Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðferði guða og manna

Í gær var stór dagur í lífi dóttur minnar. Hún fékk sína fyrstu bíblíufræðslu. Við vorum að tala um tröll og skrímsli og hvernig stæði á því að fólk skáldaði upp svoleiðis til að setja í sögur sínar. Ég sagðist halda það að margt fólk skapaði svona skepnur til að hræða börnin sín til hlýðni, annað hvort vegna leti eða fáfræði. Í það minnsta hefur það örugglega oft verið hvatinn í gamla daga þegar fólk í fáfræði sinni skorti önnur úrræði til að ala börnin upp til að verða hlýðin eða meðfærileg.

"Ef þú borðar ekki matinn þinn þá kemur grýla og étur þig" er þá sagt- í stað þess að vera fylginn sér og setja sanngjarnar reglur sem barnið skilur og er kennt að fara eftir, þó það taki tíma. Ef vel tekst til þá getur hræðsluáróðurinn óneitanlega verið áhrifaríkari á meðan hin aðferðin þarfnast tíma, eftirfylgni og þolinmæði.

Ótta- og hræðslu áróður þarf ekki endilega að snúast um tröll. Þú getur ógnað barninu þínu með skapofsa og reiði. En hvað hefur barnið lært af hvorri aðferð fyrir sig til lengri tíma litið? Hræðsluáróðrinum á móti því að leiðbeina og upplýsa.

Þegar börnin fara að eldast og átta sig á því að tröll og skrímsli eru ekki til eða þau flytja frá foreldrum sem hafa kúgað þau til hlýðni þá skapast tóm þar sem að þetta hefur verið nær eina ástæða þeirra til að fara eftir siðferðisreglum samfélagsins. Það fer auðvitað eftir því hversu gróflega þetta hefur verið notað hversu illa statt barnið eða unglingurinn er á þessum tímapunkti.

Siðferðisþroski barnsins fer eftir því hversu mikið svona bábiljur hafa verið innrættar því til að stjórna því. Í verstu tilfellum er siðferðisþroskinn nær enginn þó að barnið átti sig á því að samfélagið gerir kröfur um að það felli sig undir bæði skráðar og óskráðar reglur þess. Í svoleiðis tilfellum er nú gott að hafa blessaða trúna til að frelsast í. Hún frelsar frá þessu tómi þar sem ætti að vera gagnrýnin hugsun og þroskuð siðferðisvitund. Í staðinn fyrir tröll eða skapofsa foreldranna kemur satan og helvítisvist, reiði guðsins og brottrekstur úr samfélagi réttlátra sem ástæður fyrir því að breyta rétt gagnvart náunganum. Skemmtilega fávitalegur grunnur fyrir siðferðisvitund.

Það yrði hlegið að barninu ef það héldi áfram að láta hegðun sína stjórnast af ótta við skrímsli og tröll en trúin hins vegar er allt annað mál. Bábiljur trúarinnar eru almennt viðurkenndar, eina sem þú þarft að gera er að samþykkja meintan siðferðisboðskap biblíunnar sem sannleik og þá sleppurðu við það að leggja í það þroskaferðalag sem þú hefur verið svikinn um. Þú ferð varla að standa í því núna í ljósi þess að þú einfaldlega hefur ekki vanist því að þurfa að leggja það á þig fram til þessa. Trúin er líka illskárri kosturinn við það að fara í ofbeldisfullt samband þar sem þér yrði áfram stjórnað af mennskum einræðisherra sem gæfi þér ekki ráðrúm til að reyna að hugsa sjálfstætt. En undirliggjandi í þessu öllu er að það á að hræða þig til hlýðni.

Hver nennir að hugsa og komast að niðurstöðu sjálfur í samfélagi skyndilausna? Á meðan meint svör eru til í viðurkenndu og heilögu riti sem er kölluð biblía- hin fullkomna skyndilausn þess sem vill hafa svörin við öllu án þess að þurfa að hafa fyrir því.

"Til er frásögn sem var skrifuð niður fyrir löngu síðan sem fólk trúir að sé alvöru þó að hún innihaldi jafn skrítna hluti og skrímsla- og tröllasögurnar. Hún heitir biblía og í henni er góður kall á himnum sem á að hafa búið til heiminn og stjórnar honum á ýmsa lund".

"Nei" sagði hin dásamlega dóttir mín. "Það er bara fólkið í húsunum sem stjórnar landinu". "Framsókarsflokkurinn stjórnar landinu og allir í hinum flokkunum sem eru ekki í framsóknarsflokknum stjórna landinu líka". Hún átti afmæli á kjördag og veit að þá var gengið til kosninga til að kjósa það hverjir ættu að stjórna landinu næstu fjögur árin. Framsókn var greinilega að ná til einhverra með auglýsingaherferð sinni þetta árið.

Um daginn ræddum við það af hverju við ættum ekki að lemja hvort annað. Hún sagðist alveg vita af hverju það væri: það er bannað, einfalt mál ekki satt?

Ég sagði henni að ef við myndum lemja hvort annað í hvert skipti þegar við yrðum eitthvað fúl eða pirruð út í hvort annað að þá myndum við ekki upplifa okkur jafn örugg eða ánægð eins og þegar við lifum við þá siðferðisreglu að lemja ekki hvort annað.

Ég sé það fyrir mér í framhaldinu að dóttir mín þrói frekar með sér góða dómgreind ef hún lærir svona um orsakir og afleiðingar heldur en ef ég segi henni að eitthvað sé einfaldlega bannað. Eins og boðorð trúarbragðanna eru oft notuð. Boðorðið segir það og því er það bannað. Ástæðurnar á bakvið boðorðin er óþarfi að skoða því að þau eru komin frá algóðum og alvitrum guði. Algóðum guði sem þó mun dæma þig og refsa þér herfilega ef þú hlýðir ekki gagnrýnilaust. Manneskjan er víst of vitlaus eða syndug eða vond, til að geta komist að góðri niðurstöðu sjálf í upplýstu samfélagi.

Ef hún á ekki að lemja eingöngu af þeirri ástæðu að það sé bannað þá gæfi það henni ekki tækifæri til að þróa með sér gott siðferði. Hún myndi eingöngu læra að fara eftir boðum og bönnum án þess að meta hvað er á bakvið þau.

Fáfrótt fólk notar boðskap trúarbragða sem verkfæri bæði til góðra og vondra verka. Það hefur yfirleitt ekkert með það að gera hvort fólk er gott eða vont. Ef þú hefur þróað með þér sjálfstæða og gagnrýna hugsun þá getur hún verið mjög áreiðanleg og verið góður grunnur fyrir þroskaða siðferðisvitund. Hinn ótvíræði kostur sjálfstæðrar siðferðisvitundar er sá að það er erfitt að misnota vel þroskaða, óháða og sjálfstæða siðferðisvitund. Það er hins vegar auðvelt að misnota þann sem þarf að styðjast við sannleik annara til að reyna að breyta rétt.

Það er lítið mál að búa til óáreiðanleg og óvönduð boðorð, boð og bönn (og eru boðorð trúarbragðanna þar engin undantekning) sem þó er hægt að telja fólki trú um að séu góðra gjalda verð. Siðferði biblíunnar, til dæmis, er mjög loðið og byggt upp á óljósum og mótsagnakenndum boðskap og eins og það er boðað þá gerir það mannskepnunni það óþarft að þróa sjálfstæða siðferðisvitund.

Sú siðferðisvitund sem dóttir mín mun þroska með sér mun aðeins lúta lögmálum mannlegs samfélags því að jú eins og við vitum þá er það einmitt í mannlegu samfélagi sem hún á að nýtast okkur.

Kristín Kristjánsdóttir 04.10.2007
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 04/10/07 08:58 #

Þetta er þörf og góð grein.

Við lestur hennar datt mér í hug hugsanleg vörn trúmanna hvað boðorðafylgnina varðar; að þeir fari að sjálfsögðu eftir þeim vegna þess að þeir telji það vera gott fyrir samfélagið en ekki endilega vegna þess að þau séu boðorð. Sem gerir þau algerlega óþörf í leiðinni því ef manneskja er það óörugg með siðferðisvitund sína að hún þurfi að sækja í siðferðisboðskap trúarbragða er voðinn vís því ástæðurnar að baki boðorðunum eru ekki alltaf tilgreindar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/10/07 09:01 #

Svo má ekki gleyma skemmtanagildinu. Nú höfum við netið, dagblöð, tímarit, bækur, útvarp og sjónvarp. Í þriggja daga afmælisveislu á vestfjörðum (að mig minnir) á miðöldum voru sagðar hetjusögur og í frásögn af veislunni sagði að afmælisbarninu þóttu slíkar "lygisögur" skemmtilegastar. Við gerum of lítið úr forfeðrum okkar ef við ætlum að þeir hafi trúað öllum þessum ósköpum. Eflaust hafa alltaf verið til auðtrúa bókstafstrúarmenn en ég vil halda að fleiri hafi þó hugsað sitt.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 04/10/07 09:28 #

Það væri óskandi að það væri alveg heilt yfir bara skemmtanagildið sem væri á bakvið. Hótanir um helvítisvist og fordæmingu syndugra lifa hins vegar ágætislífi hjá furðustórum hópi enn í dag alveg eins og tröllahjátrúin gerði á sínum tíma. Eflaust er í flestum tilvikum búið að skipta tröllunum alfarið út fyrir reiði guðs í dag.

Það er snúið að reyna að gagnrýna þessar hugmyndir því að þær virðast fylla upp í eitthvert tóm, sem mörgum trúmanninum verður einmitt tíðrætt um, sem er ekki til staðar hjá okkur hinum sem stöndum utan þessara hugmynda.

Hvaðan kemur þetta stóra tóm sem flestum trúmönnum er svo hugleikið?


Haukur Ísl - 04/10/07 09:58 #

Skemmtileg pæling.


Teitur Atlason - 04/10/07 12:24 #

Góður punktur! Sifjar þessarar undarlegu hlýðni við ruglingsleg og óúskýranleg valdboð eru sannarleg efni í miklar pælingar.

Þessi hugleiðing minnir mig á atriði úr kvikmyndinni "Letters From Iwo Jima" en þar les móðir fyrir son sinn bréf sem hún skrifaði honum. Hún hefur miklar áhyggjur afhonum og segir á einum stað

Breyttu rétt - Af því að það er rétt"

Þetta þykir mér alltaf góður punktur.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 04/10/07 22:40 #

Góður pistill.

Við megum þó ekki alveg gleyma skáldskapnum og ímyndunaraflinu sem hefur orðið uppspretta skemmtilegra sagna.

Strákarnir mínir horfðu mikið á Tomma og Jenna og lásu mikið af vísindaskáldsögum. Þeir trúa þó ekki á Tomma og Jenna og heldur ekki á Harry Potter og hans fylgifiska.

Það þarf bara að gera krökkum snemma grein fyrir því hvað er skáldskapur og hvað er raunveruleiki, en þar er víst oft brestur á :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.