Fyrir hálfu áttunda ári hélt ríki og kirkja upp á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi, ekki þjóðin. Vissulega var um merkilegt afmæli að ræða og tilvalið hefði verið að fagna því með því að skera á tengsl ríkis og kirkju, en því miður áttum við engan jafnoka Þorgeirs Ljósvetningagoða á þingi. Andúð, afskipta- og áhugaleysi almennings á sjálfsupphafningu kirkjunnar og bruðli kristnihátíðar gleymist seint og því er nokkuð sérkennilegt að heyra kirkjunnar menn hamra á að þjóðinni sé svo mjög í mun að halda áfram að ausa nú fjórum milljörðum árlega í þá hít sem embættismannakerfi þjóðkirkjunnar er.
Í áramótaávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra meðal annars um heimsókn sína í páfagarð. Þar átti hann fund með pápa sjálfum „sem nú fer með embættisstaf sjálfs Péturs postula og er trúarleiðtogi um þúsund milljóna manna“ og gekk „um gáttir þess veraldarundurs sem Vatikanið og hallir þess eru“. Ráðherrann gat þess sérstaklega að kaþólsku kirkjunni hefði fylgt mikil blessun þótt oft hefði um hana blásið.
Já, ég skal trúa að hallir páfa séu tilkomumiklar en hvernig rímar þetta allt við boðskap þess sem kirkjan þykist vegsama? Og þessi preláti ber enn ábyrgð á þjáningum og dauða ótal karla, kvenna og barna með forneskjulegri afstöðu sinni til getnaðarvarna. Auðvitað eru myrkraverk miðaldakirkju ekki hans en ég hefði haldið að örbirgð, hungur og eymd skjólstæðinga þessa höfðingja kæmu upp í huga flestra við svona aðstæður.
Íslendingar hafa ekki fylgst grannt með erindisbréfum páfa síðan lútherskir gerðu Jón Arason biskup og syni hans höfðinu styttri í Skálholti, við upphaf hins lútherska siðar hér. En þeim til fróðleiks skal bent á að í öðru slíku bréfi sínu nú í haust lýsti páfi yfir að upplýsingin hefði verið tilraun sem mistókst.
En forsætisráðherra hélt áfram að mæra kirkjunnar menn og sneri sér næst að Sigurbirni Einarssyni fyrrv. biskupi. Á síðasta ári hlaut hann verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu og sagði af því tilefni: „Það er sjálfgefið að þetta gleður mann að sjálfsögðu, og er mjög dýrmætt fyrir mig persónulega.“ Vissulega rís orðkynngi hans ekki hæst í þessum orðum og fyrirgefst auðveldlega þegar menn rifja upp önnur dæmi, svo sem þegar hann líkti orðum þeirra sem gagnrýndu óráðsíuna á kristnihátíð við það „allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa“. Og auðvitað er hljómfagurt að segja menn „lepja spýju upp í munninn á sér“ ef þeir voga sér að kalla þjóðkirkjuna ríkisskirkju.
Á aðfangadag birtist viðtal við Sigurbjörn í Fréttablaðinu þar sagði hann fjarstæðu og skammsýni að samkynhneigðir gætu gengið í hjónaband og móðursýki að virða úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu, þótt hann kallaði það reyndar „að skríða eftir allri evrópskri sérvisku“.
Þá að syninum, Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Í áramótaprédikun hans kveður við nýjan tón. Nú fellir biskup sig vel við umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræði, umhyggju og virðingu fyrir manngildi sem heillavænleg grunngildi. Þetta eru einmitt orðin sem koma í stað orðanna „kristið siðgæði“ í frumvarpi til grunnskólalaga og ýmsir tóku nærri sér. En nú segir biskup þetta einmitt sprottið upp úr „hinum þjóðlega, kristna, húmaníska menningararfi, sem hér hefur ávaxtast kynslóð eftir kynslóð og kristin kirkja hefur nært og frjóvgað“. Það er svo sem ekkert nýtt að kirkjan vilji eigna sér allt gott og fagurt en undarleg eru orð hans um samtök húmanista í þessu samhengi, en þau hefur hann ítrekað kallað hatrömm og neitað að draga til baka.
En í prédikuninni á nýjársdag lofaði Karl líka sálm Kolbeins Tumasonar, „Heyr, himna smiður“ og sagði „en hann lést hinn 8. september 1208 af sárum þeim er hann hlaut í Víðinesbardaga“. Biskup gat þess ekki að þáverandi biskup bannfærði Kolbein og það voru skósveinar biskups sem grýttu Kolbein til bana, fékk hann steinshögg í ennið. „Tókst þar meir að guðsfyrirætlan en að líkindum fyrir liðsfjölda sakir,“ eins og segir í Sturlungu. Flestir vita hvers skáldið bað: „Þú ert Drottinn minn, komi mjúk til mín, miskunnin þín,“ en mættu gjarnan muna hvernig kristið siðgæði biskups kom skáldinu í koll.
Í lok erindisins segir Kolbeinn: „ek em þrællinn þinn, þú ert dróttinn minn.“ Þessi þrælsótti og undirgefni, sem mjög er lofsungin í kristni og Drottinn krefst reyndar, að viðlagðri dauðarefsingu og helvítisvist, var mjög andsnúinn hugsunarhætti þeirra sem settust hér að og nú búa hér. Er ekki úr vegi að vitna í orð Einars Ólafs Sveinssonar um árekstur kirkjunnar manna við hugsjónir og sið þeirra: "Sá árekstur var eðlisnauðsyn, svo fjarskyldur var andi kirkjunnar. Sjálfur kjarninn, stórmennskuhugsjónin, sjálfsvirðingin, hlaut að vera kirkjunni viðurstyggð og háski ... Kirkjan hlaut því að reyna að mola það sundur, sem var kjarninn í lífskoðun hinna forníslensku þjóðveldismanna. Verk hennar varð harmleikur."
Forsætisráðherra og biskup minntust báðir á þörf á bættri menntun. Biskup vill stórauka kristinfræðikennslu en kannski er meiri þörf á sögukennslu eða gagnrýninni hugsun.
Satt að segja held ég að það skipti engu máli hvort að biskup hafi bannfært Kolbein Tumason eða að "skósveinar" hanns hefðu veitt honum banasár með grjótkasti. Þetta ljóð er mjög fallegt gamalt ljóð sem seinna var saminn sálmur við.
Það er óþarfi að vega að siðgæði Guðmundar biskups, sem líklega hefur verið mun meira í anda boðskaps Jesú, en flestra annarra biskupa siðgæði. Hinn eiginlegi bardagi hefst á því að Kolbeinn leggur til atlögu við menn biskups þegar þeir eru á leið frá Hólum til þess að forðast átök. Er Kolbeinn egndur til árásarinnar eða eins og segir í Sturlungu:
"Þegar biskup reíð af stað frá staðnum, mælti Brúsi prestur við Kolbein: „Kolbeinn, þar ríður biskup nú á brott, með virðingu ykkar beggja". Kolbeinn bað menn taka hesta sína, - lést eigi þola mega, at biskup riði brott með skógarmenn hans. Hann ríðr fyrir á veginn við fjögur hundruð manna ok fylkir liði sínu. Biskup víkr þá af veginum ok vildi ríða fram annars staðar. Þeir Kolbeinn snúa þar í mót. Ok er flokkarnir mætast, þá lýstr í bardaga. Biskup sat á hesti ok með honum ábótar ok nökkrir prestar og kallaði, at eigi skyldi berjast. At því gáfu engir gaum."
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 06/01/08 13:54 #
Takk Reynir, frábær hugvekja.