Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fjölmenning er ekki ástæðan fyrir trúfrelsi

Þegar kristinfræðikennslu í grunnskólum ber á góma eru margir sem nefna að nú, þegar Ísland sé að breytast í fjölmenningarlegt samfélag, sé nauðsynlegt að koma til móts við nýbúa með því að hliðra til kristinfræðikennslu svo hún verði sanngjarnari.

Þetta sjónarmið kann að vera réttmætt í sjálfu sér, en að minnsta kosti að tvennu leyti er það vitleysa. Varasöm vitleysa.

Í fyrsta lagi: Þegar talað er um að það þurfi að laga trúarbragðafræðslu að fjölmenningarsamfélagi er undirliggjandi að „við“ þurfum að hliðra til fyrir „þeim“ -- minnka áhersluna á „okkar trú“ af tillitssemi við „þau“. Eins og kristinfræðikennsla hafi verið með eðlilegasta móti áður en fór að bera á innflytjendum, og að þetta sé eitthvað jákvætt element í skólakerfinu sem þurfi að fórna vegna aðstæðna. Ég er tæpast einn um að sjá hvers lags hugsun þetta nærir.

Í öðru lagi: Með því að stilla dæminu upp eins og þetta sé gert af tillitssemi við innflytjendur er enn eina ferðina látið eins og Íslendingar séu, sem hópur, kristnir. Það er einfaldlega ekki rétt. Þótt við skilgreinum „Íslendinga“ svo þröngt að þeir þurfi að vera innfæddir 5 eða 15 ættliði aftur í tímann, þá stendur það eftir að sem hópur eru þeir ekki kristnir. Hins vegar eru sumir í þessum hópi kristnir. Sumir.

Ástæðan fyrir því að það ætti ekki að vera trúboð í skólum, og að öllum lífsskoðunum ætti að vera gert jafnhátt undir höfði þar og annars staðar er sú að það er einfaldlega ekki sjálfsagt að allir landsmenn séu kristnir. Það er ekki sjálfsagt og það hefur aldrei verið það. Þótt Þjóðkirkjan hafi setið um æsku þessa lands allan þennan tíma og einokað meira og minna lífsskoðanainnrætingu í landinu, þá er samt ekki nema í mesta lagi um helmingur þjóðarinnar kristinn!

Það er með engu móti sanngjarnt að eitt trúfélag eða ein lífsskoðun hafi þessa aðstöðu í skólum. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að börnum sé innrætt kristni vegna þess að hefðin segi það eða vegna þess að prestar trúi því að það hafi Ésús sagt þeim. Ærin er fyrirgreiðslan samt, þótt áróðrinum sé ekki hleypt inn á gafl í skólunum líka.

Opinber barnafræðsla um trúarbrögð ætti undir engum kringumstæðum að fela í sér innrætingu á trú. Trúarinnræting á ekki að vera í verkahring ríkisvaldsins. Ef fjölbreyttari samsetning þjóðarinnar er það sem þarf til þess að innræting á kristni hætti í grunnskólum, þá fagna ég því. En það er ástæða til að vara við því að það eigi að vera ástæðan, áður en afnámi kristinfræðikennslu verður bætt við lista yfir svokölluð „innflytjendavandamál“.

Vésteinn Valgarðsson 08.12.2006
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Sævar - 08/12/06 10:41 #

Mjög góðir punktar.


Árni Árnason - 08/12/06 10:48 #

Ég hef verið utan safnaða og ötull talsmaður aðskilnaðar ríkis og kirkju, og hlutleysis ríkisins í öllu er að trúmálum lítur frá þeim tíma að vart sást hér útlend hræða utan túristar.

Þetta á að vera algert prinsippmál, og þessi umræða um að við séum að hliðra til "okkar" meðhöndlun á trúarbrögðunum fyrir innflytjendur er alveg baneitruð.

Við þurfum að leggja alla áherslu á að við þurfum að breyta þessu fyrir okkur, okkar eigið réttlæti. Komi það innflytjendum til góða er það bara bónus, en ekki forsenda.


Ásta - 08/12/06 16:57 #

Eg er alveg sammála að við þurfum að fá kristinfræðikennslu út úr skólanum hvort sem hingað koma útlendingar eða ekki. Það er bara mjög erfitt að vera með litla krakka í skólakerfinu í dag. það koma upp vandamál vegna kristninnar í hverri viku. þess vegna nota ég öll vopn í baráttunni, líka útlendingana. E itt dæmi um hluti sem maður þarf að vera að bejast við kemur núna. Dóttir mín 8 ára fékk að fara með vinkonu sinni austur á Vík í Myrdal að heimsækja ömmu vinkonunnar. Þær ætluðu að vera frá fimmtudegi til laugardags. Eg vissi ekki til að vinkonan væri svo kristin og efnið hefur alldrei borið á góma. Þegar dóttir mín kemur heim á laugardagskvöldið, kemur hún með helling af drasli frá sunnudagaskólanum, sem amman hafði farið með stelpurnar í á laugardegi!! Ekki nóg með það, heldur átti dóttir mín að skrifa stíl fyrir mánudaginn um hvað hún hafi gert um helgina. Hún sest niður og skrifar." Eg fór í Vik og það var rosalega gaman í sunnudagaskólanum. við töluðum um jesu og fengum nammi og svo sungum við og föndruðum." Síðan var bara að takast á við kennaran og útskýra hvers vegna dóttir mín ætti að vera í auka íslenskutíma í stað þess að sækja kristinfræðitíma. Hvers vegna ætti skólinn svo að láta af áralangri hefð fyrir sálmasöng á skólagöngum í desember, þegar dóttir mín sem ekki þyldi sálmasöng, væri að syngja um jesu í frítíma sínum. þetta væri svo sem allt í lagi ef kennarinn væri ekki mjög kristinn og ég hafi þurft að rífast til að ná því sem ég hef þó náð fram.


óðinsmær - 12/12/06 20:31 #

þegar ég var í barnaskóla í sjávarþorpi úti á landi þá voru engir ó-hvítir í þorpinu, sem var ágætlega stórt, en við börnin voru engu að síður mjög forvitin um að læra allt um siði og menningu annarra þjóða, frekar en margt annað sem er verið að kenna manni, en þvímiður var þetta miklu minna en 1% námsefnissins. Kristinfræði var kannski 1%. Trúarbragðanám tengdist fjölmenningu ekki á nokkurn hátt heldur snýst þetta að því er ég tel um þann grundvallarrétt að maður sé uppfræddur um það sem er að gerast í framandi trúarbrögðum og heimsmenningum. Við þurfum ekki að kenna krökkum um kristni, það þaf að kenna þeim um Islam miklu frekar, það myndi hjálpa þeim við að skilja heiminn og það snýst ekkert um það að hér búi núna múslimar og alls ekki um það að þau fari að gerast múslimar útaf einhverju sem kennari segir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.