Stór hluti þeirra peninga sem ríkiskirkjan fær frá ríkinu er í formi svokallaðra sóknargjalda. Þegar rætt er um tengsl ríkis og kirkju virðist opinbera línan frá ríkiskirkjunni vera sú að sóknargjöld séu félagsgjöld. Það er rangt.
Það er ógrynni dæma frá kirkjunnar mönnum þar sem því er haldið fram að sóknargjöld séu félagsgjöld. Hérna eru þrjú dæmi, það fyrsta frá Kirkjuþingi, hin tvö frá æðsta biskupi ríkiskirkjunnar, Karli Sigurbjörnssyni:
„...enda eru [sóknargjöld] félagsgjöld í eðli sínu...“ #
„Sóknargjöld eru félagsgjöld.“ #
„En innheimta sóknargjalda er ekki kirkjuskattur heldur félagsgjöld,...“ #
Það væri hægt að koma með miklu fleiri dæmi [1], en það er nokkuð ljóst að kirkjunnar fólk heldur því fram, að minnsta kosti opinberlega, að sóknargjöld séu félagsgjöld.
Félagsgjöld eru gjöld sem einstaklingur borgar til félags til þess að hann geti verið meðlimur í félaginu. Þannig að ef að ég er ekki meðlimur í einhverju félagi, þá borga ég ekki félagsgjöld til þessa félags. Sóknargjöld eru alls ekki svona. Peningar eru teknir úr ríkissjóði, og það borga allir, hvort sem þeir eru félagsmenn í kirkjunni eða ekki, í þann sjóð.
Munurinn er augljós þegar maður setur hann upp á mynd, þar sem peningaflæðið er merkt með örvum. Vinstri myndin sýnir hvernig staðan væri ef sóknargjöld væru í raun og veru félagsgjöld. Hægri myndin sýnir hvernig staðan er í dag, fólk borgar tekjuskatt til ríkisins og ríkið tekur ákveðna upphæð af því og gefur ríkiskirkjunni:
Mig grunar það stundum að kirkjunnar fólk viti vel að sóknargjaldið sé alls ekki félagsgjald, og fyrir nokkrum árum var sá grunur minn að vissu leyti staðfestur. Árið 2002 var lagt fram á Alþingi frumvarp um að gera sóknargjöld líkari félagsgjöldum. Í frumvarpinu „um afnám gjalds á menn utan trúfélaga“ # var, eins og nafnið gefur til kynna, lagt til að þeir sem væru ekki meðlimir í trúfélögum þyrftu ekki að greiða þessi meintu félagsgjöld. Æðsti biskup Þjóðkirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson, sendi erindi þar sem hann útskýrir af hverju hann er á móti þessu:
Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun. #
Karl vill ekki að fólk sem er ekki í félagi geti komið sér undan því að borga sóknargjöld, af því að hann veit að þá myndi mikið af fólki ekki borga þau, það myndi skrá sig úr kirkjunni hans. Þannig að kirkjunnar fólk vill sannfæra fólk um að sóknargjöld séu félagsgjöld, en þegar það á að ganga skref í að gera sóknargjöld líkari félagsgjöldum, þá er hún algerlega á móti því.
Sjá einnig: Hvað eru sóknargjöld
[1] „Sóknargjöldin er félagsgjöld sem innheimt eru af hinu opinbera.“ # - Leikmannastefna
„Þjóðkirkjan og önnur trúfélög hafa löngum litið svo á að sóknargjöldin væru í eðli sínu félagsgjöld, sem ríkið innheimti með sköttum og væru því ekki bein framlög úr ríkissjóði.“ # - Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkjuþings
„Hins vegar innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir öll skráð trúfélög, kristin sem önnur. Þar er um að ræða félagsgjöld en ekki bein framlög ríkisins.“ # - starfsmenn Biskupsstofu, þeir Árni Svanur Daníelsson og Halldór Reynisson
„Sóknargjöld, sem notuð eru til að reka söfnuðina, eru í raun félagsgjöld þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni.„ # - ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson,
Hvernig stendur á því að neðst á nýlegu eyðublaði um trúfélagaskráningu stendur: "3. Gjald einstaklings, sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, hefur verið afnumið." http://www.fmr.is/pages/1037 Hef ég misst af einhverju, ég hélt að ég borgaði þessa upphæð beint í ríkiskassann síðan sumarið 2009.
Þetta er einfaldlega rangfærsla á eyðublaðinu. Gjaldið hefur reyndar verið fellt niður í þeim skilningi að það er ekki lengur greitt úr ríkissjóði, en við sem stöndum utan trúfélaga greiðum það samt sem áður í ríkissjóð.
Við höfum bent þjóðskrá á að þetta sé óheppilegt og villandi orðalag. Lítið hefur hins vegar verið um svör eða viðbrögð.
Sæll Hjalti Rúnar, Hvers vegna ræðir þú eingöngu um sóknargjöld Þjóðkirkjunnar? Félagsmenn trúfélags greiða samsvarandi trúfélagsgjöld til allra trúfélaga sem hafa viðurkennda stöðu gagnvart ríkinu, s.s. ásatrúarsöfnuðurinn, rómversk-kaþólska kirkjan, Krossinn, Nátthagi og múslimar.
Það er fáránlegt hvernig þeir sem standa utan trúfélaga þurfa að greiða laun presta og starfsemi trúfélaga.
Sæll Hjalti Rúnar, Hvers vegna ræðir þú eingöngu um sóknargjöld Þjóðkirkjunnar?
Það er rétt að ríkið greiði líka til skráðra trúfélaga. Ég tala bara um ríkiskirkjuna af því að ég veit ekki til þess að forsvarsmenn annarra trúfélaga haldi því fram að um félagsgjöld sé að ræða.
Félagsmenn trúfélags greiða samsvarandi trúfélagsgjöld til allra trúfélaga sem hafa viðurkennda stöðu gagnvart ríkinu,...
Nei, félagsmenn trúfélaga og þeir sem eru ekki félagsmenn greiða tekjuskatt, þeir greiða ekki "trúfélagsgjöld til .. trúfélaga".
Sigríður: Það er rétt og það væri vissulega hægt að bæta við þrjátíu-og-eitthvað öðrum viðurkenndum trúfélögum þarna hægra meginn á myndinni með þjóðkirkjunni. Það breytir engu um niðurstöðu greinarinnar um að það sé vart hægt að kalla sóknargjöld félagsgjöld líkt og þjóðkirkjufólk heldur fram.
Bjarki svaraði betur en ég, þetta var að vissu leyti réttmæt ábending hjá Sigríði, það hefði verið nákvæmara að bæta inn fleiri trúfélögum þarna, en ég er ekki svo góður teiknari ;)
Ríkið borgar laun allra starfsmanna kirkjunnar, presta, djákna, meðhjálpara o.fl. alveg óháð sóknargjöldum.
Önnur trúfélög þurfa að greiða laun starfsmanna af sóknargjöldum og öðrum tekjum (tíund t.d.).
Ef fólk vill vera í kirkjunni og trúa á guð fínt hafið það fyrir ykkur við sem trúum ekki á guð og viljum ekki vera í kirkjunni eigum ekki að þurfa að borga okkar skatt peningum í einhvað sem við viljum ekki og samhvæmt nýjustu launaskrá eru laun presta frekar há og hæðst launaðasti presturinn er með 5.5 miljónir hvað er málið með það bíddu er ekki kreppa í gangi eða maður er bara orðin þreytur á öllu þessu rugli og það er vísindalega sannað að guð er ekki einu sinni til og afhverju erum við að borga fyrir einhvað rugl sem er ekki eini sinni hægt að sanna að sé til eða hafi verið til
Því fyrr sem við losnum við presta pakkið út úr ríkisjötunni því betra. Þarna er hægt að spara 4 til 5 milljarða strax.
Er ekki hægt að trúa á Guð án þess að vera í trúfélagi. Hvers konar vitleysa er þetta. Get ég ekki átt bíl án þess að vera félagi í FÍB??? Eða réttara sagt, ef ég er ekki í FÍB þá á ég ekki bíl? Og á ég samt að borga "félagsgjöld" til FÍB hvort sem ég á bíl eða ekki. Það á að setja Þjóðkirkjuna "út á ísinn" því að því meira sem maður lærir um hana af fréttum því minna álit hefur maður á henni og öllu sem henni gengist. Lifið heil og hafið trú á sjálfum ykkur.
Ég má til með að koma þessari humynd á framæri: http://sveinbjorn.org/news/2010-08-27-03-29-03/Skraning-ur-Thjodkirkjunni-a-netid.html
Er ekki fullt af tölvufæru fólki í Vantrú sem gæti hjálpað ríkinu að gera þetta að veruleika á einfaldan en öruggan hátt, t.d. í gegnum skattskýrsluna eða heimabanka?
Held það sé frekar til nóg af tölvufæru fólki hjá hinu opinbera til að gera þetta að veruleika, t.d. sama fólkið sem setti upp rafræna skattakerfið.
Ég efast ekki um að þeir geti gert trúfélagaskráningu á netinu að veruleika, en spurningin er miklu frekar hvort þetta sé viljandi gert erfitt.
Enda eru 2 síðustu spurningarnar eftirfarandi: Myndi Hagstofan þiggja "aðstoðina"? Og hvernig myndi Þjóðkirkjan bregðast við?
Hvatning frá réttum aðilum gæti fengið boltann til að rúlla...
Held það sé nokkuð öruggt að þetta er viljandi gert erfitt.
Svo er hér einn prestur sem lofar því að gera þetta mun erfiðara um vik, allavega sem mál á stefnuskrá fyrir næstu kirkjuþingskosningar 2010. Gvööð blezzi hann.
Boltinn er víst kominn í mark: http://www.vantru.is/2010/09/01/12.30/
Ætli það hafi verið nóg að tala um þetta?
Ætli það hafi ekki komið þrýstingur á þetta sökum aðsókn í Þjóðskrá. Segi bara einsog er: það var fokking mikið.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ásta Elínardóttir - 16/08/10 09:57 #
Mikið er þægilegt að fá svona skýringarmyndir með, þar sem þessi vísa er aldrei of oft kveðin.