Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvaðan koma mannréttindi?

Í fyrra eða hittifyrra sagði Auður Eir Vilhjálmsdóttir að Jesús hefði stofnað kvenréttindahreyfinguna og Marteinn Lúther hefði eflt hana. Jón Valur Jensson heldur því fram að kristindómurinn hafi verið meira framfaraafl fyrir mannkynið en nokkur önnur hugmyndafræði. Fleiri guðsmenn láta þessa skoðun í ljós, og maður er minntur á það við ýmis tilefni að barnaútburður hafi verið bannaður við kristnitökuna, umskurn afrískra kvenna sé á undanhaldi þökk sé kirkjunni, Jesúítar hafi nú staðið í réttindabaráttu suður-amerískra indjána og gott ef það voru ekki einhverjir guðfræðimenntaðir menn á móti því að svertingjar væru í ánauð á sínum tíma í Ameríku. Fyrir svo utan að Þjóðkirkjan hefur verið óþreytandi við að „ræða“ mannréttindi samkynhneigðra.

Það er ekkert annað. Maður gæti næstum því hlegið. Fyrir hvert svona atriði má auðvitað tína til krossferðir og aðrar mannskæðar trúarbragðadeilur, nú, eða kristilegt blátt bann við fóstureyðingum í sumum löndum, sem kostar tóm vandræði, eða þá baráttu sótsvartra afturhaldsafla fyrir opinberri barnakennslu um „vitræna hönnun“ og aðra álíka dellu, en það ætla ég ekki að gera hér. Spurningin í titli greinarinnar er nefnilega: Hvaðan koma mannréttindi?

Mannréttindi eins og við þekkjum þau eru ávöxtur baráttu sem hugmyndalega séð má að miklu leyti rekja til upplýsingaraldar. Á upplýsingaröld (sem spannar nokkurn veginn síðari hluta átjándu aldar) blésu vindar mannmiðaðrar rökhyggju andlegri þoku hjátrúar í burtu, og ruddu brautina fyrir framfarir í vísindum, lögum og á öðrum sviðum mannfélagsins. Það komu brestir í þann andlega hafís kreddufestunnar, sem hafði fjötrað góða drengi í heljarböndum.

Hitt, sem má rekja mannréttindi til, makró-pólitískt séð, er stéttabaráttan. Í fyrsta lagi er það valdataka borgarastéttarinnar, sem fór fram í rykkjum og skrykkjum frá seytjándu öld og fram á þá tuttugustu. Hún hafði til dæmis í för með sér að lagaleg forréttindi, að hætti lénskerfisins, voru að mestu leyti afnumin, og hegning vék fyrir betrun, sem grundvallarsjónarmið í sakamálum. Þá losnaði um málfrelsi, prentfrelsi, funda- og félagafrelsi og annað sem okkur þykir sjálfsagt nú til dags. Í öðru lagi var það barátta alþýðunnar, sem hefur skilað okkur félagslegum réttindum á borð við að menntun eða heilsugæsla heyri til almennra mannréttinda, eða þá að fólk eigi ekki að þurfa að svelta þótt það missi vinnuna, eða að fólk sem fæðist dökkt á hörund eða kvenkyns eigi að hafa sömu tækifæri og réttindi og við hvítu karlarnir.

Ég held að í hverju einasta máli, þar sem einhver hefur barist fyrir auknum félagslegum, lagalegum eða borgaralegum réttindum, hafi einhverjir prestar talið það skyldu sína „að standa á bremsunni og að standa vörð um gróin trúarleg og samfélagsleg gildi“ og reynast „þar þröskuldur á vegi þeirra sem lengst hafa viljað ganga“, svo ég vitni í nýlegt viðtal við Karl Sigurbjörnsson, um málefni samkynhneigðra og möguleika á að þeir fái að ganga í hjónaband við þá sem þeim sýnist.

Misskiljið mig ekki: Ég tel að kristni og kirkjan hafi vissulega verið framfaraspor á sínum tíma, að minnsta kosti að mörgu leyti. En undanfarnar tíu til fimmtán aldir hefur heimurinn haldið áfram að þróast en kirkjan dregist aftur úr. Afturhaldsöfl hafa jafnan getað talið sér liðsmenn vísa í röðum hennar, og Biblían verið þeim drjúgt vopnabúr. Sem betur fer er nóg af fólki í kirkjunni sem meikar sens – skárra væri það nú – og hún hefur alveg gert eitt og annað sem við vildum ógjarnan vera án. En að hún sé framsækið afl í sjálfu sér – ég held nú síður. Þær framfarir undanfarinna alda sem þakka má kirkjunni blikna í samanburðinum við þær framfarir sem hafa orðið þrátt fyrir kirkjuna.


Viðtalið sem vitnað er í: Sigurður Bogi Sævarsson: „Óbundinn hagsmunum valdsins“, viðtal við Karl Sigurbjörnsson, Ský 3. tbl. 2006, Heimur hf., Reykjavík, s. 27-28.

Vésteinn Valgarðsson 25.01.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 25/01/08 09:52 #

Til mannréttinda teljast trúfrelsi, kvenfrelsi, jafnrétti, skoðanafrelsi, málfrelsi o.s.frv. Helsti dragbítur trúfrelsis í heiminum eru auðvitað eingyðistrúarbrögðin (kristni, gyðingdómur og Íslam). Með vísan í Biblíuna börðust kristnir gegn afnámi þrælahalds og gegn kvenfrelsi.

Nú á 21. öld á Íslandi eru enn menn innan kirkjunnar og frjálsra söfnuða sem vilja halda aftur af konum, t.d. meina þeim að vera prestar. Þar eru líka eindrægnir andstæðingar rétts kvenna til fóstureyðinga. Þjóðkirkjan á í mesta basli með að sætta sig við hjónabönd samkynhneigðra.

Barátta kirkjunnar fyrir sérréttindum sínum hér á landi á kostnað annarra er auðvitað aðför að trúfrelsi í landinu.

Og svo berst hún "hatrammlega" fyrir því að fá að ryðjast inn í skóla barnanna okkar, með sinni "Vinaleið" og trúboði presta í leikskólum, kirkjuheimsóknum, fermingarfræðslu, fermingarferðum o.s.frv. (Svo ekki sé minnst á kerfisbundna innrætingu í kristinfræðikennslu allt frá fyrsta bekk grunnskólans.)

Ef menn voga sér að gera athugasemdir við framferði kirkjunnar manna eru þeir ekki lengur bannfærðir, hengdir, hálshöggnir, húðstrýktir, brenndir eða þess háttar heldur sagðir ógna íslenskri menningu, velferð barna, þjóðerninu og almennu siðgæði. Ég er ekki að tala um ástandið á sautjándu eða átjándu öld heldur undanfarna mánuði!

Sagan kennir okkur, bæði í fortíð og nútíð, hvaða áhrif skipulögð trúarbrögð hafa á þjóðfélög og mannréttindi. Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana. Til þess eru vítin að varast þau.

Ég óttast ekki helvíti en ég óttast aukin áhrif kristinna afturhaldsseggja. Þeir eru úlfar í sauðagærum. Því miður er sauðsháttur mannskepnunnar slíkur að oftar en ekki fylgir hjörðin forystusauðum sínum í blindni. Eina vörnin er upplýsing, en nýlega fullyrti páfinn í Róm að upplýsingin, sem Vésteinn minntist á, hefði verið tilraun sem mistókst!

Mannréttindi ættu að vera sjálfsögð en þó þarf að berjast fyrir þeim, oftar en ekki er höfuðandstæðingur þeirra kristin kirkja. Svo var, er enn og verður á meðan hún hefur einhver áhrif.


Svanur Sigurbjörnsson - 27/01/08 02:01 #

Kirkjan mun alltaf telja sig að meira eða minna leyti yfir mannréttindi hafin því hún telur að Guð hefur sagt henni hvað eigi að gera. Mannanna verk, þ.á.m. mannréttindi verða aldrei viðkennd af þeim fyllilega því stimpilinn "kristin ..." vantar á þau. Hin úrelta bók, Biblían heldur velli því það má ekki sleppa bókstafnum og ef hún fengi að fara í ruslið yrði það álíka. Reynt er að endurþýða (lesist: endurljúga) hana til að gera hana þýðari en það dugir ekki. Bókin sú arna er of illa skrifuð til að vera nokkrum manni siðferðislegur leiðarvísir í dag. Það góða sem má úr henni hafa mætti taka saman á kjarnyrtu máli á nokkrar síður. Sú væntumþykja, heilbrigð fyrirgefning og nokkur önnur gild siðferðisatriði sem í bókinni eru má taka saman og halda uppá, en hinu má gjarnan flokka sem hverjar aðrar goðsagnir fornra alda.

Takk fyrir gott yfirlit Vésteinn. Ég er sammála hugleiðingum þínum í lok greinarinnar.


Haukur Ísleifsson - 28/01/08 16:32 #

Væri það ekki bara góð hugmynd. Góða Biblían. Taka bara saman allt góða dótið og henda rest. Sjáum svo hvort einhverjir trúmenn vilji predika uppúr bók sem inniheldur ekki dráp og fordæmingar.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/08 17:01 #

Abbabbb, mig grunar 100 mínútna Biblían standist þau skilyrði.


Haukur Ísleifsson - 28/01/08 19:28 #

Hvar nær maður í slíkan grip.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/08 20:23 #

Eflaust bara í næstu bókabúð, þetta var gefið út í hitteðfyrra, þetta er ðí öltímeit grænsápubiblían. Það var lítillega minnst á þetta í Ágústínusarverðlaunum 2006

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.