Eitt sinn skal hver deyja.
Enginn kemst til vits og ára án þess að velta fyrir sér dauðanum og merkingu hans. Raunar þarf hvorki mörg ár né mikið vit til að dauðinn verði óumflýjanlegt umhugsunarefni í einhverri mynd. Oft er reynt að fegra dauðann fyrir börnum og fyrsta myndin sem við fáum af honum því oftar en ekki glansmynd.
Þótt árunum fjölgi og eitthvað bætist við vitið halda samt margir einhverra hluta vegna í glansmyndina, jafnvel þótt hún verði hjá flestum eitthvað loðnari og óljósari með aldrinum. Hvað veldur? Hvernig stendur á því að trúarbrögð manna snúast oftar en ekki um hvað verður um okkur eftir dauðann? Af hverju er mönnum svo mjög í mun að trúa að þeir lifi dauðann af, svo mótsagnakennt sem það er?
Í mínum huga er svarið einfalt. Mönnum þykir svo undurvænt um sjálfa sig (og sína nánustu) að þeir mega engan veginn til þess hugsa að þeir þurrkist bara út, hverfi og verði að engu. Hugmyndir um líf eftir dauðann byggja því á barnaskap, óskhyggju og sjálfhverfu sem á rætur í ótta.
Svo djúpstæður er þessi ótti við dauðann og tómið að menn hafa komið sér upp hátimbruðum hugmyndakerfum sem hafa fengið á sig virðingar- og jafnvel valdastimpil. Loddarar eru fljótir að átta sig á veikleika manna og á þessu sviði er hægur vandi að koma upp heilmiklu batteríi sem heldur lýðnum í skefjum, á hnjánum, ausandi fé og völdum í þá sem eru nógu borubrattir til að þykjast hafa eitthvað um örlög manna eftir dauðann að véla.
Flóknara er þetta nú ekki ef við lítum kalt á málið. En það kostulega er að þeir sem hafa gleypt þessa dúsu hráa og hafa jafnvel viðurværi sitt af að viðhalda henni, eru svo sannfærðir í eigin órum að þeir leggja barnaskapinn að jöfnu við dýpstu visku. Hrokann, sem felst í því að telja sig mikilvægari og merkilegri en svo að dauðinn geti grandað þeim, kalla þeir andans auðmýkt. Óskhyggjuna kalla þeir trú og verða ógurlega sárir ef nokkur vogar sér að benda á nekt keisarans. Í ritum þeirra lofsyngja þeir barnaskapinn og gagnrýnisleysið sem æðst dyggða. En gagnrýnendur sína saka þeir um flónsku, hofmóð og eigingirni. Í trúmálum eru nefnilega engin takmörk á öfugsnúningi.
Svona er þetta nú í mínum huga, „ef við lítum kalt á málið“ eins og ég sagði. Er þetta þá ekki ógurlega nöturleg sýn á tilveruna? Líður trúleysingjum ekki illa að geta ekki yljað sér við loðnar glansmyndir af eilífu lífi og það jafnvel í ímynduðu himnaríki?
Nú get ég aðeins mælt fyrir minn munn en ekki allra trúleysingja. Vel má vera að einhverjir trúleysingjar engist vegna þessara hugmynda en sennilega einkennist afstaða þeirra flestra af ákveðnu sinnuleysi í þessum efnum, rétt eins og á meðal þeirra sem kalla sig trúaða. Ég hef hins vegar hugsað mikið um dauðann og hvort eitthvað taki við. Lengi framan af aldri kynntist ég dauðanum ekki þótt fólk mér nákomið hafi látist áður en ég komst til vits og ára. Það reyndi því ekki almennilega á afstöðu mína fyrr en miklu seinna. En nú hefur dauðinn knúið dyra hjá mínum nánustu og ég get fullyrt að trúleysi mitt olli mér engu hugarangri, þvert á móti.
Sjálfur er ég kominn yfir miðjan aldur og veit að minn tími kemur en ég óttast hann ekki. Ég veit sem er að ég er ekki ómissandi. Jörðin heldur áfram að snúast og lífið gengur sinn vanagang hvort sem ég er á róli eða ekki. Eflaust verða raskanir á högum minna nánustu í kringum andlát mitt en það fennir í þau spor og tíminn læknar sárin. Svo líða ekki svo mörg ár þar til allir sem ég þekkti og þekktu mig hafa mætt sömu örlögum. Vera má að nafn mitt komi einhvern tíma upp eftir það en hvað um það? Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
Ég á ekki í neinum erfiðleikum með að sætta mig við þessi örlög. Mér líst öllu verr á hina hugmyndina, þá að ég eigi eftir að halda áfram að tóra einhvern veginn, jafnvel til eilífðar. Þótt það sé í einhverju himnaríki breytir engu. Ég hef engan áhuga á að berjast í Valhöll, fæðast aftur og aftur í nýjum líkama eða sameinast einhverri alheimsvitund. Sókrates hitti naglann á höfuðið þegar hann spurði hvort áheyrendur hans hefðu einhvern tíma kynnst draumlausum svefni og hvort þeir óttuðust hann. Draumlausan svefn óttast ég ekki en mér líst ekkert á eitthvað eilífðardiskótek á himnum. Nei, takk, sama og þegið.
Ég kynntist dauðanum ungur og ólst upp í stöðugum ótta við hann. Sá ótti heimsækir mig enn, á þrítugsaldri, þrátt fyrir alla rökhugsun og skynsemi.
Ég hef jafnan haft það sem reglu hjá sjálfum mér, og ráðlagt öðrum sömu reglu, að minna sjálfan mig á að ég er ekki upphaf sjálfs mín. Þær agnir sem mynda líkama minn og heila, það sem er ég, var til í öðrum birtingarmyndum áður en ég kom til sögunnar. Samkvæmt líffræðinni er ég víst ekki einu sinni sami ég og ég var fyrir sjö árum, þar sem hver einasta fruma í líkamanum endurnýjar sig á þeim tíma.
Ég var eitthvað annað áður en ég varð ég, og ég mun verða eitthvað annað að mér loknum. Hvað vitundina varðar, þá óttast ég ekki draumlausan svefn né heldur dauðann sjálfan (hann verður síðasta óþekkta upplifunin sem ég reyni) en viðurkenni að ég er forvitinn að vita hvað verður um vitundina, ef eitthvað.
Ekkert að þessu á þó neitt skylt með trúarbrögðum, að mínu mati.
Allavega, góð hugvekja Reynir. Vel orðað.
Fín hugvekja.
Mín eigingirni felst í því að fá að lifa mínu lífi fram til þess aldurs að líkami minn og hugur verður saddur lífsdaga, búinn að fara hringleiðina Hlemmur-Lækjartorg. Komi ég einhverju til skila inní framtíðina í formi einhvers vegarnestis til minna nánustu eða þjóðfélagsins, hef ég enga þörf fyrir eftirlíf. Eftirlífið er áframhald mannkynsins.
Það er gott að skrá óskir sínar um útför, afdrif líkama síns og slíkt á blað Siðmenntar sem heitir "Útfararskrá" og óskir um endurlífganir og fleira á "Lífsskrá" sem Landlæknisembættið gefur út. Hvort tveggja má finna á þessari slóð: http://sidmennt.is/veraldlegar-athafnir/utfor/hugleidingar-vid-lifslok/
Kveðja
Fyrir mitt leyti verð ég að segja að óttinn við dauðann minnkaði og heldur áfram að minnka eftir því sem ég eyði meiri tíma að hugsa um himnaríki.
Hefur annars einhver hér heyrt einhverskonar lýsingu á himnaríki frá íslenskum trúmönnum.
Hefur annars einhver hér heyrt einhverskonar lýsingu á himnaríki frá íslenskum trúmönnum.
Vissulega - blóðugir bardagar dag hvern, allir heilir að kveldi; glaumur og gleði, öl og svínakjet í hvert mál.
"The story of the physicist who wakes up in heaven and asks himself: "Hang on. How do fridges work then?"" - Robert Llewellyn að taka viðtal við eðlisfræðinginn Brian Cox, og ein spurningin var um eftirlífið. Þetta er bara varmafræði, eins og Brian sagði.
En persónulega myndi ég ekki nenna að lifa að eilífu í nokkru meðvituðu formi. Hvað myndi maður gera? Frúin í Hamborg?
Fín hugvekja. Var það ekki Mark Twain sem sagðist ekki óttast dauðann, þar sem hann hefði verið dáinn í milljarða ára áður en hann fæddist, án þess að það hefði bakað sér nokkur vandkvæði?
Já ég vill meina það að ég lifi betra lífi vitandi það að það er bara þetta eina líf. Ekki að lifa eftir einhveri kreddu vegna þess að ég fæ betra líf næst.
Hvað er líf og hvað er dauði? Hver er munurinn þarna á milli? Hvað þarf ég að gera til þess að breyta dauðum hlut í lifandi veru?
Í raun vitum ekkert hvað dauði er, ekki fyrr en við deyjum.
Þetta er spurning hvernig verður líf til þegar heimurinn í kringum okkur virðist vera dauður.
Eða er til líf annars staðar í geimnum og í hvernig formi. Fylgir það öðrum lögmálum en hér á jörðinni.
Það er alltaf sorgmætt þegar barn deyr. Sérstaklega þegar barnið sem dó er barnið manns. Er ykkur kannski sama þótt að barnið ykkar deyji?
Hluti af lífinu er dauði bara spurning hvenær ekki hvort.
Óháð trú eða trúleysi þá verðum við sorgmædd þegar einhver nákominn manns deyji.
Bestur vinur manns dó í gær og kemur aldrei aftur. Þessi vinur sem gaf mikla orku frá sér.
Þá er þessi spurning hvernig farið þið í gegnum sorgarferlið?
Ég tel mig nú ekkert syrgja öðruvísi en næsti maður. Ég hinsvegar sé ekki þörfina fyrir að deyfa mig með einhverju handanlífi.
Ég gleðst bara yfir að hafa átt tíma með viðkomandi og lofa sjálfri mér að muna.
Góð umræða, og sannarlega þörf á þessum miðli. Mjög málefnaleg. Reynir veltir fyrir sér tóminu, sem er jú háheimspekilegt og háguðfræðilegt hugtak. Tómið getur vísað í ansi margt, bæði ytri veruleika mannsins (angist hans og umkomuleysi í guðlausum heimi), sem og í þeim veruleika hans er snýr að meðvitundinni um eilífa lífið. Um tómið hefur margt verið ritað og rætt meðal trúleysingja (t.d. Sartre og Heidegger), en einnig meðal trúaðra (t.d. Kierkegaard, Tillich og Barth).
Í þessu samhengi er vert að benda á þessi orð Reynis:
"Svo djúpstæður er þessi ótti við dauðann og tómið að menn hafa komið sér upp hátimbruðum hugmyndakerfum sem hafa fengið á sig virðingar- og jafnvel valdastimpil." (ég kann ekki að gera svona flott tilvitnunarlúkk)
Jean Paul Sartre tók tómið einmitt til umfjöllunnar, og gerði sér grein fyrir óttanum sem fylgdi því. Sökum guðleysis, setti hann sig hinsvegar sjálfan sig á hærri stall og taldi sig geta ráðið við það í eigin mætti. Það er vissulega karlmannlegt af honum. Karl Barth gagnrýnir þessa framsetningu, og telur að það "tóm" sem maðurinn getur sigrað með hugrekkinu og mennskunni einni saman, sé ekki raunverulegt "tóm". Það geti verið truflandi og erfitt, vissulega, en eins lengi og maðurinn telur sig geta sigrast á því, er hann kominn fram úr sjálfum sér. Til að geta sæst við tómið, endanleikann og það allt saman, verður maðurinn að hafa eitthvað til að glíma við.
Mér finnst sá galli oft fylgja umfjöllun guðlausra hvað varðar dauðann, að í sífellu er verið að reyna að sætta hinn guðlausa við veruleika dauðans. Eins og dauðinn sé eitthvað sem er jafn velkominn og hvað annað gott og blessað. Eins og telji þurfi þeim sem trúa á Guð eða framhaldslíf eða eitthvað álíka "bull", um að þeir hafi sjálfir sæst við tómið og svartnættið, dauðann, sorgina og vonleysið. Og séu þannig bara drullusáttir við veruleikann.
Mér finnst vera uppgjafartónn í þess háttar afstöðu. Langt í frá að ég sé að gera lítið úr henni, því fer fjarri. Ég mun hinsvegar aldrei geta sæst við veruleika dauðans, sorgarinnar og tómsins, aldrei. Þess í stað þarf ég eitthvað til að glíma við, það heldur mér á tánum og gerir mig meðvitaðari um þá um hluti sem ég tel vert að njóta, lifa og þakka fyrir. Ég held því að það sé fjarri því gagnrýnislaust og barnalegt, að útiloka ekki æðri tilgang tilverunnar, Sókrates féll einmitt ekki í þá gryfju. Hann færði jú rök fyrir tilvist sálarinnar. Þvert á móti tel ég það þroskandi fyrir hvern og einn, að glíma við tilvistarspurningarnar í sinni myrkustu mynd, glíma við þær alla ævi, í stað þess telja sig hafa svörin á reiðum höndum.
Hafðu þökk fyrir góða grein, þetta svar mitt er ekki ætlað til þess að kasta rýrð á greinina eða þig á nokkurn hátt. Þetta er bara vinsamlegt innlegg í umræðuna.
Pax.
Áhugaverðar ábendingar, Guðmundur.
Ég er sammála þér í því að það er meinhollt að glíma við tilvistarspurningarnar. Þótt ég sé sáttur við horfur mínar þýðir það ekki að ég þykist hafa komist að einhverjum endanlegum stórasannleika - a la trúarbrögðin.
Ég get tekið undir flest sem þú segir nema hvað mér finnst að þú ruglir e.t.v. saman uppgjöf og sátt. En dauðinn kennir okkur að meta lífið og njóta þess, vera þakklát fyrir þessa skömmu upplifun.
Þegar ég dey og sé ekkert líf eftir dauðann þá verður væntanlega ekkert eftir af mér til að sjá eftir lífinu. Ég hlakka ekkert sérlega til þess að deyja og vil ekkert deyja neitt fljótlega (sérstaklega vegna barnanna minna auðvitað) en ég sé enga uppgjöf fólgna í því að átta mig á því að eftir dauðann mun mér vera nákvæmlega sama um að ég sé ekki til...
Gaman að sjá vitnað í Biblíuna í þessum skrifum; predikarann til að öllu sé til skila haldið.
Prédikarinn er í miklu uppáhaldi, enda margt gott þar.
Það er svo auðvelt að vera hugaður þegar maður er einmitt ekki að horfast í augu við dauðann. Þegar maður hefur hefur einmitt ekki misst ástvin þar sem sár söknuður kemur upp oft löngu seinna. Aldrei aftur að hittast eða sjást.
Ég gleymi ekki frásögn vinkonu minnar sem er hjúkrunarfræðingur. Hún kom eitt sinni á vakt þar sem einn maður hafði dáið. Sá hafði ekki viljað prest en svipurinn sem greipaðist á andlit hans er hann dó sagði allt sem segja þurfti. Hann var skelfingin uppmáluð. Hann var ekki tilbúinn að deyja, hafði enga von. Mér þykja slíkar sögur alltaf svo sorglegar. Eflaust hefur þessi maður verið hugdjarfur yfirlýstur trúleysingin á lífsárum sínum.
Hinsvegar snýst trúin ekki bara um sáluhjálp, heldur einnig um að lifa í kærleika hér á jörðu, í samúð og samkennd með náunganum. Velja frið fram yfir stríð. Hafi maður gert það, þ.e. glatt aðra með lífi sínu og gefið af sér, er maður eflaust eins sáttari við þau spor sem maður skilur eftir sig er maður deyr. Hafi maður hjartað með þeim er þjást og er tilbúinn að leggja á sig fyrir aðra. T.d. gefa til styrktar þeim hjálparstörfum sem hafa sýnt sig að gefa af sér góða afkomu og lífsbjörg, kristnar eða ekki...
Athugasemd Bryndísar veitir góða innsýn í huga trúmannsins, smekk og ályktunarhæfni hans. En upp á síðari tíma er rétt að halda til haga hvert samhengið er en það er falið í athugasemd hennar við aðra grein.
Er smekklaust og ógeðfelt að bæta við hugvekjuna hans Reynis, hugvekju minni um dauða í skugga vantrúar? Ég var að deila þessu með ykkur af hjarta. Mér fannst þetta virkilega sorglegt hvernig þessi maður dó, ekki endilega að hann hafi ekki trúað heldur það hvernig hann, þegar hann skyndilega stóð andspænis dauðanum fylltist skelfingu.
En eflaust hafið þið einhver svör við því, sem þið boðið ykkar fylgjendum til huggunnar. T.d. þegar ykkar meðlimir standa frammi fyrir dauðanum, munu þá einhverjir aðilar á ykkar vegum koma á staðinn og hugga þá með ykkar heimspeki? Stappa í þá stálinu?
En það er einmitt það sem sálgæslan gerir á vegum kirkjunnar. Margir þakka djáknum og sálgæsluprestum friðsælan dauða dag og aðstandendur úrvinnslu sorgar. Sorgin getur auðveldlega yfirbugað sterka einstaklinga hafi þeir engin svör um hvað taki við.
Bryndís, smekkleysi þitt felst í því að gefa í skyn að sé maður trúlaus megi hann eiga von á skelfilegum dauðdaga. Svipur nýlátinna fer áreiðanlega ekki eftir afstöðu þeirra til trúarbragða.
Þú segir eina sögu frá annarri hendi og dregur af því víðtækar og rangar ályktanir.
þegar ykkar meðlimir standa frammi fyrir dauðanum, munu þá einhverjir aðilar á ykkar vegum koma á staðinn og hugga þá með ykkar heimspeki? Stappa í þá stálinu?
Nei, enda erum við ekki með á annað hundrað starfsmenn á launum hjá ríkinu og fáum ekki fimm þúsund milljónir á ári til slíkra starfa.
Finndist þér fráleitt að ríkið greiddi sálfræðingum laun til að "stappa stálinu" í fólk í erfiðri stöðu, svo sem eins og á sjúkrahúsum eða fangelsum? Væntanlega ekki. Geturðu mögulega séð að kannski væri réttara að greiða slíkum fagmönnum fyrir svona verk Í STAÐ þess að hafa presta til þess?
Eða finnst þér eðlilegt að ríkið mylji alveg sérstaklega undir þá sem trúa á guðinn þinn og skilji hina eftir úti í kuldanum?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ásta Elínardóttir - 02/12/09 11:02 #
Heyr heyr!
Mér finnst það einmitt svo notaleg hugsun að það er bara þetta líf og svo búið.