Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hveitigras og spekin við að borða ensím og blaðgrænu

Á mbl.is um daginn rak ég augun í stutta grein og myndskeið nefnt Grænn heilsubótardrykkur byggður upp eins og blóð.

hveitigras.jpg

Þetta vakti athygli mína.

Um er að ræða hveitigras sem gróðrarstöðin Lambhagi ræktar og pressar safa úr og selur sem heilsudrykk. Hægt er víst að kaupa hveitigrasskot í dag á stöðum eins og Manni Lifandi, Heilsuhúsinu og World Class. Þetta á skv. umfjölluninni að vera allra meina bót.

Því miður er það svo að þegar málið er skoðað að maður fer að efast um að hér sé raunverulega eitthvað merkilegt á ferðinni.

Eigandi gróðrarstöðvarinnar segir í myndskeiði tengt fréttinni að það sem geri þennan safa svo hollan séu "ensímarnir í þessu sem eru meinhollir þarna og þeir eru ferskir og fólk getur tekið þá beint inn og þarna eru þeir ekki niðurbrotnir því að það er mikið af þessum efnum sem brotna niður við nálgun á súrefni og það eru amínósýrur í þessu og mikið af steinefnum". Þá er innihald hveitigrassins sagt vera byggt upp eins og blóð. Á að auka blóðflæði og súrefnisupptöku hjá fólki.

Á heimasíðu Lambhaga má finna meiri upplýsingar þar sem einnig kemur fram að þetta losi okkur við uppsöfnuð eiturefni í frumum líkamans:

Hveitigras er mjög orkugefandi, inniheldur allt að 70% blaðgrænu sem er talin auka árangur í líkamsrækt. Blaðgrænan í hveitigrasinu hefur náttúrulega bakteríueyðandi virkni og eyðir einnig slæmri líkamslykt hvort heldur er andremmu, svitalykt eða táfýlu!

Að borða ensím

Það er orðið ansi algengt að heyra um hollustu ensíma og hvernig nauðsynlegt sé að taka þau inn í einhverju magni. Þessar fullyrðingar eiga væntanlega rætur sínar að rekja til þess að ensím koma við sögu alls staðar í efnaferlum líkamans og stýra öllu frá upptöku næringarefna og orkubúskaps til heilastarfsemi okkar.

Ensím eru stórar próteinsameindir sem hafa sértæka hvatavirkni á ýmis efnahvörf líkamans en prótein eru stórar fjölliður úr amínósýrum sem eru einfaldar lífrænar sameindir. Án ensíma værum við ekki til því efnahvörf líkamans myndu þá ganga alltof hægt fyrir sig.

Ensím-búskapur líkamans ræðst af genum okkar og hann breytist almennt ekkert að ráði á lífsleiðinni. Það segir sig eiginlega sjálft að það væri slæmt ef utanaðkomandi ensím úr annarri lífveru færu inn í líkamann og byrjuðu að hafa áhrif á efnaferla okkar.

Það gerist heldur ekki á þennan hátt.

Ensím úr lífverum, t.d plöntum, eru líkt og öll önnur prótein brotin niður á sama hátt í líkamanum. Ensím eru oft viðkvæmar sameindir með tilliti til virkni þeirra og smávægileg hitastigsbreyting, saltstyrksbreyting eða sýrustigsbreyting er oft nóg til að slökkva á virkninni. Þegar ensím kæmi niður í maga mætti gera ráð fyrir að virkni ensímsins væri horfin, þar sem aðstæður hafa breyst. Magasýran er svo það súr að niðurbrot ensímsins hefst strax. Niðurbrotið er hins vegar fyrst og fremst vegna sérstakra próteinkljúfandi meltingarensíma í maganum sem hafa það hlutverk að brjóta öll prótein niður í amínósýrueiningar þeirra.

Þetta er ástæðan fyrir að ensím geta aldrei haft annað næringarfræðilegt gildi en hvert annað prótein sem við innbyrðum. Í raun væri jafnvel réttara að tala um amínósýruþörf líkamans heldur en próteinþörf því það eru amínósýrurnar sem líkaminn nýtir sér, bæði sem orku, en fyrst og fremst til uppbyggingar eigin próteina og ensíma.

Að borða blaðgrænu

chlorophyllHveitigrasið er sagt hafa svipaða uppbyggingu og blóð og á þess vegna að geta aukið blóðflæði og súrefnisupptöku líkamans. Eftir smá eftirgrennslan varð mér ljóst að verið er að vísa til blaðgrænu eða chlorophyll sameinda.

Chlorophyll er hópur sameinda sem plönturnar nota í ljóstillífun en það er ferlið þar sem þær notfæra sér sólarorku til að búa til eigin orkuríkar sameindir, glúkósa fyrst og fremst. Maðurinn, eins og önnur dýr, hefur aldrei getað ljóstillífað og hefur alltaf verið háður því að fá efnaorku sína frá plöntunum eða í gegnum önnur dýr (sem nýttu sér plönturnar). Chlorophyll efnasambönd eru græn á lit og aðalástæðan fyrir lit laufblaða plantna.

Þegar efnabygging chlorophyll a sameindarinnar t.d. er borin saman við heme-sameindina sem er virkur hluti hemóglóbínpróteinsins (og annara sameinda), má sjá að um er að ræða skyldar sameindir. Heme sameindin er með járn atóm sem komplexast við nitur-kolefnishringi í kringum sig, s.k. porphyrin hringi. Chlorophyll samanstendur af magnesíum atómi sem komplexast við aðeins öðruvísi porphyrin-hringi. Chlorophyll og heme eru búin til í sams konar efnaferlum plöntunnar, en plöntur nota heme til ýmissa málmpróteina. heme Heme er m.a. virkur hópur hemóglóbin próteinsins eða blóðrauða sem er prótein sem er ábyrgt fyrir flutningi súrefnis um mannslíkamann. Heme er einnig virkur hópur margra ensíma sem koma við sögu í orkubrennslu glúkósa í hvatberum frumna.

Hlutverk chlorophylls í plöntum er tengt ljóstillífun og hefur ekkert með súrefnisflutning að gera. Chlorophyll og heme eru vissulega líkar sameindir en hlutverkið er allt annað. Heme, eins og áður var nefnt, kemur einnig fyrir á mörgum öðrum stöðum í efnaferlum mannslíkamans sem hafa heldur ekkert með súrefnisflutning að gera.

Sú fullyrðing að chlorophyll gæti haft jákvæð áhrif á súrefnisflutning líkamans er ekki byggð á neinni vísindalegri vitneskju. Þá er óvíst hvort chlorophyll hafi næringarfræðilegt gildi yfir höfuð.

Chlorophyll hefur einnig verið sagt (af hveitigrasáhugamönnum aðallega) hafa mikla virkni gegn krabbameini, haft bakteríudrepandi eiginleika, að það styrki ónæmiskerfið, eyði líkamslykt, losi eiturefni úr líkamanum og margt fleira. Þetta hefur í nokkrum tilvikum byggst á raunverulegum rannsóknum sem voru framkvæmdar í upphafi 20. aldar, t.d. varðandi bakteríuvirkni. Þessar rannsóknir eru hins vegar að mestu úreltar í dag m.t.t. vísindalegra vinnubragða og þetta var fyrir tíma sýklalyfja.

Enn er reyndar verið að rannsaka chlorophyllafleiður með tilliti til lífvirkni (sem getur verið bæði jákvæð og neikvæð) þar sem mikið er af þeim í grænmeti og ávöxtum sem við innbyrðum og þar sem meðhöndlun matvæla getur breytt uppbyggingu chlorophyllsambanda. Í dag er hins vegar ekki skýr ástæða til að halda að chlorophyll geri manni eitthvað gott.

Saga hveitigrass

Hveitigras er orðið vinsælt innan heilsuiðnaðarins og var það kona að nafni Ann Wigmore sem átti mestan þátt í vinsældum plöntunnar. Hún hafði mikinn áhuga á náttúrulækningum (ásamt stjörnuspeki, heilun og mörgu fleira) og vildi meina að ýmis grös hefðu sérstakan lækningarmátt. Hún taldi að lifandi ensím í hveitgrasinu og chlorophyll lægju hér að baki og taldi að neyta yrði safa hveitigrassins innan þriggja tíma frá afskorinni plöntunni, því annars myndu efnin eyðileggjast. Safi hveitgrassins hafði skv. henni sérlega afeitrandi áhrif ef hans væri neytt á formi stólpípu og hveitigrassstólpípur eru víst talsvert stundaðar í dag, þó ég þekki ekki hversu algengar þær eru hér á landi.

Hún skrifaði um 15 bækur um heilsutengd málefni, þar á meðal um hráfæði og detox-meðferðir. Hráfæðishreyfingin byggir að mörgu leyti þekkingu sína á bókum Wigmore. Hún kom á fót stofnunni Hippocrates Health Institute sem seinna var endurskírt Ann Wigmore Institute. Titlaði sig oft sem Dr. Ann Wigmore en var þó aldrei með doktorsgráðu frá viðurkenndum háskóla. Nokkur kærumál komu upp í sambandi við fullyrðingar hennar um að hveitigras gæti læknað AIDS og sykursýki og hún var oft gagnrýnd fyrir að nota doktorstitil fyrir framan nafn sitt. Hún dó árið 1994 en Ann Wigmore stofnunin er enn í fullu fjöri og aðrir í heilsuiðnaðinum hafa tekið upp fullyrðingar hennar um hollustu blaðgrænu.

Næringargildi

Burtséð frá fullyrðingum um súrefnisflutning eða virkni gegn sjúkdómum þá inniheldur vissulega hveitigras líkt og annað grænmeti næringarefni sem við getum notfært okkur. Fullyrt hefur verið að í hveitigrasi sé meira af næringarefnum en nokkru öðru grænmeti og að það sé mjög orkugefandi. Þetta er hins vegar ekki alveg rétt, ókostur hveitigrass er sú að hér er um að ræða grastegund sem er með efnaorku sína aðallega á formi sellulósa sem eru glúkosafjölliður. Mannslíkaminn á ekki til nauðsynleg ensím til þess að geta brotið niður sellulósa, og getur því ekki nýtt sér orkuna þaðan. Grasbítar á við kýr geta hins vegar nýtt sér sellulósa þar sem sérstakar bakteríur lifa í mögum þeirra sem eiga til þessi nauðsynlegu ensím. Þess skal einnig geta að grasbítar á við kýr innbyrða meiri chlorophyll en nokkur önnur dýr, þeir fá hins vegar líkt og við einnig krabbamein og bakteríusýkingar. Hveitigras inniheldur vissulega talsvert af vítamínum og steinefnum skv. upplýsingum sem ég gat fundið en innbyrða þyrfti dálítið mikið af safanum ef menn ætla að fullnægja vítamín og steinefnaþörf dagsins og almennt séð er ábyggilega mun árangursríkara, hollara og þægilegra að fá þessi næringarefni á formi margra tegunda grænmetis og ávaxta. Ekki skal hér fullyrt um hvort sé betra á bragðið.

Þá er vísun af heimasíðu Lambhaga í grein hjá "American Cancer Society" sem er pínu undarlegt því í þeirri grein kemur fram svart á hvítu : "There have been almost no clinical studies in humans to support claims made for wheatgrass or wheatgrass diet programs. One very small study suggested that it may help people with colitis, a bowel problem."

Að lokum

Gæti þrátt fyrir allt þetta verið eitthvað til í sumum heilsufullyrðingum um hveitigras? Vissulega, reynslusögur[1] geta stundum gefið gildar vísbendingar um jákvæð áhrif matar og efna sem við innbyrðum. Vel mætti hugsa sér að hveitigras gæti innihaldið t.d. eitt efni sem enginn hafði gert sér grein fyrir og hafi sérlega jákvæð áhrif á líkamann. Hins vegar má ekki gleyma því að reynslusögur eru alls ekki sönnunargögn og reynslusögur geta blekkt, sbr. hin þekktu placebo-áhrif. Rannsóknir verða að fylgja í kjölfarið til að kanna gildi fullyrðinga um virkni. Lyfjaiðnaðurinn hefur ávallt haft mikinn áhuga á jurtaríkinu en helmingur allra lyfja í dag eiga rætur sínar að rekja þangað; ef rannsóknir sýna einhvern tímann fram á skýr jákvæð áhrif hveitigrass á líkamann mun lyfjaiðnaðurinn kanna það til hlítar.

Alla vega kýs ég að hlusta frekar á vísindamenn og lækna um heilsutengd málefni heldur en ófaglært fólk í heilsuiðnaðinum sem selur skyndilausnir og skreyta umfjöllunina vísindalegum hugtökum (á við ensím og blaðgrænu) sem oft er ekki fótur fyrir.

If it sounds too good to be true, it probably is.


Höfundur er efnafræðingur

[1] Þess skal einnig geta að einnig eru til neikvæðar reynslusögur af hveitigrasi. Það eru til dæmi um einstaklinga sem hafa fundið fyrir ógleði, höfuðverk og jafnvel fengið ofnæmisviðbrögð innan nokkurra mínútna eftir að hafa drukkið safa úr hveitigrasi. Þá hafa komið upp slæm tilfelli af sveppasýkingum í tengslum við að hveitigrasið er yfirleitt innbyrt hrátt.

Heimildir og ítarefni:

Ragnar Björnsson 05.11.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


LegoPanda@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 05/11/07 16:36 #

Góð grein, og vel þörf. Bravó!

Maður ætti að hugsa sig tvisvar um þegar maður heyrir staðhæfingar eins og þær um það að hveitigrasið sé uppbyggt líkt og blóð, og auki því súrefnisupptöku og blóðflæði - er verið að sprauta þessu beint í æð á fólki? Eins og greinarhöfundur segir brotna próteinsameindir hveitigrassins niður í maganum, og því ólíklegt að uppbygging þeirra hafi einhver áhrif á blóð manneskjunnar sem neytir þess.

Það er heldur aldrei gott þegar einn af mest nefndu kostum vöru sé að hún hafi verið vinsæl á fornöld, þ.e. fyrir tíma vísinda, því þá hafði fólk eingöngu reynslusögur.


Erna - 05/11/07 20:36 #

Já, stórfín grein! Ég þoli einmitt ekki þegar staðhæft er að þessi og hin ensím hreinlega sprautist inn í líffærastarfsemina hjá manni, og taki yfir.. hehe...

Annars fór ég á PubMed og skoðaði hvað hefur verið birt um hveitigras og það er svolítið áhugavert.

Grasið er mjög vítamínríkt, og hefur haft ýmsa jákvæða virkin í fasa II klínískum prófunum, sem varða efnameðferð krabbameinssjúklinga og blóðþörf þalassemíu-sjúklinga. Þessi áhrif eru þó talin vera vegna vítamíninnihalds grassins, ekki ensíminnihalds eða vegna blaðgrænunnar.


Birta - 05/11/07 21:07 #

Þegar ég horfði á þessa frétt þá hugsaði ég: "þetta hljómar eitthvað furðulega, hvað myndi kjaftæðisvaktin á vantrú segja um þetta?"


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 05/11/07 21:32 #

Kjaftæðisvaktin stendur fyrir sínu... :)

Tvær spurningar vakna:

1) Veit þessi grasa-safa-sali að þessi vara sem hann býður til kaups virkar ekki neitt.

2) Eða veit hann það?


kristín - 06/11/07 10:30 #

systir mín vildi endilega að ég myndi gefa sér svona tæki í afmælisgjöf, svo ég fór með henni að tékka á þessu. konan sagði við okkur "já og vitiði, mólikúlin í þessu eru alveg rosalega góð." við það gekk ég út, skellihlæjandi.


Haukur Ísleifsson - 06/11/07 22:08 #

Það er frekar sorglegt að fólk falli fyrir þessu.


Harpa Lind - 07/11/07 03:32 #

....og það eru amínósýrur í hveitigrasinu..... Priceless!


Henrik - 11/11/07 23:28 #

Ragnar þú ert ljósið í mirki heimskunnar.


Jóhannes - 07/02/08 23:25 #

Er víst að ensímin brotni niður ef maður fær stólpípu?


Gunnar Stefánsson - 08/02/08 14:26 #

Hér er fólk sem trúir ekki á tilvist talna, því þær sjást hvorki á vappi né sveimi á götum bæjarins. Teikningar efnasambanda? Sjálfur hef ég aldrei séð neitt þessu líkt. Að gagnrýna fólk á forsendum þess að terminológian sé röng er hreint ótrúlegt.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 08/02/08 15:20 #

Hér er fólk sem trúir ekki á tilvist talna, því þær sjást hvorki á vappi né sveimi á götum bæjarins.

Hvar í ósköpunum grefur upp þessa dellu?

Að gagnrýna fólk á forsendum þess að terminológian sé röng er hreint ótrúlegt.

Mér sýnist verið að gagnrýna seljendur grasasafa á grundvelli þess að allt sem það segir um hann sé bull og þvæla. Þú getur kallað það terminólógíu ef þú vilt en það er jafn mikil lygi fyrir því.

Hugmyndafræði hveitigrassalanna er einfaldlega að selja eitthvað skítbillegt drasl á uppsprengdu verði undir því yfirskini að það geri eitthvað jákvætt fyrir heilsuna. Sem það gerir ekki.


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 08/02/08 15:32 #

Jóhannes: Nei, ef til vill ekki. Það er hins vegar bæði gríðarlega ólíklegt að ensímin séu tekin upp í líkamann og að þau hafi virkni á mannslíkamann til að byrja með.

Gunnar: Hér verð að ég viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað þú ert að tala um. Teikningarnar af efnasamböndunum voru eingöngu til þess að útskýra hvað væri líkt með blaðgrænu og hemóglóbíni þar sem ljóst er að fullyrðingar um virkni blaðgrænu eiga rætur að rekja til þess að sameindirnar eru líkar, sem eru ekki góð rök. Ef til vill er textinn óþarflega fræðilegur í þeim kafla greinarinnar en ég vildi þó útskýra hvers vegna þessar fullyrðingar séu rangar.

Ef til vill hefði greinin mátt innihalda meiri tölfræðilegar upplýsingar, sérstaklega í hlutanum um næringarinnihald hveitigrass. Þessar upplýsingar má þó finna í heimildum sem ég vitna í.

Ég myndi ekki segja að gagnrýni mín á hveitigras felist aðallega í terminológíunni en mér finnst þó ekkert að því að ætlast til þess að framleiðandi fari með rétt mál varðandi það sem hann er að búa til. Við gerum t.d. þær lágmarkskröfur til matvæla- og lyfjaframleiðenda að þeir viti hvað þeir eru að tala um.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/08 01:27 #

Það er hreynt ótrúlegt hvað fólki dettur í hug að gera.


hildigunnur - 02/03/08 18:55 #

Trúi og vona að Gunnars grein hafi verið háð...


pillifluga - 03/03/08 10:14 #

Ég hef alltaf jafn gaman af heilsuráðgjöfum og það er eitt besta skemmtiefni sem hægt er að hugsa sér. Hef sitið nokkur slík námskeið og alltaf jafn gaman. Sérstaklega finnst mér gaman þegar þeir gleyma sér í eigin vitleysu svona eiginlega óvart og fella sig á eigin bragði. Margir gleypa við þessu og þegar eitthvað virkar svo ekki þá var það iðulega ,,ekki nógu mikið eða þú gerðir ekki eitthvað rétt" Heilsusalinn tekur iðulega aldrei ábyrgð á vöru sinni eða ráðum.


heilsuráðgjafinn - 23/03/08 16:15 #

jahérna hér!! þar sem ég hef nú verið svo heppin og óheppin að veikjast og kynnast vestrænum lækningum þætti mér frekar vænt um að þið áttið ykkur á því að þeir eru engu skárri en þessir heilsuráðgjafar sem virðast koma ykkur til að hlæja því menntahrokinn er ykkur að drepa. Lá á spítala og með sjúkdóm sem veldur lömun vitið hvað minn ástkæri læknir gerði skar fyrir mig matinn sem var svínakjöt (halló öndunarvegurinn lamast líka) en það virðist þessi læknir með 10 ár í hroka ekki hafa nokkra hugmynd um. Síðan hélt þetta áfram og ég er gjörsamlega að drepast úr hlátri að uppgötva hvað íslenskir fræðimenn eru heimskir. En eins og einn góður sagði "hlustaðu á sjúklinginn þá heyriru hvað er að" en þetta nær nú ekki yfir íslenska guði (lækna) því ef þú segir hvað er að þá ert þú rekinn sem sjúklingur og færð arfaslaka þjónustu. Segi því hlakka til þegar krabbamein eða annað herjar á ykkur og þið leitið til íslenskan læknis ÞIÐ ERUÐ ÞÁ D.... sorry en þetta er næstum staðreynd um kerfið okkar!! mæli þá með hveitigrasi sem hefur hjálpað fullt af fólki. Munið svo vísindi eru ekki örugg heldur getgátur. EInu sinni sögðu vísindin að magasár væri ekki bakteríum að kenna!! og hlóu af leikmanni lýsa því æi sorry síðan kom það víst í ljós æi æi vísindin eitthvað að stríða okkur! gangi ykkur vel með hrokann. Heilsukveðjur p.s. já best að segja ykkur þar sem ég var nánast dauð á því að liggja lömuð á spítala á íslandi þá björguðu austurlensku lækningarnar mér!!skokka um í dag!! fékk réttu mólikúlin eða þannig


G2 - 23/03/08 16:40 #

Segi því hlakka til þegar krabbamein eða annað herjar á ykkur og þið leitið til íslenskan læknis ÞIÐ ERUÐ ÞÁ D....

Mig langar að svara þessum heillaóskum 'heilsuráðgjafa' með eftirfarandi - éttu skít, aumingi!


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 23/03/08 18:55 #

Ég er afar hræddur um að sá sem hefur þetta viðhorf til vísindalegra lækninga muni ekki lifa mjög heilbrigðu né löngu lífi. Vona að þér batni.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/03/08 20:12 #

EInu sinni sögðu vísindin að magasár væri ekki bakteríum að kenna!! og hlóu af leikmanni lýsa því æi sorry síðan kom það víst í ljós æi æi vísindin eitthvað að stríða okkur! gangi ykkur vel með hrokann.

Hvað eiga svona athugasemdir að þýða? Voru það ekki vísindamenn sem komust að því að bakteríur valda magasárum og fengu Nóbelinn fyrir árið 2006 ef ég man rétt.

Hrokinn liggur allur hjá rangnefndum "heilsuráðgjafa" sem virðist hafa fundið Sannleikann.


Karl West - 19/01/09 12:30 #

Mig langar bara að nefna nokkur atriði, okkar sterkustu dýr sem eru okkur líkust eins og górilla borðar bara grænt! Hún borðar ekki kjöt, drekkur ekki mjólk af beljum sem eru með vaxtarhormón fyrir kálfa og ekki menn á öllum aldri. Ég er staðfastur í því að á komandi árum á eftir að koma í ljós að mjólk er krabbameinsvaldandi eða getur ýtt undir það að fá krabbamein. Ég skil ekki af hverju við erum að sjúga spenann á öðru dýri frá 1-90 ára aldur ? Hveitigras hefur fjöldann allan af amínósýrum og steinefnum sem eru okkur lífsnauðsinleg og rækta ég þetta gras sjálfur og drekk á hverjum degi með bestu lyst. Þetta er ekkert auðrvísis með okkur manninn og vél í bíl! Viðhald á bílvél eru regluleg olíuskipti og þá hrein og fín ný olía og vélin endist og endist. Hvernig færi ef við settum gamla olíu og kók og snakk og síkarettur og áfengi í vélina? skemmist. sama gerist fyrir okkur mennina nema kanski á lengri tíma. Þú vökvar ekki blómið þitt með kóki eða appelsíni, það vistnar bara og deyr. Hveitigras er lifandi næring eins og hún gerist best og fólk mætti fara hugsa aðeins hvað það er að borða.


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 19/01/09 13:45 #

Sem greinarhöfundi, finnst mér ekkert að því að rækta þetta blessaða gras og innbyrða af bestu lyst.

Það sem greinin snerist fyrst og fremst um var að gagnrýna óvísindalegar fullyrðingar um gæði og virkni grassins. Það er nefnilega ekkert sem bendir til þess að þetta sé eins mikil töfralausn eins og flest umfjöllun bendir til.

Við ættum að borða meira grænmeti en við gerum og borða minna ruslfæði. En að stilla upp hveitigrasi sem allra meina bót finnst mér dálítið hættuleg fullyrðing.


Hrafn Þorvaldsson - 09/03/09 12:58 #

Ég er sammála greinarhöfundi varðandi það að það sé algjörlega óviðunandi að framleiðandi vöru haldi fram virkni sem hefur ekki verið vísindalega sönnuð. Væri betra ef hann tæki það fram.

Ég er sjálfur mikill vantrúar maður á allt sem tengjist heilun, spádómslestri, trú á að kjöt sé slæmt, stólpípur góðar og annað sem ég vill kalla rugl.

Nú hef ég tekið mig til og keypt mold, heilhveiti korn og bakka og ætla að hefja smá tilraun. Eitt það sem ég hef lesið á netinu segir að hveitgras lækki blóðþrýsting. Kærasta mín hefur of háan blóðþrýsting sem virðist þjá alla hennar ætt og er því eflaust arfgengt. Við ætlum að mæla blóðþrýsting hennar í þá viku sem tekur að rækta einn bakka af hveitigrasi og síðan taka eina viku þar sem hún borðar hveitigrasið með samskonar fæði og hreyfingu og vikuna áður. Verður gaman að sjá hvað gerist.

Vill svo benda fólki á að skrifa ekki heilu veggina af texti án þess að skipta honum aðeins upp. Það nennir enginn að lesa svona langar runur. Netið segir mér að þú fáir krabbamein í augun af því.


Björn Ómarsson - 09/03/09 17:34 #

Netið segir mér að þú fáir krabbamein í augun af því.

Hahaha. Ekki getur Netið haft rangt fyrir sér! Snilldin ein.


Gummi - 15/11/09 22:34 #

Góð grein. Ég reyndi oft að drekka þennan hveitigrassafa, en kúgaðist yfirleitt. Það var eins og líkaminn vildi ekki allan þennan selluósa. Mér finnst best að hlusta á líkamann, hann hefur ekki logið enn. Annars er hægt að finna rök með eða á móti, best er bara að prufa þetta sjálfur. Það er svo sem líka hægt að spara sér ómakið á sumrin og tína bara gras útí garði og pressa það, það er ekki það mikill munur á þessum grösum.


Magnús - 04/01/10 00:37 #

Mér finnst gott og gilt að hrekja e-h staðhæfingar en það sem stendur eftir er að hveitigras er að öllum líkindum bara mjög fínt...(",)...

Þó vil ég benda á að Placebo effektinn er mjög sterkt fyrirbæri og ef neytandinn af hveitigrasinu trúir á mátt þess þá á hann örugglega eftir að virka... a.m.k. eitthvað

Eeeeen þar sem þetta er Vantrú þá leyfi ég mér að efast að þetta eigi eftir að gagnast nokkrum manni hér! hahaha...


ArnarÞ - 05/01/10 23:05 #

"Hér er fólk sem trúir ekki á tilvist talna, því þær sjást hvorki á vappi né sveimi á götum bæjarins."

Tölur eru aðeins til í huganum. Ég efast um að nokkur í heiminum muni segja þér að tölur séu ekki til í hugsunarlegum skylningi en í líkamlegum(tekur upp massa/orku í heiminum) eru þær alls ekki til.

Og til Hrafns þá er líklegt að Placebo Effect muni koma fram ef hún trúir á þetta.

Karl West Í alvörunni??? Með sömu rökum get ég sagt að maðurinn verði nauthemskur af grænmeti. Þetta er þróun. Við fengum vit þær fengu styrk. Þetta hefur bókstaflega ekkert með mataræði að gera. Þótt að gott mataræði geti hjálpað með það hvernig formi þú ert í. Er samt sammála þér með mjólkina. Ekki krabbameinsdótið og allt það en það getur ekki verið holt að drekka mjólk annara dýrategunda(í mikklu magni).

"Hveitigras hefur fjöldann allan af amínósýrum og steinefnum sem eru okkur lífsnauðsinleg"

Skrítið. Nú er ég viss um að meðalmaðurinn hefur sjaldan ef nokkurtíman smakkað á þessu grasi og sammt erum við lifandi. Öll þessi efni, ef í raun eru svona lísfnauðsinleg, má fynna í öðrum mat.

Annars ættir þú að virða lífskoðanir annara. Fólk má reykja, drekka og éta skyndibita ef það vill. Það vita allir áhættuna. Ef ég fæ mér bjór þá er það mitt mál. Þú mátt samt auðvitað gagngrýna val mitt. Ekki að það hafi nokkur áhrif á mig.


Einar A. Helgason - 06/01/10 10:28 #

"Munið svo vísindi eru ekki örugg heldur getgátur."

Raunar eru vísindi mjög örugg á mörgum sviðum. Þeim skjátlast stundum en þau hafa þó kerfi, tölfræðina, til að meta eigið öryggi og það einstaka vísindalega viðhorf að endurskoða sín sannindi stöðugt. Sumir læknar geta átt til hroka, jafnvel oflæti gagnvart hversdagslegum heilsufarslausnum, sem felast til dæmis í mataræði eða vítamíninntöku.

Þegar rökin fyrir hollustu felast í 'terminólógíu', þá má gagnrýnin felast í gagnrýni á terminólógíu. Að gera kröfu til þess að fólk hafi einhverja hugmynd um hvað það blaðrar er ekki óeðlilegt.


Eiríku Hermannsson - 16/10/10 19:38 #

Eiríkur Hermannsson 16-10-10.

Ég þakka öllum er svöruðu greininni sem var skrifuð 05.11.2007. Höfundur segist vera efnafræðingur (gæti verið þessi Ragnar Björnsson og flokkar undir (Kjaftæðisvaktin).

19981 eða 1982 er ég krabbasjómaður í Alaska er þessari þvælu var reynt að troða í mig, bæði í formi vökvans og fræðanna. Í 8 ár barðist ég hetjulega gegn þessari grasavitleysu sem sannur Íslendingur er vissi ýmislegt. Vegna ofureflis fór varnarstaða mín dvínandi á eyjar visku frá heimahögum og fór að hleypa inn annarlegum sjónarhornum. Núna árið 2010 hefur mér verið leift að vera strandveiðisjómaður í tvö sumur mér til óblandinnar gleði og drukkið 250 ml af grasasafa nærri hvern dag. (Ann ráðleggur 118 ml)

Ekki ætla ég að reyna að breyta skoðun neins á grasinu á jörðinni heldur leiðrétta örlítið í sambandi við inngang í þessara grein. Eins og Ann Wigmore sagði löngum að þá myndu vísindin ekki eignast tæki og tól til að skilja ensímin trúlega næstu 100 árin eins og greinin ber með sér. Ann Wigmore taldi upp kosti grassins í sambandi við að þar væru öll þau vítamín er líkaminn þarfnaðist, steinefnin og ammósýrurnar.

Ensímin þar lagði hún áherslu á að hafa þau heilbrigð, grimm og hraust og ættu að vera í næringunni frá „Lifandi fæðu lífsstílnum“. Í formálanum er talað um ensím sem prótínsameindir. Ann Wigmore var ávallt að leggja áherslu á hvað lítið prótín við þyrftum en ekki öfugt eins og óþekkti greinahöfundurinn er að leggja áherslu á. Talaði aldrei um ensím sem prótinsameind.

Um magann og sýrurnar þar. Þar þarftu að læra meira í ýmsum fræðum en bara efnafræði til að vert væri að ræða um það málefni.

Á bls 2: Að borða blaðgrænu. Ann Wigmore hefur aldrei nokkur staðar skrifað um að BORÐA svo ekki þarf neitt að verja þar nema neðst á blaðsíðunni þá nefnir þú fyrir tíma sýklalyfjanna. Hvernig fékkstu nafnbótina efnafræðingur, var ykkur ekkert kennt um sögu efnafræðinnar.

Neðarlega á bls 2 ert þú að bulla um samhengi súrefnis og CHLOROPHYLL. Sem trillusjómaður verð ég að benda þér á hugsunarfeil. Trillusjómaðurinn lítur á CHLOROHYLL sem súrefnisþykkni svo feillinn er að leita að samhenginu.

Bls 3. SAGA HVEITIGRASS: Ann Wigmore hafði engan áhuga á náttúrulækningum eins og þú ert að reyna að gefa í skyn, hún aðvaraði gegn grasalækningum á öllum sviðum.

Hippocrates Health Institute var aldrei endurskírð Ann Wigmore Institute eins og þú fullyrðir. Það var siðleysinginn Bryan Clement sem rændi Ann Wigmore Hippocrates Health Institute og því varð hún tilneydd að byggja upp nýtt nafn.

1959 varði DR ANN WIGMORE þrjár doktorsritgerðir úr viðurkenndum háskóla í guðfræði, sálfræði og frumspeki. 1960 var hún útnefnd til Nóbels. 1962 var henni veittar 6 doktorsnafnbætur víðsvegar um heiminn, 3 í Bretlandi. 1964 viðurkenning í London, 72 í París og síðan voru viðurkenningar hennar að hrannast upp til dauðadags. Ann Wigmore notaði aldrei doktorsnafnbótina. Það voru velunnarar hennar, starfsfólk og þeir sem elskuðu hana sem voru að halda nafnbótinni á lofti. Ann Wigmore var mikið meira en nokkur háskóli gat sæmt hana, átti engan sinn líkan.


Ragnar - 30/07/13 01:57 #

Kæri Eiríkur. Ég vil þakka þér fyrir að heiðra minningu eins helstu velgjörðarmanna mannkyns sem nú er horfin á braut, hér á síðu þar sem menn úr ófínni háskóla, og án þriggja doktorsgráðna eins og hún, reyna að rægja hana og ófrægja af yfirlætissemi sinni og heimóttarskap. Ég vil einnig benda þessum sömu herramönnum á að fjöldi annars fólks með doktorsnafnbót aðhyllist viðhorf Ann Wigmore og gengur lengra en hún. Ef þið vitið það ekki, þá vitið þið það lítið um næringu og hollustu að þið ættuð einfaldlega ekki að tjá ykkur um slíkt. Ég býst einnig við að kvennfyrirlitning og önnur miðaldaviðhorf spili hér stóra rullu. Fjöldi karlmanna þolir það ekki þegar kona er tilnefnd til Nóbelsverðlaunanna fyrir skerf sinn til heilsubótar mannkyninu.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 31/07/13 14:58 #

@Ragnar

Þótt fólk með doktorsnafnbætur aðhyllist vitleysu þýðir það ekki að vitlleysan sé eitthvað minni vitleysa fyrir vikið.

Mér er lífsins ómögulegt að finna heimildir um nema eina doktorsgráðu Ann Wigmore, þ.e. í guðfræði (e. divinity), en það telst harla klénn undirbúningur fyrir afrek í náttúruvísindum. Engar finn ég heldur heimildirnar um hvaðan þessi gráða er. Ef 'Royal Laplander Academy of Science' er farin að veita Nóbelsverðlaun, eins og haldið er fram í bókinni 'Recipes for Longer Life' (eftir Ann Wigmore; aðgengileg á Google Books) þá eru það stórfréttir - heldurðu að Svíarnir viti af þessu?

Það besta sem sagt verður um 'vísindaafrek' Ann Wigmore er að sýn hennar á mannslíkaman og heilsu hafi verið einfeldningsleg. Svona rétt eins og þín, býst ég við.


R - 01/08/13 07:45 #

Bara svo þið vitið það þá var það kallað ofstæki og heimska og fáfræði að halda því fram óhófleg neysla hvíts sykurs gæti verið skaðleg. Það var lið af meiði Wigmore sem hélt slíku fyrst fram og mörgu öðru. Hefðbundnar lækningar lifðu flestar af afþví þær virkuðu fyrir einhvern einhvern tíman. Vísindin hafa svo sannað sumt af þessu síðar. En vísindin sanna seint allt. Sá sem metur að engu reynslu fyrri kynslóða nema gaur frá Harvard hafi "sannað" allt, það er hreinræktaður hálfviti og mun líklega lifa stutt og börnin hans líka. Gott fyrir tegundina kannski, ef þú aðhyllist einstaklingsfjandsamlega speki?


R - 01/08/13 07:49 #

Í ljósi þess að vísindamenn eru nær einróma um að börnin okkar verði líklega yngri en við, vegna slæms neyslumynsturs, og í ljósi þess að lífsstílstengdir sjúkdómar hrjá sífellt fleiri sífellt yngri og sífellt fleiri sjúkdómar reynast lífsstílstengdir, þá er það varla neinn vinur almennings í landi næstfeitustu barna heims með metið í ritalín notkun og notkun þunglyndislyfja á barnsaldri sem reynir að hrekja fólk frá skárri neysluvenjum en meginstraums-fæðinu sem mun stytta líf barna okkar, hvað sem það kallast og hvað sem það er. Við ættum að þakka fyrir að einhver skuli enn borða grænmeti yfirhöfuð, og hafa vit á að láta versta viðbjóðinn eiga sig. Þó hann tryði á einhyrninga.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/08/13 10:17 #

Bara svo þið vitið það þá var það kallað ofstæki og heimska og fáfræði að halda því fram óhófleg neysla hvíts sykurs gæti verið skaðleg.

Hvað segirðu. Hvar gerðist það?

Sá sem metur að engu reynslu fyrri kynslóða nema gaur frá Harvard hafi "sannað" allt, það er hreinræktaður hálfviti og mun líklega lifa stutt og börnin hans líka.

Þú veist að lífslíkur fólks hafa aukist mjög mikið síðustu hundrað árin - á sama tíma og "gaurar frá Harvard" hafa sannað og afsannað ansi margt.

Fer ég fram á of mikið ef ég bið um að þið reynið að gagnrýna greinina málefnalega?


Ragnar - 02/08/13 06:00 #

Eiríkur Hermannsson hér að ofan var persónulegur aðstoðarmaður Ann Wigmore, þannig að ef þig vantar upplýsingar um hana er best að snúa þér til hans. Hún hvatti ótal manns til að breyta lifnaðarháttum sínum til betri vegar og borða hollari fæðu. Það eitt og sér dugir oft til að hindra framgöngu sjúkdóma, lina þjáningar og einkenni sjúkdóma og stundum að byggja líkamann nóg upp til að geta læknað sig sjálfur. Hún starfaði mest með Bandaríkjamönnum sem þá þegar voru farnir að borða skelfilega fæðu. Lífslíkur mannkyns hafa aukist síðustu hundrað árin, það er satt. Og ég er háskólamaður sjálfur og hef ekkert á móti kollegum mínum, en nóga menntun til að vita að margt gott er ekki "sannað" og að mannkynið er ekki einsleitt og því getur ýmislegt virkað fyrir einn mann sem virkar ekki fyrir annan, vegna ólíkra erfða, lífsreynslu og líkamsástands, sem og andlegs ásigkomulag og hvort viðkomandi er fær um að "trúa" (á hvað sem er) eða ekki (= placebo áhrifin, þau eru góð, margur hefur lifað af bara afþví hann trúði, þó það væri á stokka og steina, einhyrninga eða að éta nóg af sykurtöflum, að ræna mann trú sinni, sama á hvað hann trúir, er öruggasta leiðin til að ræna dauðvona mann bata sínum). Í stuttu máli, þá gerði Ann Wigmore fátt slæmt um æfina og margt gott, þó enginn sé fullkominn. Og þó lífslíkur mannkyns hafi aukist síðustu hundrað árin þá eru þær nú að MINNKA. Eða það er álit helstu sérfræðinga og almennt áhyggjuefni meðal alls upplýsts fólks. Alls konar sjúkdómar sem vart þekktust hjá börnum eru að verða algengir meðal þeirra, lyfjanotkun barna eykst sífellt og mataræði barna verður sífellt lakara, en þetta helst allt í hendur. Þú ert ekki að auka lífslíkur næstu kynslóðar, og ættir því kannski að leita leiða til að gera það, frekar en gagnrýna bara þá sem gerðu eitthvað fyrir einhvern á fyrri tímum. Það telst kraftaverk að fá illa upplýstan Bandaríkjamann til að borða gulrót, og það eitt gerir Ann Wigmore að snillingi að hafa látið þúsundir manns snúa við blaðinu, og skilað eflaust eitt og sér mörgu góðu. Hún boðaði ekkert minna en breytt mataræði út alla æfina. Ef hveitigras virkar ekkert rosalega vel, þá fengu samt margir bata af því að fara að hennar ráðum og hætta að borða hættulegt rusl og fara að borða almennilegan gamaldags mat.


Ragnar - 02/08/13 06:10 #

Slæm viðbrögð við hveitigrasi? Ég borða ekki hveitigras og legg ekki á það sérstakan trúnað. Þekki þó marga sem fullyrða það hafi linað þjáningar þeirra og hrakið burt mein. Þá hvet ég til að taka það áfram, hvort sem grasinu sjálfu eða trúnni á það er að þakkka þessa góðu breytingu. En það er ekki óhætt að neyta nema mjög ungs hveitigrass fyrir þá sem hafa glúten óþol, og ekki allt hveitigras í pökkum og búðum er nógu ungt. Þeir sem vilja neyta þess ættu helst að rækta það sjálfir, eins og væri best að sem flestir gerðu við sem allra flest sem þeir neyta, eða spyrja framleiðandann út í hversu nýlegt grasið sé. Það er hægt að fá ofnæmi fyrir öllu. Rétt eins og maður getur fengið skelfisksofnæmi af að neyta gamals eða úldins skelfisks einu sinni, þá getur maður fengið ofnæmi fyrir hveitigrasi sem öðru af að innbyrgða slæmt eintak. Ofnæmi er m.a. varnarviðbrögð líkamans byggð á slæmri reynslu. Svona svipað og þú gætir óttast alla smiði afþví smiður lamdi þig þegar þú varst barn. Líkaminn er ekki alvitur frekar en heilinn að þessu leiti. En hann er fær um margt og allir sem hvetja menn til að borða holla fæðu og tekst það eru hetjur, því líkami sem er nærður á slæmu fæði er ekki lengur nógu heill til að vera fær um að verja sjálfan sig, og hvað þá stuðla að eigin lækningu ef illa fer.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 02/08/13 13:01 #

Þú verður að fyrirgefa þú ég láti nægja að svara bara einum punkti úr þessum langhundum, en...

Og þó lífslíkur mannkyns hafi aukist síðustu hundrað árin þá eru þær nú að MINNKA. Eða það er álit helstu sérfræðinga og almennt áhyggjuefni meðal alls upplýsts fólks

Hvers vegna skyldu þær hafa aukist síðustu hundrað árin? (reyndar væri rétt að tala um þúsundir).. Það er, eins og Matti benti, vegna vísindanna.

Hitt er að það væri gaman að sjá hvaða helstu sérfræðinga þú ert að vísa til og hvaðan allt þetta upplýsta fólk hefur upplýsingar sem auka áhyggjur þess.

Það er nefnilega þannig að samkvæmt WHO þá eru lífslíkur ("Life Expectancy") fólks enn stöðugt að aukast.


Ragnar - 03/08/13 02:45 #

Lífslíkur mannkyns, út af uppgangi landa eins og Afríku, eru að aukast. Ekki lífslíkur okkar líka með næstfeitustu börn heims og þeirra þjóða sem við berum okkur helst saman við. Ég hef lesið hundruðir greina um þetta og þetta er orðin almenn þekking. Talað er um að þetta sé í fyrsta sinn í veraldarsögunni þar sem næsta kynslóð mun lifa styttra en foreldrar þeirra, því lífslíkur mannkyns hafa aukist smám saman frá upphafi tilvistar okkar. Ég er hissa að maður eins og þú skulir ekki vita þetta, því sjálfur tjái ég mig lítið um mál ef mig skortir basic almenna þekkingu á þeim, og tel það góðan sið. Hér er smá inngangur að þessu: http://phys.org/news/2011-01-obesity-children-life-short.html


Ragnar - 03/08/13 03:01 #

"landa eins og Afríku" er innsláttarvilla. Þarna þurrkuðust út setningarhlutar setninngar sem var "landa eins og...upptalning landa...og..annarra landa í Afríku og Asíu. Fyndið. Minnir mig á viðmælendur Jay Leno! Lífslíkur Íslendinga og þeirra líka fara minnkandi og það er nær einróma álit sérfræðinga að þær þjóðir sem eiga feitustu börn heims standi nú frammi fyrir því að í fyrsta sinn í mannkynssögunni lifi foreldrarnir talsvert lengur en börnin. Þróun sem erfitt er að snúa við, og það ber að þakka öllum sem reyna það og tekst það. Þurr og leiðinleg nálgun hentar sjaldan almenningi og kemur ekki í veg fyrir ótímabæran dauða. Hann þarf eitthvað meira "spennandi", annars hefur hann ekki áhuga á málefninu. Mun aldrei breytast, við erum að tala um mannlegt eðli.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/13 12:24 #

Þú talaðir um lífslíkur mannkyns - ekki lífslíkur örfárra þjóða - og punkturinn hjá Matta var að lífslíkur hafa aukist gríðarlega síðustu aldir vegna árangurs vísinda, sem þú varst að gera lítið úr.

Fólk hefur vissulega áhyggjur af því að þetta geti farið að snúast við, en það er ekki orðið þannig enn, amk. ekki ef marka má tölur WHO..

Og það sem meira er... ég ætla að leyfa mér að gera ráð fyrir því að svörin við þessum (hugsanlega) vanda finnist með aðferðum vísindanna.


Ragnar - 04/08/13 03:56 #

Þetta eru lífslíkur mannkyns alls að öllum líkindum...Indverjar og Kínverjar fara að verða mun betur efnaðir og misvandaður Amerískur matur er fluttur inn í síauknum máli og annar óþverri frá Vesturlöndum og löndin apa sjálf upp okkar slæmu lifnaðarhætti og framleiða sitt eigið "ruslfæði". Þannig að þó þessar þjóðir virðist eiga framtíðin fyrir sér núna, þá er stutt í að illa fari ef Vestræn áhrif halda áfram að vera ráðandi í heiminum. Ég gerði aldrei lítið úr "árangri" vísinda, ég benti á að það skiptir ENGU hvaðan gott kemur þegar börnin okkar eru orðin skammlífari en við. WHO er ekki alviturt og þeir eru nokkuð sér á báti í sinni ofurbjartsýni. Almenningur stjórnast af tilfinningum, ekki af rökhyggju. Það er mannlegt eðli. Ef spennandi grasakall getur læknað heilsu einhvers sem leiðinlegur næringarfræðingur nær ekki til, þá á hinn fyrrnefndi heiður skilið. Að gera lítið úr fólki fyrir að leggja óhóflegan trúnað á hveitigras, sem hjálpaði þúsundum að skipta um mataræði út æfina og jók þannig lífslíkur barna þeirra, því kynslóðaarfurinn skiptir máli, það er ekki til eftirbreytni. Reyndu frekar að vera nógu heillandi sjálfur til að hinn almenni borgari nenni að hlusta á þig. Þegar þúsundir manns hafa farið að þínum ráðum sér til heilsubótar, þá ertu í fullum rétti að rífa niður jafningja þína. Þegar þú ert ekki enn orðinn jafningi þeirra, þá ættirðu að vita betur.


Ragnar - 04/08/13 04:00 #

Ætlar þú að rægja manninn sem bjargaði barninu þínu frá drukknun fyrir að trúa því að píramídinn um hálsinn á honum, "hlaðinn" af Indjána úr Amazon hafi gefið honum hugrekkið til að stökkva ofan í sjóinn? Eða ættir þú að þegja þangað til þú sjálfur hefur bjargað jafn mörgum börnum og hann og viðurkenna hver er jafningi þinn, og hver ekki. Það er árangurinn sem skiptir máli. Leiðirnar síður. Og okkar börn eiga ekki bjarta né langa framtíð fyrir sér ef ekkert fer að breytast.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/08/13 11:17 #

Hættu þessari vitleysu Ragnar og reyndu að halda þig við málefnið. Greinin sem þú gerir athugasemd við fjallar um hveitigras og meinta hollustu þess.

Ef spennandi grasakall getur læknað heilsu einhvers sem leiðinlegur næringarfræðingur nær ekki til, þá á hinn fyrrnefndi heiður skilið.

Já, hann ætti það - hefði hann gert það. Það á ekki við í þessu tilviki.

Það véfengir enginn að það sé æskilegt að borða hollan mat og forðast óhollan (ruslfæði).


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 04/08/13 12:24 #

úff, þetta eru skelfilegir langhundar hjá þér R...

Jú þú gerðir lítið úr árangri vísindanna við að lengja mannsaldurinn, reyndir að bjarga þér fyrir horn með rangfærslurnar með því að breyta umræðunni yfir í áhyggjur af framtíðinni.

Ég ætla að treysta "gaurnum" frá Harvard sem getur sannað hluti þrátt fyrir að þér finnist ég hreinræktaður hálfviti fyrir vikið og þrátt fyrir að þú gerir ráð fyrir að ég lifi styttra en þú og börnin mín líka.

Besta reynsla fyrri kynslóða ef nefnilega að treysta vísindunum.


Ragnar - 05/08/13 04:37 #

Ann Wigmore hjálpaði þúsundum að breyta um lífstíl út æfina. Það er það sem gerir hana slatti merkilegri en þá sem sitja bara og nöldra um að aðrir séu ekki fullkomnir. Hafið samband við Eirík sem talaði hér fyrir ofan ef einhver vantar frekari upplýsingar. Hann starfaði með henni í mörg ár og er frægur maður í þessum geira. Ég vel orðið "gaur", afþví þó ófáir merkilegir menn hafi farið í Harvard hafa það líka margir ómerkilegir pabbadrengir, og ég bjó nógu lengi í Bandaríkjunum til að hitta mörg eintök af báðum. Sérfræðingadýrkun er stórhættuleg út af þeim síðarnefndu og ekki eru allar "vísindalegar rannsóknir" jafn gildar og þeir sem reiða sig eingöngu á þær farnast yfirleitt illa. Það er líka til heilbrigð skynsemi. Eins og að skilja að mannkynið mun aldrei breyta um stefnu vegna þess að hafa verið skikkað á námskeið hjá næringarfræðingi á vegum Sameinuðu Þjóðanna. Það er bara lítill hluti mannkynsins með persónuleika sem tekur við neinu sem er kynnt með þurrlegri og jarðbundinni nálgun á hlutina. Verum bara ánægðir með að það eru nógu margir "stílar" þarna úti til að sem flestir taki mark á EINHVERJU sem hjálpar þeim að breyta um lífsstíl. Þú veist aldrei hvaða persónuleika barnið þitt mun hafa eða barnabörnin. Nýjustu rannsóknir sýna að mörg grunnskólabörn í Bandaríkjunum þekkja ekki ólíkar tegundir grænmetis og ávaxta í sjón, afþví þau eru ekki vön að borða þetta heima hjá sér. Ástandið er örugglega að verða svipað hér. Okkar börn eru næstfeitust barna heims, á eftir þeirra, en taka bæði meira af ritalíni og öðru en Bandarísk börn og eiga heimsmet í notkun vissra lyfja. Líklega verður stórhluti þeirra fljótt alvarlega sykursjúkur og deyr fyrir aldur fram. Að sjálfsögðu vona ég þín börn verði ekki í þeim hópi, en þú ættir frekar að velja þér verðugri andstæðing en Heilsuhúsið fyrir að selja hveitigras á "barnum" sínum og þessa örfáu aðila hér heima sem hampa því, vitandi að óvinurinn er ekki heilsugeirinn, þvert á móti. Afhverju atastu ekki frekar út í sælgætisframleiðendur? Til dæmis Egils fyrir iðnaðarsaltið á dögunum? Neytendur hveitigrass eru mun líklegri til að neyta holls fæðis yfirhöfuð en aðrir, því þeir eru yfirleitt "heilsufrík" og þau lifa lengur, þrátt fyrir að innbyrgða smá "placebo" með öllu hinu. Það væri betra fyrir framtíðarhorfur landsins, ef einhverjar eru, að fjölga þeim frekar en fækka.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/08/13 11:30 #

Það skiptir reyndar engu máli hvort Ann Wigmore er merkileg eða ekki í þessu samhengi. Greinin fjallar um hveitigras og sýnir fram á að fullyrðingar um hollustu þess eru í besta falli vafasamar.

ps. Notaðu eitt og sama nafnið þegar þú skrifar athugasemdir á Vantrú - jafnvel þó það sé ekki rétt nafn. Prófaðu líka að setja greinarskil í athugasemdirnar þínar.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 05/08/13 12:22 #

Það eina sem ég var að benda þér á - R eða hvað sem þú heitir - er að þú hafðir rangt fyrir þér þegar þú gerðir lítið úr árangri vísinda við að bæta lífslíkur.

Eina skynsemin sem ég gef eitthvað fyrir er að gera kröfu um að hægt sé að sýna fram á virkni einhvers áður en ég læt selja mér það.

Og ég hef skömm á þeim sem reyna að hafa fé af fólki með því að selja eitthvað sem ekki er hægt að sýna fram á að virki. Öll froðan sem þú leggur til um "merkilegt fólk" breytir engu þar um.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.