Nú um áramótin voru brotnar rúður í Grensáskirkju og málningu slett. Fljótlega var ýjað að því í bloggfærslum að það gæti nú tengst gagnrýni Vantrúar á kirkjuna (vissulega vorum við ekki nefnd á nafn en dylgjurnar voru frekar augljósar). Það er vel mögulegt að einhverjir haldi í raun og veru að við höfum komið nálægt þessu enda geta margir ekki hugsað sér annað en að fólki sem dettur í hug að gagnrýna trú sé einfaldlega illt. Það erum við að sjálfsögðu ekki og barátta okkar er byggð á tveimur meginpunktum: réttlætiskennd og sannleiksást. Það gæti enginn félagsmaður stungið upp á því að nota skemmdarverk í baráttu okkar án þess að verða hornreka innan félagsins. Við fordæmum að sjálfsögðu þetta skemmdarverk.
Það er alltaf hægt að velta fyrir sér hver ástæðan fyrir þessu skemmdarverki er. Hún gæti verið persónulegs eðlis og snúið að samskiptum einhvers einstaklings við kirkjuna eða kirkjunnar fólk eða hugsanlega á skemmdarvargurinn við andlega erfiðleika að stríða. Þá er alltaf sá möguleiki í stöðunni að hér hafi verið á ferðinni trúleysingi sem taldi þetta gott innlegg í jafnréttisbaráttu okkar. Það væri augljósa dapurlegasta niðurstaðan fyrir okkur enda myndi það skaða okkar góða starf þó við höfum hvergi komið nærri. En raunar mætti segja að þá væri málflutningur trúmanna gegn Vantrú (og flestum öðrum trúleysingjum sem þora að tjá sig) að mörgu leyti afhjúpaður.
Við á Vantrú höfum notað orð, táknrænar aðgerðir og borgaralega óhlýðni til að koma okkar málum á framfæri. Þegar skemmdarverk eru unnin sést hve saklausar þessar aðferðir eru. Trúmenn hafa þó verið duglegir að úthúða okkur. Við erum stimpluð öfgamenn og sögð herská þrátt fyrir okkar hógværu baráttuaðferðir gegn ofríki ríkiskirkjunnar.
Í bloggfærslu um rúðubrotin talar séra Þórhallur Heimsisson um níðinga. Þetta orðalag þekkjum við á Vantrú enda hefur presturinn notað það orð um okkar félagsmenn. Nú kemur í ljós hve innihaldslítil þau orð voru. Það sést hve saklausar aðferðir við notum þegar hún er sett í samhengi við þá sem í raun beita níðingsskap. Við beitum líka vægum meðulum til að ná til fólks miðað við Þórhall sem nota opinbera skóla til að lokka börn trúleysingja í kirkjuna til sín svo hann geti fengið að stunda trúboð sitt. Í okkar huga er slíkt lágkúrulegra en rúðubrot.
Vantrúin stendur keik þegar þessi verk eru rædd enda eru aðferðir okkar engin myrkraverk. Við erum stolt af því að nota heiðarlegri aðferðir en prestarnir til að ná til fólks. Okkar verk þola dagsljósið vel.
Skemmdarverk eru alltaf ömurleg en enn ömurlegra þegar ýjað er að einhverju svona bulli.
Það hlítur að vera erfitt fyrir Þórhall fyrst margir hans ættingjar eru kommar.
Ég er líklega bara ofstækismaður og trúvillingur að auki, en þetta hryggir mig bara ekki neitt. Fyrir utan það að hversu mér leiðist að hlusta á yfirlætið í hinum siðprúða borgara finnst mér ég engan skaða hafa beðið af þessu verki og enginn sem ég hef samúð með heldur. Ég styð það ekki sérstaklega en ég sé enga ástæðu til að fordæma það eða hneykslast á því. Líkt og Vantrú bendir á í bloggi sínu eru rúður rúður og einmitt bara hlutir. Þessa hluti má bæta og það hryggði mig ekki vitund þó þeir fengjust ekki bættir.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ásta Elínardóttir - 02/01/10 10:52 #
Ég hef verið að hrista hausinn yfir þessum fréttum síðan ég sá þær fyrst.