“Amma, ég er sá eini í minni fjölskyldu sem trúi á guð,” sagði 7 ára sonur minn við ömmu sína um síðustu jól. Svo vel hafði tekist til við trúboðið í hans grunnskóla og reyndar líka leikskólanum þar á undan. Við foreldrarnir erum trúlausir og okkur er ekkert vel við að skólinn sé að kenna honum trúariðkanir og trú á guð eins og um staðreynd væri að ræða. Við höfum hins vegar ekkert á móti því að hann læri kristinfræði. Í leik- og grunnskólum virðist hins vegar um beina innrætingu að ræða enda kann sonur okkar nú vel hvernig á að bera sig að, spenna greipar og “alltaf að segja amen þegar búið er að tala við jesú”.
Ég var ósáttur við þessa stöðu mála og setti mig í samand við einn presta kirkjunnar sem sonur okkar hefur sótt með leik- og grunnskóla sínum. Presturinn svarað í einni stuttri setningu, rétt eins og mig varðaði ekkert um þetta og sagði að þeir bæðust fyrir sem vildu. Kirkjan hefur verið duglega að afsaka sig með því að vísa til þess að þetta starf sé á forsendum skólanna. Þá talaði ég við skólastjórann en lítið var á því að græða. Ég sendi henni þrjár spurningar þar sem ég óskaði eftir að fá að vita hver hafi stofnað til þessa samstarfs, kirkja eða skóli. Ég fékk svar undir eins þar sem hún sagðist myndi svara þessu eins fljót og henni væri unnt. Margar vikur eru liðnar og henni hefur greinilega ekki unnist tími til að svara þessum einföldu spurningum þrátt fyrir ítrekun af minni hálfu. Þegar hér var komið við sögu gat ég ekki upplifað þetta öðruvísi en að þessu fólki fyndist mér ekki koma þetta við.
Ég sneri mér þá til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og lagði fram málið með ítarlegum rökstuðningi ásamt tilvitnunum í lög sem þetta starf brýtur gegn. Nefndin hafnaði því að fjalla um málið þar sem það þótti ekki vera kirkjulegt starf. Prestur í kirkju að kenna skólabörnum að biðja bænir er ekki kirkjulegt starf að mati þessarar ágætu nefndar. Ég sneri mér til umboðsmanns Alþingis sem svo hafnaði því að fjalla um málið þar sem um starf á kirkjulegum vettvangi væri að ræða. Umboðsmaður benti reyndar á aðrar kæruleiðir. Eftir stendur að enginn virðist vilja koma nálægt því að fjalla um málið.
Skólinn virðist í þessu tilfelli ekki vilja samþykja að þetta sé á hans forsendum. Að minnsta kosti vill skólastjórinn ekki svara þessum spurningum og reyndar hef ég ekki rekist á neinn skólastjórnanda sem hefur viðurkennt það. Hér þarf að fá svör. Ekki gengur lengur að að foreldri sem á fullan rétt á að fá svör við þessum spurningum skuli hunsað hvar sem það leitar svara.
Í lögum er frelsi foreldra til að ala upp börn sín samkvæmt sinni sannfæringu í trúmálum tryggt. Skóli og kirkja vega að þessu frelsi með trúarinnrætingu og brjóta lög. Fyrir tvö þúsund árum vildi kirkjan trúvilling einn dauðan en treysti sér ekki til að taka á málinu og vísaði því á ríkisvaldið. Þeim seka var kastað þar á milli Heródesar og Pílatusar. Pílatus má þó eiga að hann hjó á hnútinn þótt hann þvæði hendur sínar af þeim verknaði. Enn vill enginn óhreinka sig á trúarruglinu.
Nei Jón Magnús, mér er alveg sama hverju presturinn og börnin hans trúa. Mig varðar ekkert um það og dettur ekki í hug að skipta mér af því. Mikið vildi ég að sú tillitsemi væri gagnkvæm og presturinn léti mína fjölskyldu í friði.
Það sem er lík athyglisvert við þetta er að kirkjan sver af sér starf prestsins. Hann er ekki þarna á þeirra vegum þó að hann sé sannarlega starfsmaður kirkjunnar og í einu af húsum kirkjunnar að iðka það sem prestum er uppálagt að gera. Bænahaldið með börnunum er eitthvað allt annað en starf á vetvangi kirkjunnar.
Á sama tíma er þessi stofnun á fullu að eigna sér hluti eins og mömmumorgna (sem heita núna allt í einu foreldramorgnar og afhjúpa úrelta skoðun þessarar stofnunar á kynhlutverkum fram á þennan dag), tónleika og túrista með myndavélar. Kallar þetta allt kirkjusókn. Mikið væri fallegt ef kirkjan myndi sverja þetta umstang af sér líka.
Ef nóg af áþreifanlegum sönnunargögnum væri safnað væri hægt að flytja málið fyrir Mannréttindardómstól Evrópu. Þetta athæfi brýtur á 2. gr. sáttmálans:
Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.
Nú er hann ekki á vegum kirkjunar?!? Hvað er hann þá að gera þarna, af hverju sækir hann í börn?
Er þá bara ekki næsta skref að labba inn á næstu lögreglustöð og kæra hann fyrir stunda trúboð sem er bannað skv. lögum?
Annars finnst mér í lagi að sparka í punginn á svona liði - þvílíkur dónaskapur að get ég ekki ímyndað mér verri í fljótu bragði. Að fara með sínar lífskoðanir á annara manna börn er algerlega út yfir öll mörk!!!
2. grein viðauka sáttmálans. Þetta ákvæði var ekki inní Róm. Hafa þetta rétt. :)
Sælir.
Er þetta umdeilt meðal lögfróðramanna eða eru menn sámmála að þetta sé brot á lögum.
Ef svo er, af hverju er þessi háttsemi þá ekki kærð?
Þú átt alla mína samúð Arnold! Þetta sýnir bara hvers konar bananalýðveldi Ísland er. Á Íslandi viðist ekki þurfa að fara eftir þeim lögum sem maður er ósammála. Skólinn reynir í sifellu að finna leið til að losna undan að virða lögin, krakkarnir læra eftir því sem fyrir þeim er haft, svo árangurinn er þessi. Ég hef haft börn í Íslensku skólakerfi í rúm 2 á og er mun hamingjusamari eftirað því tímabili lauk. Lenti að vísu í trúboðsátroðningi hér í Svíþjóð líka, en þurfti ekki nema senda eitt bréf í skólann og benda á það lögbrot sem skólinn framdi gagnvart okkur. fékk afsökunarbeðni og leiréttingu undir eins. Enda sænskt þjoðfélag aðeins þróaðara en hið íslenska.
Takk fyrir Ásta.
Sævar, hér eru dæmi.
Í 29. grein grunnskólalaga (nr. 66/1995) segir: Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.
Samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (nr. 10/1979) skal enginn þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu eða heimili (17. gr.). Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar (18. gr.). Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu (18. gr.)
Svo læt ég fylgja hérna kafla úr skýrslu starfshóps Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla.
”Hlutverk leik- og grunnskóla varðandi trúarbragðafræðslu Innan leik- og grunnskóla bera kennarar ábyrgð á kennslu og fræðslu barna um trúarbrögð, lífsskoðanir og kristilegt siðgæði. Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman.”
”Börnum og unglingum skal ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.”
Í siðareglum kennara segir:
Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.
Þetta er ekki tæmandi og hægt að finna fleiri dæmi. Kirkjan fríar sig ábyrgð og vísar á skólana. Ég spyr því, get ég réttlætt lögbrot bara ef einhver annar átti hugmyndina og bað mig um að fremja það? Er ég þá alveg stykkfrí?
Prestar og starfsfólk þjóðkirkjunnar hefur látið hafa eftir sér að þeim beri að hlíða boðum biblíunnar/guðs frekar en lögum mannanna.
Einn tilvonandi prestur sagði við mig í tölvupósti að "Það er siðferðislega rétt að brjóta lög fyrir æðri markmið og gegn óréttlátum lögum" Hvar erum við stödd með svona viðhorf? Hver á að meta hvenær markmið eru æðri lögum og hvenær lög eru óréttlát? Og hvert leiðir það okkur?
Sævar, eina sem aftrar manni við að slást við ríkiskirkjuna í dómsölum er gríðalegur kostnaður sem það hefði í för með sér. Við erum að tala um tugi miljóna. Því er hægar sagt en gert að taka þennan slag. Hins vegar er bara spurning um tíma hvenær það gerist að einhver stígur skrefið.
Arnold, án þess að vera lögfróður maður þá hefði ég haldið að skólastjórinn, fremur en presturinn, sé ábyrgur fyrir því starfi sem fer fram í skólanum.
Skólastjóranum nægir ekki að segjast munu svara þér betur síðar. Ég tel að þú þurfir að ítreka beiðni um svar frá skólastjóranum og senda það með ábyrgðarpósti og halda eftir afriti sjálfur. Þá veit skólastjórinn sem er að hann verður að gefa efnislegt svar.
Það er skylda embættismanna.
Þegar það svar er komið ættir þú að geta haldið áfram.
Með von um góðan árangur gagnvart þessum yfirgangi þeirra hempuklæddu.
!!! Finna þetta sjálfur! Sjö ára! Já, auðvitað er það bölvuð frekja og yfirgangur í foreldrunum að skipta sér af upplýstri skoðun barnsins. Það hefur auðvitað ekki orðið fyrir neinni innrætingu heldur hefur það vegið og metið hin ólíku trúarbrögð og komist að þeirri niðurstöðu að bænakvak kristinna þóknist herranum best.
Jesús, prestar og sauðir þeirra, leyfið börnunum að vera í friði og heilaþvoið þau ekki, því þau eru foreldranna.
ég er í sjálfu sér sammála þér G. ef hann finnur fyrir þörfinni að biðja til guðs þá allt í lagi. en það má rökstyðja að þörfin hjá stráknum til að biðja myndast vegna þess sem innrætt er í menntakerfinu og það er mjög ósanngjarnt gagnvart trúlausum foreldrum hans.
Gimbi, þegar hann varð fyrir trúboði í leikskóla hafði ég samband við yfirvöld skólamála í bæjarfélaginu án árangurs. Ég er því búinn að taka þann rúnt einu sinni. Aldrei að vita en að ég taki þann rúnt aftur :) Kirkjana er alls ekki stykkfrí.
G er þér alvara? Heldur þú virkilega að 7 ára barn finni allt í einu hjá sér þörf til að biðja. Og að það sé algjör tilviljun að barnið kýs að biðja til jesú og jehóva en ekki einhvern af þeim möghundruð guðum sem mannkynið hefur fundið upp?
Kristín Ketilesdóttir, 7 ára barn finnur ekki skyndilega þörf til að biðja. Og Kristín mér finnst ekki í lagi að honum sé innrætt trú á æðri mátt með tilheyrandi forlagatrú. Mér finnst það mjög skaðlegt. Það eru lög í þessu landi sem tryggja rétt foreldra til að ráða þessum málum sjálf. Þar á ríkistrúfélagið og ríkisreknir skólar ekki að skipta sér af. Fyrir að standa á þessum rétti sínum er maður gjarnan kallaður ofstækismaður og jafnvel öfgafullur. Eina sem ég fer fram á er að allir séu jafnir fyrir lögum og að ríkiskirkjan sé þar ekki undansklin. Það að einhverjum þyki Jesú og Jehóva æðislegir og vilja endilega að sonur minn verði sömu skoðunar gegn vilja okkar foreldrana og noti opinberar skólastofnanir í baráttunni er lögbrot, um það verður ekki deilt.
Það virðist vera alveg borin von að höfða til réttlætis- og siðferðiskenndar þeirra sem þarna fara fremstir í flokki. Samt gefa þeir sig út fyrir að vera umboðsmenn hins æðsta og eina rétta siðferðis. Kristið siðferði kalla þeir það víst. Það er eitthvað bogið við þessa mynd.
arnold:
ég er í vantrú og er fullkomnlega sammála þér.
held að þú hafir misskilið commentið mitt. var að segja að hvötin hjá barninu til að biðja er komin frá skólanum sem ég tel vera rangt.
því eins og G sagði, barnið á að finna þetta sjálft, en þegar kennslan er svona er þetta ekki sjálfstæð ákvörðun stráksins.
Þetta eru svo sem ekki ný tíðindi. Börnum trúlausra (og þeirra sem tilheyra öðrum trúfélögum, en þjóðkirkjunni) hefur löngu m verið misboðið með gegndarlausri trúarinnrætingu í barnaskólunum. Ég tek heilshugar undir með höfundi þessarar greinar. Það er sárt til þess að vita þegar uppeldishlutverki foreldranna, hefur beinlínis verið tekið af þeim ófrjálsri hendi og börnunum innrætt önnur gildi en foreldrarnir kjósa. En svona er einfaldlega þjóðfélagsgerð okkar undir því afturhaldi, sem henni stýrir. Við þurfum að breyta þjóðfélagsgerðinni sjálfri ef við ætlum að sjá börnum okkar fyrir réttlæti.
Það er kannski gott að það komi fram hérna að skólastjórinn hefur nú svarað mér afdráttarlaust.
Starf kirkjunnar í þessum umrædda skóla er að frumkvæði og á forsendum kirkjunnar. Fræðslusvið viðkomandi bæjarfélags hefur ekki óskað formlega eftir starfi kirkjunnar í skólanum.
Þetta hefur verið einhver helsta réttlæting kirkjunnar fyrir starfi í leik- og grunnskólum að það sé óskað eftir því og að þetta sé á forsendum viðkomandi skólastofnanna. Þessi fullyrðin er því ósönn í þessu tilfelli og fleiri dæmi má finna í öðrum skólum. Það er undarlegt að verða vitni að því að ríkiskirkjan stundi skipulagðar lygar þar sem þessi stofnun segist boðberi betra siðgæðis. Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart. Það nægir að nefna og minn á það áróðursstríð sem ríkiskirkjan stóð fyrir gegn Siðmennt síðasta haust. Þar sögðu siðapostular kirkjunnar víðs vitandi óstatt hver í kapp við annan. Er þetta trúverðgut fólk? Er það heiðarlegt?
Kæri Arnold
Þér líkar e.t.v. ekki allt sem ég segi hér en ég tala sem sannfærður trúleysingi/guðleysingi en einnig sem foreldri barna sem nú eru orðin fullorðin og eiga eigin börn.
Við flestir (ekki allir) trúleysingjar erum aldir upp í trú. Samt urðum við trúleysingjar! Höfum þetta alltaf í huga.
Gagnsefjun er stór hluti í allri skoðanamyndun, ekki síst barna. Grundvallaratriði við að kenna börnum okkar er að beita skynsemi, gagnrýni, vera sjálfstæð í hugsun. Engar "kópíur" af okkur. Hvetjum börn okkar til að vera ósammála okkur í lífsskoðunum því að þá ekkert að óttast.
Ósjálfrátt vilja börn tileinka sér skoðanir og hugmyndir foreldranna. Hve oft hef ég fengið spurninguna: Er þetta rétt, pabbi? Og venjulegt svar mitt var: Við skulum ræða málin frá öllum hliðum. Og svarið: Æ,pabbi, þú með allar þessar hliðar þínar og umræður! Ég nenni þessu ekki!
Og þar með var umræðuvettvangurinn mótaður. Við hjónin voru sammála um að kristindómur væri hreint út sagt siðlaus trúarbrögð þótt valdir partar úr Nýjatestamentinu væru vissulega fallegir. (Fjallræðan og eitthvað fleira.) En kennarinn og presturinn segir annað, sögðu þær. Og svar okkar: Við elskum ykkur hvort sem þið verðið kristnar eða ekki: En reynið að hugsa sjálfstætt, við vitum að það er erfitt, en í því liggur þekkingin. En allt í lagi: Við erum með ábendingu: Spyrjið prestinn (kennarann) um eilífa glötun og helvíti í kristindómi.
Og það gerðu þær allar þrjár. Og tilkynntu okkur síðan hátíðlega að þær væru ekki kristnar því að kristnin væru svo grimm! Að vísu tók hér ein nokkuð eftir annarri.
Kristindómsinnræting skólans reyndist þannig hjálpartæki til að gera ungu konurnar trúlausar! Gleymum ekki merku spili gagnsefjunar.
Allar dætur mínar giftust borgaralega. Ekkert barnabarna mína er skírt nema eitt að kröfu föður. En sú fermdist borgaralega að eigin ósk.
Arnold! Sjö ára börn segja svo margt. Að standa með ömmu á móti foreldrum er aðeins dæmi um tilraun um unga og snemmborna tilraun til að vera sjálfstæður. Vertu hreykinn af því! Hann vill vera sjálfstæður! Spurðu hann hvort hann vilji ræða málin. Vilji hann það, sem er ekki víst, pælingar eru svo erfiðar á þessum aldri (!), ræddu við hann um eilífa glötun skv. kristindómi. Og svo eru mörg ár eftir, e.t.v. er gott að hann sé kristinn fram að 12 ára aldri! Ég var t.d. mjög kristinn þegar ég var 13 ára og ég lærði af því; síðan þekki ég betur kristindóminn!
Með þessu spjalli mínu er ég ekki að samþykkja að kirkjan sé að skipta sér af skólastarfi. Þvert á móti er ég því mjög andsnúinn, ekki af því að ég óttist áhrifin heldur af grundvallarástæðu: Kirkja og skóli eiga aðskilin að vera.
Með bestu kveðjum
Gísli Gunnarsson
Sæll kæri Gunnar,
Ég get ekki verið meira sammála þér með það að ræða þessi mál við strákinn. Það höfum við foreldrarnir gert. Við ætluðum hins vegar ekkert að ræða þessi mál við hann fyrr en hann væri orðin eitthvað eldri. Kirkjan og skólinn hins vegar byrjuðu og því var ekki til setunnar boðið. Við höfum nú þegar frætt hann um ýmsar aðrar lífsskoðanir/trúarbrögð en kristni.
Ég er algjörlega ósammál þér um að kristniboð í skólum sé gagnlegt þó að þú hafir þarna eitt dæmi um það. Ég fullyrði að innræting t.d. forlagatrúar sem fylgir alltaf með í pakkanum sé mjög skaðleg.
Ég skil hins vegar ekki þína afstöðu. Kristniboð í skólum er ekki skaðlegt en þú ert á móti samkrulli skóla og kirkju. Fyrst að samstarf skóla og kirkju er ekki skaðlegt er þá ekki bara í lagi að leyfa prestunum að tala við börnin. Það breytir engu ef ég skil þig rétt. Boðskapurinn hefur bara áhrif á börn sem eiga kristna foreldra. Börn trúleysingja afeitrast á sínum heimilum.
Með bestu kveðjum
Arnold Björnsson.
Afsakaðu mig kæri Gísli að ég kallaði þig Gunnar í innlegginu hér að ofan.
Í framhaldi af umræðum sem eru hérna, á langar mig aðeins að benda ykkur á að þetta eru ekki skólarnir sem eru að reyna hitt eða þetta. Skólarnir starfa eftir lögum sem þeim eru sett og verða að miða starf sitt við aðalnámskrá.
Nú er margt gott og gilt í því plaggi. En það er ekki mjög samkvæmt sjálfu sér. Sem dæmi vil ég taka fram að þó vissulega standi allt sem Ævar og Arnold hafa sett hérna inn þá er þetta brot einnig úr aðalnámskrá:;
Aðalnámskrá grunnskóla skilgreinir og lýsir sameiginlegum námsmarkmiðum sem grunnskólum ber að stefna að. Það er s.s. lagaleg skylda skóla og kennara að fyglja þessu plaggi, hvað varðar markmið, námsefni og áætlaðan námstíma....
Svo langaði mig í framhaldi af öllu að benda ykkur á hvað stendur í áfangamarkmiðum 4. bekkjar...
Áfangamarkmið við lok 4. bekkjar
Nemandi á að
þekkja grundvallargildi kristilegs siðgæðis og hafa fengist við efni sem stuðlar að ábyrgðartilfinningu, sáttfýsi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
kunna skil á Biblíunni sem trúarbók kristinna manna og þekkja vel nokkrar mikilvægar frásagnir af Jesú Kristi og kenningu hans, svo og öðrum persónum í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu
hafa fengið tækifæri til að kynnast kristnu helgihaldi og umgjörð þess og tamið sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt
þekkja helstu hátíðir kristninnar og siði og tákn sem tengjast þeim
þekkja kirkjuhúsið, helstu tákn, kirkjulegar athafnir og starf kirkjunnar í heimabyggð
Skólar eru skyldaðir til að kynna starf kirkjunnar, með þessari grein, því mundi ég fara varlega í að formæla skólum og einbeita sér frekar að lagasetningu á þessu sviði og fáránleika þeirra.
Og svona fyrir þá sem nenna að lesa í lokinn. Þetta eru áfangamarkmið fyrir 1.bekk.
Þrepamarkmið 1. bekkjar
Nemandi
kynnist kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar
kynnist frásögunum af fæðingu Jesú, læri einfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum
kynnist sögunum af bernsku Jesú og heyri um daglegt líf og aðstæður á hans dögum
kynnist afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesús blessar börnin
fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum
heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni
þekki tilefni páskanna
geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor og aðrar valdar bænir
Eg held þó að ef landslög og áfanga- eða þrepamarkmið stangast á, ber skólanum að vinna eftir landslögum og vinna að því að áfanga og þrepamarkmiðum verði breytt svo þau stangist ekki á við landslög. Mér finnst skrítið hve skólinn er hjálpalaus í þessum málum. Stjórnendur skólanna og flestir kennarar eru háskólamenntaðir og ættu að geta haft frumkvæði að því að laga umhverfi skólans að landslögum.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 16/06/08 12:54 #
Þú ættir kannski að fara heim til prestsins og biðja um að fá að tala við börnin hans um trúleysi og segja þeim að guddi karlinn sé ekki til og pabbi þeirra sé rugludallur sem trúir á ævintýri... hann yrði örugglega mjög sáttur með það!