Lesendur Vantrúar ættu ef til vill að kannast við Þórhall Heimisson, sóknarprest í Hafnarfirði og handhafa Ágústínusarverðlaunana síðasta árs. Þórhallur er, eins og alþjóð veit, ákaflega fróður og vel menntaður maður og er það ekki sízt sú ástæða sem veldur því að félagsmenn Vantrúar fylgjast grannt með Þórhalli og spekinni sem endalaust hrýtur af vörum hans.
Það var því ekki að ástæðulausu að ég las nýlega grein Þórhalls um skólamál af mikilli athygli. Grein Þórhalls er skrifuð af hans venjulegu andagift og innsæi en sitthvað vantaði þó upp á hina nákvæmu fræðimennsku sem Þórhallur er þó annars þekktur fyrir. Lesendur geta því vart ímyndað sér þau gífurlegu vonbrigði sem ég varð fyrir þegar ég áttaði mig á því að flestar fullyrðingar Þórhalls í greininni eru rangar, eða í bezta falli hálfsannleikur.
Nú er Þórhallur, eins og við Vantrúarmenn vitum manna bezt, sannleikselskandi maður með afbrigðum og því tel ég, Þórhalli og öðrum til upplýsingar, rétt að ég leiðbeini honum hérna smávegis og bendi á það sem betur hefði mátt fara í pistli hans. Nú er ýmislegt í greininni satt og rétt, eins og gengur, en ég vona að það verði ekki talið mér til hnjóðs að nefna ekki það sem Þórhallur segir satt, enda ekki tilgangurinn hér.
Fyrsta villan sem Þórhallur gerir er þó ákaflega smá, en líklega er bezt að halda henni til haga samt. Hann segir: „Nú skömmu fyrir jól hefur sprottið upp nokkur umræða í fjölmiðlum um skólaheimsóknir í kirkjur á aðventu. Ýmsir hafa í nafni fjölhyggjunnar svokölluðu kvartað sáran yfir því að íslensk börn skuli fara með skólum sínum í slíkar heimsóknir.“
Hið rétta er að einungis ein grein hefur verið skrifuð í eitt blað. Það er greinin „Aðskilnaðarstefna í skólum“ eftir Falasteen Abu Libdeh, Felix Bergsson og Jóhann Björnsson. Það mætti kannski segja að þar sé kvartað sáran, en ég tel nú umkvörtunarefnið réttmætt. Tilefni greinarinnar má finna í þessari tilvitnun: „Með því að bjóða upp á „hefðbundið kirkjustarf skólabarna" í skólum er verið að þvinga börn og foreldra þeirra til að velja á milli þess að standa við sína lífsskoðun annars vegar eða falla inn í hópinn hins vegar. Fjölmörg dæmi eru um það að foreldrar eða börn ákveði að taka þátt í trúarstarfi í þeim eina tilgangi að vera ekki stimpluð öðruvísi.“ Dæmi nú hver fyrir sig.
Næst bregður Þórhallur sér í líki sagnfræðingsins en bregst þar bogalistin, aldrei þessu vant. Hann segir: „Reyndar var það ekki svo að hér hafi búið heiðin þjóð fyrir kristnitökuna þó því sé oft haldið fram. Nei, þvert á móti, stór hluti landnámsmanna var frá upphafi kristinnar trúar, bæði írskir forfeður okkar og skandinavískir menn sem höfðu tekið trú á ferðum sínum.“
Það er satt hjá Þórhalli að hér voru kristnir menn við landnám, bæði þrælar og frjálsir menn, en staðreyndin er sú að miðað við þær heimildir sem við höfum verður lítið fullyrt um hversu „stór“ þessi hluti var. En margt bendir til þess að kristnir menn hafi ekki verið fjölmennir í hópi landnámsmanna, t.d. segir Jón Hnefill Aðalsteinsson í bókinni Kristnitaka á Íslandi: „Hlutfallstala kristinna landnámsmanna hefur að öllum líkindum verið lág og virðast þeir einkum hafa setzt að á fáum, afmörkuðum landsvæðum.“ Ekkert er svo vitað um fjölda þræla í landinu en margir hafa þó að vísu verið kristnir. Þetta er hálfsannleikur.
Þórhallur nefnir að vísu ekki hversu stór þessi hluti var, en hann veit þó jafnvel og ég að sá hluti þjóðarinnar sem var kristinn við landnám var að minnsta kosti ekki stærri en sá hluti þjóðarinnar sem er ókristinn í dag. Ég nefni þetta vegna þess að Þórhallur og kollegar hans í prestastétt eiga það til að kalla Íslendinga „kristna þjóð“ en ef Þórhallur veigrar sér við að kalla þá þjóð sem hér varð til eftir landnám heiðna, þá getur hann ekki viljað að sama skapi kalla Íslendinga nú til dags „kristna þjóð“.
En áfram heldur Þórhallur í sagnfræðinni: „[K]ristninni var haldið niðri af heiðinni yfirstétt.“ Það er að vísu rétt hjá Þórhalli að ráðandi öfl á Íslandi á þessum tíma hafi verið heiðin, en margt bendir til þess að heiðnir menn hafi verið ákaflega umburðarlyndir þegar kom að trúarbrögðum annarra og látið sér í léttu rúmi liggja hvaða skoðanir þrælar þeirra og undirmenn höfðu á á lífinu og tilverunni. Hins vegar var trúfrelsi afnumið við kristnitöku og mátti enginn vera ókristinn allt til ársins 1857.
Næst fullyrðir Þórhallur að eftir „að landsmenn allir tóku kristni, lærðu þeir að lesa og skrifa og breyttust úr hálfsiðaðri þjóð í siðmenntaða þjóð, bókaþjóð, eins og við urðum og erum og viljum halda áfram að vera enn í dag.“ Hér er annar hálfsannleikur hjá Þórhalli.
Það er rétt að lestrarkunnátta jókst eftir tilkomu kristninnar en að fullyrða að Íslendingar hafi breytzt úr hálfsiðaðri þjóð í siðaða vegna hennar er fráleitt. Í fyrsta lagi veit Þórhallur ekkert um það hvernig siðmenning á Íslandi hefði þróazt án kristni, í öðru lagi er slíkur greinarmunur á siðmenntuðum og ósiðmenntuðum þjóðum ákaflega vafasamur og í þriðja lagi þá lítur Þórhallur hér framhjá sagnaarfi heiðinna manna og siðfræði, sem lifði góðu lífi hjá Íslendingum áður en kristni var hér í lög leidd árið 1000. Eru Völuspá og Hávamál afrakstur menningar villimanna?
Næst segir Þórhallur: „Hér höfum við síðan og allt til þessa dags haft kristið siðgæði að leiðarljósi, kærleikann, umhyggjuna fyrir náunganum og Gullnu reglu Jesú sem hljóðar svo – allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.“
Það er rétt hjá Þórhalli að þetta er meðal þeirra hluta sem kristnir menn boða, að sjálfsögðu, en kristin trú er hvorki uppspretta né nauðsynlegt skilyrði þessara gilda. Það kemur kannski Þórhalli á óvart en menn báru umhyggju fyrir öðrum og elskuðu löngu áður en Jesús frá Nasaret steig fæti á þessa jörð. Meira að segja gullna reglan sem Þórhallur nefnir er jafn gömul vestrænni menningu, um hana eru til að mynda fjölmargar heimildir í grískri siðfræði, allt til Þalesar. Til dæmis lætur Platón Sókrates segja í samræðunni Krítón: „Því ber hvorki að svara óréttlæti með óréttlæti né gera nokkrum manni illt, hvað svo sem við höfum þurft að þola af hendi hans.“ (Þýðing mín, á frummálinu stendur: οὔτε ἄρα ἀνταδικεῖν δεῖ οὔτε κακῶς ποιεῖν οὐδένα ἀνθρώπων, οὐδ᾽ ἂν ὁτιοῦν πάσχῃ ὑπ᾽ αὐτῶν.) Einnig eru til heimildir um svipaða siðfræði hjá Egyptum og Indverjum til forna. Meira að segja stendur í þriðju Mósebók 19:18: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“ En þetta veit Þórhallur auðvitað.
Nú veit ég að Þórhallur segir ekki berum orðum í grein sinni að menn verði að vera kristnir til að hafa þessi gildi en með því að nefna þetta í þessu samhengi eins og hann gerir er hann engu að síður að gefa í skyn að ef kristnir menn fái ekki að vaða uppi í skólastarfi eins og þeim sýnist muni þessi gildi á einhvern hátt hverfa þaðan. Það er ósatt.
Örlitlu síðar segir Þórhallur: „Velferðarsamfélagið sem við öll viljum standa vörð um er sproti af þessum sama meiði – grundvöllur þess er Gullna reglan sem Jesús boðaði okkur.“ Vel má vera að siðferðileg réttæting velferðarsamfélagsins komi frá gullnu reglunni, en það er ekki vegna áhrifa frá kristni. Velferðarsamfélag Norðurlanda og Íslands er sprottið upp úr verkalýðsbaráttu sem hófst við lok 19. aldar, af mönnum sem oft voru svarnir andstæðingar kristinnar trúar og fáir hafa staðið meira í vegi fyrir þróun velferðarsamfélagsins en kristnir íhaldsmenn. Velferðarkerfið er ekki verk kristninnar.
Þórhallur hefur mörg orð um þessa voðalegu fjölhyggju sem hann segir að sæki að kristnum gildum en því miður eru þessir fjölhyggjumenn sem hann lýsir ekki til. Þeir sem vilja kirkjuna burt úr skólum byggja þá skoðun sína ekki á afstæðishyggju: ekki í trú, samfélagsháttum né siðferði. Enn síður eru til menn sem vilja „afmá öll tákn kristindóms í samfélaginu“. Það er engin hreyfing manna til sem vill skipta um þjóðsöng vegna þess að hann er „lofsöngur til Guðs“ (þeir eru að vísu til sem vilja það af því að hann er leiðinlegur og hentar illa til söngs). Það vill enginn skipta um fána og sízt af öllu vill nokkur maður reka kristið siðgæði og gullnu regluna úr skólunum. Þetta eru átyllurök hjá Þórhalli.
Næst segir Þórhallur: „En við skulum gera okkur grein fyrir því að ef kristin gildi eru aflögð hlýtur eitthvað annað að koma þar í stað. Mannkynssagan kennir okkur það. Saga tuttugustu aldarinnar sýnir síðan hverjum sem vera vill hvílíkar hörmungar mennirnir hafa kallað yfir sig í þjóðfélögum sem hafna Guði en setja manninn á stall í hans stað.“
Nú er ekki ljóst hvað Þórhallur á nákvæmlega við hér, en ég held að tvennt komi til greina. Hann gæti átt við að eftir því sem trúleysi sé útbreiddara í samfélögum sé velmegun minni, fleiri félagsleg vandamál, fleiri glæpir og annað í þeim dúr. Það getur þó ekki verið það því rannsóknir hafa ítrekað sýnt að sterkt samband sé á milli þessara þátta og trúarbragða: Eftir því sem samfélög eru trúlausari eru meiri líkur á þar sé mikil velmegun og lítið um félagsleg vandamál. Ég ætla ekki að fullyrða hvort kom á undan trúleysið eða velmegunin, og raunar hallast ég að því síðara, en af þessu er þó ljóst að menn kalla ekki yfir sig hörmungar með að hafna Guði, þvert á móti.
Hitt sem Þórhallur gæti átt við er kommúnisminn í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra. Ég held raunar að hann sé að vísa í þá sögu alla, því hann hefur gert það áður. Og margsinnis hefur honum verið bent á að voðaverk sem unnin voru þar voru ekki drýgð í nafni trúleysis né hafi trúleysið verið nokkur orsök þeirra. Trúleysi og veraldarhyggja er ekki það sama og kommúnismi.
Síðasta atriðið sem ég hnaut um hjá Þórhalli eru fullyrðingar hans um að meirihluti Íslendinga vilji „samstarf kirkju og skóla“ og ef því yrði breytt yrði þar um að ræða kúgun minnihlutans á meirihlutanum. Hér snýr Þórhallur öllu á haus, aldrei þessu vant. Hið rétta er að kannanir hafa sýnt að meirihluti Íslendinga vill að kirkjan verði skilin frá ríkinu. Þórhallur hefur á hinn bóginn ekkert sem styður þá fullyrðingu að Íslendingar vilji að kirkjan sé að vasast í skólamálum. En hvort heldur sem er, þá er það ekki kúgun að halda trúarbrögðum úr opinberum skólum. Slíkt fyrirkomulag er til dæmis í Bandaríkjunum og Frakklandi og þykir þar mannréttindamál.
Eins og sést eru rangfærslur Þórhalls í þessari grein margar og margvíslegar. Nú veit ég að Þórhallur er maður sem þykir ákaflega vænt um fræðimannaheiður sinn og á ég því von á grein frá honum þar sem þessar rangfærslur eru teknar til baka og leiðréttingum komið á framfæri.
Þar sem ég hef ekki tíma til að senda inn almennilega grein vegna ummæla síra Þórhalls, þá vill ég benda á tvö atriði úr ritgerð minni "Útburður frá heiðni til þjóðsagna" frá árinu 2005:
Við gildistöku stóradóms var það saknæmt atferli gagnvart lögum ríkisins að eignast barn með skyldmennum og giftum mönnum. Upptaka Stóradóms árið 1564 hafði viðamiklar afleiðingar í för með sér. Þau afglöp sem áður ollu niðurlægingu og smán í samfélaginu, snérust nú um líf og dauða þeirra einstaklinga sem voru viðriðin útburðinn. Frá 17. til 19. aldar voru 86 útburðarmál dómtekin á Íslandi og voru viðurlög við útburði dauðadómur fram til ársins 1870. Í flestum tilfellum voru það ungar vinnukonur sem urðu uppvísar að slíku framferði og oft undir áhrifum barnsfeðra sinna. Barnsfeður þeirra sluppu þó oft með skrekkinn með því að sverja tylftareið, en hann fór þannig fram að viðkomandi fékk 12 manns honum óskildum til að sverja sakleysi viðkomandi. Síðasta aftakan vegna útburðar var árið 1790, en dauðadómur var í gildi fram til 1870 þegar ný hegningarlög voru staðfest á Alþingi (Már Jónsson, 1993).
... og áfram:
Til er dönsk rannsókn eftir Beth G. Nielsen og kemur þar fram að mjög fáar heimildir séu til um útburð í Danmörku fyrr en eftir siðaskipti og þá hafi útburður aukist til muna (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 1986).
Niðurstaða mín var á þá lund að útburður barna hafi verið nánast óþekktur fyrir stóradóm en hafi aukist til mikilla muna eftir upptöku hans og þær sagnir (4 af 5) sem til væru í fornritum væru fyrst og fremst til að vara fólk við því athæfi að bera út börn. Varðandi það að setja gamalt fólk út á guð og gaddinn þá hef ég ekki skoðað það almennilega en minni nú síra Þórhall á það að það hafi tíðkast fram á 20. öld að leggja þurra "jarðtorfu úr þekju" yfir andlit gamalmenna eða leggja viðkomandi á kallt gólfið til að létta þeim banaleguna og hvað er það annað en að morð á gamalmennum (Árni Björnsson, 1996: 370). Ekki er þar heiðni á ferð síra.
Ég tel að menntaðir menn verði nú að skoða almennilega það sem þeir setja á prent en kasta ekki bara einhverju á blað sem staðreynd því það grefur undan þeim sjálfum.
Kær kveðja til lesenda og ég óska mönnum gleðilegra jóla og farsælts komandi árs, nú þegar sól fer að hækka á lofti.
Tómas Vilhj. Albertsson Þjóðfræðingur og seiðgoði
Árni Björnsson (1996). Merkisdagar á mannsævinni. Reykjavík: Mál og menning. Már Jónsson. (1993). Blóðskömm á Íslandi 1270-1870. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (1986). Útburður barna. Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi, (6 tbl.) bls. 18-19.€
"Nú veit ég að Þórhallur er maður sem þykir ákaflega vænt um fræðimannaheiður sinn og á ég því von á grein frá honum þar sem þessar rangfærslur eru teknar til baka og leiðréttingum komið á framfæri."
Feitur sjéns!
P.S. Gleðileg jól öll sem eitt.
Nei sko, meira um Þórhall! Jei! :D Hann er nú alveg úti að aka þegar hann vill halda því fram að vegna þess að kristni var tekin upp hafi allt orðið betra. Fólk orðið gáfaðara, kunni að lesa og skrifa, veðrið varð betra og svei mér þá ef maturinn hafði ekki orðið öllu betri! Þetta er fyrirtaks dæmi um 'post hoc' rökvilluna, þ.e. hvað olli hverju.
Hann nefndi heldur ekkert um bókabrennur kristinna eða hvernig kirkjan bældi niður vísinda- og rökhyggju. Tæplega var það upplýsandi fyrir almúgann að vera ritskoðaður af kirkjunni.
Varðandi útburð barna þá eru heimildir um slíkt fáar, slæmar og skrifaðar af kristlingum. Ég man ekki til þess að hafa heyrt um það né lesið, hvert var ástand þessara nýfæddu barna. Voru þetta ekki vansköpuð börn sem litlar sem engar líkur voru á að þau mundu lifa út árið? Líklega hefur einnig verið til illir húsbændur sem báru út börn vinnufólks, en slíkt var fátítt.
En í dag eru börn ekki borin út, vansköpuðum og meira að segja hugsanlega vansköpuðum börnum er eytt úr móðurkviði, einnig óvelkomnum þungunum.
Það hafa þó blessaðir kristlingarnir fram yfir okkur fordæmdu heiðingjana, þeir stunda ekki þá ómennsku og ófreskjuhátt á bera út börn, þeir framkvæma fóstureyðingar.
Eins og þessi grein er nú að öðru leyti ágæt, finnst mér viðeigandi að benda á að þótt ekki sé um að ræða áberandi hreyfingu, eru þeir vissulega til sem vilja skipta um þjóðsöng, einmitt af því að hann er trúarlegur. Mér finnst lofsögur Matthías einkar fallegur sálmur en sálmar eiga ekki við sem þjóðsöngur trúfrjáls ríkis, ekki frekar en t.d. kommúnistasöngur í lýðræðisríki.
Ég vil líka skipta um fána (og er ekki ein um það viðhorf), bæði vegna þess að krosslafsdulan felur í sér vísun til kristindóms og Íslendingar eru ekki kristin þjóð, heldur trúfrjáls, en einnig af því að fáninn hefur öðlast sess sem tákn ógeðfelldrar þjóðrembu og menningarhroka.
Að afmá öll teikn kristindóms er einfaldlega ógerningur og ég þekki ekki nein dæmi um fólk sem telur það æskilegt.
Hverjum þykir sinn fugl fagur og sæll er hver í sinni trú.
Engan þarf að undra að Þórhallur vilji fegra þátt kristni sem mest hann getur og auðvitað er það svo að fátt er svo með öllu illt að ei fylgi gott, jafnvel kristni.
Þórhallur má eiga að hann hefur staðið uppi í hárinu á hómófóbíu kirkjunnar og hann er einn fárra kirkjunnar manna sem heiðra okkur með athugasemdum hérna.
Ég vona hins vegar að hann finni sér önnur markmið en að pirra vantrúarseggi og einbeiti sér að heiðarlegum skoðanaskiptum í framtíðinni því full þörf er á þeim.
Hvar og hvaða dag birtist greinin eftir Falasteen Abu Libdeh, Felix Bergsson og Jóhann Björnsson?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Nikulás Lasarus - 22/12/09 10:13 #
[ athugasemd flutt á spjall - Matti Á.]