Þroskaskeið mannsins eru mörg og margvísleg en þroskasálfræðin nefnist sú grein vísinda sem reynir að gera grein fyrir því hvernig hugsanaháttur og hegðun okkar breytist, einkum á mótunarárum bernskunnar.
Jean Piaget er eflaust þekktastur þeirra sem fjallað hafa um þessi mál og margir kannast við skilgreiningar hans á stigskiptum vitsmunaþroska barna. Færri vita af því að Piaget velti einnig fyrir sér siðferðisþroska og eftir nokkrar rannsóknir komst hann að þeirri niðurstöðu að siðferðiskennd okkar þroskaðist af einu siðferðisstigi yfir á annað, oftast við 10-12 ára aldurinn. Fyrra siðferðisstigið einkennist af aðhaldssiðferði (eða raunsæissiðferði) en hið síðara af samvinnusiðferði (eða afstæðu siðferði).
Í stuttu máli má segja, samkvæmt Piaget, að yngri börn á aðhaldssiðferðisstigi líti svo á að siðferði byggi á ófrávíkjanlegum reglum um rétt eða rangt sem settar eru af valdhöfum. Eldri börn líta frekar svo á að siðferði byggi á sameiginlegum ákvörðunum jafnrétthárra einstaklinga með sameiginlegt gildismat.
Sá fræðimaður sem hefur hvað mest hugsað og skrifað um siðferðisþroska er Lawrence Kohlberg. Samkvæmt kenningum hans eru þrjú siðferðisleg plön með samtals sex siðferðisstigum, tvö á hverju plani. Eftir því sem einstaklingurinn eldist og þroskast færist hugsun hans upp um stig en ekki komast allir jafn hátt og taldi Kohlberg að það væri á færi örfárra manna að komast á sjötta stig, en að fimmta stig sé eðlilegt siðferðisstig fullorðinna. Siðferðisstig Kohlbergs eru eftirfarandi:
A: Gildisslaust siðgæði (fram að 9 ára aldri)
1. Refsing – hlýðni: Ótti við refsingu stjórnar hegðun.
2. Gagnkvæmni: Hlýði bara ef aðrir hlýða.
B: Hefðbundið siðgæði (9 – 12 ára aldur)
3. Viðurkenning: Þú ert öðrum til sóma ef þú hegðar þér vel.
4. Lög og regla: Valdhafar setja reglur sem allir hlýða.
C: Forsendubundið siðgæði (eftir 12 ára aldur)
5. Samfélagssátt: Jafnvægi milli þarfa samfélagsins og réttar einstaklingsins.
6. Algilt siðferði: Einstaklingurinn þroskar eigið ófrávíkjanlegt siðferðiskerfi.
Fyrsta planið er “gildislaust” því börnin hvorki skilja né þekkja þau samfélagsgildi sem liggja að baki siðferðislegum ákvörðunum. Á miðstiginu þekkja börnin reglur samfélagsins en skilja þær ekki. Á lokastiginu er kominn skilningur á forsendum samfélagslegra siðferðisgilda.
Kenningar Kohlbergs og Piagets eru athyglisverðar í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarin misseri varðandi kristilegt siðferði. Boðskapur kirkju og kristni snýst einkum um hlýðni og undirgefni (íslam) við Guð, til dæmis er kærleiksboðskapurinn skýr hvað þetta varðar: “Elskaðu Guð af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.” (Markús 12:30). Boðorðin tíu snúast sömuleiðis um undirgefni og guðsótta.
Boðskapur Jesú er að öðru leyti hvorki frumlegur né sérstaklega siðferðilegur oft á tíðum. Þar sem hann rís hæst, gullna reglan og jafnvel krafan um að elska óvini sína, er á ferðinni hefðbundinn siðaboðskapur – gamalkunnur og hallærislegur jafnvel á 1. öld og auðvitað óframkvæmanlegur.
Ótti við yfirvald, fylgni við reglur, gagnkvæmni. Þetta er siðaboðskapur kristninnar og nær ekki að slefa yfir siðferðisþroska 12 ára barna samkvæmt þeim Piaget og Kohlberg. Flest þroskumst við upp úr þessum siðaboðskap kristninnar, sem betur fer, en skyldi það beinlínis vera markmið íslenskra grunnskólalaga að hefta siðferðisþroska barna?
"Í mörgum samfélögum heims er fólk almennt á stigi 2 eða 3. Það er dálítið undarlegt, ekki satt?"
Ef einhver hefur búið frá unga aldri við refsingar sem flokkast undir gróft ofbeldi þá nær hann sennilegast ekki að þroskast langt upp úr stigi 1. Vitað er að það eitt að búa við stöðugan ótta hefur mjög neikvæð áhrif á þroska barna. Því held ég að það skipti miklu máli hvað óttinn við refsingarnar sé mikill. Á Íslandi virðast mjög vægar refsingar normið svo okkar reynsla og viðmið segja kannski lítið. Hvaða samfélög ertu að tala um?
Hvaða samfélög ertu að tala um?
Þetta eru fyrst og fremst óiðnvædd samfélög; eskimóar, ættbálkar á bahamas, en líka stór hluti fólks í Tyrklandi o.fl.
Sjá nánar hér:
Cross-Cultural Universality of Social-Moral Development: A Critical Review of Kohlbergian Research, Psychological Bulletin, Volume 97(2), March 1985, p 202–232.
Sæll Guðmundur og takk fyrir innleggið.
Piaget er miklu þekktari en Kohlberg, það er nú aðallega þess vegna sem ég hafði hann með. Svo verð ég að segja eins og er að mér finnst mjög ólíklegt að heilu þjóðirnar þroskist ekki siðferðilega! Mér þætti gaman að sjá hvernig það er mælt.
Og ef satt reynist, hvort hegðun t.d. eskimóa sé almennt siðlausari en hegðun annarra? Nú eru Tyrkir sérlega siðuð þjóð og vingjarnleg, glæpir og mannvonska tíðkast þar ekki meira en annars staðar. Ef Tyrkir eru svona vanþróaðir skvt. Kohlberg þá myndi ég nú segja að það væri eitthvað að kenningunni og niðurstöðum hennar.
Brynjólfur: Já, ég mæli með þessari grein. Og ég er sammála niðurstöðu þinni.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Guðmundur D. Haraldsson - 15/05/08 03:01 #
Þeir eru afskaplega fáir, ef nokkrir, fræðimenn innan þroskasálfræði sem taka stig Piagets bókstaflega. Menn hafa margsýnt fram á að kenning Piagets um þroskastig er of einföld og stenst ekki skoðun. Ég tel, þess vegna, að það hefði verið mun betra að sleppa vísunum í Piaget í þessum pistli.
Já, en merkilegt nokk: Í mörgum samfélögum heims er fólk almennt á stigi 2 eða 3. Það er dálítið undarlegt, ekki satt?