Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gagnáróður kirkjunnar

Því er oft haldið fram að málflutningur okkar á Vantrú sé einstaklega ómálefnalegur og að við séum bara ókurteisir dónar. Þó svo að það mætti einstaka sinnum orða hlutina á annan hátt og kannski stundum vísa í fleiri heimildir, þá er Vantrú ekki ritrýnt vísindatímarit og raunin er sú að hérna einbeitum við okkur einmitt að málefnunum, rökstyðjum skoðanirnar okkar og komum hreint fram fyrir skjöldu. En ef við skoðum helstu gagnrýnisraddir Vantrúar, þá sjáum við að Vantrú er klassa fyrir ofan.

Á trú.is birtist brot af þeim predikunum sem prestar og aðrir trúmenn flytja í kirkjum Þjóðkirkjunnar. Í sumum af þessum predikunum erum við í Vantrú gagnrýndir. Auðvitað eru þau ekki nægilega hreinskilin til þess að nefna Vantrú á nafn, en stundum er enginn vafi á því um hverja er verið að tala. Það sem mér finnst einkenna þessa gagnrýni er hversu afskaplega ómálefnaleg, órökstudd og innihaldslaus hún er, og stundum einfaldlega barnaleg

Það má í raun skipta þessum áróðri kirkjunnar gegn óvinum kirkju og kristni í fjóra flokka:

  1. Kristni er frábær: Allt í samfélaginu, allt frá mannréttindum, siðferðis til hreins lofts er kirkju og kristni að þakka, þó svo að kirkjan hafi verið á móti þessu í meira en þúsund ár, þá er þetta samt henni að þakka.
  2. Heimsendaspár: Vegna þess að allt gott er kristinni trú að þakka (sjá 1) þá mun allt fara til fjandans ef fólk hættir að trúa á Jesú (og vera meðlimir í kirkjunni).
  3. Illmennisrökin: Fyrst allt fer til fjandans ef fólk hættir að trúa (sjá 2), þá hljóta þeir sem eru á móti kirkjunni og kristni að vilja að allt fari til fjandans.
  4. Persónurökin: Þeir sem gagnrýna okkur eru barnalegir ofstækismenn og dónar.

Þessi atriði þurfa alls ekki alltaf að koma í sérhverri predikun, en þau eru ansi algeng.

Tökum sem dæmi predikun, "Guðlast", sem þjóðkirkjupresturinn Sigurður Árni Þórðarson flutti þarsíðasta sunnudag. Þessi predikun er að vísu skárri en síðasta predikun hans sem var tekin til umfjöllunar hérna á Vantrú þar sem hann kallaði okkur hrokafulla, ofbeldishneigða og vitlausa bókstafstrúmenn (atriði 4):

Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið upp þrautalaust. Réttindin hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristin kenning leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.

Þetta passar í fyrsta flokkinn.

Kirkjan virðist hafa misskilið “elskustefnu kristninnar” í meira en þúsund ár því þeir mannréttindabálkar sem Sigurður Árni virðist vilja tileinka kristinni trú voru fótumtroðnir af kirkjunni í meira en þúsund ár og það var ekki fyrr en eftir að völd kirkjunnar fóru að minnka að alvöru skoðanafrelsi komst á.

Í kafla sem Sigurður kallar “Bullið og lágkúran” segist Sigurður hafa skoðað veraldarvefinn og tekið eftir því “hversu margir landsmenn okkar tala niðrandi um Guð, hnjóða í trúarlegt atferli, lasta trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smána trúarefni með ýmsum hætti.” Hann veltir því síðan fyrir sér hvað veldur:

Mér hefur orðið nokkurt umhugsunarefni hvað valdi að svo margir láti vaða á súðum, sendi frá sér efni sem getur meitt og sært trúmenn með ýmsum hætti. Smekkleysan flæðir um æðar netsins. Er þetta bara sóðakjaftur illa gefinna unglinga? Niðurstaða mín er, að megnið af skætingi í garð trúar og trúarefna eigi sér rætur í slæmum smekk og lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman.

Margir hafa gert sér leik að klæmast með hið trúarlega. Life of Brian er ein útgáfa og myndaröðin um Pú og Pa önnur. Líklega kemur talsvert af þeim aur, sem skvett er yfir trúarlendurnar, úr vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð einhverra, sem voru vond ásjóna uppeldisaðila, valds eða trúarstofnunar. Það sem sýnist vera guðlast er kannski stundum birtingarmynd eða tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku?

Þetta passar líklega í fjórða flokkinn.

Raunar veit maður ekki alveg hvar maður á að flokka svona málflutning. Ef til vill er ástæða harðorðar gagnrýninnar sú að það sé eitthvað til í henni, ekki að maður fékk ekki að halda á kertinu í barnastarfi kirkjunnar. Ef trúmenn geta ekki þolað hárbeittu og stórskemmtilegu gagnrýnina í Life of Brian, en “mei[ast] og sær[ast] ... með ýmsum hætti”, þá held ég að vandamálið sé ekki að finna í barnæsku Monty Python-manna.

Nietzsche skrifaði á sínum tíma: „Gott ist tot, Gott ist tot. Wir haben ihn getötet.“ Og Dostojevskíj minnti á að: “Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.” Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur. Kannski er aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingsins. ... Mér sýnist, að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks.

Þetta passar fullkomlega í fyrsta flokkinn.

Sigurður Árni útskýrir ekki hvers vegna siðgreind fólks og munur góðs og ills hverfi á nokkrum kynslóðum ef það losar sig við guð. Ástæðan er líklega sú sama hjá honum og hjá félögum hans, sem þreytast ekki við að halda því fram að siðleysi sé afleiðing trúleysis: þeir geta ekki rökstutt þetta.

Raunin er sú að það er afar erfitt að byggja siðferði á guðstrú. Raunin er sú að alveg eins og börn þurfa ekki á jólasveininum að halda til þess að vera góð, að þá þarf fullorðið fólk ekki á guði að halda til þess að vera gott.

Þegar upp er staðið var ekki neitt af viti þarna. Hvers vegna koma prestarnir ekki með almennilegan málflutning, eitthvað innihaldsríkt? Þeir gætu til dæmis reynt að koma með rök fyrir tilvist guðs, upprisu Jesú eða hvers vegna það sé svona mikilvægt að trúa. En nánast allt sem kemur frá þeim passar í flokkana sem ég taldi upp.

Eins og sannur vísindamaður mun ég prófa þessa flokkaskiptingu mína á áróðri kirkjunnar á fleiri predikunum þar sem trúleysi eða Vantrú er gagnrýnt. Af nógu er að taka.

Hjalti Rúnar Ómarsson 05.11.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/06 23:46 #

Þetta er súperfín greining. Undarlegt að enginn atvinnutrúmaðurinn hafi kommenterað á þetta til að benda á það að hvaða leyti þessi gagrnýni/greinin er röng/ómálefnaleg/skítkast.

Ætli þeir séu sammála henni og taki sneiðina til sín?


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/06 05:26 #

Ég var einmitt að hugsa það sama.


Skúli - 07/11/06 10:16 #

Það er ótrúlegt að þessi greining skuli fá svona góðar viðtökur.

Kristni er frábær: Allt í samfélaginu, allt frá mannréttindum, siðferðis til hreins lofts er kirkju og kristni að þakka, þó svo að kirkjan hafi verið á móti þessu í meira en þúsund ár, þá er þetta samt henni að þakka.
Það er eins og fimm ára barn hafi skrifað þetta. Þegar menn tína til jákvæða og uppbyggilega þætti sem leiða af trúarbrögðum halda þeir því ekki fram að "allt gott" sé kristni að þakka.

Þegar neikvæðir þættir í samtímanum eru dregnir fram er það gjarnan gert til þess að benda á það á hvaða sviðum starfsemi kirkjunnar getur komið að gagni. Einnig til að sýna hve takmörkuð gagnrýni sú er með hliðsjón af hinum raunverulegu vandamálum sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir.

Persónurökin: Þeir sem gagnrýna okkur eru barnalegir ofstækismenn og dónar.
Úbbs! :>)


Árni Þór - 07/11/06 10:57 #

Það er eins og fimm ára barn hafi skrifað þetta. Þegar menn tína til jákvæða og uppbyggilega þætti sem leiða af trúarbrögðum halda þeir því ekki fram að "allt gott" sé kristni að þakka.

Þegar menn tína til neikvæða þætti sem leiða af trúarbrögðum halda þeir því ekki fram að "allt slæmt" sé kristni að kenna.

Stóðst bara ekki mátið í ljósi athugsemda Davíðs Þórs og nú síðast Karls biskups í messu í Dómkirkjunni. Ætli þeir séu fimm ára? :)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/06 21:22 #

Þegar menn tína til jákvæða og uppbyggilega þætti sem leiða af trúarbrögðum halda þeir því ekki fram að "allt gott" sé kristni að þakka.

Skúli, þú mátt ekki skilja þetta svona bókstaflega. Þetta er augljóst (og lélegt) stílbragð hjá mér að ýkja svona. Raunin er samt sú að í "svörum" kirkjunnar manna er þetta (að fullyrða að svo margt frábært í samfélaginu sé kristni að þakka) einungis liður í því að svara okkur. Liður 1 verður ekki skilinn án þess að gera sér einnig grein fyrir 2 og 3.

Þegar neikvæðir þættir í samtímanum eru dregnir fram er það gjarnan gert til þess að benda á það á hvaða sviðum starfsemi kirkjunnar getur komið að gagni. Einnig til að sýna hve takmörkuð gagnrýni sú er með hliðsjón af hinum raunverulegu vandamálum sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir.

Hvernig tengist þetta efni greinarinnar? Og hvaða gagnrýni ertu að tala um þarna?


Skúli - 08/11/06 08:50 #

Já, var þetta stílbragð? Gott og vel - sumir talsmenn kirkju og kristni segja að margt gott hafi leitt af kirkjunni. Það er nú minni stíll yfir þessari staðhæfingu - en þetta er líklega það sem þú meinar!

Ég vísa þarna í predikun á trú.is sem hefur verið rædd í 24 liðum í aths.kerfinu þar. Í þessari gagnrýni ber ég saman alvarleg vandamál ungmenna nútímans við það fjaðrafok sem hefur myndast í kringum vinaleiðina.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/06 09:32 #

Í þessari gagnrýni ber ég saman alvarleg vandamál ungmenna nútímans við það fjaðrafok sem hefur myndast í kringum vinaleiðina. [feitletrun MÁ]

Túlka ég það rétt að Skúla þyki sú gagnrýni sem komið hefur á vinaleið ómarkverð?

Mitt mat er að samanburður Skúla á vandamálum ungmenna og vinaleið sé marklaus enda tengist þau ekki á nokkurn hátt. Ég gæti eins sagt: "gosneysla ungmenna hefur aukist, því er vinaleið neikvæð"


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/11/06 12:06 #

Já, var þetta stílbragð? Gott og vel - sumir talsmenn kirkju og kristni segja að margt gott hafi leitt af kirkjunni. Það er nú minni stíll yfir þessari staðhæfingu - en þetta er líklega það sem þú meinar!

Já, þeir halda því síðan fram að þessi hlutir muni hverfa ef kirkja og kristni missa völd. Síðan eru þessir hlutir oftar en ekki langt frá því að vera kirkjunni að þakka.

Ég vísa þarna í predikun á trú.is sem hefur verið rædd í 24 liðum í aths.kerfinu þar. Í þessari gagnrýni ber ég saman alvarleg vandamál ungmenna nútímans við það fjaðrafok sem hefur myndast í kringum vinaleiðina.

Og hvernig tengist þessi samanburður á alvarleg vandamál ungmenna nútímans við það fjaðrafok sem myndast hefur í kringum Vinaleið greininni?


Skúli - 08/11/06 21:34 #

Þið hafið báðir lesið predikunina þar sem ég fjalla um vinaleiðina. Þar útlista ég hugmyndir mínar á þessu sviði:

Já, skelfilegt væri það nú ef vinaleiðin í grunnskólunum miðlaði nú nýjum viðhorfum til barnanna. Hvernig fer nú fyrir okkur ef kæmi þaðan eitthvað mótvægi við allan hafsjóinn af skilaboðum sem börnin okkar fá og skilar sér vafalítið í hegðun þeirra og lífsmynstri. Hvað ef einhver segði að annað skipti máli en útlitið, að aðrar fyrirmyndir væru inni í myndinni en þær sem birtast í slúðurfréttunum? Hvað ef einhver segði í fullum trúnaði að unglingurinn sé dýrmætur í sjálfum sér og mikilvægur fyrir það sem hann er.
Tolle lege! ;)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/06 21:42 #

Skúli játar semsagt að þetta sé trúboð og fagnar því. Gott að vita hvar maður hefur sóknarprestinn í Keflavík.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 09/11/06 08:25 #

Æ fleiri koma út úr skápnum með þessa skoðun og er það vel.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/06 14:19 #

Þið hafið báðir lesið predikunina þar sem ég fjalla um vinaleiðina. Þar útlista ég hugmyndir mínar á þessu sviði:

Skúli, hvernig tengjast hugmymdir þínar um Vinaleið efni greinarinnar?

Ertu kannski að koma með dæmi um þær aðferðir sem ég bendi á í greininni? Að við séum á móti því að börnin fái "aðrar fyrirmyndir" en þær "sem birtast í slúðurfréttunum" af því að við erum á móti trúboði í skólanum?

Ekki saka mig um að snúa út úr orðunum þínum ef þetta er ekki punkturinn sem þú ert að koma á framfæri, því ég hef tvisvar beðið þig um að útskýra hvernig þessi innlegg þín tengjast efni greinarinnar.


Skúli - 09/11/06 18:18 #

Ja lengi má ræða þessa grein þína Hjalti. Þú flokkar gagnrýni presta á tíðarandann í "heimsendaspár" og "illmennisrök". Ég bendi hins vegar á það í téðri ræðu hversu gagnleg vinaleiðin getur verið til mótvægis við allan áróðurinn sem dynur á börnunum og hefur, oft, skelfilegar afleiðingar.

Ég geri ekki ráð fyrir því að fólki (þ.m.t. þið!) kjósi börnunum sínum þær fyrirmyndir sem þau kynnast í slúðurfréttunum. Því vil ég opna augu fólks (og e.t.v. einhverra þeirra sem fylla ykkar flokk) fyrir gagnsemi þessa starfs.

Eriddanóuljóst? :)

ES. var ég einhver tímann "í skápnum"?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/06 18:49 #

Þú flokkar gagnrýni presta á tíðarandann í "heimsendaspár" og "illmennisrök".

Nei, ég flokka gagnrýni presta á þá sem gagnrýna kirkju og kristni í fjóra flokka. Hvergi hef ég minnst á tíðarandann.

Ég bendi hins vegar á það í téðri ræðu hversu gagnleg vinaleiðin getur verið til mótvægis við allan áróðurinn sem dynur á börnunum og hefur, oft, skelfilegar afleiðingar.

Og hvernig tengist það greininni að þú teljir Vinaleiðina vera gott mótvægi við "allan áróðurinn" og hans skelfilegu afleiðingar?

Ég geri ekki ráð fyrir því að fólki (þ.m.t. þið!) kjósi börnunum sínum þær fyrirmyndir sem þau kynnast í slúðurfréttunum. Því vil ég opna augu fólks (og e.t.v. einhverra þeirra sem fylla ykkar flokk) fyrir gagnsemi þessa starfs.

Skúli, frábært hjá þér að reyna að gera það í þessari grein þinni, en hvernig tengist það greininni sem er til umræðu hérna?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/06 18:49 #

Við skulum orða það þannig að Séra Skúli dulbjóst ansi vel sem frjálslyndur Þjóðkirkjuprestur þar til hann fékk brauð í Keflavík. Tilgangurinn helgar meðalið!


Skúli - 10/11/06 21:17 #

Nei, ég flokka gagnrýni presta á þá sem gagnrýna kirkju og kristni í fjóra flokka. Hvergi hef ég minnst á tíðarandann.
OK. en í téðri predikun ver ég umdeildar aðgerðir kirkjunnar sem hafa sætt mikilli gagnrýni og beiti þar allt öðrum brögðum en að ofan eru nefnd. Víst mætti finna margar aðrar hliðstæður.
Og hvernig tengist það greininni að þú teljir Vinaleiðina vera gott mótvægi við "allan áróðurinn" og hans skelfilegu afleiðingar?
:O Jú, þetta er annars konar mótvægi en þú telur upp í greininni!!! :O
Við skulum orða það þannig að Séra Skúli dulbjóst ansi vel sem frjálslyndur Þjóðkirkjuprestur þar til hann fékk brauð í Keflavík. Tilgangurinn helgar meðalið!
Ég verð nú einhvern tímann að bjóða þér upp á heitt súkkulaði, Matti. :>)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.