Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð: vondur, vitlaus eða máttlaus?

Kristnir menn eru gjarnir á að gefa Guði sínum góða eiginleika og tala gjarnan um að hann sé í senn algóður, alvitur og almáttugur. Gott og vel, frábært fyrir þá. Það er náttúrulega ekkert hægt að rökræða um svona fullyrðingar. Eða hvað? Hvað gerist ef við spyrjum okkur: er þetta yfirleitt mögulegt? Stenst það nánari skoðun að slík vera vaki yfir heiminum ef við tökum inn í dæmið allar þær þjáningar sem í honum má finna? Öll þekkjum við dæmi um hryllilega sjúkdóma sem jafnvel leggjast á saklaus ungabörn og valda þeim ólýsanlegum kvölum eða draga til dauða. Svoleiðis nokkuð er að sjálfsögðu útilokað að réttlæta með nokkrum hætti. Myndi algóður alvitur og almáttugur guð líða slíkt?

Gefum okkur nú "for the sake of argument" að Guð sé til og við séum að velta fyrir okkur hverja af eftirfarandi eiginleikum hann býr yfir:

a) Algóður b) Almáttugur c) Alvitur

Skoðum svo hvað gerist þegar við gefum okkur að Guð hafi einhverja tvo af áðurnefndum eiginleikum. Það gefur okkur þrjá möguleika:

a og b: Guð er algóður og almáttugur. Þetta þýðir að Guð bæði getur og vill koma í veg fyrir allar þjáningar. Samt gerir hann það ekki. Eina hugsanlega skýringin er að hann viti ekki af þjáningunum. Niðurstaða: a og b útiloka c. => Guð getur ekki verið alvitur.

a og c: Guð er algóður og alvitur. Þetta þýðir að guð veit um allar þjáningar sem geta átt sér stað og hefur vilja til að koma í veg fyrir þær. Samt gerir hann það ekki. Eina hugsanlega skýringin er sú að hann getur það ekki. Niðurstaða: a og c útiloka b. => Guð getur ekki verið almáttugur.

b og c: Guð er almáttugur og alvitur. Þetta þýðir að guð veit um allar þjáningar sem eiga sér stað og getur komið í veg fyrir þær. Samt gerir hann það ekki. Í versta falli þýðir það að hann vill láta saklaust fólk þjást, í besta falli stendur honum á sama. Niðurstaða: b og c útiloka a. => Guð getur ekki verið algóður.

Er það ekki deginum ljósara að sú staðreynd að saklaust börn þjáist af hryllilegum sjúkdómum, hreinlega útilokar að guð kristinna manna búi yfir öllum þremur eiginleikunum samtímis. Í mesta lagi tveimur en kannski aðeins einum, og jafnvel engum, en þar með eru líka möguleikarnir upptaldir. Eftir stendur óumflýjanleg staðreynd og áhugaverð guðfræðileg spurning.

Ef Guð er til þá hlýtur hann, allavega stundum, að vera eitt af þessu þrennu: vondur, vitlaus eða máttlaus.

Hvað finnst ykkur líklegast?

Ari Björn Sigurðsson 04.06.2008
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


gimbi - 04/06/08 11:27 #

Þetta er hárrétt hjá þér Ari. Alveg eins og vegna þess að pabbi þinn er ekki alvitur, algóður né almáttugur þá hlýtur hann að vera vondur, vitlaus eða máttlaus.

Brilljant!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/06/08 11:46 #

Ég efast ekkert um að pabbi Ara er, a.m.k. stundum, eitt af þessu þrennu: vondur, vitlaus eða máttlaus.

Ég veit heldur ekki betur en að í Biblíunni séu til ítarlegar útlistanir á því hvað mennirnir eru einmitt vondir, vitlausir og máttlausir. Það er höfuðástæða þess að þeir eiga að beygja sig í þrælsótta undir guðinn og biðjast auðmjúkir fyrirgefningar á því hvað þeir eru auvirðilegir. Þá er hugsanlegt að þetta algóða kvikindi brenni þá ekki í eilífum eldsofni til skemmtunar þeim sem hann hefur velþóknun á.


gimbi - 04/06/08 12:25 #

Þú misskilur Reynir, ástæðan fyrir því að pabbi Ara er stundum vondur, vitlaus eða máttlaus, er samkvæmt þessari röksemedafræslu vegna þess að hann er ekki algóður, almáttugur eða alvitur.

Það sama á við um mig og þig.

Þvættingur...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/06/08 12:39 #

Getur verið að þú misskiljir, Gimbi? Forsenda þess að Ari kemst að þeirri niðurstöðu að guð sé a.m.k. stundum vondur, vitlaus eða máttlaus er m.a. sú að saklaus börn þjást af hryllilegum sjúkdómum.

Að þeirri forsendu gefinni er niðurstaðan sú að guð geti ekki verið algóður, almáttugur og alvitur og stundum hljóti hann að vera vondur, vitlaus eða máttlaus.

Önnur niðurstaðan er ekki forsenda hinnar.


gimbi - 04/06/08 21:16 #

Það er eitt að leiða líkur að því að guð kristinna manna sé mótsagnakenndur og geti ekki verið algóður vegna þess að þjáning er til. Hjalti gerði það með vísun í óhugnanlegt harlequin-heilkenni fyrir skemmstu.

Það er allt annað og hreinlega rangt að draga þá ályktun af ofangreindri staðreynd að: "Ef Guð er til þá hlýtur hann, allavega stundum, að vera eitt af þessu þrennu: vondur, vitlaus eða máttlaus."

Þetta er eitthvað sem Ritstjórn hefði átt að benda greinarhöfundi á, en það er annað mál.


Baldvin Örn Einarsson - 04/06/08 22:04 #

Gimbi, það leiðir af þessu að að Guð sé ekki algóður, alvitur og almáttugur, að minnsta kosti ekki allt í senn. Hann þarf kannski ekki endilega að vera vondur, bara ekki góður. Ekki vitlaus, bara ekki vitur. Ekki máttlaus, bara ekki máttugur.

Ertu sáttur við þá ályktun að Guð sé, allavega stundum, bara svona meðalskussi? Eins og skáldið sagði: "just a slob like one of us"?


gimbi - 04/06/08 22:20 #

Nei, að sjálfsögðu er ekki hægt að draga þá ályktun, ekki fremur en þá að vegna þess að Jón Páll hafi ekki verið almáttugur, þá hafi hann verið máttlaus.


Baldvin Örn Einarsson - 04/06/08 22:40 #

En samþykkirðu að Guð geti ekki verið allt í senn almáttugur, alvitur og algóður? Að þetta sé röklega ómögulegt eins og leiðir af rökleiðslu Ara?


Kári Rafn Karlsson - 05/06/08 10:32 #

Kannski er hann bara rosalega latur ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.