Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ingersoll og hækjan

Við í Vantrú erum nokkuð hrifin af Robert Ingersoll (1833-1899). Hann var frægur bandarískur mælskumaður sem notaði hvert tækifæri til að gagnrýna kirkjuna. Það kemur kannski einhverjum á óvart en hann var líka þekktur á Íslandi. Þann 11. ágúst 1899 birtist þessi klausa á forsíðu Þjóðólfs:

Látinn er í Ameríku hinn nafnkunni mælskumaður og vantrúarpostuli Robert Ingersoll, tæplega sextugur.

Það væri gaman að geta skyggnst aftur í tímann og vita hvað Íslendingum þótti um "vantrúarpostulann". Árið 1885 hafði birst þýðing ritgerðar hans í tímaritinu Iðunni sem bar titilinn Um frelsi kvenna. Það var síðan árið 1906 sem trúarádeilan Vegryðjendurnir birtist í Alþýðublaðinu hinu eldra. Ágúst Jósefsson, prentari og síðar heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík, var þýðandi en ritstjóri blaðsins var Pjetur G. Guðmundsson. Það liðu rúm tuttugu ár þar til að Pjetur þýddi og gaf út lengri erindi Ingersoll. Það var árið 1927. Fjórum árum seinna gaf hann út þýðingar sínar af tveimur erindum í viðbót. Báðar þýðingarnar komu út undir titlinum Andlegt sjálfstæði. Það er ekki hægt að sjá af blöðum frá þessum tíma að útgáfan hafi vakið mikla athygli.

Ingersoll var greinilega mönnum ennþá hugleikinn þegar á leið öldina því tvisvar sinnum (árin 1944 og 1976) birti Morgunblaðið flökkusögu af honum og predikaranum Henry Ward Beecher (1913-1887) í liðnum Með morgunkaffinu. Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu til að komast að raun um að sagan er ósönn enda voru Beecher og Ingersoll góðir vinir sem börðust báðir fyrir umbótum á ýmsum sviðum þó trúin aðskildi þá. En sagan er ekki bara áhugaverð fyrir það að hún sýnir að Ingersoll var enn í hugum manna heldur gefur hún ákveðna innsýn í hugsanagang trúaðra manna (og ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins).

Hinn kunni bandaríski prestur Beecher var eitt sinn á fundi þar sem guðleysinginn Ingersoll hélt aðalræðuna. Ingersoll hélt fram guðsafneitun af hinni mestu mælsku, en enginn varð til andsvara. Þá spurði fundarstjórinn Beecher hvort hann ætlaði ekki að verja trú sína, því að henni hefði verið höggvið.

Ónei, svaraði Beecher, ég tók lítið eftir því sem ræðumaður sagði. Ég var að hugsa um það, sem ég sá á leiðinni hingað.

Nú, hvað var það?, spurði Ingersoll.

Þegar ég var á leið hingað gekk ég eftir götu, sem ekki var steinlögð og því ákaflega forug, enda rigning. Þá sá ég aumingja mann, sem studdist við tvær hækjur. Hann ætlaði að fara þvert yfir götuna en festist í forinni og datt. Þegar hann ætlaði að staulast á fætur aftur, kom þar að maður og tók báðar hækjunar frá honum og fór burtu með þær - en maðurinn lá ósjálfbjarga eftir í forinni.

Það var illa [gert], sagði Ingersoll.

Sama gerið þér, sagði Beecher. Þér takið daglega frá mönnum, sem haltra í trúnni, trúarstafinn, sem þeir ætluðu að styðja sig við, en liggja nú eftir í for synda og örvæntingar. Engir aðrir en meistarar geta reist mikla höll en að kveikja í þeirri höll og brenna til ösku þarf ekki að vanda meira en svo, að hægt er að fá til þess óbótamann eða aumasta vesalmenni.

Er trúin bara hækja og, ef svo er, munu menn falla í örvæntingu án hennar? Það eru fáir trúleysingjar sem telja tilveru sína voðalega án guðs þó að ýmsir trúmenn ímyndi sér slíkt. Það sem mér finnst þó áhugaverðast er hve neikvætt þetta viðhorf til trúar er raunverulega. Trúin er hækja. Ef einhver hefði í raun sagt þetta við Ingersoll er ekki ólíklegt að hann hefði svarað eitthvað á þá leið að menn þurfi ekki á hækjunni að halda, að það sé einmitt stóra lygin. Kastaðu frá þér hækjunum og gakktu uppréttur í sólinni. Við getum lifað góðu lífi, og líklega betra, án trúar. Það var kjarni boðskapar Ingersoll.

Óli Gneisti Sóleyjarson 09.05.2008
Flokkað undir: ( Samherjar )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 10/05/08 19:00 #

Já, það er líka gaman að sjá Þórberg Þórðarson vitna í hann í Bréfi til Láru.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/05/08 20:57 #

Greinilega of langt síðan ég hef lesið bréfið. Takk fyrir ábendinguna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.