Karl Sigurbjörnsson biskup og Ólafsmálið
Karl Sigurbjörnsson biskup og séra Hjálmar Jónsson hafa nú báðir lýst því yfir að þeir hafi ekki reynt að þagga niður í Sigrúnu Pálínu árið 1996 þegar þeir funduðu með henni eftir að hún reyndi að benda kirkjunni á glæpi Ólafs Skúlasonar biskups.
Ég kom henni í samband við sóknarprest í Reykjavík sem við treystum bæði, og það var Karl Sigurbjörnsson prestur í Hallgrímskirkju. Við Karl hittum síðan Sigrúnu Pálínu og fórum yfir málið með henni. Niðurstaða þess fundar var yfirlýsing sem var unnin á forsendum Sigrúnar Pálínu og af fullum heilindum okkar Karls.
Ólafur biskup harðneitaði hins vegar að samþykkja hana. Lengra komumst við Karl ekki með málið.
Laugardagskvöldið 2. mars 1996 hringdi séra Hjálmar Jónsson, alþingismaður, í mig og sagðist vera staddur á fundi með Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur og manni hennar. Tjáði hann mér að þau vildu fá að hitta mig til að ræða leið til að ná sáttum í svonefndu biskupsmáli.
Þar sem lagt var hart að mér ákvað ég að hitta hjónin ásamt sr. Hjálmari í Hallgrímskirkju þá um kvöldið. Við ræddum þar málið og fannst mér koma skýrt fram löngun Sigrúnar Pálínu að ná sáttum. Sömdum við saman drög að yfirlýsingu sem fól í sér að Ólafur biskup bæðist fyrirgefningar á framkomu sinni og að yrði þá málið látið niður falla.
Síðdegis næsta dag fórum við séra Hjálmar á fund Ólafs biskups og sýndum honum yfirlýsinguna og spurðum hann hvort hann gæti sæst á þessa skilmála. Hann brást ekki vel við en sagðist vilja reyna sættir með þeim skilyrðum að Sigrún Pálína drægi ásökun sína á hendur honum til baka. Fyrirgefningarbeiðni af hans hálfu kæmi ekki til greina. Við bárum Sigrúnu og manni hennar þau skilaboð þegar sama kvöld. Hún taldi þetta alls ekki koma til mála. Þar með var útséð um sættir, því miður, og aðkomu minni að málinu lokið.
Athyglisvert er að báðir sérarnir taka fram að þar með hafi aðkomu þeirra að málinu verið lokið. Stórmannlegt af þeim, svona í ljósi þess sem þeir hljóta að hafa heyrt og síðar er komið í ljós.
Þáttur Sigrúnar Pálínu
En það voru fleiri konur sem bentu á sekt Ólafs biskup og ef marka má fréttir frá 1996 var tilgangur funda Karls og Hjálmars með þeim að fá þær til að "falla frá málum sínum" meðal annars með því að benda á hvað málaferli gegn siðapostulanum yrðu fórnarlömbunum dýr. Þetta kalla þeir félagar að leita sátta í málinu en kannski er réttara að segja að með þessu hafi þeir viljað þagga málið niður.
En hver var reynsla Sigrúnar Pálínu? Vinkona hennar skrifaði blaðagrein um málið í apríl 1996 og sagði:
Annað dæmi um ófagleg vinnubrögð presta að mínu mati og í því tilfelli finn ég ekki hugtak í mínum orðaforða sem lýsir undrun minni en það snertir framgöngu tveggja presta sem áunnu sér traust Sigrúnar Pálínu til að leysa málið. Ekki veit ég hvað fram fór á margra klukkutíma fundi þessara presta með Sigrúnu Pálínu og kærasta hennar. Nema að þar var samin sáttatillaga sem biskup hafnaði. Þegar prestunum varð ljóst að biskup vildi engar sættir, þá töldu þeir sig augljóslega ekki hafa frekari skyldum að gegna gagnvart Sigrúnu Pálínu. Er ég hitti hana strax eftir þennan fund varð mér það ljóst að eitthvað hafði gerst sem hafði haft djúpstæð áhrif á hana. Við mér blasti vonleysi á að sannleikur, traust, trú og mannkærleikur ættu samleið með prestum. Aldrei hefði ég trúað því að kirkjunnar þjónar legðust svo lágt að misnota trúarþörf einstaklings á þennan hátt og nánast ræna hann trúnni en þannig túlka ég þennan fund.
Ef séra Karl og séra Hjálmar voru bara að aðstoða konuna við að ná sáttum er þetta undarleg lýsing á eftirköstunum. En ef þeir voru að reyna að þagga niður í henni eru viðbrögðin skiljanleg.
Gjaldþrota móðir
Föstudaginn 20. apríl sl. birti Illugi Jökulsson pistil sem hann kallaði Virðing mín fyrir biskupi er farin veg allrar veraldar og vísaði til hennar á Facebook-síðu sinni. (En Illugi skrifaði mjög góða grein um málið á sínum tíma.) Í athugasemdum þar er þetta að finna:
Mín virðing og mín hlýja gagnvart honum hefur verið á núllpunkti síðan ´96! Þessir fundir í Hallgrímskirkju voru ansi svakalegir og m.a. var reynt að gefa mömmu samviskubit gagnvart okkur börnum hennar, gagnvart ömmu minni, gagnvart þjóðinni og þeir reyndu líka að gera henni grein fyrir mögulegu gjaldþroti ef Ólafur færi í mál við hana sem og hann gerði! Mamma stóð eins og klettur með okkar stuðning enda var hennar markmið sannleikurinn og von um að ekki fleiri konur og börn myndu lenda í honum! Saksóknarinn lét Ólaf draga mál sitt til baka, í dag vita loksins allir af hverju! "
Daginn eftir birtist þessi færsla á vegg Illuga á Facebook:
Sæll Illugi. Ég er eiginmaður Sigrúnar Pálínu. Fjallað hefur verið um fund í Hallgrímskirkju í þessu Biskupsmáli. Ég sat þennan fund ásamt konu minni og þurfti einnig að lýða undir þessum heilaþvotti sem ég gleymi aldrei. Dagurinn byrjaði með því að séra Hjálmar Jónsson bauð okkur í hádegismat í mötuneyti Alþingis. Síðan lá leið okkar til Hallgrímskirkju þar sem við hittum séra Karl. Byrjar þar heilaþvotur og reynt að "tala um fyrir Pálu". Var meðal annars farið inn í kirkjuskipið og þar bað Karl fyrir okkur með "mörgum fögrum orðum". Síðan var farið inn á skrifstofu aftur og byrjað ð sjóða saman yfirlýsingu sem Pála átti síðan að skrifa undir. Samþykkti Pála þetta, að svo komnu máli. Karl fór á aðra skrifstofu til að hreynrita þetta og man ég hvað við vorum þakklát fyrir að loksins voru þarna einhverjir innan kirkjunnar sem vildu taka af skarið og gera eitthvað fyrir Pálu. En viti menn, þegar karl kemur með yfirlýsinguna aftur var (og nú man ég ekki alveg) annaðhvort var búið að bæta í tekstann eða fella úr honum. Þetta sá Pála því hún las þetta yfir áður en hún skildi undirskrifa, þeir hafa eflaust reiknað með að hún myndi undirskrifa án þess að lesa. Þeir þekktu greinilega ekki Pálu. Hún undirskrifaði þetta semsagt ekki og fórum við af þessum fundi. Man ég vel hvernig hrollur af fyrirlitningu og skömm yfir þessum mönnum og athæfi þeirra, fór um mig allann. Þegar heim kom vorum við í sjokki yfir meðferð þeirri sem við höfðum fengið.
Sigrún Pálína hefur líka tjáð sig eftir að ljóst var að Ólafur biskup misnotaði dóttur sína þegar hún var barn og unglingur. Hún segir:
Núna skilja kannski flestir hvers vegna ég gat ekki þagað og látið sem ekkert hefði gerst. Ég skynjaði illskuna hans og óeðlilega kynhvöt sem gerði mig svo óttaslegna að ég varð að stoppa hann. Ég gat ekki lifað með þessa vitneskju og seinna þegar ég fékk það staðfest að hann hefði misnotað Guðrúnu Ebbu, dóttur sína, varð ég að halda áfram, mín vegna, hennar vegna og allra þeirra kvenna og barna sem hafa orðið fyrir barðinu á honum.
Þeir vildu hvorki vita né heyra og það gerði mig mjög reiða og vonsvikna. Sú meðferð sem ég og hinar konurnar fengu er ófyrirgefanleg. Ég lagði tilveru mína að veði og varð að flýja land meðan að þeir héldu hlífisskildi yfir þessum djöfli.
En það eina sem ég gerði var að taka þá ábyrgð sem ég þurfti og er mér eðlileg.
Það þarf að rannsaka allt þetta mál og þeir, sem eru ábyrgir fyrir þeirri meðferð sem ég og við fengum, þurfa að viðurkenna hlutdeild sína og taka ábyrgð á framkomu sinni. Hvernig geta þeir geta þeir enn haldið því fram að þeir viti ekki hvort hann sé sekur? Mér þætti gott ef þeir viðurkenndu sannleikann og tækju ábyrgð á honum. Það vantar auðmýkt og kærleika hjá þeim sem að þessum málum hafa komið.
Biskup klikkir út í aflátsbréfi sínu með því að segja:
Ég vísa því algjörlega á bug að hafa gengið erinda þeirra sem vildu þagga niður málið. Hafa ber í huga að Sigrún Pálína kærði biskup til saksóknara sem taldi ekki efni til að birta ákæru í málinu.
Þessu svarar vinur Sigrúnar Pálínu undir eins:
Það er ekki að undra þótt þjóðkirkjan sé jafn illa á vegi stödd og raun ber vitni þegar sjálfur biskupinn umgengst sannleikann með jafn léttvægum hætti og hann gerir í síðustu yfirlýsingu sinni. Þar segir hann að hafa beri í huga að Sigrún Pálína hafi kært séra Ólaf en saksóknari ekki séð efni til að birta ákæru. Þarna er öllu snúið á haus til að fegra hlut Ólafs og Karls í málinu, því ÞAÐ VAR ÓLAFUR SEM KÆRÐI SIGRÚNU PÁLÍNU TIL LÖGREGLU FYRIR FALSKAR ÁSAKANIR. Og saksóknari ákvað eftir yfirheyrslur yfir Sigrúnu Pálínu og fjölmörgum öðrum að ekki væri tilefni til ákæru og séra Ólafur dró kæruna til baka. Þetta er sannleikurinn í málinu og það er auðvitað Karli biskup til vansa að bera þessi ósannindi á borð fyrir alþjóð í aumlegri tilraun til að hvítþvo hendur sínar af aðkomu sinni að þessu máli. #
Karl ver glæpamann
Guðrún Ebba, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups, átti fund með Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands snemma árs 2009. Á vormánuðum 2009 sendi hún svo bréf sem var stílað á biskup þar sem hún óskaði eftir fundi. Erindinu var enn ósvarað ári síðar, þegar hún ítrekaði beiðnina og sendi þá bréf á Kirkjuráð, þann 27. maí 2010. Kirkjan leyndi þssu bréfi. en svo komst það í fjölmðla og femínistar tóku undir málstað Guðrúnar Ebbu. Þá kom í ljós annað leynibréf á biskupsstofu þar sem organistinn lýsir óeðli biskups og kynferðislegum tilburðum hans í Bústaðakirkju. En biskup þóttist hafa yfirsést bréfið.
En þegar málið var komið í fjölmiðla hafði Kirkjuráð allt í einu tíma til að hlusta á Guðrúnu Ebbu, og þá með dagsfyrirvara. Hún lýsti reynslu sinni af föður sínum, eins og það var orðað, en að því loknu bauð hún Kirkjuráðsmönnum að spyrja sig út úr en engin spurning leit dagsins ljós. Svo féll sprengjan þegar í ljós kom að drottinn leiddi Ólaf Skúlason ekki aðeins í freistni þegar stúlkur og konur voru annars vegar heldur misnotaði hann sína eigin dóttur þegar sér Kristján Björnsson lét hafa þetta eftir sér.
Hún sagði svo sem ekkert frá þessu í smáatriðum og ég sá ekki ástæðu til að spyrja nánar. En þetta var ekki bara einhver snerting heldur alvarleg kynferðisbrot í mörg ár þegar hún var barn og unglingur. Þannig voru æskuár hennar og þetta voru þær heimilisaðstæður sem hún ólst upp við. #
Hver voru viðbrögð Karls þá:
Karl Sigurbjörnsson biskup segir að á Íslandi séu menn saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð, kirkjan geti því lítið aðhafst í tengslum við ásakanir á hendur forvera sínum, Ólafi Skúlasyni. #
og
Það er mjög erfitt að bregðast við slíkum ásökunum sem koma fram með þessum hætti. Séra Ólafur (Skúlason) er látinn. Við verðum að muna það og hafa það í huga að enginn mannlegur máttur getur dæmt í þessu máli. Það segir einhvers staðar að hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Öll þurfum við að mæta þeim dómi og því réttlæti um síðir,“ sagði Karl. #
Sennilega hefur Karl biskup lesið Biblíuna, a.m.k. Nýja testamentið, en þar stendur:
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn frá dauðanum til lífsins. Jóh. 5:24.
Barnaníðingur og biskupsdrusla
En þegar Ólafur biskup varð sjötugur árið 1999 átti Karl ekki í neinum erfiðleikum með að fara fögrum orðum um forvera sinn. Í blaðagrein þá sagði hann m.a.:
Kirkja Íslands heiðrar hann á heiðursdegi, og þakkar þjónustu hans, leiðsögn og trúmennsku í þágu þjóðar og kirkju fyrr og síðar. Það voru vatnaskil í kirkjunni fyrir fjörutíu árum þegar Ólafur Skúlason kom vestan frá Ameríku og gerðist æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar.
Já, barnaníðingurinn Ólafur Skúlason varð fyrsti æskulýðsfulltrúi ríkiskirkjunnar árið 1960, sama ár og dóttirin sem hann misnotaði sem barn og ungling varð sex ára! En Karl gat ekki látið hjá líða að minnast á þá ólgu og óánægju sem markaði síðustu ár Ólafs sem biskups. Um þau sagði Karl svo skáldlega:
Þjónustuár hans á biskupsstóli voru tímar mikillar grósku kirkjustarfs, átaksverkefna á sviði safnaðaruppbyggingar, en líka stórbrotinna sviptinga sem skóku kirkjuna. Voru það ekki umfram allt vorleysingar á tímum mikilla breytinga og umbrota í kirkju og þjóðlífi?
Og við mælum fyrir munn hinna mörgu sóknarbarna og samstarfsfólks fyrr og síðar er við biðjum þeim [hjónum] heilla og ríkulegrar blessunar. Við biðjum þess að þau geti horft með gleði og þökk yfir starfsferilinn sem að baki er og fundið virðingu, hlýju og kærleika okkar, og íslensku þjóðkirkjunnar allrar, fylgja sér til framtíðar. Náð Guðs og friður umvefji þau og þau öll sem þau unna um ókomna daga alla.
Misræmi?
Ekki vantar að Karl getur talað mærðarlega eða hlýlega, eftir því hvernig á það er litið. Og svona í lokin er athyglisvert að skoða síðustu áramótaræðu hans því þar fellir hann harða dóma yfir samtímanum. Þar segir hann meðal annars.
Sú var tíðin að Íslendingar voru þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flest allt sé afstætt. Okkar kynslóð hefur notað Exel til þess að kæfa samviskuna. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð. Hin tæra, íslenska viðskiptasnilld var hátt rómuð, en lítt var spurt út í heilindi og heiðarleika, aga og trúfesti
Um næstu mánaðarmót má vænta niðurstöðu rannsóknarnefndar um bankahrunið. Þjóðin bíður í ofvæni og kvíða þess sem boðað hefur verið sem einhver verstu tíðindi sem nokkur nefnd hefur þurft að færa. Það verður dómsdagur þegar það sem hulið hefur verið verður opinbert, sagði biskups Íslands í nýárspredikun í Dómkirkjunni í morgun.
Já, hvað kann ei iðranin að orka? Hvað er annars iðrun? Iðrun er að ganga í sig, viðurkenna brot sín og snúa við af röngum vegi og á hinn rétta veg. Að ganga í sig er að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra, að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna hver maður er og hvað ræður för. Og biðjast fyrirgefningar á mistökum, vanrækslu og synd.
Eins og fram hefur komið voru unnin skemmdarverk á Grensáskirkju í nótt og kom biskup inn á það í predikun sinni.
Nú finnst okkur víst æði mörgum útlitið vera ískyggilegt í málum lands og þjóðar. Skiljanlega situr sorg og reiði í mörgum vegna atburða liðins árs. Einhverjir nota það sem skálkaskjól til að svala fýsn sinni með skemmdarverkum og eignaspjöllum og annarri óhæfu gegn einstaklingum og stofnunum, svo sem var nú í nótt við Grensáskirkju í Reykjavík. Það er hörmulegt og vegur að grunnstoðum siðaðs samfélags. En þótt ástandið sé ískyggilegt þá megum við þó síst láta hugfallast.
Ef rúðubrot í Grensáskirkju vega að grunnstoðum siðaðs samfélags má spyrja hvað kynferðisbrot og barnaníð biskups geri eða algjör vanhæfni og úrræðaleysi gagnvart því fyrr og síðar.
hr. Maack - 23/08/10 09:26 #
Úlfar í gæru 'góðs hirðis' eru því miður andskoti margir...
...maður veltir því fyrir sér hvort myndlíkingin um góðu hirðana eigi ekki sérstaklega vel við í ljósi þess að hirðar þessir eiga það til að leggja sér einstaklinga innan hjarðarinnar til átu og það eru aðeins rollur og sauðir sem fylgja þessum hræsnurum í blindni.