Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að kitla eyrun

Fyrir nokkrum sunnudögum þurftu þjóðkirkjuprestarnir að predika út frá ansi óþægilegum texta í Markúsarguðspjalli.

Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki." Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?" Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt." (Mk 10:23-27)

Á bloggsíðu sinni segir þjóðkirkjupresturinn Baldur Kristjánsson að það "segi sig sjálft" að feitletruðu ummæli Jesú vísi til þess að það hafi verið til hlið í Jerúsalem sem hét Nálaraugað sem var svo þröngt að kameldýr komst ekki í gegnum það með byrðar á bakinu. Ég spurði hann tvisvar að því hvers vegna hann hélt að þetta væri raunin, í bæði skiptin var svarið að það segði sig bara sjálft.

Ég ákvað að kíkja á hvað fræðimenn höfðu um þetta að segja, greinar í fræðiritum á netinu höfnuðu þessu án nokkurra útskýringa, þannig að ég kíkti á ritskýringarrit á Landsbókasafninu. Ég byrjaði á Word Biblical Commentary um viðeigandi hluta og þar stóð:

Þegar Jesús segir "trumalias rafidos", nálarauga, þá á hann bara við það. Hann er ekki að ræða um lítið hlið einhvers staðar á múrum Jerúsalems, sem kameldýr gátu rétt svo komist í gegn um. Það er ekki hægt að tímasetja fyrir miðaldir (vanalega hjá Theophylact) hið svokallaða Nálaraugahlið sem heimamenn sýna auðtrúa pílagrímum.

Síðan var bent á svipuð dæmi úr ritum gyðinga. Önnur ritskýringarrit tóku undir þetta og maður þarf ekki nema að lesa textann til þess að sjá að þessi miðaldaskýring (þessi Theophylact er frá 11. öld) er út í hött.

Ef Jesús var bara að segja að það væri jafn erfitt fyrir auðmann að komast til himnaríkis og fyrir úlfalda að komast inn um hlið sem hann rétt svo passaði í, þá væru viðbrögð lærisveinanna óskiljanleg: "En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?""

Nei, í guðspjallinu er Jesús hreinlega ekki bjartsýnn á örlög auðmanna. En að allt öðru máli: Fyrir tveimur árum síðan voru lægstu byrjunarlaun presta 420 þúsund krónur á mánuði. Sumir þeirra eru með miklu hærri laun. Prestagreyin telja nálaraugað greinilega ekki vera of lítið fyrir andlega menn eins og þá, því núna í september var þetta ákveðið á stjórnarfundi Prestafélags Íslands:

Helstu áherslur fyrir kjararáð eru eftirfarandi: Allir prestar hafi sömu grunnlaun. Lögð verði áhersla á hækkun grunnlauna og að fleiri einingar fari inn í grunnlaun þar sem það leiði til hærri lífeyris presta.

Hjalti Rúnar Ómarsson 24.10.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 09:14 #

Sagði hann Þetta? Að það væri augljóst að "nálaraugað" væri eitthvað hlið!..

-þetta styrkir mig í þeirri trú að Baldur og fleiri ríkiskirkjuprestar hafi ekki lesið biblíuna sína. Þessi túlkun er svo augljóslega sett fram í mikilli sjálfréttlætingu.

Hafi Baldur lesið biblíuna sína þá veit hann vel að Jesús boðaði að fólk ætti ekki að safna fé og helst gefa það og ganga til lið við sig. Ef séra Balur les þetta þá bendi ég máli mínu til stuðnings á Matt 6:19 - 36

Í víðara samhengi sé ég vanda ríkiskirjunnar í þessu dæmi hans Baldurs. Ef siðferðisboðskapur Jesúsar passar ekki að persónulegum skoðunum túlkendum þessa siðferðisboðskapar (prestunum) þá er bara búin til nýr greiningarlykill.

Skyndilega hatar guð ekki homma og lesbíur! Skyndilega eru konur jafn réttháar og karlar! Skyndilega er Jesúsi alveg sama um auðsöfnun!

Ég held að fall ríkiskirjunnar sé falið í þessari sjálfréttlætingu séra Baldurs....


Haukur Ísleifsson - 24/10/07 11:00 #

Það sem jesú meinar er í raun: Það er ekki hægt. "Auðmaður kemst ekki inn í himnaríki. No way.


óðinsmær - 24/10/07 11:17 #

stundum skiljið þið þetta bara ágætlega. Auðmenn eiga nóg til þess að geta hjálpað mjög mörgu fólki en gera þeir það? nei, yfirleitt ekki. Að eiga peninga verður mjög oft til þess að fólk freistast til þess að gera hluti fyrir sálft sig sem það ætti ekki að gera, jafnvel hluti sem bitna á öðrum og það er nú málið, það er betra að eiga ekki neitt og verða ekki fyrir þannig freistingum heldur en að vaða í listisemdum og láta undan öllum heimskulegum freistingum á meðan aðrir svelta og kveljast.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 11:42 #

Það hlýtur að vera sérkennileg tilfinning sem vaknar hjá hálaunaprestum þegar þeir byrja að tala um misskiptinguna og óréttlætið fyrir jólin t.d.

Tala um af sjálfsbelginshætti um að gefa til þeirra sem minnna meiga sín með tárin í bljúgum augunum. Setjast svo upp í 5 miljón króna jeppa og bruna heim til sín i villuna...

Ég man hvað ég varð hneyklsaður þegar þjóðkirkjan fagnaði 1000 ára kristni á Íslandi með þúsundmiljónkróna partíi... Þar var glæsilegt tækifæri á að standa við stóru orðin og gefa summuna til þeirra sem þurfa á því að halda.

Karl biskup vildi frekar bjóða kollegum sínum í súperpartí heldur en að standa við það sem hann boðar. Það var hrörleg sjón að horfa upp á þessa gömlu kalla í silkihöklum staulast á sviðinu á Þingvöllum og fara með galdraþulur. Baðandi út höndum eins og fábjánar..

ég held satt besta að segja að þessi sjón hafi verið fyrsta fræið sem sáð var í vantrúargarðinn minn. -Þetta var svo absúrd!


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 18:00 #

Svo er líka spurning um hvort að þessi nýja túlkun, að Nálaraugað sé bara þröngt hlið, breyti í raun merkingunni. Rétt eins og úlfaldinn kemst ekki í gegnum hliðið með byrðar sínar þurfa auðmennirnir þá ekki að losa sig við eigur sínar til að sleppa í gegn?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 20:30 #

Nálarauga er bara nálarauga.... Allar tilraunir til einhverrar annarar útskýringar eru út í hött. Þetta passar akkúrat eins og Jesús átti að hafa sagt þetta.


Mofi - 25/10/07 01:51 #

Að ég best veit þá eru engar sannanir fyrir þessu með nálaraugað á borgarmúrum Jerúsalems. Það sem Jesú var að benda lærisveinunum á er að enginn getur keypt sig inn í himnaríki. Á þessum tíma þá var litið á þá sem voru ríkir sem menn sem Guð hafði dálæti á og ef einhverjir gátu komist til himna þá voru það þeir. Hérna er Jesú að segja að það sé einfaldlega rangt og að mikill auður getur verið mikil hindrun. En síðan segir Jesú að það sem menn geta ekki getur Guð. Sem sagt þeir sem treysta ekki á auð sinn til að fresla sig heldur Guð þeir geta komist til himna.


Svanur Sigurbjörnsson - 26/10/07 00:17 #

Á síðunni með stjórnarfundi PÍ sem þú gafst hlekk á var margt athyglisvert, m.a. siðareglur presta.

Þar segir í grein 3.6

3.6 Prestur gætir þess að vera málefnalegur og gætir varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.

Í fréttum RÚV í dag 25.okt var sýnt frá prestaþinginu og þar greip karlprestur harkalega inní ræðu kvenprests sem var að gagnrýna kirkjuna fyrir afstöðu hennar gagnvart samkynhneigðum. Kvenbresturinn fór grátandi úr pontu og þurfti huggun annars við. Mér brá. Er þetta stéttin sem býður uppá sálgæslu og segist vera siðferðislegur kompás þjóðarinnar?

Þá vakti eftirfarandi athygli mína:

2.1 ... Prestur er þjónn og hirðir safnaðarins, en er ekki starfsmaður hans.

en í 4.1 segir:

Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara.

Sem sagt presturinn er í "starfi" en er ekki "starfsmaður" safnaðarins. Þá virða sumir karlprestar ekki meira eigin siðareglur en svo að þeir leyfa sér að vera hvassyrtir og vera með hávær framíköll í ræðu kvenprests á kirkjuþingi þannig að grátur hlýst af.

Borgum við prestum 400-800 þúsund mánaðarlega til þess að láta svona hluti frá sér?

Takk annars fyrir greinina Hjalti Rúnar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/07 00:47 #

Kvenbresturinn fór grátandi úr pontu og þurfti huggun annars við.

Ha? Ég held alveg örugglega að þetta sé rangt. Hvar var þetta nákvæmlega?


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 26/10/07 02:11 #

Þetta er alveg rétt hjá Svani nema að þetta var sýnt í fréttum Stöðvar 2 en ekki Rúv. Mér fannst Rúv undarlega "kurteist" í fréttaflutningi sínum af þinginu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/07 02:21 #

Já, mér fannst ótrúlega mikill munur á fréttaflutningi Rúv og Stöðvar 2.

Greinilegt að Hulda Guðmundsdóttir (sem er reyndar ekki prestur) var ekki hress með þessa niðurstöðu.

Og sá sem greip fram í var þjóðkirkjupresturinn Halldór Gunnarsson.


óðinsmær - 26/10/07 16:29 #

vinsamlegast ekki gleyma því að Gunnar í Krossinum táraðist og var mjög særður í hjarta sínu yfir nýju biblíuþýðingunni, það eru semsagt ekki bara guðfræðingar af kvenkyni sem þurfa huggunar við þessa dagana. En það er reyndar óljósara hver nákvæmlega það var sem særði Gunnar


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 26/10/07 16:48 #

það er graf-alvarlegt er að fréttastofa RÚV gætir ekki hlutleysis í garð Ríkiskirjunnar og fegrar allt það sem kemur frá þeirri stofnun.


Svanur Sigurbjörnsson - 26/10/07 17:52 #

Afsakið. Já þetta var þá í fréttum Stöðvar 2, en það sem fyrir augu bar. Það er frekar í sjálfu sér ekki óvænt að svona geti gerst þar sem baráttan er um bókstafinn eða skynsemina. RÚV hefði átt að sýna þetta. Fólk á rétt á því að sjá hvað skattpeningar þess fara í. Ekki er Alþingi hlíft í þessu tilliti.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.