Við þekkjum dæmisöguna um sáðkornið (Mt. 13). Féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.
Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta. Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það, en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar. Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, ,sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.
Aðra dæmisögu sagði Kristur: ,,Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: „Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?“ Hann svaraði þeim: „Þetta hefur einhver óvinur gjört.“ Þjónarnir sögðu við hann: „Viltu, að vér förum og tínum það?“ Hann sagði: „Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.“
Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: ,,Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum.'' Hann mælti: ,,Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.''
Hver sem eyru hefur, hann heyri.
Hversu oft höfum við ekki heyrt þessa sögu? Og skiljum við ekki mætavel merkingu hennar? Þessum boðskap hefur áreiðanlega verið sáð í hjörtu velflestra Íslendinga, en við vantrúuðu virðumst ekki skilja orðið um ríkið. Kom hinn vondi og rændi því? Skortir okkur rótfestu? Erum við of hvikul og látum áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kæfa orðið? Erum við illgresið?
Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.
Nei, við skiljum þetta ekki, sjáum ekki dýrð Drottins. Jesús sagði lærisveinunum að þeim væri gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum væri það ekki gefið.
Nei, okkur er ekki gefið að þekkja þessa leyndu dóma. Af hverju ekki? Af hverju er þetta eitthvað leyndarmál? Guði almáttugum ætti að vera í lófa lagið að opna hlustir eða augu okkar, við virðumst ekki geta það sjálf. Er rétt að refsa blindum manni fyrir að sjá ekki eða daufdumbum fyrir að heyra ekki? Er sanngjarnt að sumum sé þekkingin GEFIN en öðrum ekki? Er einhver smuga að við getum einhvern tíma öðlast þessa þekkingu? Um það hefur Kristur þetta að segja:
Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja..
Þarna sérðu. Heyrirðu það? Er það skilið?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.