Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Illskuvandamálið og réttlátur Guð

Vandamál illskunnar reynist kristninni mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að sætta við kenningar sínar. Ef Guð er til og er fullkomlega miskunnsamur, velviljaður og almáttugur, af hverju leyfir hann þá svo mikla illsku í sköpunarverki sínu? Ég hef mikið spáð í þessa mótsögn síðustu daga.

Gömlu heiðnu trúarbrögðin voru, eftir því sem ég best skil, eins konar ofurhetjutrúarbrögð. Guðirnir voru í grunninn mannlegir, nema þeir voru ódauðlegir og höfðu ofurkrafta. Guðirnir þurftu að taka afleiðingum gjörða sinna. Gömlu sögurnar snúast margar um að einhver guðanna gerir skyssu (stelur fjársjóði frá dverg, drepur saklausan mann eða eitthvað álíka), og viðkomandi guð sýpur þá jafnan seyðið af þeirri gjörð.

Lykilatriðið er að þarna er ekki innifalin nein skilgreining á góðu eða illu - bara orsök og afleiðing - og að allt siðferði er siðferði sem menn móta sér á eigin spýtur út frá venjulegum, veraldlegum forsendum.

Í kristinni trú er Guð hins vegar skilgreining réttlætis, miskunnsemi og góðvildar. Ef Guð gerir eitthvað sem okkur virðist vera ranglátt, grimmilegt eða illskulegt, þá höfum við rangt fyrir okkur, því samkvæmt skilgreiningu hefur Guð alltaf rétt fyrir sér. Guð er frjáls til að gera það sem hann vill og þarf ekki að réttlæta sig fyrir dauðlegum mönnum, jafnvel þegar hann brýtur á siðferðiskennd okkar eða setur okkur lög sem okkur virðast ranglát.

Réttlæti Guðs er þannig yfirnáttúrulegt réttlæti sem er algerlega óháð jarðnesku siðferði. En hvernig réttlæti er það? Myndir þú eða ég kalla það réttlæti eða ranglæti? Er það virkilega þannig að sá hafi sjálfkrafa réttlætið sín megin sem hefur valdið?

Jobsbók Gamla testamentisins fjallar um Job, réttlátan og góðan mann í öllum skilningi. Guð leyfir Satan (sem er auðvitað það sama og að gera það sjálfur) að drepa börnin hans tíu, þurrka út öll auðæfi hans og pynta hann með hræðilegum sjúkdómi (án þess þó að leyfa honum að deyja). Bókin endar reyndar á því að Guð læknar Job og gefur honum ný börn og ný auðæfi, en það breytir ekki einu:

Þarna framdi Guð illvirki. Þarna gerði Guð eitthvað sem æpir á siðferðiskennd flestra skyni gæddra jarðarbúa sem tilgangslaus grimmd, illska og óréttlæti. Þetta er óumdeilanlegt í tilviki Jobsbókar - við gerum auðvitað ráð fyrir að Biblían sé sönn í umfjöllun sem þessari.

Niðurstaða Biblíunnar (t.d. Jobsbókar, þar sem hún tekur illskuvandamálið sérstaklega fyrir) er á hinn bóginn sú að Guð er réttlátur, og að öll mannleg viðmið góðs og ills eru ómerkileg - Guð á lokaorðið.

En hvernig skilgreinist þessi siðferðiskennd okkar sem er í þessu tilviki ósammála Guði? Ég held að á dýpsta stigi (þ.e. fyrir utan lög, reglur og hefðir samfélagsins sem við búum í) eigi hún uppruna sinn í eðlisávísun okkar; á hliðstæðan hátt og við greinum á milli tónlistar sem okkur líkar eða líkar ekki við greinum við milli góðs og ills. Ef Guð drepur saklaust fólk af ástæðulausu, þá segir eðlisávísun mér að það sé ekki tónlist að mínu skapi.

Og þá erum við komin að kjarna málsins. Siðferði er ekkert nema siðferðilegt fegurðarskyn, og ef eitthvað brýtur hrottalega gegn því fegurðarskyni er það samkvæmt (jarðneskri, ekki kristinni) skilgreiningu ekki „gott”. Það eitt að Guð á að geta lostið mig niður með eldingu þýðir ekki að hann hafi rétt fyrir sér í siðferðilegum álitaefnum þegar við erum ósammála, því hugtakið „rétt” er eitthvað sem sérhver mannvera hlýtur að skilgreina út frá eigin siðferðiskennd.

Afleiðing þessa er að Guð telst ekki algóður innan ramma sígilds vestræns siðferðis - morð hans á börnum Jobs ein og sér væru nóg til að veita honum hámarksrefsingu í flestum vestrænum réttarkerfum ef hann væri dauðlegur maður. Flest kristið fólk myndi hrækja á slíkan mann - forhertan morðingja - ef það sæi hann ganga hjá á götunni, mann sem gerði ekkert meira af sér en sá Guð sem sama fólk tilbiður.

Adam og Eva borðuðu af Skilningstrénu, svo samkvæmt því ættum við að geta greint gott frá illu. Það hlýtur þá að eiga við um athafnir Guðs. Eða eru morð bara ósiðleg ef dauðlegir menn fremja þau?

Af þessu öllu leiðir:

Annað hvort er Guð kristninnar ekki til, eða hann verður að teljast óréttlátur samkvæmt eina mælikvarðanum sem við eigum: Siðferðiskennd okkar, sem Guð á að hafa gefið okkur.

...og þá er nú flottara að vera trúleysingi í báðum tilvikum, því enginn ætti að krjúpa fyrir ranglátum Guði.

Þórarinn Sigurðsson 07.01.2009
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


DoctorE - 07/01/09 09:51 #

Guð var í besta falli forn einræðisherra, fólk er faktískt að dýrka svona gamla Hitlers týpu :)


Henni - 07/01/09 10:54 #

Guð er ekki til, allavega ekki í þeirri mynd sem kristindómur hefur gert sér og hér tala ég ekki út frá neinum efasemdum heldur köldu og yfirveguðu mati á því sem fram kemur í biflíunni og því sem kristin trúfræði snýst um og er allfjarri raunveruleikanum, í raun fjarstæðukennt enda litað af hugmyndaheimi akuryrkjusamfélaga mið-austurlanda frá fyrsta árþúsundi fyrir hið vestræna tímatal með leifum frá öðru árþúsundi ef ekki öðrum tímaskeiðum líka lengra aftur.

Flest trúarbrögð deila sameiginlegum trúarlegum einkennum sem hafa fengið að þróast smátt og smátt í tugi árþúsunda og ég sé ekkert nema leifar þess í dag og þar með ófullkomnun.

Guð eins og kristnir vilja meina að sé almætti er blekking og þar með ætlaða réttlæti og óréttlæti þessarar fígúru.


mofi - 07/01/09 14:11 #

Ég reyndi að útskýra hvernig ég sé þetta vandamál hérna: Vondur heimur sama sem vondur Skapari?

Þarna framdi Guð illvirki. Þarna gerði Guð eitthvað sem æpir á siðferðiskennd flestra skyni gæddra jarðarbúa sem tilgangslaus grimmd, illska og óréttlæti. Þetta er óumdeilanlegt í tilviki Jobsbókar - við gerum auðvitað ráð fyrir að Biblían sé sönn í umfjöllun sem þessari.

Að sleppa verndarhendi af einhverjum er ekki hið sama og ráðast á einhvern. Síðan ef þú tekur Guð inn í myndina þá er lífið hérna á jörðinni aðeins andartak sem þjónar eilífum tilgangi. Ef Guð lætur einhvern lenda í erfiðleikum þá að minnsta kosti trúi ég því að það er viðkomandi til blessunar; ekki kannski í þessu lífi en í því næsta.

Ef Guð drepur saklaust fólk af ástæðulausu, þá segir eðlisávísun mér að það sé ekki tónlist að mínu skapi.

Tvær spurningar vakna hjá mér þegar ég les þetta. Fyrsta er, heldur þú virkilega að þetta fólk var saklaust? Að viðkomandi er ekki sekur lygar, þjófnað, hatur og græðgi? Seinni spurningin er hvort að ef Guð er til, hvort Hann hafi rétt á því að dæma Sína sköpun?


Arnold - 07/01/09 14:41 #

Mófi mættur :)

Tvær spurningar vakna hjá mér þegar ég les þetta. Fyrsta er, heldur þú virkilega að þetta fólk var saklaust? Að viðkomandi er ekki sekur lygar, þjófnað, hatur og græðgi? Seinni spurningin er hvort að ef Guð er til, hvort Hann hafi rétt á því að dæma Sína sköpun?

Siðferði biblíunnar er sem sagt að það sé réttlætanlegt að drepa. Guð má sem sagt dæma sína sköpun og drepa í framhaldi af því. Siðferðisboðskapur biblíunar er afar vondur og guðinn líka. Það er greinarhöfundur meðal annars að fjalla um og Mofi staðfestir með þessu innleggi sínu.


DoctorE - 07/01/09 15:05 #

Að standa hjá og gera ekkert þegar einhver er í neyð er glæpur, hvort sem það er um að ræða menn eða guði.

Disclaimer Guðir eru ekki til, guð er snuð fyrir litla aula


Arnold - 07/01/09 15:24 #

Þakka doktornum fyrir að taka af már ómakið. Ég hugsaði svipað en kunni ekki við að skrifa það.

Samlíkingin við "snuð" hittir í raun naglann á höfuið.

Já og svo er voðalega ólíklegt að til sé karl á himninum sem dunar sér við að drepa fólk sem hann sjálfur skapði af því að fólkið er ekki eins og hann hafði hugsað sér. Þetta er bara barnalegt.


Sigurður - 07/01/09 15:37 #

Bara það að þessi tilbúni guð drekkti allri heimsbyggðinni í syndaflóðinu gerir þennan guðsóskapnað að mesta morðhundi veraldarsögunar. Hvernig dettur mönnum í hug að dýrka slíka ómynd? Góð grein hjá þér og sérstaklega athygisverð ábending að þegar hinir heiðnu guðir gerðu mistök þurftu að taka afleiðingunum og standa skil á þeim. Þar viðurkenndu menn að þeir voru ekki óskeikulir. Þeir tilbúnu guðir voru að auki miklu sterkari persónuleikar en ríkisguðinn.


Þórarinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/09 15:39 #

Áhugaverðar og málefnalegar spurningar, mofi. Ég skal reyna að svara þeim eftir getu.

Að sleppa verndarhendi af einhverjum er ekki hið sama og ráðast á einhvern.

Hér er ég ósammála þér. Ef maður vopnaður byssu spyr hvort hann megi fara út á götu og skjóta mann, og mun hlýða svari mínu sama hvort það verður já eða nei, þá er maðurinn ekkert nema morðvopn mitt. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að maðurinn skyldi deyja, sem er ekkert öðruvísi en að taka meðvitaða ákvörðun um að taka í gikk á byssu, sem í sjálfu sér drepur engan, en gefur samt samþykki fyrir að hleypa byssukúlunni í átt að fórnarlambi sínu.

Síðan ef þú tekur Guð inn í myndina þá er lífið hérna á jörðinni aðeins andartak sem þjónar eilífum tilgangi. Ef Guð lætur einhvern lenda í erfiðleikum þá að minnsta kosti trúi ég því að það er viðkomandi til blessunar; ekki kannski í þessu lífi en í því næsta.

Þetta er síðan eitthvað sem ég get ekki alveg svarað, því ef ég hef rétt fyrir mér og enginn Guð er til (ekki að ég telji mig geta þannig séð geta afsannað tilvist Guðs, frekar en grísku guðanna) þá falla þessi rök þín úr gildi, en ef þú hefur rétt fyrir þér í þinni trú þá er ljóst að ég get ekki skilið þá röksemdafærslu sem liggur að baki ákvörðun Guðs - dauðlegum manni, í fáfræði sinni, verður þá ómögulegt að móta sér „rétt” mat á hvort þetta var rétt eða rangt. En þá er allt siðferðismat mannkynsins hvort eð er úr leik, svo út frá mínum sjónarhóli verður þessi Guð aldrei réttlátur nema ég ákveði að hann hljóti að vera það. En með sömu röksemdafærslu væri þá líka hægt að „fyrirgefa” Guði hvað sem er, sama hversu illt það virðist okkur - nauðganir, pyntingar, limlestingar, you name it. Réttlæti og manngæska eru orð sem við mennirnir bjuggum til, og kannski eiga þau ekki við Guð, sem (ef hann er til) virðist klárlega vera handan góðs og ills í mannlegum skilningi.

Tvær spurningar vakna hjá mér þegar ég les þetta. Fyrsta er, heldur þú virkilega að þetta fólk var saklaust? Að viðkomandi er ekki sekur lygar, þjófnað, hatur og græðgi?

Hér er gert ráð fyrir að eins konar kosmísk réttlæting hljóti að vera til staðar á öllu sem Guð gerir, því samkvæmt skilgreiningu gerir hann alltaf það rétta í stöðunni. Það breytir því ekki að ég er mótfallinn dauðarefsingum, og er ekki sammála Guði í því mati hans að drepa fólkið fyrir glæpi sína, hverjir sem þeir voru. Nú, ef fólkið var saklaust, en dauðar þeirra voru nauðsynlegir „for the greater good”, þá spyr ég opinnar spurningar: Ef Guð er almáttugur, af hverju þarf hann þá að grípa til svo grimmilegra aðferða til að fá fram bestu niðurstöðu í þeim heimi sem hann skapaði?

Seinni spurningin er hvort að ef Guð er til, hvort Hann hafi rétt á því að dæma Sína sköpun?

Guð getur auglóslega gert allt sem hann vill, og maður gæti fært viss rök fyrir því að ef Guð skapaði allt, þá myndi hann svo sem koma út á núlli ef hann tortímdi öllum heiminum. Litlu maurarnir á grjóthnullungnum Jörð yrðu hins vegar kannski ekki jafnsáttir við þá ákvörðun - en þá erum við komin út í umræðuna um hvort sá sem valdið hefur hafi réttinn. Ef við höfum engan umsagnarrét, þá eru orðin „réttur” og „réttlæti” (orð búin til af mönnum) strax orðin merkingarlaus og þar með spurningin ógild (að mínu mati).

Ef þú ert ósammála siðferðismati mínu, þá get ég ekkert sagt við því. Siðferði er jú afstætt - alveg eins og tónlistarsmekkur - og þessi grein og þetta svar eru skrifuð út frá mínu siðferðismati. Áhugaverði punkturinn er að mér sýnist trú þín á Guð, réttlæti hans og líf eftir dauðann breyta siðferðismati þínu frá því sem langflestir myndu mynda sér í fjarveru Guðs til að trúa á.


Þórarinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/09 16:00 #

Sá ekki greinina sem þú tengdir á fyrr en núna. Eins og ég skil hana þá hefur Guð gríðarlega stórtæka áætlun fyrir heiminn, alla ætlaða til að koma sem mestu góðu til leiðar. Allt sem gerist er hluti í þessari áætlun.

Mér er óskiljanlegt af hverju Guð getur ekki gert framkæmd þessarar áætlunar mannúðlegri, fyrst hann er almáttugur og algóður. En það að mér sé það óskiljanlegt þýðir auðvitað ekki að ég hafi endilega rétt fyrir mér - málið er bara að ef við ætlum að fara með þessa umræðu á svona kosmískt plan, þá er allt mannlegt siðferði og mannleg þekking úr leik. Þetta verður alfarið trúaratriði.


mofi - 07/01/09 16:08 #

Siðferði biblíunnar er sem sagt að það sé réttlætanlegt að drepa. Guð má sem sagt dæma sína sköpun og drepa í framhaldi af því. Siðferðisboðskapur biblíunar er afar vondur og guðinn líka. Það er greinarhöfundur meðal annars að fjalla um og Mofi staðfestir með þessu innleggi sínu.

Ég mátti ekki láta svona efni fram hjá mér fara :)

Málið með að þegar Guð tekur líf frá einhverjum þá er Hann að taka það sem Hann sjálfur á. Sömuleiðis getur Guð verið að taka lífið frá viðkomandi aðeins í stutta stund því Hann mun gefa viðkomandi aðila það aftur. Hans dagar á þessari jörð voru aðeins styttir en eilífa lífið bíður eftir honum.

Ef Guð er til og Hann er uppspretta lífs þá hlýtur Hann að hafa rétt til að neita fólki um þá gjöf sem neitar að hætta sinni illsku, ekki satt?


mofi - 07/01/09 16:23 #

Hér er ég ósammála þér. Ef maður vopnaður byssu spyr hvort hann megi fara út á götu og skjóta mann, og mun hlýða svari mínu sama hvort það verður já eða nei, þá er maðurinn ekkert nema morðvopn mitt. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að maðurinn skyldi deyja, sem er ekkert öðruvísi en að taka meðvitaða ákvörðun um að taka í gikk á byssu, sem í sjálfu sér drepur engan, en gefur samt samþykki fyrir að hleypa byssukúlunni í átt að fórnarlambi sínu.

Það er ámælisvert af t.d. Sameinuðu þjóðunum að ekki vernda fólk þegar það er verið að slátra fólki fyrir framan nefið á þeim en ég var aðeins að benda á það, að það er munur á milli. Að ekki vernda og að ráðast á.

en ef þú hefur rétt fyrir þér í þinni trú þá er ljóst að ég get ekki skilið þá röksemdafærslu sem liggur að baki ákvörðun Guðs - dauðlegum manni, í fáfræði sinni, verður þá ómögulegt að móta sér „rétt” mat á hvort þetta var rétt eða rangt.

Það er alveg rétt að viðkomandi getur aðeins vonað og trúað að Guð sé kærleikur og það sem Hann gerði var gert í kærleika. Ég trúi t.d. því að við munum geta rannsakað það sem gerðist á jörðinni til að fá fullvissu um það að dómar Guðs voru réttlátir.

En þá er allt siðferðismat mannkynsins hvort eð er úr leik, svo út frá mínum sjónarhóli verður þessi Guð aldrei réttlátur nema ég ákveði að hann hljóti að vera það.

Af hverju segir þú það? Hefur þú ekki siðferði sem segir að það er rangt að stela, ljúga, myrða og nauðga? Hefur dómari ekki siðferðislegan rétt til að stöðva vont fólk og dæma það?

En með sömu röksemdafærslu væri þá líka hægt að „fyrirgefa” Guði hvað sem er, sama hversu illt það virðist okkur - nauðganir, pyntingar, limlestingar, you name it.

Ég myndi nú frekar búast við því að við gætum séð samræmi milli kærleika og réttlætis. Ég t.d. get ekki samrænt hugmyndina um eilífar kvalir syndara við kærleiks ríkan Guð svo ég hafni þeirri hugmynd algjörlega.

Hér er gert ráð fyrir að eins konar kosmísk réttlæting hljóti að vera til staðar á öllu sem Guð gerir, því samkvæmt skilgreiningu gerir hann alltaf það rétta í stöðunni. Það breytir því ekki að ég er mótfallinn dauðarefsingum, og er ekki sammála Guði í því mati hans að drepa fólkið fyrir glæpi sína, hverjir sem þeir voru

Ertu þá á móti því að fólk deyi úr elli?

, ef fólkið var saklaust, en dauðar þeirra voru nauðsynlegir „for the greater good”, þá spyr ég opinnar spurningar: Ef Guð er almáttugur, af hverju þarf hann þá að grípa til svo grimmilegra aðferða til að fá fram bestu niðurstöðu í þeim heimi sem hann skapaði?

Ég reyndi að útskýra að ástæðan er dómur yfir illskunni. Að þegar Guð eyðir allri illsku úr heiminum þá verður enginn vafi um að það var hið rétta því að illskan hefur sýnt sitt rétta andlit. Þessar grimmilegu aðferðir eru til að vara við því sem allir menn munu einhvern tíman horfast í augu við sem er þeirra eigin dauðdagi og dómur.

Ef við höfum engan umsagnarrét, þá eru orðin „réttur” og „réttlæti” (orð búin til af mönnum) strax orðin merkingarlaus og þar með spurningin ógild (að mínu mati).

Ég trúi því að allt þetta snúist um kærleika Guðs til okkar og Hans löngun til að eiga samfélag við verur með frjálsan vilja. Aftur á móti þeir sem vilja ekki samfélag við Guð geta ekki fengið líf þar sem að Guð er uppspretta lífs, sá sem gefur það.


Þórarinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/09 16:33 #

Gaman að þessu. Ég hef í raun engu nýju við svörin mín tvö og greinina að bæta hvað svör þín varðar, mofi, en ég held að það verði mjög fróðlegt fyrir lesendur að bera saman þá punkta sem við erum ósammála um.


ingolfur - 09/01/09 11:18 #

Skemmtileg umræða. Sjálfur er ég efasemdarmaður mikill varðandi trú og hef ekki getað gengist við nokkuri trú þó svo ég hafi velt fyrir mér öllum helstu spurningunum varðandi tilgang lífsins eins og við flest. Mér finnst þessi umræða áhugaverð út frá þeim útgangspunkti að fólk virðist vera að vakna til vitundar byggða á rökfræðilegum grunni um trú sem hefur að mínu mati veið í gegnum tíðina afar einstrengingsleg og þröngsýn. Mér finnst til að mynda gríðarlega langur vegur á milli skoðana hans Mofa og Þórarins varðandi réttlætingu Guðs til þess að taka mannslíf. Svo langur vegur að mig hálfpartinn hryllir við því. Að því sögðu verð ég að taka fram að ég er alfarið þeirrar skoðunar að réttlæting á drápi á engan rétt á sér hvort sem er hjá guði eða mönnum. Þessi skoðanaágreiningur er ástæða þess að ég skrifa þetta svar.

Ef menn ná að staðsetja sig á einhvern hátt á þeim stað þar sem réttlæta má morð er voðinn vís. Þetta er stærðarinnar vandamál. Versta birtingarmynd þessa er að sjálfsögðu sú að menn líma utaná sig sprengjur og rölta inn í stórmarkað, fljúga flugvélum á stórhýsi, labba með son sinn uppá fjall í þeim tilgangi að kveikja í honum eða eitthvað þess háttar í nafni einhvers æðra.....einhverjar heildarmyndar sem aðeins fáir geta útskýrt hvernig virkar sökum trúarlegrar innsýnar. Hvernær ætlar fólk að átta sig á því að þetta er beinlínis hættulegt. Á endanum eru það alltaf menn sem femja morð hér á jörðinni. Ef menn vilja réttlæta það á einhvern hátt eru þeir að mínu mati hættulegir samfélaginu.

Þórarinn talar um tengsl tólistar og mannlegra gilda sem lúta okkar eðlisávísun. Fyrir mér þarf að fara með þetta lengra. Tónlistarsmekkur fólks er algerlega þeirra eigin. Maður hlustar og dæmir. Hins vegar þarf í samfélagi fólks þarf að hafa ákveðnar reglur. Ein þeirra er að banna morð. Þetta er nauðsynlegt til þess að vernda hagsmuni okkar allra einnig sem daglegt líf okkar gerir einfalda kröfu um að sleppa því að drepa. Hlutir leysast einfaldlega betur fyrir alla aðila til lengri tíma litið ef menn ræða málin í stað þess að ganga á hólm. Fyrir mér er þetta borðleggjandi dæmi. Ég þarf engan guð til þess að segja mér þetta. Aftur á móti getur mér fundist skemmtilegra að hlusta á Bubba en Sigurrós án þess að særa nokkurn mann, líkamlega eða andlega.

Daginn sem menn hætta að kíta um trúmál er dagurinn sem menn átta sig á því að betra er að eyða tímanum í að gera heiminn betri út frá einföldum mannlegum gildum en að rífast um hvort guð er til eða ekki. Einn daginn kemur í ljós að einhver hafði algerlega rétt fyrir sér. En þangað til hef ég ákveðið að reyna að láta gott af mér leiða á einhvern hátt því ég TRÚI að það sé uppbyggilegt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta svar er frekar snubbótt og rökstuðningi ábótavant en ég gat ekki orða bundist. Hef í hyggju að koma sjónarmiðum mínum á framfæri seinna þá í formi innsendrar greinar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 09/01/09 16:18 #

Endilega tjáðu þig. Þó ég sé ekki endilega sammála þér.


Benedikt - 09/01/09 21:16 #

Það er ámælisvert af t.d. Sameinuðu þjóðunum að ekki vernda fólk þegar það er verið að slátra fólki fyrir framan nefið á þeim en ég var aðeins að benda á það, að það er munur á milli. Að ekki vernda og að ráðast á. Munurinn á sameinuðu þjóðunum og guði er sá að guð er almáttugur og alvitur. Það er alveg rétt að viðkomandi getur aðeins vonað og trúað að Guð sé kærleikur og það sem Hann gerði var gert í kærleika. Ég trúi t.d. því að við munum geta rannsakað það sem gerðist á jörðinni til að fá fullvissu um það að dómar Guðs voru réttlátir. Nú er það þannig hjá mér að ég hef afneitað guði eins og margir á þessari síðu(hálfgert ritual sem ég fór í gegnum 15 ára, heh), og ef ég man rétt, þá hef ég þannig tryggt mér eilífa vítiskvöl. Taktu eftir; eilífa. Allt því ég byrjaði að nota rökhugsun og hef notist við hana síðustu ár, en þó er ég tiltörulega saklaus að því leiti að ég reyni ekki mikið að skaða annað fólk. Og samt elskar guð mig, á meðan ég kvelst, og andstyggilegra fólk kemst til himna með þann stikkfría passa að vera kristin.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/01/09 22:55 #

Vanræksla er alvarleg. Fátt hefur verri áhrif á börn en vanræksla foreldranna.


mofi - 13/01/09 11:50 #

Benedikt, þú finnur ekki í Biblíunni eitt einasta vers sem segir að syndarar munu kveljast af eilífu. Þetta er því miður heiðindómur sem smyglaði sér inn í hluta af kristinni kirkju fyrir langa löngu.

Biblían er skýr að laun syndarinnar er dauði ( Rómverjabréfið 6:23 ) og við vitum öll að við munum deyja. Fögnuðurinn í Fagnaðarerindinu er að dauðinn hefur verið sigraður og eilíft líf gjöf sem Guð gefur hverjum sem leitar Hans.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/01/09 13:12 #

Mofi, takk fyrir hrósið á blogginu þínu en kynntu þér endilega fyrirlesturinn í grein dagsins, ekki síst með tilliti til eilífs lífs. Ég er viss um að Ehrmann veit sitthvað um boðskap Biblíunnar þar að lútandi.


mofi - 14/01/09 13:37 #

Reynir, takk fyrir ábendinguna á þennan fyrirlestur. Ehrmann er aðalega að glíma við þjáningar í þessum heimi og hann fjallar ekkert um það svar sem ég útskýrði í þessari umræðu. Hann glímdi lítið sem ekkert við eilífar þjáningar í helvíti þó það kæmi mér ekki á óvart að hann heldur að Biblían kenni það en ég er einstaklega ósammála þeirri niðurstöðu. Vill svo til að ég gerði grein um þetta efni á blogginu mínu í dag ef áhugi er fyrir hendi, sjá: mofi.blog.is

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.