Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Djöfulssynir, Guðssynir og Hróbjartssynir

Ellefta mars sl. flutti Jón Dalbú Hróbartsson prédikun í Hallgrímskirkju sem hann kallar “Þegar Jesús verður reiður" Þar vitnar hann í Frelsara sinn sem sagði við menn, sem voguðu sér að efast um ágæti hans: “Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.” Hvernig rímar þetta við að öll séum við börn guðs? (erfið spurning)

Þetta er ekki eina frásögnin af reiði meistarans. Tína má til önnur ummæli höfð eftir þessu guðslambi, t.d. “Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?” Jón Dalbú klökknar yfir þessum munnsöfnuði og telur hann merki um mennsku Jesú og segir: “Hann var sannur maður um leið og hann var sannarlega Guðssonurinn.”

Voru þeir sem vildu rökræða við hann þá ekki menn? Þeir voru jú Djöfulssynir. Ef ég skil guðfræðinga rétt (ekki áhlaupaverk) var/er Jesús guðleg vera – en (var) um leið mennskur maður. Að því leyti var hann því gjörólíkur mennskum mönnum (Djöfulssonum), og því fjarri sannur maður. Ég játa að þrenninguna skil ég alls ekki, en samkvæmt henni er guðdómurinn “þríeinn”, faðir, sonur og heilagur andi, þrír en samt einn, einn en samt þrír. Hvernig geta menn haldið fram að einn (óaðskiljanlegur) hluti guðdómsins hafi verið sannur maður? (erfið spurning)

Jón Dalbú afsakar framkomu Jesú “vegna þess að hann er fulltrúi sannleikans, - hins góða fagra og fullkomna. Hann var kominn til að flytja fagnaðarerindið um kærleiksríkan Guð, sem elskar sköpun sína.” Hversu mikill er sá kærleikur þegar þessi Guð hefur ekki fyrir því að sýna fram á tilvist sína og horfir aðgerðalaus á þjáningar og hörmungar barna sinna (eða djöfulsins)? Og drekkti hann ekki sköpun sinni í syndaflóðinu, manni og mús? Er það elskan á sköpun hans? (erfiðar spurningar)

Reyndar víkur Jón Dalbú óviljandi að þessari augljósu illsku guðs og fullkomnu miskunnarleysi í beinu framhaldi af textanum hér að ofan, en tekst að snúa öllu á hvolf og telja hana merki um gæsku: “Regnboginn, þetta stórkostlega náttúrufyrirbrigði, sem sést oft á himninum og birtist við ákveðnar náttúrulegar aðstæður, er fyrir mörgu kristnu fólki eins og tákn, áminning um gæsku Guðs um brúna sem Guð hefur fyrir náð sína gert milli himins og jarðar, sáttmáli milli Guðs og manna, farvegur náðar Guðs sem gleggst kemur fram í Jesú Kristi sjálfum.” Eftir að Guð hafði drekkt öllum og öllu sem ekki hírðist á einhverri bátskænu, lofaði hann að gera það aldrei aftur. Og til marks um þessa óumræðanlegu gæsku og mildi höfum við regnbogann, sem einskonar stimpil Guðs í náttúrunni. Ótrúlega barnalegt og hlálegt í raun. Að (háskólamenntaður) maður skuli geta talað svona á 21. öld.

Annað hvort er Jón Dalbú blendinn í trúnni eða guðfræðimenntun hans og þekking á ritningunni er í molum. Í heiðnum sið var regnboginn (Bifröst) brú milli goða og manna, milli Ásgarðs og Miðgarðs, himins og jarðar. Ef fólk les slíkt úr þessu “tákni” er það heiðið, ekki kristið.

Þeir sem setja spurningamerki við guðdóminn fá annan dóm hjá Jóni Dalbú en bölsótandi meistarinn: “Andstæðingar kristninnar fara mikinn í nútímanum, hin andlega barátta er hörð og oft óvægin, það er enn reynt að grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi...” Hann leggur kristnina að jöfnu við sannleika og gæsku. Þeir sem aðhyllast ekki boðskapinn eru fulltrúar lyginnar og illskunnar og sitja ekki auðum höndum, nei, þeir “grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar”. Eflaust telur Jón Dalbú sig og aðra presta fulltrúa sannleikans og gæskunnar.

Áfram heldur hann: “Það er samt ekki undarlegt þótt við á stundum missum móðinn, þótt við efumst og missum trúna á hið góða, því að illskan er svo hávær, hún ruglar okkur í ríminu, hún spyr erfiðra spurninga.” Æ, æ, það er ljótt að spyrja erfiðra spurninga. Það er illska! Aum er sú skoðun eða trú sem ekki þolir spurningar og volar um að fulltrúar hennar séu grýttir ef þessum spurningum er haldið á lofti.

Prédikun Jóns Dalbús lýkur með gömlu tuggunni: “Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.” Það hvílir lítil dýrð yfir þessum fyrirbærum þegar nánar er skoðað. Svo var ekki, er ekki enn og verður aldrei.

Þessi prédikun er leirburður, bull og þvættingur. Illska og grimmd er sögð náð og mildi, heiðni er sögð kristni. Fáránlegar og barnalegar goðsögur eru sagðar sannleikur og orði menn efasemdir eru þeir sagðir grýta “fulltrúa sannleikans og gæskunnar”. Nei, þeir sem halda fram bulli og vitleysu eru ekki fulltrúar sannleikans. Þeir sem formæla öðrum, hóta angist og kvölum um alla eilífð og myrða afkvæmi sín eru ekki fulltrúar gæskunnar.

Verst er þó skinhelgin sem skín úr hverju orði. Skinhelgi er hræsni, sem hefur á sér yfirskin trúar og helgi. Ég fullyrði að þeir sem halda á lofti bulli og vitleysu eru fulltrúar lyginnar. Þeir sem sveipa sig kufli gæsku en valta svo yfir aðra, brjóta lög og mannéttindi, svívirða börn og sjúka, eru fulltrúar illskunnar. Í röðum kristinna manna er allt of mikið af slíkum fulltrúum (e.t.v. nær en Hróbjartsson heldur).

Reynir Harðarson 19.03.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Grímur - 20/03/07 12:35 #

Prestar hafa ekki vanist því að ræður þeirra séu rýndar svona. Þessi predikun stenst líka enga skoðun.

Gott að benda á hvernig þessir menn stilla dæminu upp, gjörsamlega gagnrýnislaust. Hugsa þessir menn svona grunnt eða tala þeir án þess að hugsa?

Síra Jón Dalbú er enginn nýgræðingur í starfi, hvorki meira né minna en prófastur. Maður hefði því ætlað að meira vit væri í orðum hans en kemur í ljós.


óðinsmær - 20/03/07 13:19 #

sumt þarna er ansi skrítið, sérstaklega þetta með að illskan spyrji erfiðra spurninga.... ég er eiginlega bara dáldið hneyksluð!


Trúlaus - 18/09/10 12:39 #

Já þessi prestur segir nokkuð.

Hann þarf nú reyndar ekki að leita langt til að finna þessa illsku. Í hans tilviki virðist hún tengd honum fjölsk böndum.

Stundum þurfa menn að líta sér nær.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/09/10 12:29 #

Nú er óhætt að segja það sem ýjað var að í þessari grein fyrir rúmum þremur árum.

Nafn fulltrúa illskunnar og lyginnar er feitletrað í neðstu málsgrein greinarinnar, Helgi Hróbjartsson. Helgi hefur nú játað á sig bæði kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi gagnvart unglingspiltum sem honum var treyst fyrir, og sem treystu honum.

Var of fast kveðið að orði í þessari grein?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.