Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2008

I

Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt,
og glóandi birtuna lagði yfir allt-
og aldirnar gegnum mér glóa hún virtist,
sem gegnsæ þýðing mér heimurinn birtist.

Árið 2008 var ansi tíðindamikið ár í trúmálum á landinu. Áður óþekktur trúarhiti í ýmsum stjórnmálamönnum gerði vart við sig - sumir sem síðar sögðu af sér - þegar umræðan um ný grunnskólalög áttu sér stað á Alþingi.

Ríkiskirkjuprestar og -biskup héldu áfram að reyna hamra á því bölvaða og skammarlega rugli að án trúar sé fólk því sem næst tilfinningalaust (það getur bara hatað býst ég við) en þannig málflutningur er aðeins til smánar og minnkunar. Einn hatrammasti verndari og haturspostuli kristna siðsins á landinu féll frá í lok ágúst. Ýmis mál komu upp sem skóku innviði ríkiskirkjunnar. Fólk hélt áfram að segja sig úr ríkiskirkjunni. Og Vantrú varð fimm ára.

Í þessum annál verður reynt að stikla á stóru með því að vekja athygli á því helsta sem henti síðasta ár, vísa í valdar og góðar greinar sem voru skrifaðar, benda á hvað Vantrú hafðist fyrir í fyrra og reyna krydda þennan vaðal með einhverju léttu og skemmtilegu efni.

En byrjum á Vantrú.

II

Einsog ég nefndi hér fyrir ofan þá átti Vantrú fimm ára afmæli í fyrra og þó það hafi ekkert verið haldið uppá það með pompi og prakt - t.d. með sérstökum styrk frá forsætisráðuneytinu - þá tóku nokkrir sig til og skemmtu sér ærlega. Svo fengum við sæmilega óvænta og ágæta gjöf frá nokkrum frændum okkar í Færeyjum sem tóku sig til og stofnuðu formlegan félagsskap trúleysingja er fékk heitið Gudloysi.

Nemendur hjá Menntaskólanum í Reykjavík og Borgarholtsskóla spurðu Vantrú hvort að félagar á vegum þess væru til í að halda fyrirlestur um kristilegar kennisetninga, kukl og kjaftæði. Vitaskuld var kallinu svarað og auk þess má maður minnast á og ítreka að við erum alltaf til í halda fyrirlestur fyrir þá sem vilja.

Hin árlegu Ágústínusarverðlaun voru veitt í lok janúar til aðila sem stóðu sig frábærlega í guðfræðilegum vísindum (m.a. í skammtaguðfræði). Í mars var annar árlegur viðburður sem var hið margumrómaða bingó á föstudaginn langa. Það er merkilegt frá því að segja að sumir sjá enn rautt yfir þessum saklausa og meinlausa gjörningi.

Hávær og öfgafullur minnihluti innan Vantrúar klauf sig úr félaginu og stofnaði vefritið Andkristni. Við vitnuðum í Richard Dawkins til að reyna þjappa saman hópinn sem var eftir í Vantrú og auðvitað var þetta alveg gríðarlega vel heppanð aprílgabb.

Vantrú hefur náð að aðstoða um 750 manns við að leiðrétta trúfélagsskráningu og með þessari þjónustu höfum við vonandi náð smá vitundarvakningu meðal landsmanna. Við stefnum á að ná þessari tölu uppí 1000 fyrir árslok 2009. Þó eru rúmlega 80% þjóðarinnar enn skráð í ríkiskirkjunna sem er verulega á skjön við trúarlíf landans. En þó má maður til með að taka það fram að nýjustu tölur um trúfélagsskráningu eru enn óbirtar. Félagar á vegum Vantrú munu halda áfram með þessa samfélagsþjónustu, einsog gert hefur verið á 17. júní, Gay Pride og Andkristnihátíð svo fátt eitt sé nefnt.

Bókaútgáfan Raun ber vitni leit dagsins ljós með útgáfu á bókinni Andlegt sjálfstæði, en fleiri bækur á vegum RBV eru eflaust væntanlegar á komandi árum.

Formaðurinn gat ekki stillt sig við að troða sér í fjölmiðla, einsog honum er nú einum lagið. Á einhvern dularfullan hátt fékk hann útvarps- og blaðafólk beinlínis til þess að hringja í sig og spurja hann um álit á ýmsum málum. Það er aldeilis uppá manninum typpið. En hann fór til þeirra Kollu og Heimis í Í bítinu á Bylgjunni í kjölfarið á ummælum Ásgeirs Ingvarssonar varðandi Hvítasunnutónleika í sjónvarpinu og það sem þau í Í bítinu höfðu um það mál að segja. Ekki var nóg fyrir hann að mæta þarna einu sinni heldur mætti hann tvisvar!. Síðar um árið var hann bara útum allt í DV.

III

Prestastefnan í fyrrasumar var töluvert á milli tannana á fólki, ekki útaf svartstökkunum sérstaklega, heldur útaf hinum óvænta gesti sem var sjálfur Svarthöfði.

Trúverndarinn Alister McGrath kom til landsins og hélt fyrirlestur á vegum guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands í september. Nokkrir "fúndamendalistar" mættu á þessa uppákomu til að hlýða á hjalið, en svo virtist að það var lítið uppúr því að fá annað en ítrekaðar rangfærslur um Richard Dawkins og illa skrifaða og arfaslaka bók.

Jón Magnússon og Guðni Ágústsson hræsnuðust á síðasta ári, en það er náttúrulega ekkert nýtt af nálinni þegar þingmenn hræsnast líkt og prestar. Jón vildi að ekki það yrði níðst á reykingarmönnum - en er alveg sama um trúlaust fólk og börnin þeirra líka. Guðni vildi að dómur Mannréttindadómstóls yrði virtur vegna kvótakerfisins - en auðvitað ekki dóm sama dómstóls sem dæmdi trúlausum í hag. Aðrir eru sosum við sömu sökina seldir. Geir H. Haarde bað Guð um að blessa landið, kannski svo hann þurfti ekki að taka neina ábyrgð sjálfur.

Og kirkjan krefur ríkið um milljónir. Enda er þetta svo fjársvelt stofnun. Eða þannig.

Börn

Snemma árs 2008 var séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, kærður fyrir að skíra barn í leyfisleysi. Fréttablaðið greindi frá þessu þann 27. mars. Presturinn gerðist svo sekur um siðferðis- og lögbrot en þó verður endanlega ákvörðun um þetta mál ekki tekið fyrren á Kirkjuþingi á þessu ári.

Jafnréttisstofa sendi frá sér álit þann 1. desember sl. þar sem hún "telur ákvæði laga um sjálfkrafa skráningu barna við fæðingu í trúfélag móður „tæpast“ í samræmi við jafnréttislögin." Í kjölfarið á þessu áliti kom Katrín Jakobsdóttir með fyrirspurn til dóms- og kirkjumálaráðherra þar sem hún spurði:

Telur ráðherra ástæðu til að breyta ákvæðum laga þannig að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag þegar og ef þeir kjósa svo, í samræmi við það álit lögfræðings Jafnréttisstofu að sjálfkrafa skráning barna í trúfélag móður standist tæpast jafnréttislög?

Við í Vantrú bíðum spennt eftir svari frá Birni.

IV

Það sem var einna helst í deiglunni hjá okkur í Vantrú voru fjármál kirkjunnar, kreppan, nýju grunnskólalögin og Vinaleið. Hér verður gerð smá samantekt á þeim málum öllum.

Grunnskólalögin

Það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði.
-Guðni Ágústsson

Þessi orð Guðna Ágústssonar, fyrrum þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, er ein aumkunarverðustu rök fyrir því að kristni - bara í einhverri mynd - fengi að halda sér í grunnskólalögum. Enn aumkunarverðara var það þegar Guðni reyndi að fegra þessi orð í skjóli næturs síðar um árið því honum fannst þau svo yfirgengileg.

En hann var ekki sá eini sem varð vitstola í þessu máli öllu. Skemmst er minnast á orð Kristins H. Gunnarssonar við upphaf þessa einkennilega hitamáls um "að setja alla við sama borð án tillits til stöðu þeirra í þjóðfélaginu [væri] fráleitt!" Árni Johnsen veifaði biblíuna þegar hann stóð við ræðupúltið. Annar fyrrum þingmaður, lygamörðurinn Bjarni Harðarson, skrumskælti málflutning Siðmenntar og Vantrú varðandi þetta mál. Svo má ekki gleyma upphafsmanni í þessum farsa, sem var Sigurður Kári Kristjánsson. Og hvað var það sem kveikti í þessu geðveikisástandi þingmanna?

[...]að starfshættir grunnskólans skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. #

Þetta var nú öll herlegheitin sem varð uppsprettan af þessari trúarfrekju og væli. Og hver var niðurstaðan?

Til að stemma stigu við eitthvað sem aðeins var í kollinum á þessum bjánum , einhverskonar ímynduð hræðsla við fjölmenningu og eflaust íslam líka þá var tekið uppá það ráð að starfshættir grunnskóla skulu líka mótast af "kristilegri arfleið íslenskrar menningar" þá verður allt miklu betra og það ótrúlega var að þessi breytingartillaga var samþykkt. Það var sko sannarlega miðaldarmyrkur á Alþingi síðasta vor.

Það má vera að sumum finnist þetta vera smámál, ekkert til að æsa sig yfir. Samt er góð ástæða til að staldra við og skoða þetta í því ljósi hvort að ríkiskirkjan muni nýta sér þessa klausu til að koma sér betur fyrir í grunnskólum, t.a.m. með Vinaleiðina og aðra trúarlega innrætingu, líkt og trúlausir foreldrar fengu að upplifa þegar sjö ára sonur þeirra sagði "Amma, ég er sá eini í minni fjölskyldu sem trúi á guð".

Er virkilega svona gríðarlega flókið að leyfa foreldrum að sinna sínu uppeldi sjálf? Þarf virkilega að taka það fram, trekk í trekk, að grunnskólar eiga ekki að vera trúboðstofnanir? Það stendur í lögum! Maður hreinlega veit ekki hvort að sumum prestum sé virkilega treystandi í kringum börn ef þeir telja sig hafna yfir barnaverndarlög.

Vinaleið og trúboð

Haustið 2006 hófst verkefni ríkiskirkjunnar í fjórum grunnskólum er fékk heitið Vinaleið. Hvað voru trúleysingjar, ásatrúarmenn, ungliðar í vinstri grænum og sjálfstæðisflokknum að æsa sig yfir þessu? Hvað var málið?

Starfsmenn á vegum ríkiskirkjunnar að starfa innan veggja opinbera grunnskóla hlýtur að teljast í hæsta lagi vafasamt. Aðallega útaf því að prestar og djáknar bera "að breyta í sérhverri grein eftir gildandi lögum um kirkjusiði, boða Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda vorrar evangelísk- lútersku kirkju" og að vígður var sérstakur skólaprestur til sinna einni Vinaleið. Í styttra máli þýðir þetta: Trúboð í grunnskólum. Það var málið og meira til.

Vorið 2007 samþykkti bæjaráð Garðabæjar að leita til sérfræðinga hjá KHÍ til að „meta réttmæti og gildi vinaleiðar“ og niðurstaðan var kunngerð. Vinaleið fékk falleinkunn. Hún var gagnrýnd fyrir að vera heldur stefnulaust, illa afmörkuð og illa ígrunduð, auk þess gagnrýndu skýrsluhöfundar:

[...] einnig aðferðafræði vinaleiðarinnar, þar sé farið inn á svið sem aðrir fagaðilar sinna þegar en án fagþekkingar með þeim afleiðingum að samstarf fagaðila innan skólans er í hættu. Ekki eru haldnar skýrslur eða skrár um viðtöl, engin markmið séu sett fram, engin greining, engin meðferðaráætlun. Fyrst og fremst er um einsleg trúnaðarsamtöl að ræða, jafnvel án vitneskju foreldra, og skýrsluhöfundar gagnrýna þessa aðferðafræði réttilega.

Hún er nýleg þessi ásókn kirkjunnar í grunnskóla og varla hægt að lýsa þessu öðruvísi en frekju og siðleysi og þessari annarlegri ásælni í grunnskólabörn verður einfaldlega að linna, ekki seinna en í gær.

Þetta er ekkert annað en glæpsamleg hegðun örfárra aðila - þetta er ekkert á gráu svæði, þetta jaðrar ekkert við glæpsamlegri hegðun, þarna er á ferðinni lögbrot, hreint og beint. Sem betur fer eru þó skólastjórnendur og kennarar að spyrna við þessari þróun. En betur má ef duga skal því það er greinilegt að sumir prestar ríkiskirkjunnar annaðhvort vita ekki hvað er í gangi eða gera sér upp fávisku þegar þeir halda því fram að meðal starfsmanna ríkiskirkjunnar sé ekki stundað trúboð - það felst í eðli kirkjunnar, hún er boðandi.

Boðun trúar í grunnskólum og leikskólum á ekki að líðast. Punktur. Þessu fólki veitir ekki af að lesa yfir kröfur fyrrum múslíma þar sem beðist er undan hverskonar trúarlegri ásælni og leggja svo nokkrar klausur á minnið úr Mannréttindasáttmála SÞ og sérstaklega Barnasáttmála SÞ til að mynda 14. grein:

1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.

Svo erum við varla búnir að hrófla við því sem er námsefnið í trúarbragðafræðslu í grunnskólum, en þar er eflaust eitthvað verulega rotið.

Fjármál kirkjunnar og kreppan

Við munum seint þreytast á því að vísa í það fjáraustur sem fer í jafn gagnslausa stofnun og ríkiskirkjan er. Til að mynda þarf ekki nema eina Kárahnjúkavirkjun til að kosta ríkiskirkjunna. Síðasta vor voru fjármál ríkiskirkjunnar einnig gerð nokkuð ítarleg skil í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Þessir hræsnarar og hrægammar predika hófsemi - og það var aldeilis hvað þeir predikuðu hófsemi í fjármálum í lok síðasta árs - en bruðla svo með peninga einsog það sé engin morgundagur. Nýtt orgel, nýjar kirkjur og nýjir jeppar verslað með þínum peningum. Auðvitað gagnrýnum við svona bjánaskap. Ekki sé minnst á að benda á það fleipur að prestar séu með laun á við framhaldskólakennara. Aukinheldur vísum öllu viðkvæmnishjali um að ekki megi gagnrýna þessi ofurlaun presta því þeir telja sig vera svo mikilvæga í samfélaginu aftur til föðurhúsana, enda eru aðrar starfstéttir mun mikilvægari, t.d. björgunarsveitin.

Það eru nákvæmlega engar forsendur fyrir áframhaldandi samspili ríkis og kirkju. Það er fyrir löngu búið að borga upp þessar kirkjujarðir sem þessi fjárkúgun er byggð á og gott betur. Það er löngu kominn tími til að endurskipuleggja þetta batterí allt og það ætti vera búið að skera á þessi tengsl fyrir langa lifandis löngu, sérstaklega á þessum erfiðu tímum.

V

Þetta var rúmlega árið hjá Vantrú. Að lokum má ég til með að vísa í fimmtán greinar sem, að mínu mati, stóðu uppúr árið 2008 - en þær voru margar mjög góðar:

Skaðast börn af trúarhugmyndum?
Forðast „nýju trúleysingjarnir“ „raunverulegu rökin“?
Sjálfhverfur þjóðkirkjuprestur
Glútamanía: MSG og Kínamatarheilkennið
Biskup Íslands, trúleysi og kærleikur
Er jörðin stóll?
Hver þarf óvini þegar hann á svona vini?
Sjö á dag
Kirkjur eru tímaskekkja
Mismunun vegna trúarbragða
Trúlausi guðfræðingurinn
Þjóðernislegur kirkjusósíalismi
Öfga-Karl Sigurbjörnsson
Athafnavani
Tækifærin í kreppunni

Svo hefur maður alltaf gaman af góðu glensi, en þessir fimm brandarar voru ansi góðir:

Erfitt samband
Kristin trú vs. trúleysi
Leiðtogaval í sólkerfi langt, langt í burtu
Trúlaus dómsdagur
Bænagangan 2008

Svo viljum við í Vantrú einfaldlega óska lesendum og landsmönnum gleðilegs árs. Auk þess vonum við hinn fámenni hópur sem er prestastéttin fari nú að haga sér skikkanlega og fari ekki að hrista meir uppí skólakerfinu eða spandera í einhverja vitleysu einsog útrásarvíkingar.

Þórður Ingvarsson 04.01.2009
Flokkað undir: ( Tilkynning )