Í viðtali í fyrra sagði Karl Sigurbjörnsson að deilur um réttarstöðu samkynhneigðra hafi verið sér erfið úrlausnar og að rétt sé að „doka við og sjá hverju fram vindur.“
„Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“ segir Karl. „Um langan aldur hefur verið fylgt þeirri stefnu að aðgreina stöðu og hlutverk ríkis og trúfélaganna og þar er gengið út frá samvinnu fremur en valdboðum. Hjónavígsla og hjónaband eiga sér langa hefð og sögu og eru skilgreind með svipuðum hætti um alla heimsbyggðina, það er að hjónaband sé sáttmáli karls og konu. Alþingi getur breytt því og farið sína leið, en þá ætti að halda trúarbrögðunum utan við það,“ segir Karl sem þykir þjóðkirkjan hafa fengið ósanngjarna gagnrýni í umræðum um réttindi samkynhneigðra.
„Kirkjan hefur staðið fyrir umræðu og fræðslu og gefnir hafa verið út fyrirlestrar og ritgerðir á vegum kirkjunnar um málefni samkynhneigðra. Mest af þessu efni er afar hliðhollt málstað samkynhneigðra eins og ég hef sjálfur verið hingað til. En þegar krafan hefur á seinni misserum snúist um hjónabandið og endurskilgreiningu þess hef ég talið skyldu mína að standa á bremsunni og að standa vörð um gróin trúarleg og samfélagsleg gildi. Ég axla fúslega þá ábyrgð að hafa reynst þar þröskuldur á vegi þeirra sem lengst hafa viljað ganga. En það er við ramman reip að draga. Straumþungi samtímans hefur verið á einn veg, knúinn áfram af öflugustu skoðanamótendum og fjölmiðlum.“
Þetta er umhugsunarefni. „Alþingi getur breytt“ fyrirkomulagi hjónabandsins „og farið sína leið, en þá ætti að halda trúarbrögðunum utan við það“ – hljómar það ekki nokkuð skynsamlega, bara? Ef ég skil biskup rétt erum við hér sammála: Hjónabandið ætti að vera borgaraleg stofnun og kirkjan ætti hvorki að hafa heimild til að gefa saman samkynhneigða né neina aðra. Þar til bær borgaraleg yfirvöld ættu að sjá um að gefa fólk sem það vill saman í hjónaband, og kirkjan og önnur trúfélög gætu blessað það sem þeim sýndist.
Viðtalið sem vitnað er í: Sigurður Bogi Sævarsson: „Óbundinn hagsmunum valdsins“, viðtal við Karl Sigurbjörnsson, Ský 3. tbl. 2006, Heimur hf., Reykjavík, s. 27-28.
Hvaða hvaða... Samkynhneigðir hafa alltaf getað fengið giftingu hjá Ríkiskirjunni.
-Svo fremi að hommi giftist lespíu eða lespía giftist homma.... Svoleiðis ráðahagur er í fínu lagi hjá Ríkjó :)
„Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“ segir Karl. „Um langan aldur hefur verið fylgt þeirri stefnu að aðgreina stöðu og hlutverk ríkis og trúfélaganna og þar er gengið út frá samvinnu fremur en valdboðum.
Þessi framsetning biskups stendur rosalega í mér. Hann er að segja að lög landsins banna eins og er nokkrum að gefa saman samkynhneigða, og það sé algengt fyrir viðmiðunarþjóðfélög. Ef Alþingi afléttir þessu banni, þá er það að hætta að skipta sér að þessari hlið á helgisiðum og innri málum trúarbragða.
Biskupinn lætur þetta hljóma eins og hann sé vörður umburðarlyndis og frjálshyggju, en hann er í raun að segja þveröfugan hlut.
Þeir hafa verið að skipta sér af helgisiðum og innri málum trúfélaga, og ef þeir hætta því, þá eru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga.
Ég er alveg gáttaður.
En það er kannski ekki skrítið að maðurinn sé kominn á toppinn í ríkiskirkjunni þegar hann getur svona auðveldlega látið einn hlut hljóma eins og eitthvern annan.
Að sjálfsögðu á hið eina sanna löglega hjónaband að vera borgaralegt. Þannig er það hjá siðuðum þjóðum!
Í þeim fjölmörgu löndum þar sem borgaralegt hjónaband er hið eina gilda geta síðan viðkomandi hjón fengið hina og aðra til þess að búa til einhverja athöfn.
En kirkjan á Íslandi vill einoka hjónabandið eins og hún reynir að einoka allar athafnir sem varða merkisatburði í lífi fólks. Frægar eru ofsóknir kirkjunnar manna á hendur Siðmennt fyrir að standa fyrir borgaralegri fermingu. En sem betur fer fjölgar þeim unglingum sem fara þá leið.
Og sjáiði hvernig útfarir og minningarathafnir fara fram! Aðstandendur koma í athafnirnar eins og hverjir aðrir gestir. Það er presturinn einn sem minnist hins látna og hinir eftirlifandi þurfa að sitja undir öllu því rugli og misskilningi. Um daginn var ég við minningarathöfn og presturinn lét sterklega að því liggja hve náin þau hefðu verið hin látna og hann! En það fór ekki fram hjá neinum sem heyra vildi að hann þekkti hina látnu ekki nokkurn skapaðan hlut!
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Árni Árnason - 22/01/08 12:19 #
Þetta er auðvitað alveg bráðsnjöll lausn, en heldurðu að biskupinn sé tilbúinn til þess að undirgangast það að meiga ekki gefa saman hjón, hann verði að láta sér nægja að blessa þá borgaralegu gerninga sem hann kýs ?