Um daginn birti guðfræðineminn Stefán Einar Stefánsson grein þar sem hann talar um meinta hræðilega orðræðu „ákveðins hóps manna hérlendis“ og segir að þessi hópur mistúlki orð Páls Skúlasonar um að ekki beri að virða skoðanir annarra.
Til þess að geta haldið því fram að við séum á einhvern hátt að mistúlka þessi orð Páls Skúlasonar, þá þyrfti guðfræðineminn að benda á einhver dæmi sem sýna fram á að við túlkum orð Páls eins og hann heldur fram: „Þeir virðast telja Pál vera að gefa sér leyfi til að sýna öðru fólki dónaskap og skeytingarleysi í samskiptum við annað fólk.“ Hann gerir það auðvitað ekki.
Stefán heldur því fram að við vísum til orða Páls þegar fólk eins og hann kvartar yfir því að við skulum benda á að að þjóðkirkjuprestar eru hræsnarar (meira um það síðar í greininni). Þetta er rangt. Við vísum á ummæli Páls Skúlasonar þegar fólk kvartar yfir því að við séum almennt að gagnrýna trúarskoðanir. Það er nefnilega útbreidd skoðun á Íslandi að það sé yfir höfuð dónalegt að gagnrýna trúarskoðanir vegna þess að þær eru einkamál.
Í inngangi sínum að Siðfræði útskýrir Páll Skúlason í stuttu máli hvers vegna þetta er rangt. Hann bendir réttilega á að skoðanir manna hafi áhrif á breytni þeirra og að breytni fólks hefur áhrif á annað fólk.
Stefán bendir síðan á sex dæmi sem honum finnst vera dæmi um „ótrúlega óforskammaða og ruddalega framkomu þessa hóps í garð saklausra einstaklinga sem aðeins hafa sinnt skyldum sínum við samfélagið“. Stefán Einar lýsti einu dæminu sem „þjóðkirkjuprestar eru kallaðir hræsnarar“ og vísaði á grein eftir mig sem hét einfaldlega: „Þjóðkirkjuprestar eru hræsnarar“. Þar sem þetta eru einu skrif mín sem Stefán kvartar yfir mun ég aðallega fjalla um þetta dæmi, enda nægir það í raun eitt og sér til þess að sýna fram á að skrif Stefáns eru röng og virðast byggja á fordómum.
Til að byrja með segir Stefán að þetta sé dæmi um að við ráðumst á fólk, í þessu tilviki presta, „án nokkurra röksemda“. Þar sem Stefán segist leggja sig sérstaklega fram við að lesa ekki Vantrú.is og skrif félagsmanna Vantrúar[1] þá geri ég ráð fyrir því að Stefán hafi bara lesið titil greinarinnar, en ekki greinina sjálfa. Því ef Stefán hefði einfaldlega lesið greinina þá hefði hann séð að greinin er ein stór röksemdafærsla fyrir því að þjóðkirkjuprestarnir eru hræsnarar. Stefán kvartar líka yfir því að á Vantrú séu „prestar ... sagðir ljúga að börnum“. Ef Stefán hefði lesið greinina sem hann vísaði á hefði hann séð að þetta er rökstutt í greininni og er einfaldlega satt og rétt. Það segir eflaust mikið að Stefán telur sannar lýsingar á prestum landsins vera lúalegar persónuárásir. Fullyrðingar Stefáns Einars um að þetta sé rakalaust, eru einfaldlega rangar.
Stefán Einar segir síðan að það sé í lagi að „gagnrýna framferði“, ef maður ræðst ekki um leið á persónuna. Þetta er undarlegt í ljósi þess að það hlýtur að flokkast sem gagnrýni á hegðun en ekki persónu að benda á að prestar ljúgi blákalt að börnum. Sama gildir með hræsnina, þá er verið að gagnrýna það að framferði presta er ekki í samræmi við það sem þeir segjast standa fyrir. Stefán Einar kvartar líka yfir því að í einni grein skuli framferði æðsta biskups Þjóðkirkjunnar í trúfrelsismálum vera líkt við því að hann „skeini sér á stjórnarskránni“. Ég á bágt með að sjá hvernig þessi fallega myndlíking getur flokkast sem árás á persónu æðsta biskupsins hans. Stefán hefur aftur rangt fyrir sér. Mig grunar að vandamálið sé ekki hvernig gagnrýnin er, heldur að hverjum hún beinist.
Ég viðurkenni það fúslega að stundum ræðst ég á persónur fólks vegna framferðis þeirra. Stefán Einar er ekki sáttur við þetta og segir alla menna eiga skilið að njóta tillitssemi. Þegar guðfræðineminn var að googla orð á Vantrú.is sem særa blygðunarkennd hans hefði hann ef til vill átt að prófa orð eins og: „skúrkar“, „loddarar“, „glæpamenn“, „pakk“ og „fyrirlitlegir“. Öll þessi orð eru nefnilega notuð í greininni Kraftaverkahyskið. Svona fólk sem féflettir viljandi alvarlega veikt fólk eigi ekki skilið neina tillitsemi.
Það er afskaplega fyndið að í sömu grein og Stefán kvartar yfir því að ég hafi kallað þjóðkirkjupresta hræsnara heldur hann því fram að heimurinn væri miklu betri ef færi eftir boðskap Jesú. En hvað kallaði Jesú viðmælendur sína margoft? Já, hann kallaði þá hræsnara [2]. Ég vona að Stefán geti verið samkvæmur sjálfum sér og fordæmt það að Jesús hafi með þessum hátti ráðist á persónur andmælenda hans.
Já, í guðspjöllunum er Jesú tíðrætt um hræsni, sá sem sá flísina í auga bróður þíns, en tók ekki eftir bjálkanum sínu eigin auga var til dæmis kallaður hræsnari.
Í fyrri grein sinni kallar Stefán okkur „forherta“ og „heilaþvegna“. Með þessu fylgir auðvitað enginn rökstuðningur og ekki get ég séð að það sé gagnrýni á framferði okkar að kalla okkur forherta og heilaþvegna. Það er reyndar furðulegt að kristinn þjóðkirkjumeðlimur skuli kalla okkur heilaþvegna. Þegar ég var barn var ég ekki látinn afneita tilvist guðs fyrir svefninn. Í skólanum var mér ekki kennt að Jesús hefði ekki framkvæmt kraftaverk. Ég fór ekki í félagsmiðstöð Vantrúar á hverjum sunnudegi til þess að læra um tilvistarleysi guðs. Ég var ekki sendur í skipulagða innrætingu á trúleysi í sumarbúðum Vantrúar. Finnst Stefáni það ekki „óforskömmuð og ruddaleg framkoma“ að kalla andmælendur sína heilaþvegna?
Mér persónulega finnst afar leiðinlegt að ræða um „hver sagði hvað um hvern“. Ég vil miklu frekar ræða það sem ég tel vera aðalatriðið í sambandi við kristni, sannleiksgildi kristninnar. Miðað við hve mikið þjóðkirkjufólk skrifar um „hvað hver hafi sagt um hvern“ og hve lítið það skrifar um grundvallarkennisetningar kristinnar trúar, þá grunar mig stundum að það vilji ekki ræða um sannleiksgildi kristinna trúar. Ég skil það vel, enda ganga þær þvert á almenna skynsemi og eru auk þess ýmist augljóslega rangar eða viðbjóðslegar.
[1] „Hafís vantrúar“: „Á þessum tíma hef ég í lengstu lög reynt að forðast þessa vefsíðu þeirra...“ og „Af því að ég hef lagt mig fram um að lesa sem minnst eftir þá einstaklinga sem kenna sig við vantrú og koma fram sem trúleysingjar....“
[2] Matt 15:17, 22:18, 23:13, [23:14], 23:15, 23:25, 23:27, 23:28, 23:29, Mrk 7:6, Lúk 13:15
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.