Ef einhver íhugunarlítill sakleysingi segir við mig, að trúarbrögðin megi ekki gera að tæki ákveðins flokks eða stefnu, þá svara ég honum og segi: Öll trúarbrögð (eins og allar aðrar hugsjónir) eru og hafa ávallt verið málsvarar ákveðinna flokka og hreyfinga, bæði í trúarlegum og pólitískum skilningi. Katólskan er t.d. afturhaldstrúarklíka, studd af takmörkuðum flokki manna, sem stendur á öndverðum meiði við aðra íhaldstrúarklíku, er kennir sig við dauðlegan mann, sem Lúther hét. Og innan lúterskunnar úir og grúir af enn þá minni klíkum sem allar hafa fundið sannleikann og eru þó hver annarri fjandsamlegar. Kristindómurinn er og ekkert annað en stóreflis trúarklíka, sem berst um valdið yfir hugsunarhætti mannkynsins gegn öðrum voldugum trúarklíkum, svo sem Múhameðstrú, Buddatrú og Bramatrú. Og þær heyja aftur harðvítuga orrahríð sín á milli um sama valdið. Allar hugsjónir eru flokksmál, þar til vaninn hefur gert þær að allsherjarsannleik.
Þórbergur Þórðarson (Bréf til jafnaðarmanns, Ritgerðir I, Reykjavík 1960, bls 125 (Bréfið er skrifað 1928))
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Leifur - 15/05/07 11:41 #
Gaman að sjá ykkur vitna í Þórberg. Ég veit ekki hvort þið vitið að Þórbergur þyddi á sínum tíma tvær bækur um yoga. Önnur heitir Yoga og gildi þess fyrir Evrópu, að mig minnir og þar er farið í allar helstu yoga-stefnur og hin heitir Starfsrækt. Karma yoga. Sú bók er eftir Vivikananda en Þórbergur þýddi hana ásamt öðrum að mig minnir. Þórbergur var kannski á móti trúarbrögðum en ekki trú og þar á milli er heilmikill munur. Hvet ykkur til að lesa þessar bækur og jafnvel prófa eitthvað af því hvað í þeim stendur og fara svo að gagnrýna :)
Kveðja, Leifur