Svona hljómaði kynning á einni fréttinni í kvöldfréttum útvarpsins fimmtudaginn 21. júní s.l. og var vitnað í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem þennan dag dæmdi mann fyrir að stinga annan með hnífi. Hinn lífshættulega særði maður komst í tæka tíð undir læknishendur þar sem lífi hans var bjargað með miklu snarræði og hafa lýsingar á því birst í fjölmiðlum.
Hvernig má það vera að dómari við opinberan dómstól í landinu skrifi það í dóminn sem hugsanlega skýringu á því að maðurinn hélt lífi að það hefði orðið “kraftaverk”! Hvað er “kraftaverk”? Nærtækasta svarið er “ekkert” því það sem hugtakinu “kraftaverk” er ætlað að skýra er ekki möguleiki. Ég leyfi mér að vitna í Hume:
Kraftaverk er brot á náttúrulögmálunum. Og þar sem þessi lögmál eru studd öruggri og undantekningarlausri reynslu leiðir af eðli málsins að staðfesting þess að kraftaverk gerist ekki er svo örugg sem nokkur reynslurök geta hugsanlega verið.[1]
Vissulega er orðið "kraftaverk" notað af mörgum í daglegu tali um allt mögulegt. Gjarnan þegar einskær heppni eða tilviljun ræður því að eitthvað fer betur en á horfðist í fyrstu. En þegar ég sé hugtakið notað sem hugsanlega skýringu máls í opinberum dómi setur mig hljóða. Notkun hugtaksins í opinberu réttarkerfi er fráleit og mjög ámælisverð. Í umræddu tilviki er það einnig lítilsvirðing við lækninn að kalla það “kraftaverk” sem augljóslega er læknisfræðilegt afrek.
Sjá einnig: Af kraftaverkum og David Hume
[1] Hume, Hið íslenska bókmenntafélag 1988, bls.198. Þýð. Atli Harðarson
Heyr heyr!! Mjög þörf ábending og skrif hjá þér Jórunn. Þessi kæruleysislega notkun á hugtökum er ekki líðandi hjá opinberum aðila sem ber mikla ábyrgð með úrskurði og umsögn sinni.
Já alveg stórfurðulegt þegar t.d flugvél hrapar og einn kemst lífs af af 200, og það er kallað kraftaverk með skírskotun í náð guðs. Hvað með alla hina?
Þakka áhugaverð viðbrögð. Varðandi þá mjög svo algengu og jafnfram ógeðfelldu og ónærgætnu notkun á orðinu að nota segja það "kraftaverk" þegar einhver kemst lífs af bendi ég á bók Dan Barker þar sem hann segir frá því þegar hann þroskaðist frá trúboða til trúlauss manns. Í bókinn segir hann frá slysi þar sem margir dóu en aðrir lifðu af. Þeir sem lifðu töluðu um kraftaverk guð - og ástæðan var að þeir væru svo "mikið" trúaðir og góðir menn. Aðstandendur þeirra látnu höfðuðu mál á hendur blaðinu sem birti þessa frétt en af henni mátti draga þá ályktun að þeir sem dóu hefðu ekki verið gott fólk. Þeir unnu málið.
Mæli með því að gengisfella orðið...
Þú virðist gefa þér það að þetta sé bein tilvitnum í dóm Héraðsdóms, en birtir ekki dómsorðin, heldur vitnar í frétt úr útvarpinu um þau. En alveg óháð því, er þetta undarleg hártogun, þar sem augljóst er að hér er verið að nota orðið ,,kraftaverk“ í merkingunni ólíkleg, eða undraverð heppni. Það þarf einbeittan vilja til að misskilja þetta. Með svona kröfum um sterílt málfar, ætti ekki að banna blöðunum að nota orðið ,eltingarleikur‘ um eftirför? Varla er löggan alltaf í bílaleik? Og af því að við ættum að hvítþvo tunguna svona rækilega, hvernig væri að ráðast gegn orðinu ,,náttúruauðlindir“ – nota í staðinn hið notvæna ,,landslag“? Eða skipa mönnum að segja ,,óhóleg eyðsla“ í staðinn fyrir ,,óhagstæður viðskiptajöfnuður“, útiloka menn frá að tala um að einhver ,,andist“ (þ. e. breytist í anda), krefjast þess að orðið ,,atvinnumótmælandi“ eigi bara að nota um mann sem er á móti því að vinna. Þannig ætti líka að skrifa mótmælabréf vegna skrautorðanna ,,leiðrétting á kjörum“, sem hefur verið notað um launalækkun (en aldrei um launahækkun). Við ættum að þurrka út orð eins og pjalla, sköp, rifa, klobbi og klof. ,,Píka“ misskilur enginn. Og hvað með að banna orðið ,,ranghugmynd“ – er það ekki ranghugmynd í sjálfu sér? (Eru til rangar hugmyndir? Hugmyndir eru jú bara hugmyndir .. ) Eigum við ekki öll að nota bara sömu 500 orðin án undantekninga, til að komast hjá rökvillum og rang túlkun? Eða lesa bara teiknimyndafréttir eins og í Fahrenheit 451 ..
Það er rétt Halldór að "kraftaverk" er stundum notað um "undraverða heppni" og plummar sig alveg fínt í því hlutverki.
En það er jafn asnalegt af dómaranum að segja björgun þessa mans vera heppni eins og að vera kraftaverk. Þetta var engin heppni, bara góður læknir.
Annars er ég alveg sáttur með orðið kraftaverk í hversdagslegum umræðum. En ég dreg nú línuna við opinber skjöl þess háttar.
Skil ekki af hverju er vitnað í frétt sem vitnar í dómsorð en orð dómsins sjálfs ekki bara birt, ef þrætueplið er algengt, íslenskt orð. Ertu viss um að orðið komi frá Hæstarétti en ekki fréttamanninum? Og hvernig er hægt að sýna fram á að engin heppni hafi ráðið því að maðurinn komst til læknis nógu snemma til að hægt væri að bjarga honum – ,, Hinn lífshættulega særði maður komst í tæka tíð undir læknishendur ..“ Ég held að íslenskt mál væri frekar dauft á bragðið ef það myndi á endanum vera einskorðað við NewSpeak a la 1984. Kraftaverk hefur bara miklu víðari merkingu en yfirnáttúruleg atvik. Það vita það allir, þó að einhver reyni að ,,sanna“ hið gagnstæða með orðhengilshætti. Svona hártoganir eru asnalegar.
Í fréttinni er reyndar tekið fram að í dómnum hafi þetta staðið, en hérna eru dómsorðin:
Þegar litið er til alls þess, sem nú hefur verið rakið og gætt er ákvæða 1.-4. töluliðs 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, eigi síst þess að annað hvort kraftaverk eða læknisfræðilegt afrek réði því að Hallgrímur er á lífi, telur dómurinn að refsing ákærða sé hæfilega ákveðin 6 ára fangelsi.
Hvernig skilur þú orðið ,,kraftaverk“ þarna? Hvort er líklegra að það merki sérleg heppni (t. d. vegna þess hversu fljótt maðurinn komst til læknis) - eða hönd guðs yfir og alltumkring? Fyrir mér er það augljóst, en auðvitað má beita einbeittum misskilningsvilja á það sem hentar hverju sinni. Gæti ég þá ekki krafist þess að orðið ,,kraftaverk“ eigi bara að nota í merkingunni ,,mikið afreksverk“? Það er ekkert í orðinu sem segir að það merki yfirnáttúrulegt, ef það er klofið í einhverjar grunneindir, og þess vegna ekkert að því að nota það yfir sérlega heppni, eins og er afar algengt.
Ég get því miður ekki lesið hugsanir dómarans ;)
Kannski á hann bara við "ótrúleg heppni", kannski á hann við "yfirnáttúrulegt inngrip".
Djísus. Það eru bara herskáir vantrúðar sem reyna að kreista yfirnáttúrulega merkingu úr ósköp venjulegu tungutaki venjulegs fólks. ,, - Segðu að þú hafir ímyndað þér að hendi guðs hafi komið niður og læknað hann! Viðurkenndu það!!!“
Ég er svo gjörsamlega gersneyddur öllum órum um yfirnáttúrulegar lækningar og andans heima, að ég hefði ekki getað skilið þetta orðalag eins og þessi Jórunn gerir. Guð blessi trú(ð)leysið.
Halldór:
Hvernig skilur þú orðið ,,kraftaverk“ þarna? Hvort er líklegra að það merki sérleg heppni (t. d. vegna þess hversu fljótt maðurinn komst til læknis) - eða hönd guðs yfir og alltumkring?
Auðvitað er átt við kraftaverk í þessu samhengi sem yfirnáttúrulegt inngrip. Lestu dóminn, maður!
...annað hvort kraftaverk eða læknisfræðilegt afrek réði því...
Þar er ekki verið að þvaðra um að gaurinn hafi komist snemmhendis undir læknishendur, heldur það að um kraftaverk (þ.e. yfirnáttúra) sé að ræða að hann sé á lífi.
,,Auðvitað er átt við kraftaverk í þessu samhengi sem yfirnáttúrulegt inngrip."
Ha? Ekki allir vissir um það: ,,Kannski á hann bara við "ótrúleg heppni", kannski á hann við "yfirnáttúrulegt inngrip". [Hjalti Rúnar Ómarsson 08/09/07 00:08 #] ,, .. "kraftaverk" er stundum notað um "undraverða heppni" og plummar sig alveg fínt í því hlutverki. [Viddi - 07/09/07 22:32 #]
Getur eitt orð bara haft eina merkingu? Ókei. Gerum öll orð alveg gegnsæ, engin hætta sé á minnsta misskilningi. En þá getur ,,kraftaverk" ekki þýtt yfirnáttúrulegt inngrip, frekar ,,mikið afrek“ eða ,,lyftingar“. ,,Ólíkindatól" = biluð keðjusög. ,,Útferð“ = Flug til útlanda. ,,Faraldsfótur“ væri ,,stígvél“ og ,,stígvél“ reiðhjól. ,,Útfrymi“ = Dauðar húðflögur að detta af.
,,Vantrú“ væri þá ,,skortur á trú“ en ekki trúleysi (sbr. forskeytið van- í merkingunni skortur: orð eins og vantar, vanskapaður, vangefinn, vanþroskaður, vanviti, vanhugsun, vankunnátta. En Vantrú þýðir það ekki, vegna þess að það er (ennþá) til sveigjanleiki í merkingu orða.
Svona dauðhreinsun er skemmdarverk á hugsun.
Hinn lífshættulega særði maður komst Í TÆKA TÍÐ undir læknishendur þar sem lífi hans var bjargað með miklu SNARRÆÐI. Ergo: Heppileg heppni. Eða kraftaverk. Engin leið að segja það með vissu.
Nokkur orð til Halldór Carlssonar - Ég vitna beint í dóminn. Þú getur skoðað hann á netinu.
Ertu að krefjast þess að eitt orð nái bara yfir eina hugsun? Ertu að staðhæfa að sá sem skilur orðið kraftaverk þarna sem ótrúleg heppni, hafi misskilið eitthvað?
Má kannski ekki nota orðið ,,ótrúlegt" lengur - hvort þýðir það ,,lygi" eða ,,yfirnáttúrulegt"?
FYI: Sauðmeinlaus trúleysingi eins og ég, hefur bara ekki hugmyndaflug í þessa merkingu sem þú ert að kreista fram þarna. Segir það þér eitthvað?
Sauðmeinlaus trúleysingi eins og ég, hefur bara ekki hugmyndaflug í þessa merkingu sem þú ert að kreista fram þarna. Segir það þér eitthvað?
Að þú hafir óskaplega gaman að því að rífast? Þú ert hér að þrátta um nokkuð sem er afgreitt í greininni sjálfri, en þar segir Jórunn:
Vissulega er orðið "kraftaverk" notað af mörgum í daglegu tali um allt mögulegt. Gjarnan þegar einskær heppni eða tilviljun ræður því að eitthvað fer betur en á horfðist í fyrstu. En þegar ég sé hugtakið notað sem hugsanlega skýringu máls í opinberum dómi setur mig hljóða.
Ég er ekki sá eini sem hef gaman af því.
Úr opinberum gögnum:
Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.
Í kirkjugörðum ber að virða grafarhelgi.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/09/07 11:07 #
Sammála. Mér finnst líka einkar ógeðfellt þegar stórslys verða og einhver sem komst af þakkar það "sínum" guði, á meðan aðrir fórust. Þvílíkur hroki! Þó er það túlkað sem auðmýkt. Það er allt á haus í kristindómnum. Grimmd guðs, að slátra syni sínum er sagt merki um mildi hans o.s.frv. En það virðist enginn hörgull á kraftaverkum hjá kaþólskum, skjalfestum, enda eru þau forsenda þess að menn komist í dýrðlingatölu, og nóg er af þeim. Svo má ekki gleyma hoppurunum sem upplifa kraftaverk svo að segja á hverri samkomu en eru tóm blekking í annarra augum. Hafi þetta orð birst í dómi er það slysalegt og e.t.v. ámælisvert. Á hinn bóginn er kannski ágætt að gengisfella þetta orð og láta það lýsa einhverju ólíklegu eða algjörri heppni, tilviljun. Mig grunar að sú hafi merkingin verið í huga dómarans frekar en trúarleg skírskotun.