Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Með vasa fulla af grjóti

Þegar hugsað er um nýöld og fylgjendur þess þá dettur manni einna helst í hug hin steríótípíska síðhærðan hippa íklæddri litríkri mussu gangandi um í sandölum með kristall á streng í kringum hálsinn. Manni dettur í hug hóp ungra uppa sitjandi með krosslagðar fætur á teppi að kyrja. Manni dettur í hug bláhærðar gamlar konur með fokdýrt álglingur um úlnliðinn sem vilja lifa ögn lengur.

En fyrst og fremst dettur manni í hug fólk sem selur gagnslaust drasl í dýrum dómi sem garanterað að sé allra meina bót og svo fer hugurinn að reika í átt til allra sem trúa því að orkukristallar geta bætt við örfá ár, hreinsað slæma áru og eytt svitalykt, að það þurfi aðeins að pota á rétta staði í líkamanum til að svokallað qi-flæði verði virkt, að það þurfi bara nokkra tugþúsund kalla til að læra að fljúga, að lesa hugsanir, að tengjast betur við stofnfrumuna og sjá DNA-strengi með berum augum. Allt þetta fólk sem trúir á anda, drauga, dreka, fljúgandi einhyrninga og eðlufólk utan að geimi með illar fyrirætlanir fyrir jörðina og íbúa þess.

Og þetta eru ekki steríótýpískir einstaklingar, þetta er fólk af öllum gerðum, stéttum, aldri, kyni, búsetu o.s.frv. Bara venjulegt fólk. Getur það virkilega verið að fólk sé svona vitlaust?

Táneglurnar sem ég klippi af mér hefur álíka læknandi áhrif og handayfirlagningar. Að liggja í myrkrinu og hlusta á viss lög með Slayer í klukkutíma getur bætt fleiri ár við ævina heldur en orkukristallar. Ef þú heldur á bjórkönnu á vissan hátt mun vissulega hreinsa illar árur. Nú þarf ég bara að narra fólk á námskeið til að læra hvaða Slayer-lög þetta eru, hversu stórar táneglurnar eiga að vera og hvernig skal halda rétt á bjórkönnu. Einnig þarf ég töluverða búlsjitt-hæfileika til að láta þetta hljóma það trúverðugt að trúgjarnt fólk hætti að flissa og hugsi “Hmmm, þetta er ekki svo vitlaust”

Sem það er.

Í síðasta mánuði kom Steward Swirdlow til landsins. Hann staðhæfði að hann væri með stórbrotna hæfileika. Hver sem vildi hlusta á hans stórbrotnu staðhæfingar þurftu einungis að borga 17.500 kall fyrir tveggja daga námskeið um – ég leyfi mér að fullyrða – kjaftæði. Hér á Íslandi er starfrækt Heilsumeistaraskólinn, og þar lærir maður:

Á fyrsta ári er lögð áhersla á lithimnugreiningu, á grasalækningar á öðru ári og á samþættar almennar náttúrulækningar á þriðja ári ásamt fleiri námsþáttum

Undanfarna mánuði, virðist vera, spottar maður námskeið til að læra hvernig skal beita Leyndarmálinu rétt. Það er nefnilega ekki bara nóg að hugsa jákvætt og nógu stíft um hlutina, þú verður að lesa bókina, sjá myndina, skrá þig á námskeið og eflaust ganga í Leyndarmáls-költið. Efalaust eru fleiri leiðir til að féfletta fólk með þessu ótrúlega Leyndarmáli, máske verður ekki svo langt í að Leyndarmáls-kóla kemur á markaðinn, Leyndarmáls-orkustengur, Leyndarmáls-boost og Leyndarmáls-æfingatæki.

En af hverju er fólk að kaupa sig inná þetta, af hverju trúir fólk þessu? Vegna þess, að því er virðist, að sumir verða einfaldlega trúa því að hið ótrúlega sé til. Þessi stórbrotna jörð sem við lifum á, með sína stórbrotnu náttúrufegurð bundið af náttúrulegum lögmálum, virðist ekki vera nóg fyrir vitleysinga.

Þórður Ingvarsson 20.04.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Nýöld )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 21/04/08 07:24 #

Ég hef sterklega á tilfinningunni að kuklið sé einhverskonar viðbragð við afhelgun samfélagsins. Það er einhver óúskýrð þörf á að smætta undur tilverunnar. Að einhver sérstök steintegund hafi lækningaráhrif eða hafi bein áhrif á örlög "steinbera" er mér óskiljanlegt. Mér finnst svona krystalla vitleysa smættandi og gera litið úr hinum raunverulegu undrum tilverunnar. Viðkomandi ætti að frekar að íhuga óravíddir tilverunnar, sem spannar frá smæstu einingum atómanna til hins þekkta alheims. Íhuga stöðu sína í veröldinni og keðju lífsins. Að spyrða þessi undur við járnaldarspekirit eða reykelsismettaða fjárplógsstarfsemi er smættandi.

Stundum er sagt að trúlausir segist eiga svör við öllum spurningum. Það er af og frá. Ég endurtek: það er af og frá. Það eru einmitt trúarbrögðin sem segjast hafa svörin. Trúlaust fólk er einmitt nógu heiðarlegt til að segjast ekki vita svörin. Svarið "Ég veit það ekki" ...-er svar!.

Heimsmynd mín er því byggð á einu risastóru "Ég veit það ekki". Ég veit ekkert hver tilgangurinn í lífinu er og hlakka til þeirrar stundar þegar ég átta mig á því. -Ef ég geri það nokkurntímann. Þótt ég viti ekki neitt um eðli eða tilgang tilverunnar þá hafna ég sumum skýringum á þessum spurningum. Ég tel t.d að heimmsynd trúarbragðanna sé vitleysa, hvort sem maður beiti flóknustu túlkunarlyknum eða taki útskýringarnar bókstaflega.

Segjum sem svo að ég velti vöngum yfir fegurð sköpunarinnar þegar fluga er nörruð til að bera sæði á milli blóma, hversvegna þarf ég að smætta þetta undur í það að flugan sé í rauninni sendiboði lítilla garðálfa sem safna frjókornunum í krukku til að friða vondu Álfkonuna. Þessi tengsl eru fáránleg. Það sem ég á við er að svar við erfiðum spurningum er ekki endilega gilt þótt það sé svar.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 21/04/08 22:40 #

Það væri nú ekkert gaman að þessu ef ekkert væri kuklað :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.