Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skólastjórar verjast siðlausu trúboði

Börn þessa lands eru orðin bitbein hljóðrar baráttu sem háð er í skólum landsins. Setið er um saklausa hugi, lagt er til sálarlífs og sannfæringar barnanna okkar. Til annarrar handar er ófyrirleitin ríkisstofnun, þrútin af almannafé, af reynslunni lymskuleg og lævís. Til varnar eru hvunndagshetjur, heiðarlegir skólastjórnendur sem beita siðferðisstyrk og réttlætiskennd til varnar mannréttindum barnanna sem falin hafa verið í þeirra forsjá.

Baráttan um börnin

Trúboðar hafa alltaf skilið gildi þess að ná börnunum sem yngstum. Kristin trú er fáranleg eins og heilagur Ágústínus benti réttilega á og trúboð meðal sæmilega menntaðra og upplýstra fullorðinna einstaklinga, svona dæmigerðs kjósanda í lýðræðisþjóðfélagi, er heldur vonlítil.

Kristnir eru minnihlutahópur á Íslandi. Þeir sem trúa á upprisuna og fórnardauðann, himnaföður og frelsun trúaðra á hinsta degi eru innan við einn af hverjum tíu samkvæmt skoðanakönnunum. Þeir eru að vísu fleiri sem aðspurðir telja sig kristna, einn af hverjum tveimur. Ef þessar tölur eru heimfærðar yfir á venjulegan bekk í grunnskóla með 24 nemendur eru kannski tveir þeirra börn trúaðra foreldra. Aðrir tíu eru börn foreldra sem telja sig kristna en tólf nemendur eru börn forelda sem eru ekki kristnir.

Skólatrúboð er svar ríkiskirkjunnar. Ef foreldrarnir vilja ekki kenna börnunum kristna trú skulum við gera það, segja ríkisprestarnir. Sama er okkur þótt það gangi gegn hefðbundnum mannréttindum, lögum um grunn- og leikskóla, mannréttindasáttmálum og jafnvel almennu mannlegu siðferði. Við eigum laun okkar að verja!

Vopnaskak á vesturvígstöðvunum

Í nýlegri skýrslu Barna- og Unglingastarfs Neskirkju 2007-8 segir Sigurvin Jónsson umsjónarmaður frá því að starf með grunnskólanemum eigi sér stað utan skólanna. Melaskóli og Hagaskóli hafa ekki hleypt skólatrúboðunum inn í kennslustundir og skólastarf enda virða þeir rétt þeirra sem eiga börnin til að sjá um trúaruppeldi þeirra.

Í áðurnefndri skýrslu segir: “Í Neskirkjusókn eru 11 leikskólar og hefur það verið yfirlýst markmið kirkjunnar að sem flestir þeirra þiggi reglulega heimsókn frá kirkjunni.” Þar höfum við það, herjað skal markvisst á yngstu börnin. Að sögn Sigurvins felst í slíkri heimsókn “bænahald ... ég kenni Biblíusögur .. syng fyrir þau sígildan sálm ...”.

Til skamms tíma höfðu þrír af ellefu skólastjórum leikskólanna látið undan og hleypt trúboðanum í börnin. Nú ber svo við að nýr leikskólastjóri hefur tekið fyrir frekari trúboð og vísar til skýrslu Menntasviðs Reykjavíkurborgar um Samstarf skóla, trúar- og lífsskoðunarhópa frá 2007. Þeir eru því aðeins tveir eftir af 11, leikskólarnir sem trúboðinn fær að athafna sig í, og segir í skýrslunni að þetta sé með minnsta móti miðað við önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu.

Hernaðurinn opinberaður

Skýrsla Neskirkju segir meira en hún ætlar sér. Þrátt fyrir að leikskólatrúboð sé “yfirlýst markmið kirkjunnar” þá stendur mikill meirihluti skólastjóra vörð um raunverulegt hlutverk sinna stofnana. Trúboð á ekki heima í leik- og grunnskólum, það er bannað með lögum og gengur gegn mannréttindaskilningi og almennu siðferði.

En merkilegt hlýtur það að teljast að ríkisstofnum skuli hafa það að yfirlýstu markmiði að sækja með starfsmenn sína inn í vinnustöðvar annarra opinberra stofnana gegn vilja meirihluta stjórnenda og í mjög svo vafasömum tilgangi. Hvar er lagaheimild ríkisprestanna til að skipta sér af almennu skólastarfi og taka yfir hluta af kennslunni til að sinna trúboði – og oftar en ekki án þess að foreldrarnir viti af því?

Foreldrar sem aldrei fara með börnin sín í kirkju, hvað þá að halda að þeim bænaþrugli, þurfa að upplifa það ítrekað að börnin segi frá kirkjuheimsóknum og bænahaldi á skólatíma. Frekur en mjög svo fámennur hópur öfgakristinna ásamt tvö hundruð ofurlaunuðum ríkisstarfsmönnum telja sig hafa rétt til að brjóta mannréttindi á börnum og foreldrum – en til allrar hamingju standa skólastjórarnir (flestir) styrkir fyrir í vörninni.

Brynjólfur Þorvarðarson 30.07.2008
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Vésteinn - 30/07/08 21:28 #

Alveg sammála þér.....alveg ótrúlegt hvað kirkjan fær að vaða inn í leik og grunnskóla.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/07/08 21:50 #

Fólk er að vakna, sem betur fer. Það er alveg ljóst að trúboð á ekki heima í skólum. En í stað þess að bakka með reisn reynir kirkjan að ljúga sig inn á skólana og halda fram að markmið boðandi kirkju sé ekki boðun. Þetta er ekkert annað en hreinræktaður óheiðarleiki. Ósvífni kirkjunnar manna er við brugðið. Einhver hefði haldið að þar á bæ væri siðferðið í hávegum en það er nú öðru nær.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.