Nýlega hefur kirkjujarðasamkomulagið verið í umræðunni - tilefnið er það að fjármálaráðuneytið hefur upplýst að virði jarðanna er 7 milljarðar, og fyrir þær borgar ríkið Þjóðkirkjunni um 3,5 milljarða á ári. Siggeir F. Ævarsson framkvæmdastjóri Siðmenntar og þingmaðurinn Björn Leví hafa báðir gagnrýnt samninginn.
Pétur G. Markan biskupsritari hefur ákveðið að verja þennan samning og segir gögnin liggja fyrir og heldur því fram að verið sé að afvegaleiða umræðuna. Siggeir svaraði Pétri en við viljum bæta við nokkru sem teljum ekki hafa komið fram. Raunin er að Pétur áttar sig ekki á mjög veigamiklu atriði.
Samkvæmt gögnum sem alþingismaðurinn Björn Leví fékk hjá fjármálaráðuneytinu eru þær kirkjujarðir sem liggja að baki kirkjujarðasamningnum 7 milljarða króna virði.
Samkvæmt sömu samningum borgar ríkið árlega 3,5 milljarða til ríkiskirkjunnar [1].
Það er hreint ótrúlegt að þessi samningur hafi verið framlengdur til 15 ára á síðastliðnu Alþingi, þar sem einungis þingmenn Pírata og Viðreisnar kusu gegn því.
Gögnin sem um ræðir: Eignir kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um nýlega viðbót við kirkjujarðasamninginn. Samþykki frumvarpsins felur í sér það að kirkjujarðasamningurinn verði vilhaldið í 15 ár til viðbótar, auk þess sem framlög ríkisins samkvæmt samningnum eru aukin um 700 milljónir á ári.
Vantrú sendi inn eftirfarandi umsögn til Alþingis:
Samningur íslenska ríkisins við ríkiskirkjuna árið 1997 er mögulega versti samningurinn sem íslenska ríkisvaldið hefur gert fyrir hönd þjóðarinnar. Það fól í sér að ríkið tók formlega við eignarhaldi á óljósum jarðeignum gegn því að það greiddi prestum og starfsmönnum Biskupsstofu laun um ókomna framtíð.