Allir lenda í þeirri stöðu einhvern tímann á ævinni að standa frammi fyrir siðferðislegum álitamálum. Til þess að skera úr um hvað sé réttasta breytnin í slíkri stöðu beitum við ýmsum ráðum. Flestir notast við siðferðiskennd sína, aðrir notast við hefðina eða einhverskonar stefnur eða isma. Sumir notast við fyrirmyndir á borð við Gandí, Nelson Mandela eða Davíð Oddson.
Þeir kristnu notast gjarnan við fordæmi Jesúsar þegar æskileg breytni er í húfi. Svo mjög hafa þeir kristnu litið til fordæmi Jesúsar að til er einskonar formúla sem kveður á um að sá kristni ætti að spyrja sig “hvað myndi Jesús gera” þegar siðferðisleg álitamál skjóta upp kollinum. -Dauðarefsing? “Hvað myndi Jesús gera?”, -Gifting samkynhneigðra? “hvað myndi Jesús gera?”, Fóstureyðingar? “Hvað myndi Jesús gera?”. Þetta er allt gott og gilt. Flestir notast við einhverskonar milliliði til þessa að komast hjá því að taka ábyrgð á eigin siðferðiskennd.
Það vakti nokkra furðu á dögunum þegar fréttir1 bárust af því að ríkiskirkjupresturinn Egill Hallgrímsson hefur ástundað aukavinnu sem samræmist engan vegin þessari siðferðisformúlu sem þeir kristnu notast svo gjarnan við. En Egill þessi selur Herbalife vörur eftir svokölluðu pýramídasölukerfi og ráðleggur fólki að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum í gegnum áhættufjárfestingaklúbbinn Bridge. En þessi klúbbur er ekki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins á Íslandi eða í nágrannalöndum okkar. Aðspurður segir Egill ríkiskirkjuprestur að þessi aukavinna sín samræmist vel preststarfinu því að hann sé “áhugamaður um leiðir fyrir venjulegt fólk til að bæta fjárhag sinn”. Þessu til áréttingar spyr Egill lesendur sína á vefsíðu sinni hvort þeir “vilji margfalda peningana sína?”
Margir hafa sett spurningamerki við þessa aukavinnu ríkiskirkjuprestsins Egils Hallgrímssonar og bent á að svona ráðleggingastarfsemi á hinum alþjóðlega gráa markaði samræmist ekki preststarfinu og bent á að Egill sé með milli 500 og 700 þúsund krónur í mánaðalaun frá ríkinu fyrir preststarfið2 þannig að hann þyrfti trauðla á aurunum að halda ef út í það er farið. En nóg um það og aftur að Jesú og formúlunni hans. Hvað skyldi Jesús finnast um þessa aukavinnu Egils ríkiskirkjuprests? Þótt flest í biblíunni megi túlka vítt og breytt er Jesús afar skýr í afstöðunni til auðsöfnunar. Í Matt 10 segir:
21 "Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."
22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."
24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.
25 "Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
Ég veit ekki með ykkur lesendur góðir en mér finnst þessi aukavinna Egils ríkiskirkjuprests vera hræsni af verstu sort. Hann boðar hvort í senn göfgi hófseminnar og ráðleggur um leiðir til að margfalda peningana sína. Þetta minnir mig á þversagnakennda æfi bandaríska lögfræðingsins Roy Cohn sem barðist hatrammlega gegn samkynhneigðum en var um leið hommi og dó úr AIDS á upphafsárum þess hrikalega faraldurs.
Ég hvet alla þá sem hafa íhugað að ástunda fjárglæfra með Agli ríkiskirkjupresti að endurskoða þá hugsun sína og beina peningunum sínum til fagaðila sem hafa fulla atvinnu af því að ráðleggja fólki varðandi sparnað þess. En sé viðkomandi kristinn þá hvet ég þann hinn sama að taka Jesús á orðinu og gefa eigur sínar til þeirra sem eiga um sárt að binda. Það væri alveg frábært að sjá hve margir gerðu það úr hópi presta og þeirra sem hafa atvinnu af því að mæra boðskap Jesúsar.
1 DV 21/08 [forsíða] - [grein]
2 648.665 á mánuði á síðasta ári skv. tekjublaði Mannlífs
Mér sýnist þetta vera nokkuð lifandi og skemmtilegur prestur laus við alla helgislepju sem er gott mál. Varðandi peningana er eg ekki sammála ykkur, peningar eru dásamlegir.
Hvenær höfum við sagt að peningar væru slæmir? Aldrei svo ég muni. Biblían fer hins vegar ekki í grafgötur með það. Víða má lesa í henni að peningar séu af hinu illa. Boðskapur Jésú var þar engin undantekning. Hér er bara verið að benda á þessa augljósu staðreynd að presturinn fer ekki eftir því sem hann boðar, en það er ekki óalgengt meðal presta.
Það er ekki ykkar/okkar að dæma misgjörðir prestsins knáa, heldur Gvuðs. Eða er það ekki? Ég er orðinn alveg ruglaður í þessu.
kannski trúir presturinn því að hann sé að selja guðdómlegan lífselexír? (herbalife: duft lífsins).
maður er ekki hræsnari ef maður trúir hræsninni sjálfur.
er annars ekki bara stigsmunur á hörbalæfara og kókaínsala (hvítt hressandi duft í skjalatösku ..)
Góðir punktar, flott grein!¨ Enn eitt dæmið um "pick and choose" trúaðrar manneskju á boðskap biblíunnar.
Þetta er ekkert siðferðilegt vandamál hjá kristnum - Jesú fyrirgefur allt. Góð grein!
Þetta er ástæðan fyrir þeirri ævagömlu hefð að kalla vegvísa vegpresta. Það hefur nefnilega lengi loðað við að þeir vísa leiðina en fara hana ekki sjálfir.
Góður pistill.
Herbalife er bara protein duft blandað vítamínum og steinefnum. Proteinið er yfirleitt úr mysu sem verður afgangs í mjólkuriðnaðinum, þannig að einhver var svo klár að gera duft úr henni og markaðssetja á heilsumarkaðinum. Þannig að ekkert fór til spillis hjá mjólkuriðnaðinum og svo er fólki talin trú um að þetta duft sé nauðsynlegt heilsu þeirra.
Það er hinsvegar staðreynd að allar mikið unnar vörur eru svo til dauðar og ekkert líf í þeim lengur. Fólk ætti bara að drekka hreina mysu og borða hollan mat þá þarf það ekki að láta telja sér trú um að þetta duft sé gott fyrir það.
Herbalife er bara blekking og peningaplokk af auðtrúa fólki eins og loforð sérútvalinna guðsmanna um vist á himnum og sérsamning við guð ef það fer þá leið sem þeir boða.
Þannig að þegar upp er staðið eru prestar ekki bara góðir sölumenn?
Mér finnst þessi umræddi prestur ekkert betri en spákonan sem auglýsti: Spái í spil og bolla, strekki dúka á sama stað. (Nema hvað spákonan er ekki í launaáskrift hjá ríkinu)
Mér finnst þessi skrif sem beinast að Herbalife frekar einkennast af vanþekkingu en nokkru öðru, það væri t.d. gaman að fá einhverjar staðreyndir um að Herbalife sé bara blekking, þá er ég að tala um eitthvað annað en innantóm orð. það er misskilningur að Herbalife prótein duftið sé unnið úr "mysu sem verður afgangs í mjólkuriðnaðinum" 75% af próteini í próteinduftinu er unnið út sojabaunum það er líka misskilningur að fólki sé talin trú um að þetta sé "nauðsynlegt heilsu þeirra" fólki er bent á að prófa vörurnar og ath hvort það finni heilsubót af rétt eins og milljónir manna um allan heim hafa gert.
Svikin eru nú ekki meiri en svo að það er 30 daga skilafrestur á öllum Herbalife vörum. Það er talsvert meira en á þessum vörurflokkum "að drekka hreina mysu og borða hollan mat"
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Guðmundur B - 23/08/07 13:42 #
Nú er ég sammála ykkur félagar (loksins) reyndar ekki hvað trúmál varðar yfirleitt - en hvað varðar "Herbalæf" sölu prestsins. Þetta passar ekki!!!