Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spillir trúarbragðakennsla siðferðiskennd barna?

Í grunnskólum landsins er kennd námsgrein sem samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla nefnist "Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði".

Af lestri námskrárinnar sést fljótt að einkum er átt við kristilega siðfræði. Hér er því ekki hlutlaus kennsla í siðfræði, t.d. eins og hún birtist í mannréttindasáttmála SÞ eða hjá forngrísku heimspekingunum. Kristin siðfræði byggist á vilja Guðs og því sem stendur í ritningunni, ekki þörfum mannsins eins og húmanisminn. Kristin siðfræði hlýtur því alltaf að vera takmörkuð. En skoðum dæmi.

Adam og Eva

Námsbók 6. bekkjar hefst á syndafallinu. Nemendur lesa biblíutextann, fyrstu Mósebók 3:1-23, söguna af Adam og Evu. Í umfjöllun um textann er fjallað um óhlýðnina og að Adam og Eva þorðu ekki að kannast við glæp sinn. Síðan fylgir stutt smásaga sem á að gerast í samtíma nemenda þar aftur er fjallað um hlýðni og að játa á sig syndir sínar. Loks er hugleiðing þar sem fjallað er um að við þurfum öll að velja og berum öll ábyrgð á okkar eigin lífi. Af því við erum hluti af sköpunarverkinu þurfum við að halda okkur óspilltum eins og við viljum að náttúran sé. Hér er siðferðið skilgreint sem ábyrgð mannsins gagnvart Guði. Við eigum að fylgja skipunum Hans, annars erum við að syndga. Námsefnið fjallar ekkert um aðkomu Guðs í dæmisögunni um Adam og Evu, sem væri þó mergurinn málsins ef um "hlutlausa" dæmisögu væri að ræða. Af hverju vildi Guð ekki að við værum eins og hann? Af hverju sagði hann Adam og Evu að þau myndu deyja? Af hverju brást hann svona harkalega við út af einu epli? Eilíf fordæming og útskúfun hlýtur að vera ógnvekjandi í huga 12 ára barns. Sagan er myndskreytt með óhugnanlegu málverki þar sem Adam felur andlit í greipum sér í ævarandi skömm en Eva veinar eins og skynlaus skepna.

Var refsingin í samræmi við glæpinn? Hver var glæpurinn? Var Guð vondur eða góður í þessari sögu? Hvað meinar Guð þegar hann segir: "Sjá, maðurinn er orðinn einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!" (I Mos, 3.22)

Námsefnið tekur aðeins á litlum hluta þeirra siðferðilegu álitamála sem felast í sögunni og margir nemendur taka eflaust eftir. Siðferðileg nálgun námsefnisins er í samræmi við guðfræðilega túlkun kristinna á sögunni, markmið námsefnisins er að efla kristinn hugsunarhátt en ekki sammannlega siðfræði.

Faraó drukknar

Í námsefni sem miðað er við 4. bekk grunnskóla er sagt frá því þegar Guð drekkti Faraó og hermönnum hans í Rauða hafinu. Myndin sem fylgir er dökkt og drungalegt málverk sem sýnir Ísraelslýð fagna og þakka Drottni á meðan Egyptar berjast fyrir lífi sínu.

Námsefnið leggur líka áherslu á gleði Ísraelsmanna. Mirjam nokkur dansar um og lofar Drottin "því hann hefur sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið." Þessi setning er tvítekin í námsefninu svo nemendur taki örugglega vel eftir.

Hvernig taka kennslubókarhöfundar á þessum atburði? Strax á eftir frásögninni er kaflinn búinn með setningunni "Þannig björguðust Ísraelsmenn undan Egyptum". Fjöldadráp á hermönnum Faraós er ekkert rætt. Siðferðilegum spurningum sem gætu vaknað í huga 10 ára barns er ósvarað: Er rétt að drepa fólk? Er fjöldadráp á öllum óvinum rétta leiðin til að vinna stríð? Er rétt að fagna þegar óvinir deyja? Er Guð góður þegar hann drepur vont fólk? Er rétt að beita ofbeldi til að ná því fram sem maður vill? Hefði ekki verið betra að loka hafinu fyrir framan Egypta og forða þeim þannig frá dauða eða vildi Guð hefna sín – og var það gott og rétt?

Eins og sést er námsefnið verulega hæpið frá siðferðilegu sjónarmiði. Nálgun námsbókarhöfunda við þeim siðferðilegu spurningum sem vakna er langt í frá fullnægjandi. Niðurstaðan, í mínum huga, er veruleg hætta á að siðferðisvitund þeirra nemenda sem áhrifagjarnastir eru þroskist ekki sem skyldi. Auðvitað er það ekki markmið kennslubókahöfunda en þeim eru skorður settar enda gengur námsefnið út frá forsendum ævagamallar trúarbókar, og þeirrar stofnunar sem byggir tilveru sína á þeirri sömu bók, en ekki þörfum barna og foreldra þeirra á 21. öldinni.


Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14.10.2007

Brynjólfur Þorvarðarson 15.10.2007
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/10/07 08:39 #

Um leið og heilbrigðri skynsemi eða gagnrýninni hugsun er beitt á bókstafinn hrynur spilaborgin. Því verður ekki betur séð en að kennsluefni af þessu tagi sé ætlað að smeygja kristinni trú inn í opna barnshuga en ekki að fræða þá.


Kid A - 15/10/07 11:22 #

Þetta er viðbjóður og á ekki heima í skólanum innan um börn. Burt með þennan óþverra segi ég.


ThorK - 15/10/07 19:02 #

Toppvinnubrögð. Tekur af hógværð og festu á konkret afleiðingum af námskrá prestanna og Björns Bjarnasonar. Meira af þessu!


Gunnlaugur - 16/10/07 00:13 #

Já, þetta er prýðilega gert, gagnrýnt af festu en ekkert ofsagt.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 17/10/07 00:30 #

Það er alveg ljóst að ritgerð unnin eins og þessi námsbók í menntaskóla eða háskóla myndi fá mínus fyrir lélega og takmarkaða ígrundun á efni.

Það er einfaldlega mjög erfitt að reyna að nota texta beint úr biblíunni til að tjá einhvern boðskap, því maður verður að hitta á frásögn sem samrýmist siðferðishugmyndum nútímans. Hvað segir þetta okkur? Siðferðishugmyndir koma ekki úr trúarritum! Annars myndi öll biblían hljóma siðferðislega rétt að okkar mati.


Kristin - 20/10/07 14:14 #

Ísraelsmenn voru ekki í stríði við Egypta, þeir voru þrælar þeirra. Það er nauðsynlegt að hafa samhengið á hreinu, annars eru rökin fallvöllt. Egyptarnir fengu mörg tækifæri til að sleppa Gyðingunum friðsamlega en vildu halda í þá sem þræla (skiljanlega...). Svo gáfu þeir Gyðingunum leyfi til að fara en skiptu um skoðun þegar þeir voru lagðir af stað í burtu og fóru að elta þá. Guð opnaði hafið svo að Ísraelsmönnum tókst að flýja. Það lokaðist þegar þeir voru komnir yfir og það druknaði e-ð af hermönnum Egypta. Ég treysti því að krakkarnir í 6. bekk fái að heyra þetta í samhengi. Hver myndi so ekki fagna og gleðjast við að sjá kraftaverk gerast? Fólk sem er búið að vera þrælar í 400 ár og er svo leyst úr ánauð á yfirnáttúrulegann hátt bara hlýtur að vera glatt!


Viddi - 20/10/07 14:19 #

En sannarlega hefði Skaparinn getað stöðvað her Egypta án þess að skaða nokkurn mann.

En það hefði ekki selst einst vel.


Haukur Ísleifsson - 20/10/07 17:08 #

Guð var skapaður af fólki sem hataði Egypta og að sjálfsögðu drepur hann þá í þúsundatali. Guðstrú er mjög praktískur hluti af menningu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.