Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur í Hofsóss- og Hólaprestakalli, skrifaði í Morgunblaðið um „gjald afstæðishyggjunnar“ hinn 13. október sl. og varar við póstmódernískum hugmyndum um að ekkert sé í raun satt, að sannleikurinn eigi ekki að frelsa menn heldur eigi þeir að frelsast undan sannleikanum.
Ég er að ýmsu leyti sammála Gunnari. Ég sé t.d. ekki að jafn réttur fólks til að hafa og tjá skoðanir sínar þýði að allar skoðanir séu jafnréttháar. Gunnar virðist þó falla í þá gryfju að halda að fyrst sannleikur sé til, þá sé það satt sem vill svo til að hann telur sjálfur vera satt. Það tel ég vera misskilning. Annar misskilningur hans virðist mér vera sá að ætla andmælendum kristinnar kirkju og hefða póstmódernískar hvatir. Þegar ég segi að „sannleikurinn“ sem prestur boðar í predikunarstólnum sé ekki sannleikur, þá meina ég ekki að enginn sannleikur sé til. Bara að presturinn hafi rangt fyrir sér.
Gunnar ræðir um „pólitíska rétthugsun“ og tengir hana afstæðishyggju. Nú gengst ég fúslega við þeirri pólitísku rétthugsun að taka þarfir og jöfnuð fólks fram yfir duttlunga í þjóðsagnapersónum, en kannast ekki við að það komi afstæðishyggju við. Þótt kristni standi að mínu mati á rökfræðilegum og siðferðislegum brauðfótum, er þá þar með sagt að ég vísi sannleika og siðferði á bug almennt? Það sem trúað fólk hefur „fengið að heyra“ er kannski stundum byggt á afstæðishyggju – en ég leyfi mér að halda því fram að oftar sé gagnrýnin beinskeyttari, og snúist beinlínis um að guð sé ekki til, borgin „á bjargi traust“ sé bara spilaborg og biskupinn sé nakinn.
Maðurinn er mælikvarði alls
Ég er sammála Gunnari um að til sé „raunverulegur og algildur“ sannleikur. Hann liggur hins vegar ekki á lausu, og hann er ekki að finna í neinni einni bók. Sínum augum lítur hver á silfrið; það er oft sett fram sem sannleikur sem í raun er bara ein hlið hans, og menn skyldu varast að túlka það of bókstaflega sem árás á „sannleikann“ þegar ráðist er á misnotkun á sannleikshugtakinu.
Staðhæfingar eru réttar eða rangar eftir því hversu vel þær koma heim og saman við hlutlægan veruleika. Hið góða og slæma er líka til, og mælikvarðinn á það er maðurinn. Það væri ekki hægt að tala um „gott“ eða „slæmt“ í sjálfu sér án þess að einhver legði mat á það; án mannsins væri hvorugt til. Enginn yrði hnugginn þótt menn útrýmdu ebólaveirunni, en ef þeir útrýmdu górilluöpum þætti það ferlegt. Hið góða og slæma er nefnilega huglægt. Maðurinn er ekki aðeins mælikvarðinn á hið góða og slæma heldur er hann líka rót þess. Án mannsins væri ekkert til sem héti dyggð eða löstur.
Gagnrýnin hittir sjálfa sig fyrir
Gunnar varar við því að ef „við útrýmum sannleikshugtakinu þá útrýmum við líka öllum hugmyndum um rétt og rangt“. Nú veit ég ekki hvort hann hefur í huga, póstmóderníska heimspekinga eða þá sem telja t.d. siði mismunandi menningarheima vera jafnréttháa. Hitt efast ég um, að hann hafi sína eigin kollega í huga. Kirkjunnar menn hafa nefnilega sveigt hinn „algilda“ sannleik hennar að þörfum sínum, miðað við aldarfar og viðhorf samfélagsins á hverjum tíma. Sannleikur hennar er ekki algildari en svo, að það þarf háskólagráðu til að skilja hvað guð „raunverulega meinti“ þegar hann sagði mönnum að grýta homma eða að konur á túr væru „óhreinar“. Kirkjan „túlkar“ sig frá óþægilegum staðreyndum um ritninguna og sína eigin sögu og þegir um annað. Í Nýja testamentinu (Mark. 10:11-12) segir Jesús: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum drýgir hún hór“ – hvers vegna leggur kirkjan blessun sína yfir það en ekki yfir hjónaband samkynhneigðra? Getur verið að kirkjuna reki fyrir vindum tíðarandans? Getur verið að henni væri nær að líta í eigin barm áður en hún reynir að draga flís afstæðishyggjunnar úr auga náungans?
Gunnar segir að eftir því sem stöðu kristninnar hafi hnignað, hafi siðferðinu líka hnignað, eins og þar sé orsakasamhengi. Það væri eins hægt að segja að eftir því sem tök kirkjunnar hafi losnað, hafi ungbarnadauði minnkað og meðalaldur lengst. Það er ekki tilviljun að þetta fari saman. Orsakirnar eru betri menntun og lífskjör, afleiðingin minni trúhneigð og aðrar siðferðishugmyndir – sem þurfa ekki að vera verri þótt þær séu öðruvísi.
Við söguleg aldahvörf losar fólk af sér viðjar fortíðar og þá skilja hliðverðir gamla tímans stundum ekki ný viðhorf eða nýja siði, en sjá í staðinn „menningarlega og siðferðilega upplausn“. Gamla valdastéttin hryllir sig og ber ekki kennsl á líkindin við sína eigin sögu. Hvað var það annað en óttinn við „upplausn“ sem fékk valdamenn fyrri tíðar til að berjast gegn framförum? Var það ekki raunin þegar aðallinn og kaþólska kirkjan börðust gegn borgarastéttinni og mótmælendakirkjunum? Eða þegar Rómverjar lumbruðu á frumkirkjunni og vörpuðu kristnum mönnum fyrir ljón?
Gunnar spyr og segir samfélagið fjarlægjast kirkjuna. Það er rétt til getið, þótt með nokkuð öðrum hætti sé en Gunnar telur: Við erum að vaxa upp úr henni.
Þessi grein birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 30. nóvember 2007
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Haukur Ísleifsson - 02/12/07 18:52 #
Afar fallega of vel skrifuð grein.