Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biblíur í fangelsum

Í Bandaríkjunum tíðkast að fangar fái fyrr reynslulausn, eða jafnvel náðun, ef þeir taka trú. Þarna er auðvitað komið kjörið tækifæri fyrir siðblind ógeð að leika á kerfið, en víst er þó að margur drengurinn verði "einlægur" í trú sinni á hindurvitnin og þurfi ekki að gera sér upp betrun sína.

En felst þó ekki allur kristinn átrúnaður í raun í að "gera sér upp" betrun, í von um náðunina stóru eftir dauðann? Það sem ég á við er þetta: Siðleg hegðun er lærð og það hlýtur að vera mótívasjónin bak við hana sem gildir, ekki hin góða hegðun sjálf. Margir kristnir eiga í mesta basli með sjálfa sig þótt heitttrúaðir séu, eru alltaf að misstíga sig og þurfa endalaust að fá fyrirgefningu synda sinna. Iðrun og yfirbót eru enda viðtekin meðöl kristninnar og alltaf hægt að notast við þetta tvennt til að fá hreint borð og frið í sálina, hver svo sem glæpurinn er.

Slíkt ber að mínu mati ekki vitni um nokkurn einasta siðferðisþroska. Mun frekar er hér um undirlægjuhátt og þrælasiðferði að ræða, enda búið að hóta hræðilegum refsingum sé ekki "spilað með". Gussi virðist ekkert láta sig varða hvort mönnum þyki góð hegðun hafa gildi í sjálfu sér, aðeins er nóg að sýna hana af sér til að fá aðgang að veislu dauðans. Þetta á þó reyndar helst við um kaþólskuna og lútersku þjóðkirkjunnar, því nýmóðins útgáfur kristindómsins krefjast eingöngu skilyrðislausrar trúar á staðlausa stafi. Hegðun manna býttar þar í raun engu.


Áður birt á birgir.com

Birgir Baldursson 28.06.2007
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Árni Árnason - 28/06/07 11:25 #

Iðrun og yfirbót eru a.m.k. að nafninu til það sem til þarf svo að almættið skelli ekki gullna hliðinu í andlitið á manni. Þessi iðrun og yfirbót sem menn segjast gera er þó illa sýnileg og algerlega óáþreifanleg. Annað er að segja um það hitt sem oftar en ekki verður að fylgja iðruninni, nefnilega aurinn, og hann ekki smáan. Fyrir utan alla þá sem gjalda tíund tekna sinna til að friðþægja gussa, töldu þeir syndugustu vissara að gefa kirkjunni allar eigur sínar, og í sumum fjölskyldum þekktu margar kynslóðir enga aðra vinnu en að byggja eitthvert kirkjubáknið upp á nánast vatn og brauð. Ja, mikið meiga grænu grundirnar vera dásamlegar ef þær eru alls þessa virði, því það er jú alveg klárt að ekki er félagsskapurinn kræsilegur.


Guðmundur I. Markússon - 28/06/07 13:55 #

Þetta er reyndar ekki rétt hjá þér varðandi Lúter.

Eitt lykilatriði í Guðfræði Lúters (vitnað í með fyrirvara um brigðult minni eftir lestur Lúters fyrir mörgum árum) er einmitt að trúin sé það eina sem skipti máli, EKKI góð hegðun per se (en að góð heðgun geti síðan leitt af trú sem einskonar hliðarverkun). Ef ég man rétt er þetta mikilvægt atriði í gagnrýni Lúters á kaþólskuna.

Guðfræðingar vinsamlegast leiðréttið fari ég rangt með.


Guðmundur I. Markússon - 28/06/07 14:04 #

Nú er búið að kveikja á gömlum taugabrautum og minnið hikstar í gang.

Og trú nægir ekki per se, heldur þarf náð Guðs til -- trúin gefur því aðeins möguleika á því að verða hólpinn (svona eins og að kaupa miða í happadrætti þar sem Guð sér um úrdráttinn).

Ég skrifa þetta með sama fyrirvara og áður...


FellowRanger - 28/06/07 19:11 #

Gaman að fá Sideshow-Bob inní myndina, og allir virðast hafa séð gagnrýnanda Íslands, allavega af þessu Gussa-tali. Kemur kannski Krosslafur næst? En ég hafði ekki hugmynd um þetta með fangeslismál. Slæm er staðan í henni Ameríku.


Birta - 29/06/07 20:28 #

"Margir kristnir eiga í mesta basli með sjálfa sig þótt heitttrúaðir séu, eru alltaf að misstíga sig og þurfa endalaust að fá fyrirgefningu synda sinna."

Þegar Ted Haggart, predikarinn sem hafði verið í sambandi við "vændismann", og notað amfetamín í laumi, játaði opinberlega "glæpi" sína, sagði hann einmitt að hann hafi verið að berjast við "myrkur" allt sitt kristna líf (lesist, streitast á móti löngunum til að gera hluti sem "kristið siðferði" bannar). Þetta er einmitt lýsandi fyrir margann trúmanninn. Kraftur kristindómsins/ eða Guðs/ til að breyta mönnum til betri vegar, virðist í mörgum tilfellum vera af skornum skammti.


Haukur Ísleifsson - 20/10/07 18:38 #

Bandaríkjin eru í raun góð til viðmiðunar. Við vitum að þar á bæ er allt kraumandi í ofstæki og öfgum og gott að hafa einhvað módel af hinu vonda í þessari baráttu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.