Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Höfuð, herðar, hné og tær

Höfundur: Brian Dunning

Komdu hérna til mín: ég ætla að mæla á þér höfuðkúpuna til að finna út greindarvísitölu þína, líta í augu þér til að sjá hvort þú sért veikur, renna fingrunum yfir andlit þitt til að sjá út skapgerð þína og svo ætla ég að skoða hendur þínar til að sjá hvaða framtíð þú átt. Ég ætla að komast að öllu sem vita má um þig með því að skoða líkamleg sérkenni þín.

Flest fólk kannast við höfuðlagsfræði eða þá trú að það að skoða ójöfnurnar á hausnum á þér gefi innsýn í hvaða hlutar heila þíns eru þróaðastir. Höfuðlagsfræði var þróuð í kringum 1800 af þýska lækninum Franz Joseph Gall og það er áhugavert að þá var höfuðlagsfræði það nýjasta og besta innan taugafræðinnar. Gall var meðal fyrstu frumkvöðla til að telja heilann, en ekki hjartað, vera miðverk mannshugans. Ef hann hefði látið þá ályktun duga hefði allt verið í lagi. En, byggt á bestu tiltækri þekkingu þeirra tíma, hafði hann ofureinfaldaða hugmynd um hvernig heilinn gæti virkað. Hann fullyrti að hver einstakur hluti af heilanum öllum, sem hann taldi samsettan úr fjölda aðskildra líffæra, bæri ábyrgð á ákveðnum þætti hugsunar eða hegðunar. Gall og aðrir höfuðlagsfræðingar gerðu, af besta ásetningi, óvandaðar rannsóknir á höfuðbeinum skjólstæðinga og krufðu heila látinna sjúklinga sem höfðu þekkt persónueinkenni. Þannig kortlögðu þeir hvernig litlir hlutar heilans áttu hver fyrir sig að stjórna persónuleikaþáttum einstaklings og þessar skýringarmyndir, af höfuðbeinum skipt í svæði samkvæmt þessu, þekkjast enn í dag.

Þetta þótti ágætt á 19. öld en seinna, þegar raunverulegt eðli heilans varð betur þekkt, kom nútíma taugafræði í stað höfuðlagsfræði. Eins og gerist með öll gervivísindi afneita sumir, sem taka höfuðlagsfræði trúanlega, því sem nútímavísindi hafa sýnt fram á og velja frekar að halda sig á fornu þekkingarstigi. Höfuðlagsfræði er sprelllifandi á Indlandi til dæmis og kannski vegna þess að breskir höfuðlagsfræðingar á 19. öld ákváðu að Indverjar hefðu aríska eiginleika fremri öllum öðrum asískum kynþáttum. Höfuðlagsfræði er mikilvægur hluti Samudrika Lakchana en það er líkamshlutatengd lækningaaðferð sem er enn stunduð víða á Indlandi. Samkvæmt henni er hver hluti líkamans tengdur ákveðnum hluta heilans og öll óregla á höfuðhnúðum samsvarar sér beinlínis í óheilbrigði tengdra líkamshluta.

Náskyldur höfuðlagsfræði er andlitslestur, eða physiognomy, sem er sú trú að eiginleika skapgerðar og persónuleika megi lesa úr andlitslagi. Andlitslestur er áhugaverður að því leyti að honum hefur, sem gervivísindum, hreinlega hrakað. Upprunalega var hann þokkalega ígrundaður en þróun aldanna hefur ýtt andlitslestrinum dýpra í kjaftæðisfenið. Bæði Aristóteles og Pýþógoras fjölluðu um það sem við myndum kalla líkamstjáningu og skýrðu hana sem tengingu skapferlis og svipbrigða í andliti. Ekkert sem þykir merkilegt í dag en á þeirra tímum voru þetta byltingarkenndar hugmyndir um efni sem enginn hafði rannsakað áður og Aristóteles skrifaði um í Physiognomica. Aldir liðu, fólk lærði meira um líkamsbyggingu og fræðimenn eins og Johann Lavater og Sir Thomas Browne fóru, með gott eitt í hyggju, að tengja niðurstöður andlitslestrar við andlitseinkenni en ekki svipbrigði. Í dag hafa þeir sem aðhyllast þessar hugmyndir þróað þær enn lengra og kalla scientific correlation physiognomy. Þeir trúa að sama gen og geri fólk reiðigjarnt valdi þungum augabrúnum eða sterkum vöðvum undir þeim. Þeir ganga svo langt að telja að manneskja með vítt bil á milli augna sé heiðarleg eða barnaleg og að lögun andlits þíns lýsi hvaða starf þú ert hæfastur í. Eitt rannsóknartæki þeirra er kallað Facial Action Coding System,sem er notað til að mæla hlutföll andlits, og niðurstöðurnar úr því eru svo bornar við Affect Interpretation Dictionary til að þýða tölfræði andlitsins yfir í aðgreinanlegar tilfinningar.

Það er auðvelt að skilja hví fólk tekur andlitslestur trúanlegan. Oft þegar þú sérð manneskju í fyrsta skipti geturðu þér til um persónuleika hennar og getur jafnvel haft rétt fyrir þér nokkuð oft. Þessi gaur er gallagripur. Þessi stelpa er daðurdós. Hann virðis fínn strákur. Ég er viss um að hann er lögfræðingur. Það er margt sem við getur lært þegar við horfum á einstakling: þess vegna hefur fólk atvinnu af því að vera miðlar eða spámenn. En þetta er ekki andlitslestur. Engin vísbendinganna sem þú fannst hefur með andlitsbygginguna að gera. Það sem þú sást voru svipbrigði og þau vitna um viðhorf, sjálfsöryggi og framkomu. Þú sást hárgreiðslu hans og klæðaburð sem gefa til kynna félagslegan bakgrunn, atvinnu og hvernig fólk hann umgengst. Þú gætir séð skartgripi eða tattú. Þið tjáðuð ykkur án orða eins og með líkamstjáningu. Þú sást hve vel til hafður og hreinlátur hann er. Þú sást hve formlega hann er klæddur og hegðun í samhengi við umhverfi. Til hamingju, þú notaðir háttlestur. Þér tókst að safna þér heilmiklum upplýsingum um einstaklinginn með því að renna augum yfir andlit hans og nota þér vel þekkt lögmál sálfræðinnar. Það er engin þörf fyrir staðlaus gervivísindi andlitslesturs en skiljanlegt hví fólk, sem ekki hefur sérþekkingu á sálfræði eða mannlegum samskiptum, gæti haldið að einhver fótur sé fyrir andlitslestri.

Allir skólakrakkar kannast við listina að lesa í lófa og hún hefur verið til frá því sögur hófust en fyrsta ritið um lófalestur er 5000 ára gamalt og eftir hindúa. Fræðilegra nafn yfir lófalestur er chiromancy sem er gríska og þýðir að „leita í hendi eftir guðlegum innblæstri.“ Lófalestur á að heita sú list að lesa úr línunum í lófa þínum upplýsingar um persónu þína, atburði í framtíð þinni og jafnvel fyrri lífum. Lófalestur greinist í margar deildir sem ber ekki saman í kenningum og eru upprunnar í ólíkum menningarheimum, allt frá Kína til Sígauna, fylgjendum náttúrulækninga eða jafnvel nútíma lófalesara sem telja sína sérstöku aðferð byggja á vísindum.

Eins og þú getur ímyndað þér styðja engar vandaðar rannsóknir hefðbundnar fullyrðingar um ágæti lófalesturs. En hvað gera meðmælendur hans nú til dags þá? Þeir hneigjast að því að athuga hliðstæður á milli líkamsbyggingu handarinnar og þekktra sjúkdóma í von um að slík tenging ljái chiromancy vísindalegt yfirbragð. Sem dæmi telur einn rithöfundur, John Manning, að fingralengd stjórnist af magni kynhormóna í legi yfir meðgöngu. Lengri baugfingur á að benda til meira af testosteróni og lengri baugfingur meira af estrógeni. Manning heldur því fram að hlutföll fingralengda séu í samhengi við þætti eins og samkynhneigð, frjósemi, líkur á hjartaáfalli eða brjóstakrabbameini og íþrótta- og tónlistarhæfileika þína. Þegar lófalesarar benda á þess háttar rannsóknir sem vísindalegan stuðning fyrir fagi sínu er gott að muna að bókaforlög gefa út hvað það sem þau telja geta selst. Staðreyndin er að hlutföll á milli lengdar fingra samsvarar sér mun sterkar eftir búsetu og stofni. Með öðrum orðum eru þetta erfðir eiginleikar.

Lithimnulestur er heillandi vegna þess hve fáránlegur hann er. Lithimnufræðingar trúa að lithimnan (litaði hluti augans) sé eins og gaumskjár sem segi nákvæmlega hvað sé að í öllum hlutum líkamans. Í Bandaríkjunum er lithimnulestur aðallega stundaður af venjulegum hnykklæknum*. Hnykklæknirinn mikli, Bernard Jensen heitinn, sagði um lithimnulestur að „náttúran hefur séð okkur fyrir örsmáum sjónvarpsskjá sem sýnir okkur afskekktustu hluta líkamans,“ og bætti við að greining með lithimnulestri „veiti mun meiri upplýsingar um ástand líkamans en skoðunaraðferðir vestrænnar læknisfræði.“ Síðar tók hann þátt í vandlega stýrðri klínískri rannsókn, ásamt tveimur öðrum lithimnufræðingum, en í henni voru þeim sýndar myndir af lithimnum og þeir beðnir um að benda á hverjar tilheyrðu sjúklingum með nýrnasjúkdóm. Enginn þeirra þriggja náði betra hlutfalli en ná má með handahófsvali og engir þeirra komst að sömu niðurstöðum. Enn hafa engar vandaðar prófanir sýnt fram á eiginleika lithimnulesturs til að finna nákvæmar eða gaglegar upplýsingar um líkamlega heilsu.

Lithimnulestur var fundinn upp á miðri 19. öld og er nokkuð merkilegur meðal óhefðbundinna lækningafræða fyrir það að uppfinnandinn var ellefu ára gamall strákur, Ungverjinn Ignatz von Peczely. Hann hafði fyrir slysni fótbrotið uglu við leik og tók seinna eftir svörtum blett í lithimnu hennar. Þar sem hann var bara stráklingur gekk hann út frá orsakatengingu þarna á milli og lithimnulestur varð til. Seinna, þegar von Peczely varð fullorðinn gerði hann lithimnulestur að atvinnu sinni. Nútíma læknavísindi þekkja reyndar til nokkurs fjölda aðstæðna sem geta leitt til breytinga á útliti lithimnunnar og sérstaklega uppsöfnun melaníns sem hefur varanleg áhrif. Efnasambönd eins og lípófúskín, „litarefni ellinnar“, geta lekið inn í augað undir vissum kringumstæðum og valdið tímabundinni eða varanlegri upplitun eins og lithimnulesarar horfa eftir. Sannanir, í formi munnmæla, til stuðnings lithimnulestri má allar rekja til áðurnefndra skilyrða sem fyrir tilviljun koma upp um líkt leyti og skynjað upphaf eða endir veikinda, eða áverka, á sér stað og gefa ranglega yfirbragð orsakatengsla. Megnið af iðkendum lithimnulesturs rannsakar eðlilega bletti í heilbrigðum augum og greinir þannig sjúkdóma sem ekki eru til staðar og reyna svo að lækna þá með hnykklækningum, heildrænum eða öðrum óhefðbundnum lækningaaðferðum.

Það væri ansi hentugt ef lithimnulestur virkaði í alvörunni og við myndum lifa hátt ef öll svör í lífinu væru jafn einföld og þau sem höfuðlagsfræði, lófa- og andlitslestur lofa. Auðveld svör og ódýr loforð eru svo freistandi. Munið bara að góðar spurningar eru æðri einföldum svörum. Ef þú hefur auðvelda eða jafnvel mikilvæga spurningu sem varðar, til dæmis, heilsu þína skaltu vera efagjarn á ódýr, auðveld svör frá öðrum en heimilislækninum þínum.


* Taka þarf fram að þó flestir lithimnulesarar séu hnykklæknar eru tiltölulega fáir hnykklæknar lithimnulesarar og þeir aðhyllast þá nánast alltaf upprunalegu hugmyndirnar um hnykklækningar eða blandaða aðferð (e. „straight“ og „mixed“) en ekki endurmótaða aðferðafræði (e. „reform“).


Upprunalegu greinina má finna hér. Þýtt og birt með leyfi höfundar.

Vantrú hefur áður fjallað sérstaklega um lithimnulestur.

Karl Gunnarsson 25.04.2008
Flokkað undir: ( Erlendar greinar , Nýöld )

Viðbrögð


gimbi - 25/04/08 19:36 #

En segið mér, er heimskulegt þegar einhver segir við annan: "Þú geislar af heilbrigði!"?


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/04/08 01:32 #

Það er auðvelt að sjá á svipbrigðum fólks ef því líður illa :-) Ef truflanir eru á lifrarstarfsemi er oft hægt að sjá það á hvítunni í augunum.

Lófalestur er skemmtilegt grúsk en ekki sönn vísindi.Ef það væri eitthvað að marka svokallaðar líflínur í lófunum, þá væri ég löngu dauð, því mín er brotin :-)

Einu sinni var ég alltaf með bólguhnút undir hægra fæti. Þá var ég mjög slæm í bakinu hægra megin. Ég var svo eitt sinn að grúska í bók um náttúrulækningar og þar var kafli um fæturna. Ilin var kortlögð í samræmi við svokallað svæðanudd og svæðið þar sem ég var með bólguhnútinn var sagt vera fyrir mjóbakið þar sem ég var að drepast. Jæja, en ég fór svo í bakaðgerð sem gekk mjög vel og ekki löngu eftir aðgerðina hvarf bólgan úr fætinum :-) Ég sagði lækninum mínum frá þessu og honum fannst þetta mjög spes :-)


Harpa - 26/04/08 02:32 #

Fyrir nokkrum árum leit kona sem leggur stund á flest kjaftæði sem hægt er að finna í augun á mér og tók eftir áberandi einkenni í öðru auganu sem ég hef haft allt mitt líf. Þá kom hún með stórar yfirlýsingar um að ég væri með lifrarsjúkdóm, og þegar ég neitaði því og sagðist alltaf hafa verið með þetta þóttist hún vita betur, hann væri bara ógreindur eða ætti eftir að koma fram seinna í lífinu. Lætin voru svo mikil yfir þessum meinta lifrarsjúkdómi að ég varð gjörsamlega að flýja til að losna undan kjaftæðinu. Nokkuð viss um að ef ég hefði tekið undir þetta hjá henni, eða virkað óviss, hefði hún boðið upp á höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð til að "lækna" mig


Sigrún - 03/01/10 05:29 #

Fyrirgefið. Mjög áhugaverð grein, en vildi bara aðeins benda Margréti á að samkvæmt lófalestri þýðir brotin líflína ekki dauða þinn, það er aðeins misskilningur og einföldun flestra. Ekki það að ég viti neitt mikið um þessi fræði, hef bara verið að lesa mér svona nokkuð til um þetta. Brotin líflína á að tákna veikindi eða andlega vanlíðan, jafnvel að þú breytist töluvert persónulega á skömmum tíma, eftir áfall. En heldur lífi ;D

Einungis að benda svona á þetta : )

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.