Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um hvað snýst málið?

Siðmennt og aðrir vondir trúleysingjar eru að reyna að eyðileggja fyrir kristnum meirihluta þjóðarinnar með því að heimta að litlu jólin, jólaföndur, kristinfræði og annað skemmtilegt sé fjarlægt úr skólum landsins. Gott ef þetta fólk er ekki kommúnistar, nasistar og rasistar sem vilja með fjölmenningunni eyðileggja aldagamlar hefðir okkar. Nokkurn veginn svona hefur umræðan undanfarið verið. Þeir sem þekkja til eru gáttaðir því ekkert af þessu er satt.

Það eru nokkur aðalatriði í þessu máli. Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan kerfisbundið verið að koma sér inn í leik- og grunnskóla landsins. Hér er ekki um aldagamlar hefðir að ræða. Þetta eru nýjar leiðir kirkjunnar til að ná til barna með kristniboð sitt.

Nú halda einhverjir fram að hér sé ekki um trúboð að ræða. Því er auðsvarað með því að benda á að forsvarsmenn þessara nýju leiða hafa viðurkennt hið gagnstæða. Leikskólapresturinn Bolli Pétur Bollason hefur viðurkennt að starf hans í leikskólum er trúboð. Jóna Hrönn systir hans talar um Vinaleiðina sem boðun.

Oft er talað um að aðkoma kirkjunnar sé nauðsynleg til að fræða börn um hluti eins og frið og kærleika. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að áliti þjóðkirkjunnar séu kennarar og foreldrar ekki hæfir til þess að sjá um þessa fræðslu. Á sama hátt er hin svokallað Vinaleið bein árás á starfsheiður sálfræðinga og félagsráðgjafa sem vinna gott starf í skólum landsins. Ef það er hægt að auka fjárframlög til menntakerfisins þá vil ég hiklaust að þeim verði varið í að bæta aðstöðu og laun þessara vanmetnu starfsstétta. Þeir foreldrar sem vilja að prestar komi að uppeldi barna geta leitað til kirkjunnar, mér skilst að dyrnar séu opnar.

Um þessar mundir er menntamálaráðherra að leggja fram breytingar á grunnskólalögum þar sem óljósri klausu um kristið siðgæði er skipt út fyrir fallega samantekt á siðferðislegum markmiðum. Skólastarfið á að byggjast á "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi." Hverjir geta ekki skrifað undir þetta? Kannski kristnir bókstafstrúarmenn sem reynt hafa að koma sinni tegund af kristilegu "siðgæði" inn í skólanna. Enginn utan þess hóps vill að það gerist.

Staða kristinfræðinnar er óbreytt. Í gegnum tíðina hef ég bara heyrt í örfáum sem ekki vilja að kennt sé um kristni eða önnur trúarbrögð í skólum. Trúleysingjafélögin Siðmennt, SAMT, Skeptíkus og Vantrú hafa allavega aldrei farið fram á það. Hins vegar mætti endurskoða námsefnið þar sem stundum er línan milli fræðslu og boðunar óljós.

Mig grunar að þeir sem hafa hlustað á upphrópanirnar sem hafa heyrst undanfarið verði hissa á því hve skýrt málið er. Það er einfaldlega verið að biðja um að farið verði eftir landslögum sem segja að trúboð eigi ekki heima innan skóla. Sjálfum finnst mér óþarfi að draga fjölmenningarhugtakið inn í umræðuna. En það er samt ágætt að benda á að rétt um helmingur þjóðarinnar segist játa kristna trú og um fjórðungur barna er ekki skírður innan þjóðkirkjunnar. En málið snýst ekki um hlutföll. Málið snýst um að leyfa foreldrum að ráða hvernig trúaruppeldi barnið fær og sá réttur er varinn í Barnasáttmála Sameinu Þjóðanna.

Óli Gneisti Sóleyjarson 09.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Arnar Ingi - 10/12/07 00:07 #

Ég hef verið að fylgjast með þessari umræðu svolítið, og haft gaman af. Ég þarf ekkert að segja mína trúarafstöðu, enda kemur hún engum við nema mér sjálfum. En þessi umræða er, eins og sumir segja, komin í ruglið. Fólk hefur á einhvern furðulegan hátt að túlka alla hluti á vitlausan hátt. Og ef maður bendir því á vefsíður hjá siðmennt eða vantrú, þar sem málin hjá þeim er útskýrð á betri hátt, þá tekur fólk bara algjörlega fyrir það.

Annars hefur allt mitt álit á fréttamönnum algjörlega horfið þessa dagana.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 00:27 #

Takk fyrir þetta Arnar. Það er sannarlega sérkennilegt að leikskólatrúboð og orðalagsbreyting á grunnskólalögunum hafa valdið því að umræðan byrjaði að snúast um annan þjóðsöng og bann við litlu jólunum... Ég held reyndar að PR fólk biskupsstofu hafi fundið þetta til og rutt leiðina fyrir þessa vitleysu.

-Þetta er svo absúrd.

Ég skal hengja mig upp á að næsta skref í PR herferð biskupsstofu er að spyrða Vantrú við satanisma...
Ég meina, Ef maður trúir ekki á guð, þá HLÝTUR maður að trúa á Satan... -Ekki satt?


Daði Ástþórsson - 14/12/07 01:50 #

Ég verð nú að segja að ég er einn af þessum sem var bent á að kíkja á þessa blessuðu (eða hvað) síðu og get nú ekki sagt að það hafi gert mikið fyrir álit mitt á aðstandendum hennar þótt ég sé reyndar nokkuð sammála Teiti þegar kemur að fjölmiðlum. Þetta litla sem ég hef lesið hér minnir mig helst á mótþróaskeið unglinga. Ef til vill hefði meiri lestur leitt annað í ljós en ég ætla ekki að leggja peninga undir. Hreyfing eins og þessi á sannarlega fullan rétt á sér en á enn eftir að þroskast verulega áður en á hana verður hlustandi. Það er ekki hægt að heimta að fólk komi til móts við sjónarmið manns ef maður vill ekki sjálfur stíga sama skref. "En hann byrjaði!" er ekkert svar. "Pældu í því hvað þeir eru vitlausir!" færir umræðuna úr sandkassanum.

Nokkrar spurningar/vangaveltur:

Ofsavantru.is sem síða félags bókstafsvantrúarmanna? Eldibrands-sókndirfska í vantrúboði og predikun er alveg jafn fráhrindandi og öfgafullir trúmenn. Skal eldur barinn aftur með eldi? Er trúboð orðið rangt? Trúboð er hluti af starfi kirkjunnar hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er í eðli hennar að vilja færa út kvíarnar rétt eins það er í eðli annarra stofnanna. Hvernig er í þessu ljósi hægt að réttlæta vantrúboð?

PS Ég er ekki að reyna að leggja ykkur fjötur um fót heldur vona ég að þessu verði tekið sem uppbyggjandi gagnrýni.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 14/12/07 08:00 #

Er hvatning til rökræðna og gagnrýninnar hugsunar sambærilegt við hvatningu um lotningu og skilyrðislausa hlýðni?


Daði Ástþórsson - 14/12/07 14:38 #

Ef báðar hliðar gagnrýna hvor aðra án þess að taka sjónarmið hinnar til greina er það ekki nema einhliða rökræður og skila litlum raunverulegum árangri. Annars er gagnrýni og rökræður af hinu góða, ég dreg það ekki í efa.

Aftur segi ég að "Hann byrjaði" er ekkert svar!

Enn sem komið er er það eina svarið sem ég hef fengið. Tek fram að sjálfur er ég ekki málsvari annarrar hvorrar hliðarinnar.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 14/12/07 17:49 #

Sæll Daði, þú spyrð hvernig hægt sé að gagnrýna eitthvað án þess að taka sjónarmið hins aðilans til greina. Það er í sjálfu sér einfalt. Sjónarmið kirkjunnar er að hún hafi rétt á því í krafti hefðar og stærðar að boða trú í opinberum skólum.

Ég þekki þetta sjónarmið, tek það til greina og er ósammála því. Því er svo svarað með rökfastri gagnrýni, málið er ekki flóknara en svo.

Kirkjan á aldrei eftir að koma til móts við okkar gagnrýni eða brjóta odd af oflæti sínu. Hún á aldrei eftir að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér heldur básúnar um öll torg áróður um fámenn samtök hatrammra trúleysingja, sem þrátt fyrir fámennið virðast hafa einhver dularfull völd.

Gegn slíku er best að ganga hreint til verks. Þér finnst það óþroskaður sandkassaismi, ég veit ekki hvernig hægt er að taka á þessu vandamáli öðruvísi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.