Á morgun, fimmtudaginn 29. janúar, verða tónleikar í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði klukkan 20:00 og er búist við að þeir klárist um 22:00. Spilaður verður svartmálmur og fleira. Hljómsveitirnar Monuments, Kvöl, Abominor og Carpe Noctem koma fram, frítt verður inn og opið fyrir alla aldurshópa.
Hér er lítil tilkynning frá tónleikahöldurum:
Þessir tónleikar munu sérstaklega standa fyrir aðskilnaði ríkis og ríkiskirkju. Mætið og sýnið stuðning ykkar! Undirskriftalisti verður til staðar. Allir þeir sem vilja sýna stuðning með því að vera með lesefni o.fl. til dreifingar eru velkomnir.
Félagar á vegum Vantrúar verða væntanlega á svæðinu með skráningarblöð ef fólk þarf. En tilkynningin heldur áfram:
Bandormur í iðrum ríkisins!
Við viljum aðskilnað ríkis og kirkju!
Kirkjan er sníkjudýr! Við neitum að eyða skattfé okkar í ríkiskirkjuna!
Ríkiskirkjan er rekin á fjármagni frá íslenska ríkinu og skilar aldrei arði. Hún er peningavaskur sem borgar sig engan veginn, sérstaklega ekki fyrir jafn skuldugt ríki og Ísland er nú orðið. Kirkjan er bandormur í iðrum ríkisins, hún étur og étur til þess að vaxa sjálf og gefur ekkert til baka, á meðan að hýsillinn veslast upp og þjáist. Íslenska ríkið og þjóðin öll hafa mikilvægari stofnanir sem þarf að styrkja – eins og t.d. heilbrigðiskerfið! Aðskilnaður ríkis og kirkju þjónar hinum íslenska almenningi best!
Ríkiskirkjan boðar guðstrú en stundar Mammonsdýrkun!
Ríkiskirkjan eru eiginhagsmunasamtök, gegnumrotin eins og spillt auðvald þjóðarinnar. Meginmunurinn er að ríkiskirkjan felur sig á bakvið guð sem hún tilbiður í nafni valds og peninga og úrelt siðalögmál sem hún fylgir hálfshugar, allt til þess að fita rassgatið á sjálfum sér, allt í nafni Mammons. Óafsakanleg ofurlaun presta og grand framkvæmdir kirkjunnar ber þar helst að nefna. Nei! segjum við! Nei! Við neitum að borga fyrir Mammonsdýrkun kirkjunnar!
Ríkiskirkjan er enginn siðgæðisáttaviti!
Ríkiskirkjan gefur sig út fyrir að vera mikill siðgæðisáttaviti. Getum við treyst stofnun sem segir guðs orð vera 2000 ára gamlan siða- og lagabálk, fullan af fordæmingum, kenningum og duttlungum fornaldarveröldinnar? Eru slík ólög virkilega hafin fyrir ofan allar þær siðferðis- og samfélagslegu þróanir sem hafa átt sér stað eftir ritun Nýja Testamentisins? Samfélagið þarf ekki á kirkjunni að halda til þess að hér ríki gott og sanngjarnt samfélag með góð gildi að sjónarmiði. Við þurfum ekki á ógnandi refsihönd guðs að halda til þess að láta gott af okkur leiða!
Ríkiskirkjan er ekki ofar lögum manna!
Kirkjunar menn telja sig vera ofar lögum manna og sýna það í verki. Helst ber að nefna þagnarskyldu presta, þar sem þeim er ekki skylt (samkvæmt þeirra eigin lögum) að tilkynna misnotkun, ofbeldi, nauðganir og svipuð brot til viðeigandi yfirvalda. Nei, þeir skýla sér bak við 2000 ára gamla ritningu og segjast vera hér sem fulltrúar Jesú Krists! Þar sem að þeir þurfa aðeins að svara til almættisins, þar sem þeir sitja hér sem guðlegir fulltrúar, þá réttlæta þeir þagnarskyldu presta sem brýtur lög manna! Samkvæmt lögum er prestum skylt um að tilkynna þau brot sem upp hafa verið talin, þeir telja sig vera fyrir ofan þau hafin!
Nánar um:
Mammonsdýrkun kirkjunnar
"Þagnarskyldu presta"
Meirihlutagoðsögnin
via Taflan.org
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.