Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Við erum bara eins og prestarnir

Ég hef orðið var við dálítið merkilegt fyrirbæri í málflutningi þeirra presta sem fjalla um okkur trúleysingjana. Þeir gera skýran greinarmun á hinum þögla trúlausa (les: sinnulausa) manni og svo okkur sem gagnrýnum trúarbrögð og framgöngu fulltrúa þeirra. Í þeirra huga er þetta svona:

  1. "Heiðarlegi" og ærlegi trúleysinginn sem amast ekki við neinu
  2. Ofsatrúaði trúleysinginn sem veður uppi með skít og sleggjudóma

Nú er það svo að hægt er að draga upp nákvæmlega sömu tvískiptu mynd af trúmönnum. Annars vegar er hinn þögli og þægi trúmaður sem við finnum allt í kringum okkur og svo eru það þeir sem fara um og flytja hið heilaga orð, prestarnir, djáknarnir, biskup og aðrir atorkusamir boðendur.

Boðendur þessir, ekki síst biskup og prestar ríkiskirkjunnar, hafa uppi harkaleg orð um hina virku talsmenn trúleysis, kalla þá ofstækisfulla, hatursmiðaða, öfgasinnaða og ofsatrúaða. Að auki láta þeir líta svo út að málflutningur okkar sé ekki málefnalegur, heldur uppfullur af fordómum og óverðskuldaðri fyrirlitningu.

Gott og vel. Þeir eru einfaldlega á sama báti og við aktívu trúleysingjarnir, gagnrýnir á menn og málefni sem fara fyrir brjóstið á þeim. Þessir tveir hópar eru algerlega sambærilegir.

Því ef virkur og ötull trúleysingi , sem gagnrýnir harkalega menn og málefni, er sjáfkrafa öfgasinnaður, ofstækisfullur og ofsatrúaður, gildir þá ekki það sama um prestana? Öfgar okkar eiga að liggja í því að við tjáum okkur á opinberum vettvangi um þessi mál. En það gera þeir líka. Þessir trúmenn hafa það bókstaflega að ævistarfi að boða trú sína, ekki einungis í messum, heldur vaða þeir uppi í fjölmiðlum, skrifa greinar í hverfisblöð, mæta sífellt í viðtöl, herja á skólakerfið, halda úti æskulýðsstarfi, eru eins og gráir kettir inni á sjúkrahúsum, í fangelsum, þar sem áfallahjálp fer fram og þrýsta á fólk til bænagjörðar, hvort sem það kærir sig um eður ei.

Við látum okkur nægja að halda úti vefriti og skrifa eina og eina grein í blöðin. Jú, við höfum mætti í ljósvakaviðtöl líka og skrifum athugasemdir við blogg. Og erum það þá við sem erum ofstækisfólkið í þessu samhengi?

Í hvert sinn sem prestur gagnrýnir okkur fyrir að láta okkur trúmál varða og í okkur heyra, skýtur hann sjálfan sig í fótinn, því hann er í nákvæmlega sama bransa og það á fullum launum. Í hvert sinn sem hann notar ofstækis- og ofsatrúarstimpla hittir hann sjálfan sig fyrir, því hann er ekki einn af þessum "heiðarlegu" trúmönnum sem ganga hljótt um gáttir.

Í hvert sinn sem prestur messar í kirkju, heldur bænastund með syrgjendum, skrifar um trúmál í blöðin, mætir í skólana eða boðar börnin í kirkju, í hvert sinn sem hann skírir og fermir, giftir og jarðar, þá er hann að staðfesta ofsatrú sína. Enginn "heiðarlegur" og hógvær trúmaður myndi hegða sér svona.

Ef trúleysi er trúarbrögð, þá erum við Vantúarfólkið prestarnir, því við látum trúarskoðanir okkar opinskátt í ljós, fræðum og vörpum ljósi á málin. Prestar ríkiskirkjunnar ættu að hafa það í huga, þegar þeir láta smella í ofstækis- og öfgasvipunni á herðum okkar, að við erum eins og þeir, í nákvæmlega sama bransa ef miðað er við fullyrðingar þeirra um að trúleysi sé trúarbrögð og að þeir sem ekki haldi kjafti séu ofsatrúaðir.

Flís og bjálki - hefur einhver prestur velt fyrir sér hvort sú líking geti átt hér við?

Birgir Baldursson 13.06.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Ari - 13/06/08 11:30 #

Fín grein hjá þér Birgir. Það er ákkurat þetta sem mér fannst miður þegar ég byrjaði að kíkja á þessa síðu ykkar. Þ.e. hún stuðaði mig svolítið vegna þess að skrif sumra hér eru á köflum ansi hrokafull. Auðvitað hafið þið fullan rétt á því, ef þið viljið vera í sama báti og hinir vitleysingarnir.

Af tveimur möguleikum, vil ég heldur að þið haldið áfram ykkar vinnu frekar en ekki.

kv.ari


Andri Snæbjörnsson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 12:07 #

Ég efast um að það hafi nokkurn tíman verið markmið hér að láta öllum sem lesa líða vel. Ef þér finnst skrifin hér hrokafull þá er það af því þú hefur aldrei hugsað um orð guðsmanna í sama samhengi.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 12:38 #

Veistu það Ari, að fyrir mörgum árum síðan réðist prestur á mig og mínar skoðanir með offorsi.

Í stólræðu sinni varð honum tíðrætt um glæpi, fíkniefni, nauðganir og framhjáhald og sagði svo að án trúar væri ekkert siðferði, aðeins siðleysi og siðblinda, grimmd og auðn.

Ef þetta hefði ekki verið brúðkaup systur minnar hefði ég gengið rakleiðis út.

En á því augnabliki hætti ég að vera "hljóður og góður" trúleysingi eins og ég hafði verið í yfir áratug og fór að tjá mig opinberlega um trúleysi mitt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 14:44 #

Þess má geta að umræður hér urðu m.a. kveikjan að þessum skrifum mínum, svona ef einhverjum hefur dottið í hug að þetta sé út í bláinn hjá mér.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/08 02:51 #

Það er samt munur á okkur og prestunum. Þeir eru bara að vinna vinnuna sína, en við erum í ólaunuðu hugsjónastarfi. Við erum náttúrlega brjálaðir að standa í þessu án þess að fá pening fyrir.


Þór Kolbeinsson - 14/06/08 21:24 #

Ég fór fyrst að skoða kirkjuna og stjórnendur þeirra fyrir alvöru eftir að ég varð fyrir aðkasti ónafngreinds prests innflytjenda. Ég fór þá á stúfanna og talaði við marga presta háttsetta og almenna. Ég kvartaði undir framferði hans en það var sama biskupinn leit út í loftið tók enga afstöðu til málsins. Aðrir prestar sögðu að vísu að framferði þessa ónafngreinda prests væri ekkei í lagi en kirkjan gæti ekkert gert.

Ég tel að grein Birgis sé mjög góð og lýsi viðhorfi mínu til kirkjunnar og presta. Að mínu áliti eru margir prestar hrokafull haldir vondri þráhyggju og ekki heiðarlegir.

Kær kveðja.

Þór Kolbeinsson


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 15/06/08 06:04 #

Takk fyrir innleggið Þór. það væri spennandi ef þú segðir okkur frá þessu aðkasti sem þú varst fyrir.


Ari - 16/06/08 09:18 #

Andri, þú hlýtur að hafa misskilið mig eitthvað. Ekki var ég að lofsama orð guðsmanna, heldur þvert á móti.

HBriem, þú þarft ekki að afsaka þig, ef þú telur þig vera hrokafullann. Allir hafa sínar ástæður.

Greinin er einmitt svo góð því hún fær mig til að hugsa um hvernig ég tala við fólk um þessi mál. Finnst mér allt í lagi að ég komi fram við "vitlausa" eins og þeir koma fram við mig. Þjónar það mínum málstað.

kv.ari


Þór Kolbeinsson - 20/06/08 01:39 #

Framhald: Framferði prests

Ég vissi það að kona mín sem er af erlendu bergi brotin átti fund með þessum presti sem hefur að öllum líkindum sagt henni að fara út, (til síns heimalands) með barnið okkar. Konan mínn sagði mér að hún ætlaði einungis í heimsókn til móður sinnar. Hún er ekki komin eftir 5 ár en biður mig alltaf um peninga.

Þegar konan var farinn út aðstoðar þessi prestur hana um skilnað fyrir íslenskum stjórnvöldum. Útvegar henni lögfræðing,býr til sáttarvottorð og sér til þess að skilnaðrpappírar séu gerðir. Hún átti að fá full yfirráð yfir barninu og ég réttlaus. Ég er með þessa pappíra undir höndum og áritun prestsins á sáttarvottorðið. Hann reyndi aldrei að sætta okkur enda var konan í Brasilíu og ég hér á landi.

Ég þurfti að stöðva þetta mál hjá sýslumanni enda hefði ég aldrei séð barnið hefði ég ekkert gert. Ég átti ótal fundi með prestum þjóðkirkjunnar og biskupi því mér fannst að framferði prestsins ekki vera heiðarlegt.

Aðeins einn prestur kom hreinn til dyranna en hinir voru með málalengingar og svör út í loftið,(vernda samherja). Eftir þessi viðskipti missti ég allt álit á þjóðkirkjunni og þjónum hennar. --Meira seinna.

Kær kveðja.

Þór Kolbeinsson

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.