Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Krossar vinsamlegast afþakkaðir

“Kristur var lítilsvirtur, kvalinn, fyrirlitinn og honum var misþyrmt áður en hann var krossfestur,” segir Sigurjón Ari Sigurjónsson í 24 stundum þann 19. apríl en bætir um betur og gerir undirritaðan samsekan glæpnum: “... en vegna þess að hann lét lífið fyrir okkur, Brynjólfur, höfum við öðlast fyrirgefningu.”

Ekki efast ég um góðmennsku Sigurjóns en ég sé mig tilneyddan til að vísa frá mér boð hans um samsekt. Velvilji ræður eflaust för en sú leið sem hann hefur valið sér er ekki mín. Ég afþakka pent að kóa með glæpnum.

Af jötu á staur

Henginarkross

Barnatrúna missti ég, eins og flestir, á þeirri andlegu þroskabraut sem liggur milli barns og fullorðins, þegar unglingurinn opnar augun og sér heiminn eins og hann er í raun. Þegar ég var barn sá ég heiminn með augum barnsins. Sem fullorðinn minnist ég einfaldleikans, sakleysisins með angurværum söknuði, barnið í jötunni tákn hins góða, hins ljúfa, tákn lífsins og framtíðarinnar.

Að negla barnið á staur, að kvelja það og hæða, fyrirlíta og misþyrma, píslarganga úr jötu á kross, þetta var aldrei mín trú þrátt fyrir að Sigurjón telji sig vita betur þegar hann segir mér að “barnatrú þín byggir, eins og barnatrú okkar hinna, á krossfestingu Krists sem tók á sig syndir okkar”.

Að drepa einn fyrir syndir annarra er óréttlátt og heimskulegt. Að skella skuldinni á saklaus börn er enn verra.

Dauðanum fagnað

Sjálfviljugir taka menn á sig þessa meðvirkni í glæpnum, gerast samsekir í syndinni, fella sig undir kenningar kristninnar. Boðskapur gleði er þetta kallað í fúlustu alvöru, fagnaðarerindi segja menn og hafa ekki vit á að skammast sín. En til þess hafa menn fullt frelsi, að fagna því að einn skuli drepinn fyrir aðra.

Sjálfum líkar mér ekki sú heimssýn, mér finnst hún ruddaleg í forneskju sinni og óviðeigandi í nútíma samfélagi. Táknmynd hennar, krossinn, særir mig og móðgar, mér finnst hann vera vanvirðing við mína innstu sannfæringu. Þetta skýri ég betur í grein minni, “Móðgandi myndbirtingar” en sú grein var einmitt kveikjan að hugleiðingu Sigurjóns sem hér er svarað.

Röksemdir á hrakhólum

Sú hugsun er hlægileg að eigna kristninni það sem áunnist hefur í mannréttindum síðustu áratugina, eins og Sigurjón reynir að gera. Kenningar kristninnar hafa engin tengsl við yfirlýsingar franskra og bandarískra byltingarmanna við lok 18. aldar né alþjóðlega sáttmála síðustu aldar.

Það er enda ekki fyrr en að kristnin fer að víkja, eftir hálft annað árþúsund, sem sprotar lýðræðis og mannréttinda ná að skjóta rótum. Árangur kristninnar á þessu sviði var enginn allar þessar mörgu aldir sem hún gegnsýrði evrópkst samfélag og eftir að barátta lýðræðissinna hófst fengu þeir síst stuðning frá kirkjudeildum. Fasískar einræðisstjórnir fengu það hins vegar, svo seint sem á miðri síðustu öld í sjálfri vöggu hinnar evangelísk-lútersku kirkju.

Þýskir geta reyndar þakkað áðurnefndum Lúter fyrir að hafa komið tungumáli sínu á skrifað form. Sama gildir ekki hér á landi, prentuð biblía hafði ekkert með varðveislu íslenskunnar að gera. Reyndar urðu mestar breytingar á okkar tungumáli frá landnámi einmitt um það leyti sem prentun guðsorðs hófst, hljóðdvalarbyltingin sem svo er kölluð og gerir það að verkum að þótt Ari fróði væri hér sjálfur kominn að lesa upp úr verkum sínum myndum við ekki skilja stakt orð.


Þessi grein birtist í 24 stundum í dag

Mynd eftir psilver

Brynjólfur Þorvarðarson 03.05.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


gimbi - 03/05/08 17:58 #

Ágæt grein Binni, og skemmtileg fyrirsögn.


Arnaldur - 03/05/08 18:55 #

Fín grein hjá þér að vanda.

Ég hef alltaf haldið að íslenskan væri það vel varðveitt að við gætum haft samskipti við forfeður okkar með ekkert allt of miklum erfiðleikum. Sem sagt að við myndum getað gert okkur næginlega skiljanleg til að halda uppi nokkuð eðlilegum samræðum. Við getum til að mynda lesið gömlu textana og skilið þá ágætlega.

Er þá verið að meina, með hljóðdvalarbyltingunni, að hið talaða mál hafi breyst mun meira en ritað orð?

Hvernig olli prentun guðsorðs breytingum á hinu talaða máli. Var það af því að orðin voru skrifuð öðruvísi, eða var það eitthvað allt annað?


Teitur Atlasoon (meðlimur í Vantrú) - 03/05/08 21:03 #

Þegar einhver kristinn heldur í frammi frasanum um að "jesús hafi dáið fyrir mig" hangir eftirfarandi á spýtunni (eins kaldhæðnislegt og það kann að hljóma...)

Pabbi Jesúsar, guð gyðinganna, fórnaði syni sínum sem tákni fyrir það hve mikið hann elskaði mennina.

Þessi mannfórn á sér hliðstæðu í sögunni um Abraham og Ísak en í henni skipaði þessi sami guð Abraham til þess að drepa son sinn (engin ástæða gefin upp) Sem betur fer þá hættir guðinn á elleftu stundu við mannfórnina og Ísak er borgið.

Hugsið ykkur nú lesendur góðir ef einhver drepur barnið sitt til þessa að undirstrika þá skoðun sína að hann elski mig! Hver kærir sig um svona nauðungarsamning?

Skoðum aftur hvað gerðist þegar Jésús K dó á krossinum fóru fyrir einverja galdra, allar syndir mannanna inn í Jesús á dauðastundinni og hann tók þær yfir í dauðann og drap þær með sjálfum sér.

Sama stef má finna í trúarathöfn sem tengist "syndahafrinum" en þá var farið með galdraþulur og syndir ættbálksins töfraðar inn í geithafur og honum síðan slátrað eða sleppt út í eyðimörkina.

Stóri punkturinn er þessi: Sé frasinn um "hann dó fyrir okkur" skoðaður þá kemur í ljós ansi brjálæðislegm heismynd. Hvaða "algóðum guði" dettur í hug að drepa son sinn til þess að leggja áherslu á orð sín um gæsku sina og mannelsku. Fyrir hvaða töfra fóru meintar syndir okkar inní Jesús K? Hvaða syndir voru þetta?

-Erum við virkilega svona hræðileg?


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 04/05/08 13:17 #

Samkvæmt kristnum gaf Jesú okkur fyrirgefninguna með því að ganga í gegnum hrottafenginn dauðdaga. Var fyrirgefning óþekkt hugtak fyrir tíma hans?


Arngrímur Vídalín - 04/05/08 16:30 #

Re: Arnaldur

Ég er ekki viss um að þetta tengist rituðu guðsorði neitt sérstaklega, en íslenskt mál hefur breyst gífurlega bæði í framburði og rituðu máli. Það er almennt talið hæpið að færustu sérfræðingar gætu tjáð sig við Snorra Sturluson þótt möguleikinn væri til staðar.

Vissulega getum við hæglega lesið Íslendingasögur með samræmdri stafsetningu, en það er ekkert sjálfgefið að fólk geti lesið þær í stafréttum útgáfum. Gegnum margs konar ólíkar breytingar, sem tæki of langan tíma að útskýra, hafa orð eins og etunar orðið að jötnar og nafn eins og Hlewagastir orðið að Hlégestur. Og þá get ég aðeins miðað við þá stafsetningu sem tölvan leyfir mér, orðin voru auðvitað skrifuð allt öðruvísi og borin fram allt öðruvísi.

Og það er erfitt að segja til um hversu gamalt íslenskt mál er í raun og veru. Hvenær er það frumnorræna, forníslenska eða íslenska? Til að lesa handrit þarf ítarlega þekkingu á þeim gríðarlega fjölda málbreytinga sem hafa orðið gegnum tíðina áður en hægt er að leysa merkingu þeirra. Stundum er það hreinlega ekki hægt, stundum eru menn ósammála um hvað raunverulega stendur. Enn flækist málið því skrifarar beittu skammstöfunum í gríð og erg sem enn má rífast um hvað merkja.

Sem dæmi má hér sjá blaðsíðu úr handritinu AM 748 I 4to, þ.e. Snorra-Eddu (smella). Sá sem getur sagt mér hvað stendur þarna fær sleikjó í verðlaun.


Arngrímur Vídalín - 04/05/08 16:37 #

Ég gleymdi því auðvitað að prentun guðsorðs hafði ekkert með þessar málbreytingar að gera. Varðveittar bækur sýna þær málbreytingar sem áttu sér stað í samfélaginu á hverjum tíma, en sjálfar voru þær ekki valdar að þeim breytingum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.