Áfram ræddum við Gunnar trú og trúleysi á Bylgjunni og í þriðja þætti óskaði ég eftir að taka aðeins á siðferði þeirra sem boða blinda trú á kristindóminn.
Herra ljósameistari!
„Hér mætast myrkur og ljós,“ lætur Gunnar hafa eftir sér í upphafi útsendingar. Þetta er auðvitað hárrétt hjá honum, ljós upplýsingar og vísindalegrar aðferðar er mætt til leiks til að sauma að miðaldramyrkri blindra trúarhugmynda. En auðvitað sér Gunnar það ekki þannig.
Ég tók með mér lista af atriðum sem ég vildi ræða, sextán punkta alls. Það var ekki nokkur vegur að komast yfir það allt í þessari stuttu útsendingu og því bíður restin af listanum betri tíma, næstu þættir á eftir hafa farið í að ræða boðorðin tíu.
En fyrst á listanum hjá mér laut að því hvernig trúarkölt hafa sífellt kynlíf annarra á heilanum. Samkynhneigð er synd, einnig kynlíf fyrir giftingu, auk þess sem aðeins ákveðin tegund kynlífs er liðin innan sumra kristilegra kreðsa (munn- og endaþarmsmök til skemmtunar eru t.d. úti í kuldanum). Öll frávik eru fordæmd og með því er alið á sektarkennd þeirra sem ekki bera sig „rétt“ og kristilega að hvílubrögðin.
Gunnar tók við punktunum mínum og rýndi í þá: „Það er ekki hægt að lesa þetta, það er svo birtulaust hérna.“ Skemmtileg athugasemd í ljós þess sem fyrr var sagt: Ljós almættisins nær semsagt ekki að lýsa upp blaðið þegar fulltrúi myrkursins er svona nálægur. Spurning hvort Krossinn verði ekki að herða róðurinn gegn hinu illa svo stafað geti meiri himnabirtu kringum leiðtogann.
Plágur
Gunnar segir ásakanir mínar rangar, en fer svo að tala um eitthvað allt annað en ég. Kynlíf á að vera til einkaafnota en ekki til sýnis á torgum. Ég var reyndar ekkert að tala um það, heldur einkaathafnir fólks sem elskar hvort annað, hvort sem það er ógift eða samkynhneigt. Svo fer hann að tala um reglur:
Við vitum t.d. að það er ákveðin plága í landinu. Ef við tökum til dæmis AIDS eða klamedíu, þá er það gríðarlegur vandi sem steðjar að íslensku samfélagi. [...] Ef við færum eftir ritningunum, þá værum við í fínum málum.
Það var og. Heldur Gunnar virkilega að einföld boð og bönn geti nokkurn tíma útilokað og upprætt kynskjúkdóma? Hefur honum sýnst það vera raunin í hinunum kristnustu afkimum bandarísks þjóðfélags þar sem allir eru með guðinn á vörunum frá morgni til kvölds? Staðreyndin er einfaldlega sú að krakkar á þeim slóðum fá ófullnægjandi kynfræðslu vegna kristilegs teprugangs í samfélaginu, þau læra ekki að nota getnaðarvarnir og afleiðingin er hátt hlutfall af ótímabærum unglingaþungunum, öfugt við betur upplýst þjóðfélög á borð við hin skandinavísku. Þrátt fyrir að þessar staðreyndir liggi upp á borðum álítur Gunnar sér óhætt að halda þessu fram. Er honum ekkert annt um samborgara sína? Vill hann ekki stuðla að því að útrýma raunverulega kynsjúkdómum og unglingaóléttum? Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaust og siðlaust tal hjá honum þarna. Eina plágan í þessu samhengi eru umsvif manna á borð við Gunnar í Krossinum.
Þegar ég bendi honum á þennan punkt um uppfræðslu ungdómsins kemur bara: „Það fer best á því að kynlíf sé innan ramma hjónabandsins.“ Rétt áður var hann að gefa skít í gagnsemi smokka í höndum drukkinna og illa til hafðra unglinga. Heldur hann að einhver svona regla um kynlíf innan hjónabands haldi þessum krökkum frá sínu lostafikti? Er ekki miklu betra að vopna þau getnaðarvörnum til að lágmarka skaðann sem leitt getur af sjálfsögðum kynlífstilburðum graðra unglinga? Ábyrðgarleysi eins og það gerist svæsnast.
Gunnar notar sem gagnrök fréttir um að eyðni hafi stóraukist á Íslandi á liðnum mánuðum. Það segir ekki nema hálfa söguna, því eftir upplýsingum sem ég hef eru þessi aukning helst hjá ferskum innflytjendum sem koma frá löndum þar sem veikin er landlæg. Kaþólska hefur líka aukist í landinu að undanförnu og það mikið. Ætli geti verið fylgni þarna á milli? Og það víst búið að eyðileggja margar ungar stúlkur í samfélaginu með klamedíu. Hmm, af hverju fara þessar stúlkur ekki strax í viðeigandi meðferð í boði læknavísindanna. Eru þetta kannski kristilegar hvítasunnukonur sem láta Gunnar reka út af sér klamidíuna frekar en að leita sér lækninga? Kannski er það of mikið kristilegt áfall að fá svona sjúkdóm til að hægt sé að viðurkenna það í háheilögu samfélagi á borð við það sem Gunnar rekur. Kristilegt pukur alltaf.
Við eigum ráð við hlutum á borð við klamedíu. Það er ekki eins og við séum stödd á kristilegum miðöldum lengur og óþarfi að láta svona sýkingar grassera þar til allt er um seinan. Ég veit vel að konur geta gengið um einkennalausar árum saman, en þetta fer ekkert fram hjá þeim körlum sem frá þeim koma. Og er þá ekki betra að stunda meira kynlíf en minna til að komast að því hvort sjúkdómurinn leynist í skauti kvenna, ef regluleg tékk eru ekki gerð? Hér gæti hóflegt lauslæti verið af hinu góða, enda hefur margur kynsjúkdómurinn uppgötvast eftir framhjáhald. En auðvitað er best að nota bara smokk, stunda ábyrgt kynlíf.
Kolla spyr: „Líturðu eins á hjónaband og þá sem eru í sambúð?“
Ágæt spurning og fram kemur að kristilegt hjónaband er að mati Gunnars ekki eina formið sem hann viðurkennir. En hommahjónabönd koma ekki til grein. En ef boðorðin 10 væru höfð í heiðri væri þetta ekki vandamál. Ódýr afgreiðsla það.
Kristileg læknisfræði
Svo eru það illu andarnir. Gunnar trúir á tilvist þeirra og tekur þá í að reka þá út af fólki. Í upplýstu nútímasamfélagi er ömurlegt að menn eins og Gunnar séu að breiða út svona ranghugmyndir. Og áfram rantar hann um óvininn og hin illu öfl. Þessi málflutningur dæmir sig sjálfur. Sjúkir sem leita frekar til Gunnars með veikindi sín fá ekki bót meina sinna. Órar og rugl af hættulegustu tegund.
Þá er það syndabyrðin. Gunnar boðar það að sektarkennd fái menn aflétt með kristilegri aðferð og engu öðru. Hvað gerðu menn fyrir daga kristninnar til að létta af sér oki sektarinnar ef kristileg ástundun er hið eina rétta í þessum efnum. Svona tal er áróður af lélegustu sort, en því miður falla margir fyrir malandanum í mönnum á borð við Gunnar.
Og takið eftir hvernig hann afgreiðir homma- og lesbíuumræðuna, þegar ég þjarma að honum með meinta syndabyrði þessa hóps. Hann reynir að koma því yfir á mig að ég sé að stimpla þennan hóp fólks sem verri en aðra þegar ég er einmitt að gagnrýna hann sjálfan fyrir slík viðhorf. Ótrúlegt að verða vitni af svona klækjum.
Guð alltaf blankur
Í lokin ræðum við lítillega fjárplógsstarfsemi trúfélaga á borð við Krossinn, þar sem nytsamir sakleysingjar eru vélaðir til að láta endalaust fé af hendi rakna, bæði með tíundargreiðslum og beinu betli á samkomum. Gunnar svarar ekki þessu með tíundina, en lætur hafa eftir sér að þeir sem borgi meira fái meiri blessun. Fagurt eða hitt þó heldur.
Ég verð að taka ofan fyrir þér að nenna að rífast við þennan ofsatrúarmann.
Hann er alveg stór skemmdur kallinn og mjög hættulegur þjóðfélaginu! Minnir mest á talibanaofsatrúargaukana. Hverjum kemur annara samlíf eða kenndir við??? Og að endast við að veifa tæplega 2000 ára sögubók endalaust og nota hana í þennan endalausa áróður og segja að hún sé sú eina rétta, það er sjúkt... smásögubók sem sóldýrkunar keisari lét skrifa fyrir hina kristnu svo þeir gætu lært að lesa eins og aðrir. Góðar stundir.
Sæll Biggi minn. Ég bloggaði aðeins um samkynhneigð og kristni og fékk ýmsar athugasemdir. Hér er það:
http://peturty.blog.is/blog/peturty/entry/194370/
Ég gat ekki hætt og bloggaði líka um "blinda trú" og Abraham og fékk þar athugasemdir. Hér er það:
http://peturty.blog.is/blog/peturty/entry/194372/
Bara svona vekja athygli á viðleitni til að gera guðlausa umræðu gjaldgenga.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 30/04/07 10:32 #
Góður Biggi. Hvort á maður að hlæja eða fyllast reiði? Þótt það sé auðvitað bráðfyndið að svona menn eins og Gunnar gangi lausir og séu yfirleitt til í dag að þá fyllist ég ósjálfrátt reiði. Þessi kall og aðrir hans líkar eru að draga með sér í myrkrið "nytsama sakleysingja" oft fólk sem getur illa varist slíkum ranghugmyndum. Illska sem framreidd er í nafni kærleika. Verður það verra?