Á dögunum fékk ég í póstkassann minn athyglisvert blað. Það var gefið út af einhverri kirkju hérna í Gautaborg. Blaðið var vandað í alla staði og margar greinarnar hinar læsilegustu. Í því var m.a. viðtal við Íslending sem er að setja upp leikritið Óviðrið í Malmö. Íslenski leikhúsmaðurinn ræddi vítt og breitt um leikritið og eins og gefur að skilja þá snerust spurningarnar að mestu leyti um trúarlegar tengingar og túlkanir á verkinu. Landi okkar og viðmælandi blaðsins var að lokum spurður hvort hann væri trúaður. Ekki ætla ég að gera gera þessum ágæta landa mínum upp skoðanir í trúmálum en mér fannst eins og hann kærði sig lítið um að ræða sín persónulegu trú við blaðamann. Svarið var því stutt og laggott -Ég hef mína barnatrú.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað þetta í raun þýðir. Að hafa sína barnatrú. Hugtakið hefur í rauninni orðið að stöðluðu svari við óþægilegri spuringu. Þetta er álíka og segjast halda með landsliðinu þegar maður er ynntur eftir með hvaða liði maður heldur í fótbolta. En aftur að kjarna málsins. Hvað þýðir það að hafa sína barnatrú? Ég get svarað fyrir mig en einungis velt fyrir mér hvað fyrirbærið þýðir almennt því aldrei hefur mér að vitandi þetta verið kannað kerfisbundið.
Sem krakki fékk ég enga sérstaka trúarinnrætingu, kunni faðirvorið og vertu guð faðir. Ég fékk þó nokkuð snemma hugmynd um helvíti og himnaríki. Kannski þegar foreldrar mínir voru að útskýra fyrir mér dauðann sem alltaf er jú nálægur í lífinu. Ég man að móðir leikfélaga míns lést þegar hann var 5 eða 6 ára. Amma mín talaði oft um pabba sinn og mamma hennar, langamma mín, var á lífi þar til ég varð fullorðin. Langafi var því alltaf nálægur í fjarveru sinni. Ég upplifið hann alltaf í himnaríki, í birtu í einhverskonar skýjaumhverfi, baðaður gulri og hvítri birtu. Svo átti fjölskyldan alltaf ketti sem hurfu með reglulegum hætti. Útskýringar foreldra minna á ótímabæru hvarfi þeirra gætu hafa átt þátt í að móta þessa himnaríkishugmynd. Þótt ég sé ekki alveg viss hvaðan himnaríkishugmyndir mínar eru komnar er ég alveg viss um hvaðan hugmyndir mínar um helvíti eru ættaðar. Þær eru ættaðar úr bók sem að var í miklu uppáhaldi hjá móður minni. Það var listaverkabók þar sem málverkum hollenska málarans Hieronymusar Bosch voru gerð skil. Bosch þessi var óskaplega fær málari og málaði martraðarkenndar myndir af allskonar fyrirbærum. Sumir ganga svo langt að segja hann fyrsta súrrelasistann. Bosch málaði mikið af trúarlegum myndum og í anda hinnar flæmsku mótmælandastefnu þá var syndin og dyggðin inntak í hans stórkostlegu myndum. Ein af hans þekktustu myndum er þrískipt mynd þar sem efst er mynd af himnaríki, í miðjunni er mynd af jarðlífinu og neðst er mynd af helvíti. –Þangað langaði mig ekki. Þar voru púkar og allskyns árar að kvelja syndarana með úthugsuðum aðferðum sem endurspegluðu sennilega harðan veruleika síðmiðalda og þeirra ótrúlega blóðugu trúarátaka sem skópu trúarlíf Niðurlanda.
Þetta eru s.s. sifjar barnatrúarinnar minnar. Barnatrúin mín var ferlega einföld satt best að segja. “Góðu” fóru til himna og þeir “vondu” til helvítis. Eins og ég tók fram í upphafi þessa pistils þá get ég með engu móti sagt hvernig barnatrú Íslendinga er almennt en það kæmi mér ekki á óvart að barnatrú snúist að miklu leyti um himnaríki og helvíti. Auðvitað spila fleiri þættir inn í dæmið eins og t.d góðar minningar úr æskunni í kringum jól eða páska. Bænastund með foreldrum í kyrrð og stillu áður en lagst er til hvílu. Koss á enni og með ósk um að guð blessi mann. Ég man alltaf eftir að amma mín gerði ávalt krossmark yfir hvítvoðungum með tregafullum svip þess sem óskar þess heitast að allt fari vel þrátt fyrir grimman og óvæginn storminn sem utan við vögguna geysar. Svona atburðir, svona andartök hafa sjálfsagt mótandi áhrif á barnatrú.
Nú er ég ekki að gera lítið úr heimssýn barna né innrætingu þeirra á fyrstu árum ævi þeirra. Það er að sjálfsögðu einkamál hvers og eins hvað viðkomandi trúir á, hverskonar heimssýn hann tileinkar sér en ég set spurningarmerki við það þegar fullorðið fólk heldur í þessa heimssýn eða barnatrú. Mér finnst það í raun ekki sæmandi fullorðnum að trúa á himnaríki eða helvíti. Í þessu samhengi má minnast orða sjálfs Páls postula þega hann segir í Fyrra Korintubréfi 13:11
Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn. Sé þessi hugtök (himnaríki og helvíti) túlkuð sem tákn fyrir glötun eða blessun þá snýr málið allt öðru vísi og barnatrúin verður að einhverskonar fullorðinstrú.
Prestar hafa löngum mært barnatrú og talað um hana af aðdáun með grátstafinn í kverkunum, talið hana merki um eina fegustu birtingarmynd kristindómsins. En fleira hangir á spýtunni. Börn yngri en 8 ára eru eiginlega eini hópurinn sem Ríkiskirkjan “nær til” af einhverju marki. Sunnudagaskólinn er einn kröftugasti hluti Ríkiskirkjunnar og að mér skilst vel sóttur og vinsæll. Reyndar er ekki mikið um önnur félagsleg úrræði fyrir smábörn en auðvitað á að hrósa Ríkiskirkjunni þar sem innistæða er fyrir.
Eins og allir vita þá þroskast börn. Þau komast til manns. Þau mannast. Við það ferli hætta börn að haga sér barnalega og skilja við barnalegar hugmyndir um tilveruna. Þau fara að hugsa meira og meira eins og fullorðið fólk, mörgum ríkiskirkjuprestinum til mikillar armæðu, og hætta að mæta í kirkju eins og þau gerðu þegar þau voru smábörn. Reyndar koma krakkar aftur inn í kirkjuna við fermingu og eru neydd til þess að mæta ella fá þau ekki gjafirnar og uppskera skammir frá foreldrum, ömmum og öfum. Eftir fermingu hættir svo kirkjusókn fermingarbarna nánast alveg fyrir utan að mæta í aðrar fermingar, giftingar og jarðarfarir. Skyldi þetta vera vegna þess að fólk hættir að notast við barnatrúna? Viðbrögð Ríkiskirjunnar við þessu brottfalli voru frekar örvæntingarfullt og fólu í sér viðurkenningu á því að stálpaðir krakkar myndu aldrei nenna í kirkju. Það var ákveðið að færa kirkjunna inn í skóla landsins. Þetta var kallað Vinaleið og sem betur fór var hætt við þessa útrás. En ekki þó fyrr en eftir mikil átök.
Barnatrú er í sjálfu sér eðlileg þróun eða ástand sem hver og einn einstaklingur fer í gegnum og sérkennilegt þegar fullorðið fólk vísar í téða barnatrú aðspurt um afstöðu til trúarbragða. Ég líkti í upphafi þessa pistils frasanum um “ég hef mína barnatrú” við það að segjast halda með landsliðinu. Það eru fleiri möguleikar í stöðunni en að segjast halda mér einhverju félagi eða landsliðinu. Það er líka hægt að segjast ekki halda með neinu félagi. -Að ég hafi ekki áhuga á fótbolta.
Ég lít á barnatrú sem hugmyndir barna um lífið og tilveruna sem oft eru byggðar á röngum og misvísandi upplýsingum frá bæði fullorðnum og fjölmiðlum.
Skemmtilegt dæmi um barnatrú er stelpa sem ég þekki sem á unglingsárum sínum gerði sér grein fyrir því að mystískar hugmyndir hennar um heiminn byggðu á pælingum um "the force" úr Star Wars. Þá hafði hún séð myndirnar sem smástelpa og seinna gleymt því. Það var því ekki fyrr en hún sá myndirnar aftur löngu seinna að hún áttaði sig á því hvaðan þessar skrítnu hugmyndir komu. Í dag er hún náttúrulega trúleysingi.
Ég hef aldrei skilið þessa aðdáun sem oft er lýst á barnatrú, og þá fegurð sem henni er ætluð. Persónulega finnst mér ekkert fallegt við það að halda í við barnalegar hugmyndir þegar þroski fullorðinsára gagnrýnir þær.
Ekki lofsömum við barnalegar hugmyndir um pólitík.
Ekki lofsömum við barnalegar hugmyndir um mannleg samskipti.
Ekki lofsömum við barnalegar hugmyndir um stríð.
Hvað er að hjá okkur?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Svenni - 11/04/08 15:57 #
Er ekki átt við trú á börn? Sjálfur er ég trúlaus. Ég tel mig að vísu hafa séð börnum bregða fyrir hér og þar en það eru eflaust einhverjar rökréttar skýringar á því.