Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ekkert grænmeti, takk

Höfundur: Daniel C. Dennet Grænmeti

Vandamálið er ekki að fólk telji sig hafa „einkarétt á sannleikanum.“ Vandamálið er þegar einhver felur sig bak við „trú“ eða „dulspeki“ eftir að honum er bent á mótsagnir í málflutningi sínum. Aristóteles orðaði þetta vel fyrir 2000 árum: þegar kom að því að manneskja byrjaði að hunsa mótsagnir spurði hann sig „hver er þá munurinn á þeim og grænmeti?“

Allir þátttakendur í heiðarlegu samtali verða að koma sér saman um það frá byrjun að „tromp“ þeirra trúarbragða eiga ekki við. Hvað með það þó að Biblían eða Kóraninn segi eitthvað ákveðið? Það samþykkja ekki allir þessar bækur sem fullkominn sannleik þannig að það væri einfaldlega dónalegt að vitna í þær.

Þeir sem trúa því að þessar bækur séu fullkomnar eiga erfitt verkefni fyrir höndum: að sýna okkur hinum fram á, staðhæfingu fyrir staðhæfingu, að þær innihaldi sannleikann, út frá sameiginlegum grunnpunkti.

Hver er þessi sameiginlegi grunnpunktur? Til viðbótar við mótsagnabannið, talnareikning og önnur álíka algild hugartól, eru margar ófrumlegar staðhæfingar sem allir eru sammála um að eru sannar: fólk þarf að borða mat til að lifa af, sársauki er óþægilegur (miðað við annað), fílar og mýs eru spendýr, Jörðin er nokkurn vegin hnöttur, sólkerfið okkar er í Vetrarbrautinni... Við getum leitað aftur til þessa sameiginlega grunnpunkts hvenær sem við lendum í því að vera ósammála um einhverjar staðreyndir, og unnið úr þeim út frá honum.

Fólk sem getur ekki tekið þátt í opnum og víðsýnum samtölum sem þessum trúar sinnar vegna er í vissum skilningi fatlað: Það gæti verið hið viðkunnalegasta fólk, en það er vanhæft í opnum samræðum og verður því að fá að sleppa þátttöku. Kannski er hægt að finna einhvern sem getur talað fyrir þeirra hönd sem ræður við að lúta hinum einföldu reglum almennrar umræðu.


Upprunalega pistillinn má finna hér

Valdimar Björn Ásgeirsson 30.10.2009
Flokkað undir: ( Erlendar greinar )

Viðbrögð


Björn Ómarsson - 30/10/09 16:07 #

Góð grein og vel þýdd.

En mig langar að mótmæla notkuninni á orðinu "þroskaheft" í seinustu málsgreininni. Ekki nóg með það að þetta orð sé mjög gildishlaðið, heldur finnst mér það ekki lýsa því sem Dennet skrifar. Orðið sem Dennet notar er "disabled", sem ég myndi vilja sjá þýtt sem "fatlað", "andlega fatlað", eða jafnvel "félagslega fatlað".


Sævar Már - 30/10/09 17:02 #

Sammála síðasta ræðumanni.


Valdimar (meðlimur í Vantrú) - 30/10/09 17:42 #

Þakka ykkur fyrir ábendinguna, ég hafði greinilega ekki nógu góða tilfinningu fyrir muninum á þessum orðum. Fatlað passar mun betur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.