verið útdauð tegund innan nokkur hundruð ára. Þótt náttúran sé jafn skeytingarlaus um okkur og aðrar dýrategundir, stendur okkur (sem erum vissulega hluti náttúrunnar) samt sem áður ekki á sama. Við viljum lifa af. Náttúrulega.

3. Þessi skringilega trú að ofurmaður sé svarið.

Þetta orðalag er skrumskæling á orðum Harris — ýjar að e.k. ofurmannssiðferði à la Nietsche, sem er víðsfjarri því sem Harris er að tala um. Mér finnst ekkert skrítið við þá viðleitni að bæta okkur. Þér finnst væntanlega ekki skringileg trú að sýklalyf séu málið ef maður fær sýkingu? Að gleraugu séu svarið ef maður sér illa? Hvað með linsur? En laseraðgerð? Ef þér finnst ekkert skringilegt við að fólk vilji bæta sjónina með laseraðgerð, er þá eitthvað skringilegt við að koma í veg fyrir sjóngalla með erfðatækni, ef við getum það? Hvað með að gera sjónina betri en náttúruval hefur hingað til megnað? Er skringilegt að taka slíkum hugmyndum með opnum huga?

Harris skrifar:"Frá sjónarhorni þróunar hlýtur mestur hluti mannlegs samfélags, þar með talinn tilfinningalegur grunnur þess, að virðast óþarfar aukaverkanir."

Svona skrifa bjánar.

Svona skrifa bjánar.

Þýðingin er ekki alveg nákvæm, en væntanlega hefurðu jafn mikið út á orð Harris sjálfs að setja. Er það bjánalegt að segja að stór hluti menningar okkar sé ekki bein afleiðing af náttúruvali? Væri ekki öllu bjánalegra að halda hinu gagnstæða fram? Mannlegt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á örfáum kynslóðum — augnabliki í augum náttúrunnar.

Það verður að hafa það ef þú stimplar mig sem kjánalegan, sauðtryggan áhanganda þessa meinta bjána þar sem ég tek upp hanskann fyrir hann. Ég sá bara ástæðu til að svara tilhæfulausri og stóryrtri gagnrýni þinni. Veit ekki hvort það er nokkru gæfulegra hlutskipti að finna flestum allt til foráttu, en að leitast við að skilja orð manna með sanngirni að leiðarljósi.

Lastaranum líkar ei neitt, lætur hann ganga róginn. Finni hann laufblað fölnað eitt, fordæmir hann skóginn.


danskurinn - 28/02/08 09:35 #

Gunnar Briem skrifar: "Er það bjánalegt að segja að stór hluti menningar okkar sé ekki bein afleiðing af náttúruvali?"

Annað hvort er menning okkar bein afleiðing af náttúruvali eða þá hún er af yfirnáttúrulegu kyni. En það er einmitt grunnstefið í hugmyndinni um ubermench, þessi blanda af manni og guði. Grein Harris verður varla skilin á annan hátt. Á Jörðinni verði fleiri en einn stofn af “manni”, þ.e.a.s. einn sem er æðri hinum. Gallalausi hálfguðinn. Hinir geta þá verið þrælar hans eða útdauðir vegna náttúruvals. Eða heldur fólk að 6 milljarðar verði Jörðinni og allir með “sixpack” og engin nærsýnn? Það eru einmitt karlar eins og Harris sem hefðu eytt fóstri því sem varð Stephen Hawking.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/08 12:06 #

Gimbi.

Ég vil meina að "við" vantrúarmenn séum langt í frá alltaf sammála hvor öðrum eða trúlausum yfirleitt. Það að trúa ekki á yfirnáttúru er mjög takmarkaður grundvöllur fyrir aðra skoðanmyndun.


Gunnar J Briem - 28/02/08 23:45 #

Annað hvort er menning okkar bein afleiðing af náttúruvali eða þá hún er af yfirnáttúrulegu kyni.

Þetta er svikin valþröng. Augu okkar eru bein afleiðing af náttúruvali, en er sama hægt að segja um kúbisma? Raunveruleikaþætti? Bolludaginn? Tónlistarskóla? Ekki fæ ég séð að slík fyrirbæri séu meira en hliðarverkun náttúruvals. Þau eru sannarlega ekki yfirnáttúruleg.

Eða heldur fólk að 6 milljarðar verði Jörðinni og allir með “sixpack” og engin nærsýnn?

Ertu semsagt að segja að nútímalæknavísindi séu siðlaus þar sem ekki allir njóta þeirra í sama mæli? Það er engu minna langsótt að væna þig um stjórnleysisfrumstæðishyggju vegna orða þinna, en að væna Harris um ofurmennisdýrkun vegna þessarar greinar hans.


Gunnar J Briem - 29/02/08 00:22 #

Úps, engu meira langsótt átti ég við.


gimbi - 29/02/08 00:33 #

Gunnar, nú verð ég að játa villu míns vegar. Ég las þennan texta Sam Harris aftur, og nú á ensku.

Auðvitað er þetta rétt hjá honum!

Við þurfum bara að lifa af "móður Nátturu".

Við fyllum okkur bara af genabótum og nanótækjum, verðum öll ofsa snjöll, losum okkur við aumkunarverða eiginleika eins og tilfinningar.

Svo getum við bara svona ofursnjöll og frábær samið synfóníur fyrir hádegi, og farið 18 holur á 30 undir pari eftir hádegi.

Allir svo frábærir! Þetta er málið!Ekkert nema snillingar.

Það kaldhæðnislega við slíkt samfélag, er að þá fyrst gæti Harris verið áhugaverður, bjáninn sem hann er. (en án genabóta...N.B.)


Gunnar J Briem - 29/02/08 00:53 #

Já satt segirðu. Harris yrði áhugaverður og þú myndir losna við hrossahláturinn.


gimbi - 29/02/08 01:15 #

...en þú munt líklega aldrei losna við Wikipediu.

Kommon, þrjár tilvísanir í tveimur innleggjum!

"Ég sá bara ástæðu til að svara tilhæfulausri og stóryrtri gagnrýni þinni."

Og nú máttu skella þér á lær...


danskurinn - 29/02/08 09:26 #

Gunnar J Briem skrifar:"Ertu semsagt að segja að nútímalæknavísindi séu siðlaus þar sem ekki allir njóta þeirra í sama mæli?"

Þegar við skoðum snillingana, fólkið sem hlaðið hefur vörðurnar sem við hin getum ratað eftir, þá kemur í ljós að þessir meistarar eru síður en svo líkamlega, andlega, félagslega eða siðferðilega gallalausir og lífshlaup þeirra oft þyrnum stráð. Menn velta því jafnvel fyrir sér hvort svona fólk vinnur afrek sín þrátt fyrir gallana eða vegna þeirra. Það er alls ekki augljóst. Nýlega voru fréttir af rannsóknum sem benda til þess að einhverfa og snilligáfa séu mjög tengd fyrirbæri. Segjum að einhverfa verði útilokuð með vísindalegum aðferðum. Hverfa þá snillingarnir? Hver veit? Kannski er hinn gallalausi hálfguð bara geldur heimskingi?

Eitt er víst að karlar eins og Harris eru uppfullir af hroka og hleypidómum. Svoleiðis skoðanaríkir minnipokamenn eru alltaf háværir - og áhrifagjarnir ungir menn eru líklegir til að hrífast með svona innantómum hrópum og köllum. Á meðan færumst við sífellt nær betra lífi vegna vinnu þeirra sem vinna vinnu sína í hljóði - og fréttum kannski af því löngu síðar hver gerði hvað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.