Helvíti er ein af vandræðalegustu kenningum Þjóðkirkjunnar. Opinberlega játar Þjóðkirkjan að við endurkomu Jesú muni hann dæma "guðlausa menn og djöflana" til "eilífra kvala".
Helvíti veldur Þjóðkirkjunni og prestum hennar endalausum vandræðum, þar sem þetta er frekar ógeðfelld kenning og prestar sem gagnrýna helvíti tala gegn játningu Þjóðkirkjunnar meðan þeir sem boða helvíti hrekja fólk frá Þjóðkirkjunni. Niðurstaðan er að prestar tjá sig nánast ekkert um helvíti, og þeir sem gera það geta átt von á veseni, eins og sagan sýnir.
Vegna nýlegra ummæla prestsins Davíðs Þórs Jónssonar, þar sem hann sagði sérstakan stað vera tilbúinn ákveðnu stjórnmálafólki, hefur helvíti komið aftur upp í umræðuna. Af því tilefni skrifaði annar prestur, Sindri Geir, grein þar sem hann kemur með vafasamar fullyrðingar um helvíti.
Í aðaljátningu Þjóðkirkjunnar er sagt að Jesús muni við endurkomu sína refsa guðlausum mömmum með “eilífum kvölum", það er að segja með helvíti.
Þegar bent er á þennan óhugnað hafa prestar sagt að það þurfi að lesa játninguna í sögulegu samhengi. Játningin var skrifuð af nánum samstarfsmanni Lúthers þannig að það er gagnlegt að skoða hvað Lúther sjálfur sagði um helvíti til að komast að hvert hið sögulega samhengi var. Þá getum við kannski betur skilið hvað aðaljátning Þjóðkirkjunnar á við þegar hún minnist á helvíti.