„Ekkert kemur heim og saman í líffræði nema í ljósi þróunar.“ Theodosius Dobzhansky (1973)
„Við vitum ekki hvernig Skaparinn fór að né hvaða aðferðir Hann notaði við sköpunina því að Hann notar aðferðir sem eru núna ekki notaðar neins staðar í hinum náttúrulega alheimi. Þess vegna tölum við um sköpunina sem sérstaka sköpun. Við getum ekki notað vísindalegar rannsóknir til þess að uppgötva eitthvað um þær sköpunaraðferðir sem Skaparinn notaði.“ Duane Gish, Evolution? The Fossils Say No!
„...þróun alheimsins er ekki aðeins „samrýmanleg“ við guðstrúnna. Trúin á kærleiksríkan Guð... gerir ráð fyrir alheimi sem þróast.“ * John F. Haught
Sköpunarhyggja er trúarleg frumspekikenning sem gengur út frá því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað alheiminn. Sköpunarvísindi eru gervivísindi sem halda því fram að (a) sögurnar í Fyrstu Mósebók eru nákvæmar lýsingar á uppruna alheimsins og lífsins á jörðu, og (b) Fyrsta Mósebók er hvorki samrýmanleg við kenninguna um Miklahvell né þróunarkenninguna. Hugtakið “sköpunarvísindi” er í sjálfu sér mótsögn þar sem að vísindi snúast eingöngu um náttúrulegar útskýringar á empirískum fyrirbærum náttúrunnar en ekki yfirnáttúrulegar útskýringar á frumspekilegum fyrirbærum.
Sköpunarhyggja tengist ekki endilega ákveðnum trúarbrögðum. Milljónir manna, jafnt kristinna sem og annarar trúar, trúa því að skapari heimsins sé til og að vísindakenningar á borð við þróunarkenninguna stangist ekki á við trú þeirra á skaparann. Þrátt fyrir það hafa þeir kristnu menn sem kalla sig „sköpunarvísindamenn“ lagt undir sig hugtakið „sköpunarhyggja“ sem gerir það erfiðara um vik að fjalla um sköpunarhyggju án þess að fólk haldi að einnig sé átt við sköpunarvísindi. Almennt er talið að sköpunarsinnar séu kristnir menn sem trúa bókstaflega á frásögn Fyrstu Mósebókar um sköpunarsöguna, til dæmis söguna um Adam og Evu, sköpun heimsins á sex dögum, dagur og nótt sem urðu til á fyrsta degi þó að guð hafi ekki gert sól og tungl fyrr en á fjórða degi, sköpun hvala og annarra lagardýra og fleygra fugla á fimmta degi, sköpun búfénaðs og skriðkvikinda á sjötta degi o.s.frv.
Sköpunarvísindamenn halda því fram að sköpunarsaga Biblíunnar sé orð Guðs og þess vegna óskeikul sannindi. Þeir halda því einnig fram að sköpunarsagan sé í mótsögn við kenninguna um Miklahvell og þróunarkenninguna. Þess vegna eru þær kenningar rangar og þeir vísindamenn sem halda sig við slíkar kenningar hafa engan skilning á sannleikanum um uppruna alheimsins og lífsins á jörðu. Einnig segja þeir að sköpunarhyggja sé vísindaleg og ætti því að kenna hana sem vísindi í skólum sem mótvægi við þróunarkenninguna.
Einn af helstu forsvarsmönnum sköpunarvísindanna er Duane T. Gish við stofnunina Institute for Creation Research, sem kemur boðskap sínum á framfæri með því að ráðast gegn þróun. Gish er höfundur bókanna Evolution, the Challenge of the Fossil Record, Evolution, the Fossils Say No! og Evolution, the Fossils Still Say No! Annar leiðtogi þessarar hreyfingar er Walt Brown við Center for Scientific Creation. Þrátt fyrir að 99,99% vísindasamfélagsins telji að þróun tegundanna frá öðrum tegundum sé staðreynd halda sköpunarsinnar því statt og stöðugt fram að þróun sé ekki staðreynd heldur einungis kenning og að sú kenning sé röng. Þeir vísindamenn sem eru ósammála um þróun lífsins, greinir á um hvernig tegundirnar hafi þróast, ekki hvort að þær hafi þróast.
Sköpunarsinnum stendur á sama þó að þeir séu í minnihluta. Þeir segja að þrátt fyrir allt hafi gjörvallt vísindasamfélagið áður haft rangt fyrir sér. Satt er það. Sem dæmi höfðu jarðfræðingar eitt sinn allir rangt fyrir sér varðandi uppruna meginlandanna. Þeir héldu að jörðin væri gegnheil. Nú er ganga þeir út frá því að jörðin sé samsett úr flekum. Flekakenningin hefur velt eldri kenningu úr sessi, sem nú er vitað að var röng. Hafa ber þó í huga að þegar gjörvallt vísindasamfélagið hafði áður fyrr rangt fyrir sér þá voru það aðrir vísindamenn sem sýndu fram á það, ekki gervivísindamenn. Þeir sem sýndu fram á rangindin gerðu það með rannsóknum, ekki þeir sem fyrst höfðu ákveðna trúarlega kennisetningu og sáu enga ástæðu til þess að framkvæma neinar rannsóknir til að sanna hana. Gölluðum vísindakenningum hefur verið skipt út fyrir betri kenningar, það er að segja kenningar sem útskýra fleiri fyrirbæri og auka skilning okkar á náttúrunni. Flekakenningin útskýrði ekki einungis hvernig heimsálfur geta færst til heldur jók hún einnig skilning okkar á því hvernig fjallgarðar myndast, hvernig jarðskjálftar verða, hvernig eldfjöll tengjast jarðskjálftum o.s.frv. Sköpunarhyggja býður ekki upp á valkost við kenninguna um náttúruvalið frekar en að kenningin um að storkarnir komi með börnin sé valkostur við kynæxlun (Hayes 1996). Kenningin hefur ekki leitt til raunverulegs skilnings á líffræðilegum fyrirbærum í náttúrunni og það þykir ólíklegt að hún muni nokkurn tíma leiða til slíks.
Kenning Darwins um hvernig þróun hefur átt sér stað er kölluð náttúruval. Þróunin sjálf er staðreynd þó að kenningin um náttúruvalið sé það ekki. Aðrir vísindamenn hafa ólíkar kenningar um það hvernig þróunin hefur átt sér stað en aðeins örfáir afneita því að þróun sé staðreynd. Í Uppruna Tegundanna birti Darwin mikið gagnasafn úr heimi náttúrunnar sem hann og aðrir höfðu safnað saman eða sett fram. Einungis eftir að hafa komið fram með gögnin sýndi hann fram á hvernig kenning hans útskýrði þau mun betur heldur en sköpunarkenningin. Á hinn bóginn gerir Gish ráð fyrir því að öll þau gögn sem liggja fyrir hendi verði að útskýra með sköpun, vegna þess að hann trúir því að Guð hafi sagt svo í Biblíunni. Það sem meira er heldur Gish því fram að það sé ómögulegt fyrir okkur að skilja sköpunina því að skaparinn „notar aðferðir sem eru núna ekki notaðar neins staðar í hinum náttúrulega alheimi“. Því hefur Gish, í stað þess að safna gögnum og sýna fram á hvernig sköpun útskýrir þau betur heldur en náttúruvalið, farið varnarleiðina. Aðferð hans er sú sama og margir sköpunarvísindamenn beita, að nota sérhvert tækifæri til að ráðast á þróunarkenninguna. Í stað þess að sýna fram á styrk sinnar kenningar þá reyna þeir að finna og sýna fram á veikleika á þróunarkenningunni. Gish og aðrir sköpunarsinnar hafa í raun engan áhuga á vísindalegum staðreyndum eða kenningum. Þeir einbeita sér að því að verja trú sína gegn því sem þeir sjá sem árás á Orð Guðs.
Sem dæmi hafa sköpunarvísindamenn ruglað saman óvissu í vísindum saman við eitthvað sem er óvísindalegt. Umræðan meðal þróunarlíffræðinga um hvernig best sé að útskýra þróun er veikleikamerki í þeirra augum. Vísindamenn sjá á hinn bóginn óvissu sem óhjákvæmlegan fylgifisk vísindalegrar þekkingar. Þeim finnst umræður um grundvallaratriði kenninga vera heilbrigðar og örvandi. Þróunarlíffræðingurinn Stephen Jay Gould sagði eitt sinn að vísindi „eru skemmtilegust þegar þau leika sér með áhugaverðar hugmyndir, kanna áhrif þeirra og uppgötva að hægt sé að útskýra eldri gögn á óvænta nýja vegu.“ Því hefur öll umræðan um gangverk þróunarinnar ekki leitt til þess að líffræðingar hafi farið að efast um að þróun hafi átt sér stað. „Við erum að rökræða um hvernig hún gerðist,“ segir Gould (1983, 256).
Sköpunarvísindi eru ekki vísindi heldur gervivísindi. Þau eru trúarleg kennisetning dulbúin sem vísindakenning. Sköpunarvísindi eru sett fram á þann hátt að þau séu algjörlega óskeikul og óhagganleg. Þau gera ráð fyrir því að heimurinn verði að aðlaga sig skilningi þeirra á Biblíunni. Það greinir sköpunarvísindi frá sköpunarhyggju almennt séð að eftir að þau hafa túlkað orð Biblíunnar á ákveðinn hátt getur ekkert breytt þeirri túlkun. Allt sem bendir til annars er ómarktækt.
Berum þetta viðhorf saman við viðhorf þeirra sem fóru fremstir í flokki evrópskra sköpunarsinna á 17. öld og þurftu á endanum að viðurkenna að jörðin er ekki miðja alheimsins og að sólin gengur ekki umhverfis plánetuna okkar. Þeir þurftu ekki að viðurkenna að Biblían væri röng, heldur þurftu þeir að viðurkenna að túlkun mannanna á Biblíunni væri ekki rétt. Sköpunarsinnar á okkar tímum virðast ófærir um að viðurkenna það að túlkun þeirra á Biblíunni gæti verið röng.
Sköpunarvísindamenn eru ekki vísindamenn vegna þess að þeir gera ráð fyrir því að túlkun þeirra á Biblíunni geti ekki verið röng. Þeir setja fram skoðanir sínar sem þær væru algjörlega óhrekjanlegar. Og þegar að einhverjar vísbendingar ganga gegn skilningi þeirra á Biblíunni þá gera þeir einfaldlega ráð fyrir því að þær vísbendingar séu ekki réttar. Einu vísindalegu athuganirnar sem þeir framkvæma miðast að því að sanna það að einhverjar ákveðnar fullyrðingar í sambandi við þróun séu rangar. Sköpunarvísindamenn þurfa ekki að sannreyna kenningu sína því guð hefur fært þeim hana. Óskeikul vissa er ekki einkenni vísinda. Vísindakenningar eru skeikular. Fullyrðingar um óskeikulleika og algjöra fullvissu eru ekki einkenni vísinda heldur gervivísinda.
Eitt af því sem sýnir hvað best áhugaleysi sköpunarsinna á vísindum er hvernig þeir samþykkja fúslega og án nokkurrar gagnrýni hinar fáránlegustu staðhæfingar, ef þær staðhæfingar virðast ekki stemma við ríkjandi sjónarmið innan vísindanna um þróun. Til dæmis má nefna að sérhver vísbending þess efnis sem styður við bakið á þeirri hugmynd að risaeðlur og menn hafi verið uppi á sama tíma, er tekið fegins hendi af sköpunarsinnum. Hvernig sköpunarsinnar hafa farið með annað lögmál varmafræðinnar sýnir annað hvort fram á algjöra vanþekkingu á vísindum eða viljandi óheiðarleika. Þeir halda því fram að þróun lífsins brjóti í bága við annað lögmál varmafræðinnar sem „segir að á skala stærri fyrirbæra þar sem fjölmargir ferlar eigi sér stað geti entrópía lokaðs kerfis ekki minnkað“ (Stenger).
Hugsum okkur einfaldlega svarta fötu fulla af vatni sem er við sama hitastig og umhverfið. Ef fötunni er komið fyrir í sterku sólarljósi, mun hún draga í sig hita frá sólinni eins og dökkir hlutir gera jafnan. Þá hitnar vatnið og hitastig þess verður hærra en umhverfisins, og framboð á nýtanlegri orku hefur aukist. Hefur entrópían minnkað? Hefur orkan sem var áður ekki nýtanleg orðið nýtanleg í lokuðu kerfi? Nei, í þessu dæmi hefur annað lögmálið í raun og veru ekki verið brotið. Vegna þess að sólarljósi var bætt við kerfið þá var það ekki lokað, orka sólarljóssins kom að utan. Ef við lítum til kerfisins í heild sinni, ásamt sólinni, hefur entrópían aukist eins og gert er ráð fyrir (Klyce).
Sköpunarsinnar virðast halda að þróun tegundanna sé sambærileg við vatnsfötuna í dæminu hér að ofan og halda því ranglega fram að hún eigi sér stað í lokuðu kerfi. Ef við skoðum kerfi náttúrunnar í heild sinni þá bendir ekkert til þess að þróun brjóti í bága við annað lögmál varmafræðinnar.
Að endingu, þó að hugmyndir Karl Poppers, um að hrekjanleikinn greini vísindakenningar frá frumspekikenningum, hafi átt undir högg að sækja frá vísindaheimspekingum (Kitcher) þá verður því ekki neitað að það er eitthvað sem greinir að í grundvallaratriðum á milli kenninga eins og sköpunarhyggju og náttúruvals. Því verður heldur ekki neitað að einn helsti munurinn er sá að frumspekileg kenning er í samræmi við allar hugsanlegar niðurstöður í reynsluheiminum, meðan að vísindakenning er það ekki. „Ég get hugsað mér athuganir og tilraunir sem gætu afsannað allar þær þróunarkenningar sem ég þekki,“ skrifar Gould, „en ég get ekki ímyndað mér hvaða hugsanlegu gögn gætu fengið sköpunarsinna til að breyta skoðunum sínum. Óbreytanleg hugmyndakerfi eru kennisetningar, ekki vísindi“ (Gould, 1983).
Það er ekki hægt að afsanna sköpunarhyggju, ekki einu sinni að orðinu til, vegna þess að allt er samrýmanlegt við hana, jafnvel það sem virðist vera í mótsögn við hana eða andstætt henni. Vísindakenningar gefa svigrúm til þess að hægt sé að gera ákveðnar forspár út frá þeim svo að hægt sé að afsanna þær. Kenningar á borð við kenninguna um Miklahvell, sístöðukenninguna og kenningin um náttúruvalið geta verið sannreyndar með tilraunum og athugunum. Frumspekikenningar eins og sköpunarhyggja eru „skotheldar“ ef þær eru samkvæmar sjálfri sér, þ.e. ef þær innihalda engar innri þversagnir. Vísindakenningar geta aldrei verið skotheldar.
Það sem gerir sköpunarvísindi að gervivísindum er það að þau þykjast vera vísindi jafnvel þrátt fyrir að þau hafi ekki þau sérkenni sem nauðsynleg eru við kenningasmíðar í vísindum. Sköpunarvísindi og kenningar þeirra munu standa óbreytt um aldur og ævi. Þau munu ekki hvetja til umræðna meðal vísindamanna um grundvallareðli alheimsins. Þau leiða ekki af sér neinar forspár sem hægt væri að nota til að sannreyna kenninguna. Þau eiga að vera óhrekjanleg. Og þau gefa sér það fyrirfram að aldrei verði nokkurn tímann hægt að afsanna þau.
Trúarleg sköpunarhyggja gæti þrátt fyrir allt verið vísindaleg. Til dæmis ef einhver kenning segir að heimurinn hafi verið skapaður 4004 f.Kr. en allt bendir til þess að jörðin sé nokkurra milljarða ára gömul, þá er sú kenning vísindaleg ef það er þar með samþykkt að kenningin hafi verið afsönnuð. En ef fundin er eftiráskýring sem segir að Guð skapaði heiminn árið 4004 f.Kr. með steingervingum og öllu sem lætur jörðina líta út fyrir að vera mun eldri en hún raunverulega er (kannski til að reyna trú okkar, eða til að framfylgja einhvers konar dularfullri guðdómlegri áætlun), þá er sú trúarkenning frumspekileg. Ekkert gæti afsannað hana, hún er skotheld. Philip Henry Gosse hélt einmitt þessu fram á tímum Darwins í bók sem hét Creation (Omphalos): An Attempt to Untie the Geological Knot og var gefin út 1857.
Ef aldur steingervinga er dreginn í efa, eða þær aðferðir sem notaðar eru við aldursgreiningar á þeim, en þeir eru samt taldir vera mikilvægir fyrir sannleiksgildi trúarkenningarinnar og eru sagðir vera fyrirfram í samræmi við kenninguna, þá er kenningin frumspekilegs eðlis. Vísindakenningar geta ekki ákveðið fyrirfram hvaða niðurstöður verði að fást. Ef trúaður vísindamaður neitar því að jörðin sé nokkurra milljarða ára gömul á grundvelli niðurstaðna sinna eigin „vísindalegu“ rannsókna sem sanna það að jörðin sé mjög ung, þá hvílir sönnunarbyrðin á þeim vísindamanni sem verður að sýna fram á að hefðbundnar aðferðir í vísindum og tæknin sem notuð er til aldursgreiningar á steingervingum, o.s.frv. séu rangar. Annars gæti enginn með viti tekið slíka órökstudda fullyrðingu trúanlega sem krefst þess af okkur að við verðum að trúa því að allt vísindasamfélagið hafi rangt fyrir sér. Gish hefur reynt þetta. Sú staðreynd að hann hefur ekki haft nein áhrif á hugsunarhátt, þótt ekki væri nema örfárra innan vísindasamfélagsins, bendir sterklega til þess að lítið búi að baki rökstuðningi hans. Þetta er ekki sagt vegna þess að meirihlutinn hljóti alltaf að hafa rétt fyrir sér. Gjörvallt vísindasamfélagið gæti verið á villigötum. En ef andstaðan kemur frá mönnum sem fylgja trúarlegum kennisetningum og framkvæma ekki vísindalegar rannsóknir heldur eru í einhvers konar guðfræðilegri varnarbaráttu, þá virðist það vera líklegra að sköpunarsinnarnir séu á villigötum frekar en þróunarlíffræðingarnir.
Það eru margir sem trúa á heimsmynd trúarbragðanna, líkt og sagt er frá í Fyrstu Mósebók, sem halda því ekki fram að skoðanir þeirra séu á nokkurn hátt vísindalegar. Þeir trúa því ekki að lesa eigi Biblíuna sem vísindarit. Í þeirra augum boðar Biblían kenningar sem eru leiðbeinandi fyrir andlegt líferni þeirra. Hún inniheldur andlegan boðskap um eðli Guðs og samband Guðs við mannfólkið og alheiminn. Þetta fólk heldur því ekki fram að taka eigi orð Biblíunnar bókstaflega þegar rætt er um viðfangsefni vísindanna. Lesa eigi Biblíuna vegna þess andlega boðskapar sem hún inniheldur, ekki sem kennslurit í líffræði, eðlisfræði eða efnafræði. Þetta var áður fyrr algengt viðhorf hjá trúuðum kennimönnum. Myndrænar túlkanir á orðum Biblíunnar eru gamalt fyrirbrigði, ná að minnsta kosti aftur til Fílons frá Alexandríu (f. 25 f.Kr.). Heimspekileg gagnrýni á fáránleika ýmissa viðtekinna hugmynda um guðina voru settar fram í fornöld af heimspekingum á borð við Epikúros (342-270 f.Kr.). Sköpunarsinnar hafa þó engan smekk fyrir myndrænum túlkunum.
Boðberar sköpunarvísinda hafa barist fyrir því að fá sína útgáfu af sköpunarsögu Biblíunnar kennda sem vísindi í opinberum skólum í Bandaríkjunum. Þeir fengu sínu framgengt í Arkansas fylki þar sem sett voru lög sem skylduðu opinbera skóla til að kenna sköpunarhyggju. Þetta virðist vera nokkuð mikið afrek en hafa verður í huga að fram til ársins 1968 var ólöglegt að kenna þróunarkenninguna í Arkansas! Árið 1981 voru þessi lög samt sem áður felld úr gildi fyrir að brjóta í bága við bandarísku stjórnarskránna af alríkisdómara sem lýsti því yfir að sköpunarhyggja væri trúarlegs eðlis. Svipuð lög voru felld úr gildi í Louisiana af Hæstarétti Bandaríkjanna árið 1987.* Árið 1994 samþykktu skólayfirvöld í Tangipahoa sýslu lög sem skylduðu kennara til að lesa upp tilkynningu áður þeir kenndu um þróun. Var þetta gert undir því yfirskini að breiða átti út „gagnrýna hugsun“. Þessum óheiðarlegu lögum var hent út af áfrýjunardómstóli árið 1999. John Peloza sem kennir líffræði undir formerkjum sköpunar reyndi aðrar aðferðir árið 1994. Hann höfðaði mál gegn sínum eigin skólayfirvöldum fyrir að neyða hann til að kenna „trúarbrögð þróunarsinna“. Hann tapaði og áfrýjunardómstóll þar ytra úrskurðaði að engin slík trúarbrögð væru til. Árið 1990 úrskurðaði annar áfrýjunardómstóll að skólayfirvöldum er heimilt að banna kennslu á sköpunarhyggju þar sem að hún felur í sér trúarlegan áróður. Fjölmargir trúarleiðtogar styðja þessa úrskurði. Þeir sjá sem er að með því að leyfa skólayfirvöldum að kenna sköpunarhyggju þá er þar með verið að hygla trúarskoðunum eins hóps á kostnað annarra og tengist á engan hátt gagnrýninni hugsun eða sanngirni í því hvað kenna eigi í skólum.
Talsmenn sköpunarvísinda hafa ekki haft árangur sem erfiði við að gera þróun útlæga úr kennslustofum og fá sköpunarhyggju kennda samhliða þróun. Þrátt fyrir það hafa sköpunarsinnar, sem eru margir hverjir virkir í pólitík, ekki gefist upp heldur einungis breytt um aðferðafræði. Sköpunarsinnar hafa verið hvattir til að bjóða sig fram í nefndir í skólum til að reyna að ná stjórn á kennslu í þróunarfræðum. Skólanefndir geta ákveðið hvaða lesefni skólinn má nota og hvað ekki. Sköpunarsinnar sem kvarta við skólanefndir, yfir því að þróun sé kennd, eiga betri von um árangur ef að sköpunarsinnar eiga nokkur sæti í skólanefndinni.
Í Alabama fylki er sett viðvörun í líffræðikennslubækur sem segir að þróun sé „umdeild kenning sem sumir vísindamenn beri á borð sem vísindalega skýringu á uppruna lífvera...Enginn var viðstaddur þegar að lífið birtist fyrst á jörðinni. Því ætti að taka allar fullyrðingar um uppruna lífsins með þeim fyrirvara að um kenningu er að ræða, ekki staðreynd.“ Þannig að ef þú vaknar einn góðan veðurdag í Alabama og úti er allt þakið snjó og enginn sá snjókomuna þá máttu einungis setja fram kenningu um uppruna snjósins.
Í ágúst 1999 var kenningunum um þróun og Miklahvell hafnað, á þeim forsendum að þær töldust óvísindalegar, af fylkisnefnd um menntun í Kansas. Niðurstaða kosninga í þessari tíu manna nefnd, þar sem atkvæði féllu sex á móti fjórum, var sú að fjarlæga ætti þessar hugmyndir úr því kennsluefni sem notað er í vísindakennslu. Nefndin í Kansas bannaði ekki kennslu á þróun eða kenningunni um Miklahvell. Hún eyddi einfaldlega öllu því sem laut að þróun og Miklahvelli úr kennsluefni skólanna í vísindum og einnig úr öllum prófum sem lögð voru fyrir nemendur. Sköpunarsinnar á borð við Steve Abrams, sem átti sæti í nefndinni og er fyrrum formaður Repúblikanaflokksins í fylkinu, fagnaði ákvörðuninni og sagði hana vera sigur í baráttunni við þróunarsinnanna. Ný nefnd færði stöðu vísindakenninganna aftur í sitt fyrra horf í febrúar 2001. Sköpunarsinnar vilja að börnin trúi því að guð hafi skapað þau og allar aðrar tegundir sérstaklega í ákveðnum tilgangi. Þeir vilja ekki að börnin haldi að guðleg forsjón gæti verið á bakvið Miklahvell eða þróun tegundanna.
Á sama tíma og herskáir sköpunarsinnar reyna að ritskoða kennslubækur sem fjalla um þróun á eðlilegan hátt, kvarta þeir sjálfir yfir ritskoðun á skrifum sköpunarsinna.* Þessi hugsunarháttur að með illu skuli illt út reka hefur leitt til þess að sköpunarsinninn Jerry Bergmann heldur því fram að þróun (ólíkt sköpunarsögunni?) kenni það að konur séu lægra settar en karlar. Markmið herskárrar sköpunarhyggju er að grafa undan þróunarkenningunni hvenær sem því verður við komið, ekki að stuðla að bættri vísindaþekkingu (sjá Revolution Against Evolution). Ein eftirlætis aðferð þeirra er að skrifa allar syndir og glæpi á reikning slakrar Biblíufræðslu og kennslu á „guðlausum“ kenningum eins og þróunarkenningunni og kenningunni um Miklahvell. Marc Looy úr Answers in Genesis hópnum segir að ákvörðun nefndarinnar í Kansas 1999 hafi verið mikilvæg vegna þess að:
nemendum í opinberum skólum er kennt að þróun sé staðreynd, að þeir séu einungis afurðir lögmálsins um að sá hæfasti lifi af... Þetta skapar ákveðið tilgangsleysi og vonleysi, sem ég held að leiði af sér vanlíðan, morð og sjálfsvíg.
Þó að engar sannanir séu fyrir þessum fullyrðingum virðist það ekki skipta máli fyrir þá sem trúa á þær. Þegar að vísindin styðja ekki fullyrðingar þeirra þá ráðast þeir gegn vísindunum eins og þau væru verkfæri sjálfs Satans. Ég velti því fyrir mér hvað hr. Looy hefur að segja um Christian Identity (Buford Furrow Jr.) eða Erich Rudolph eða Operation Rescue (Randall Terry eða aðra kristilega hópa sem unna orði Biblíunnar og predika hatur og hvetja til ofbeldis og manndrápa. Hvað segir hann um Matthew og Tyler Williams sem, eins og móðir þeirra orðaði það “stútuðu tveimur hommum”, vegna þess að lögmál guðs [Þriðja Mósebók 20:13] fyrirskipar það? (Sacramento Bee, "Expert: Racists often use Bible to justify attacks," eftir Gary Delsohn og Sam Stanton, Sept. 23, 1999) Þessir morðingar hafa sjálfsagt fundið einhvern tilgang í tilverunni, en það eru engin augljós tengsl á milli þess að finna tilgang og minni vanlíðunar eða færri morða og sjálfsvíga. Ef fleira fólk hefði verið neytt til þess að lesa tilvitnanir úr Biblíunni, hengdar upp á veggjum skólastofa, eða í kennslubókunum, þá gæti allt eins verið að vanlíðanin væri ekki minni heldur meiri og morð og ofbeldisverk algengari.
Örvænting margra sköpunarsinna sést glögglega í því að þrátt fyrir fjölmargar leiðréttingar frá fræðimönnum, þá reyna þeir ennþá að fá almenning til að tengja þróunarkenninguna við félagslegan darwinisma. Þessi strámannasmíð er algeng og hér er eitt dæmi um hana í eftirfarandi bréfi til Sacramento Bee. Bréfið var svar við grein frá sérfræðingi sem hélt því fram að rasistar notfæri sér oft Biblíuna til að réttlæta hatursboðskap sinn.
Það er darwínísk þróun, en ekki heilög ritning, sem réttlætir rasisma... þróunin kennir að sá hæfasti lifi af, þar á meðal (eins og Hitler leit á málið) hæfasta „greinin“ af ættartré mannsins. Í þróun er ekkert rými fyrir alvöru jafnrétti. Þessi sami hugsunarháttur þróunarsinna sést í því hatri sem hópar rasista sýna gegn samkynhneigðum. Þeir líta á samkynhneigða sem vanþróaða og þess vegna óæðri. (10/3/99)
Sú skoðun að kenning Darwins um náttúruvalið feli í sér rasisma eða ójafnrétti er fullyrðing frá einhverjum sem skilur ekki kenninguna eða þeim sem veit hið sanna í málinu og heldur að lygar í nafni trúarinnar sé siðferðislega réttlætanleg lygi.
Sköpunarsinnar samþykkja að breytingar geta orðið innan tegunda með þróun (e. microevolution) en ekki að tegundir geti þróast í aðrar tegundir (e. macroevolution). Með þessu geta þeir útskýrt minni breytingar innan tegunda án þess að þeir þurfi að samþykkja hugtakið um náttúruvalið.
Að tegund geti þróast í aðrar tegundir er meðvituð tilraun til þess að útskýra uppruna lífsins frá mólikúlum til manna á forsendum hreinnar náttúruhyggju. Með því er verið að bjóða kristnum mönnum birginn því þarna er með ráðnum huga reynt að fjarlægja guð sem skapara lífsins. Sú hugmynd að maðurinn hafi orðið til vegna milljóna heppilegra tilviljanna sem breyttu slími í apa er móðgun við sérhvern hugsandi mann (Sharp).*
Það sem ætti að vera umhugsunarvert fyrir kristna sköpunarsinna og þeirra sem eru annarar trúar, er sú fullyrðing að ef einhver er ekki samþykkur þessari kristilegu túlkun á Biblíunni þá sé hann þar með að móðga guð. Margir sköpunarsinnar trúa því að guð sé á bakvið hið undursamlega gangverk þróunarinnar (Haught).* Það er engin þversögn fólgin í þeirri trú að það sem lítur út fyrir að vera vélrænn ferill án innri tilgangs frá sjónarhóli mannsins, gæti haft einhvern tilgang og verið undir guðlegri stjórn. Náttúruvalið krefst þess ekki að menn „fjarlægi guð sem skapara lífsins“ ekkert frekar en að sólmiðjukenningar krefjast þess að guð sé tekinn út úr myndinni sem skapari himnanna.
Skeptic's Dictionary: creationism and creation science
Helstu heimildir
Haught, John F. God After Darwin : A Theology of Evolution (Westview Press, 1999).
Kitcher, Phillip. Abusing Science: the Case Against Creationism (MIT Press, 1983).
Klyce, B. The Second Law of Thermodynamics.
Stenger, V. The Emperor's New Designer Clothes.
(Finna má frekari heimildir og ítarefni við upprunalegu færsluna á Skepdic.com.)
Þessi "athyglisverða hugmynd sköpunarsinna" má orða á eftirfarandi hátt: "guð gerði þetta". Það er ekkert athyglisvert við þá hugmynd að mínu mati og frá sjónarhóli vísindanna er hún gagnslaus.
Finnur, þú skilur ekki þróunarkenninguna ef þú heldur að guð komi þar nærri. Svo einfalt er það.
Þið eruð semsagt sannfærðir um að þróunarkenningin komi til með að svara öllum þeim spurningum sem við höfum um tilveru okkar. Eða jafnvel hafi öll þau svör þegar til reiðu?
Allar efasemdir teljast skortur á þekkingu eða trúarofstæki.
Finnur. Ertu viljandi að snúa út úr (enn og aftur) ?
Allar efasemdir teljast skortur á þekkingu eða trúarofstæki.
Nei. Sköpunarkenningin er ekki valkostur við Þróunarkenninguna. Það er algjörlega út í hött að setja þetta upp sem tvo jafn gilda valkosti.
Lárus túlkar innlegg mitt þannig: "guð gerði það" - sem ég kalla trúarofstæki. Og frelsarinn síðan sakar mig um vanþekkingu á þróunarkenningunni.
Útúrsnúningur.... það er nú dálítið vandmeðfarið hugtak ef það á að hafa merkingu - ekki satt Matti?
Ég var ekki að túlka innlegg þitt á neinn hátt. Hvaða hugmyndir sköpunarsinna ertu að tala um aðrar en að guð hafi þar átt einhvern hlut að máli?
Þið eruð semsagt sannfærðir um að þróunarkenningin komi til með að svara öllum þeim spurningum sem við höfum um tilveru okkar.
Hér er verið að leggja okkur orð í munn. Enginn hefur haldið þessu fram enda er tilveran margbrotin. Þróunarkenningin útskýrir hvernig maðurinn hefur þróast frá öðrum prímötum, það er allt og sumt.
Allar efasemdir teljast skortur á þekkingu eða trúarofstæki.
Öllum rökstuddum efasemdum um þróun er tekið fagnandi því þær gefa til kynna að eitthvað er bogið við núverandi skoðanir manna sem þarf að leiðrétta. Órökstuddar efasemdir sem fela í sér skírskotanir til yfirnáttúrulegra útskýringa eru ekki eitthvað sem gagnast vísindalegri umræðu.
Hvaða hugmyndir sköpunarsinna ertu að tala um aðrar en að guð hafi þar átt einhvern hlut að máli?Fyrst og fremst gagnrýni á þær hugmyndir að tilveru okkar hérna sé að engöngu að þakka tilviljunum og náttúrvali.
Fyrst og fremst gagnrýni á þær hugmyndir að tilveru okkar hérna sé að engöngu að þakka tilviljunum og náttúrvali.
Það er ekki nóg að gagnrýna bara, menn verða að leggja eitthvað til málanna. Hvað hafa þeir lagt til málanna annað en guðahugmyndir sínar?
Einnig þá hugmynd að lífið fylgi einhverskonar sköpunarafli sem vísindin hafa ekki náð að festa hönd á.
Og hversvegna skyldi svo vera? Er þetta "sköpunarafl" kannski bara hugarburður?
Það er ekki nóg að gagnrýna bara, menn verða að leggja eitthvað til málanna.Ef þú gagnrýnir eitthvað, ertu þá ekki að leggja til málanna?
Og hversvegna skyldi svo vera? Er þetta "sköpunarafl" kannski bara hugarburður?Vel hugsanlega er þetta sköpunarafl eitthvað sem gerist í huganum. En ertu sammála því að þetta sköpunarafl eigi sér mögulega tilvist?
Ef þú gagnrýnir eitthvað, ertu þá ekki að leggja til málanna?
Í rauninni ekki. Margir sköpunarsinnar segja einfaldlega að þróunarkenningin sé siðlaus vitleysa. Þannig er ekkert lagt til málanna, engin rök, engar sannanir, alls ekki neitt.
Vel hugsanlega er þetta sköpunarafl eitthvað sem gerist í huganum. En ertu sammála því að þetta sköpunarafl eigi sér mögulega tilvist?
Það er kannski mögulegt en mér finnst það afskaplega ólíklegt að til sé eitthvað dularfullt sköpunarafl.
Kannski er ég svona endalaust ruglaður, en ég hefi aldrei fengið skilið þessar deilur um sköpunina. Í einu af því fyrsta sem Biflían segir, þessi ágæta bók, er einmitt smá klausa um sköpun lifandi dýra. Ég held svei mér þá að ég birti bara valdar línur úr 1. Mósebók:
20. Guð sagði: Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins. 21. Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott.
Ég les þetta sumsé þannig að fyrst hafi skapast skepnur í vatni sem af sköpuðust svo landdýr og fuglar. Var það ekki annars þannig sem það á að hafa gerst? Mér er bara spurn..
Ef þú ert að segja að tímaröðin á því hvernig guð skapaði heiminn sé "rétt", miðað við núverandi kenningar vísindanna, þá er það ekki svo.
T.d. það vers sem þú vísar til segir fyrir um sköpun hvala á undan landdýrum, sem er fráleitt þar sem hvalir koma af spendýrum sem lifðu á landi. Það segir líka til um sköpun fugla á undan forfeðrum þeirra skriðdýrunum.
Fleira mætti týna til eins og sköpun blómplantna á undan dýrunum sem er ekki í réttri tímaröð.
Við getum ekki notað vísindalegar rannsóknir til þess að uppgötva eitthvað um þær sköpunaraðferðir sem Skaparinn notaði.“ Duane Gish, Evolution? The Fossils Say No!
Ég get ekki neitað því að ég er ósammála Gish hérna. Við getum notað ákveðnar aðferðir til að búa til hluta af því sem við sjáum í náttúrunni, við getum t.d. raðað amínósýrum í lítil prótein, ekki enn búið til "alvöru" prótein þannig. Við getum líka lesið og að einhverju leiti "skrifað" DNA kóða svo þessar aðferðir hljóta að geta gefið okkur einhverja innsýn inn í hvernig þetta var upprunalega gert.
Sköpunarhyggja er trúarleg frumspekikenning sem gengur út frá því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað alheiminn. Sköpunarvísindi eru gervivísindi sem halda því fram að (a) sögurnar í Fyrstu Mósebók eru nákvæmar lýsingar á uppruna alheimsins og lífsins á jörðu, og (b) Fyrsta Mósebók er hvorki samrýmanleg við kenninguna um Miklahvell né þróunarkenninguna.
Alls ekki. Hérna ertu með sagnfræðiheimild sem heldur ákveðnum hlutum um fortíðina og við getum skoðað heiminn og athugað hvort að þessi heimild sé í samræmi við þann heim sem við búum í. Ég tel þá sögu vera í samræmi við þá vísindaþekkingu sem við höfum í dag á meðan þróun og Miklahvells kenningin eru það alls ekki.
Hugtakið “sköpunarvísindi” er í sjálfu sér mótsögn þar sem að vísindi snúast eingöngu um náttúrulegar útskýringar á empirískum fyrirbærum náttúrunnar en ekki yfirnáttúrulegar útskýringar á frumspekilegum fyrirbærum.
Er ekki sniðugt að skilgreina vísindi þannig að manns eigin hugmynd er sú eina sem er vísindi? Svarið er óneitanlega já, voðalega sniðugt en einstaklega rangt. Vísindi geta rannsakað það sem er að gerast í núinu með beinum rannsóknum en staðan er allt önnur þegar kemur að því að rannsaka fortíðina. Hvaða ferli eru það eiginlega sem breyta dauðum efnum í lifandi verur? Hvaða náttúruleg ferli búa til upplýsingakerfi og upplýsingar? Svarið er augljóst, vitsmunaverur geta búið þannig til en ekki náttúruleg ferli.
Einnig segja þeir að sköpunarhyggja sé vísindaleg og ætti því að kenna hana sem vísindi í skólum sem mótvægi við þróunarkenninguna.
Aðal stofnanirnar sem kenna sköpun vilja ekki að sköpun sé kennd í skólum sem mótvægi við þróunarhugmyndina. Þeir sem trúa á sköpun skipta miljónum svo ekki nema von að einhverjir hafa viljað þetta. Eina sem sköpunarsinnar eru að berjast fyrir er að kennarar hafi frelsi til að tjá sig um þessi efni. Af einhverjum ástæðum hafa flestir þróunarsinnar eitthvað á móti tjáningarfrelsi þegar fólk er ekki sammála þeim.
Einn af helstu forsvarsmönnum sköpunarvísindanna er Duane T. Gish við stofnunina Institute for Creation Research, sem kemur boðskap sínum á framfæri með því að ráðast gegn þróun.
Og margir þróunnarsinnar ráðast gegn hugmyndinni um sköpun með því að ráðast á fyrstu kaflana í Biblíunni.
Þrátt fyrir að 99,99% vísindasamfélagsins telji að þróun tegundanna frá öðrum tegundum sé staðreynd halda sköpunarsinnar því statt og stöðugt fram að þróun sé ekki staðreynd heldur einungis kenning og að sú kenning sé röng. Þeir vísindamenn sem eru ósammála um þróun lífsins, greinir á um hvernig tegundirnar hafi þróast, ekki hvort að þær hafi þróast.
Ég er marg oft búinn að sýna fram á að þetta er rangt svo annað hvort er hérna á ferðinni lygar eða fáfræði, dæmi hver fyrir sig.
Kenningin hefur ekki leitt til raunverulegs skilnings á líffræðilegum fyrirbærum í náttúrunni og það þykir ólíklegt að hún muni nokkurn tíma leiða til slíks.
Allir þeir sem rannsaka náttúruna til að læra hvernig hún virkar nota "reverse engineering". Að reyna að ímynda sér einhverja leið fyrir þróun að setja saman þau kerfi og tæki sem við finnum í náttúrunni er eitthvað sem aðeins örfáir nenna að standa í og þá aðeins til að verja sína trú á þróun. Þótt ég hafi ekkert á móti því að þeir reyni að finna einhverja leið til að láta lítil tilviljanakennd skref búa til flóknustu og fullkomnustu tæki á jörðinni þá tel ég það vera vægast sagt hræðilega tímasóun og þeir sem ganga út frá því að þessi tæki voru hönnuð með ákveðinn tilgang í huga eru miklu líklegri til árangurs. Til allrar hamingju þá gera flestir það og láta það eftir æðstu prestum þróunnarsinnanna að skrifa þróunnar ævintýri.
Aðrir vísindamenn hafa ólíkar kenningar um það hvernig þróunin hefur átt sér stað en aðeins örfáir afneita því að þróun sé staðreynd.
Aftur endurtaka þeir þessa vitleysu. Kannski eru þeir að tala um "microevolution" eða að dýr breytist með tímanum og það er alveg rétt, það er enginn ágreiningur um það. Ágreiningurinn er hvort að einfrömungar geti orðið að mönnum með tíma og tilviljunum. Hvort að tilviljanir og náttúruval geti útskýrt uppruna miljarða virði af upplýsingum. Hinn venjulegi maður getur spurt sig, hvort er líklegra til að útskýra þúsunda bóka virði af upplýsingum, tilviljanir eða vitsmunir. Svarið er augljóst nema menn hafi trúarlegar forsendur eins og að Guð geti ekki verið til. Dæmi um slíkt má sjá hérna
Vísindamenn sjá á hinn bóginn óvissu sem óhjákvæmlegan fylgifisk vísindalegrar þekkingar. Þeim finnst umræður um grundvallaratriði kenninga vera heilbrigðar og örvandi. Þróunarlíffræðingurinn Stephen Jay Gould sagði eitt sinn að vísindi „eru skemmtilegust þegar þau leika sér með áhugaverðar hugmyndir, kanna áhrif þeirra og uppgötva að hægt sé að útskýra eldri gögn á óvænta nýja vegu.“
Held nú að sköpunarsinnar eru aðalega að benda á að sumir þróunarsinnar trúa að þróun gerist í stökkum til að útskýra afhverju hægfarar breytingar úr einni tegund yfir í aðra er ekki að finna í steingervingunum sem er afstaða Goulds heitins. Dawkins aftur á móti trúir að þetta gerist í mjög litlum skrefum en er síðan með aðrar afsakanir fyrir því að steingervingarnir passa ekki við þá hugmynd.
Sköpunarvísindi eru ekki vísindi heldur gervivísindi. Þau eru trúarleg kennisetning dulbúin sem vísindakenning. Sköpunarvísindi eru sett fram á þann hátt að þau séu algjörlega óskeikul og óhagganleg.
Þetta er alrangt. Vísindalegar staðreyndir skipta gífurlega miklu máli því að Guð Biblíunnar verður að vera Guð sannleikans og þess vegna verður Hans orð í Biblíunni að vera í samræmi við þann raunverulega heim sem við lifum í. Það er þróunarhugmyndafræðin sem á í vandræðum með staðreyndir og alvöru vísindi.
H.S. Lipson, FRS (Professor of Physics, University of Manchester, UK)
In fact, evolution became in a sense a scientific religion; almost all scientists have accepted it and many are prepared to 'bend' their observations to fit in with it.'
Sköpunarvísindamenn eru ekki vísindamenn vegna þess að þeir gera ráð fyrir því að túlkun þeirra á Biblíunni geti ekki verið röng. Þeir setja fram skoðanir sínar sem þær væru algjörlega óhrekjanlegar
Af einhverjum ástæðum þá finnst viðkomandi greinarhöfundi allt í lagi að ljúga, frekar ósmekklegt.
Vísindakenningar eru skeikular. Fullyrðingar um óskeikulleika og algjöra fullvissu eru ekki einkenni vísinda heldur gervivísinda.
Málið er að við höfum tvær sögur um uppruna alheimsins og lífsins, önnur sagan er að finna í Biblíunni og hin var skálduð upp fyrir u.þ.b. 150 árum. Allir geta síðan skoðað heiminn í kringum sig og athugað hvor sagan passar betur við þær "staðreyndir" sem við höfum í dag.
Til dæmis má nefna að sérhver vísbending þess efnis sem styður við bakið á þeirri hugmynd að risaeðlur og menn hafi verið uppi á sama tíma, er tekið fegins hendi af sköpunarsinnum.
Kannski af því að yfirgnæfandi sannanir eru fyrir því? Annars að þær hafi dáið út með öllu öðru lífi í Nóaflóðinu myndi passa alveg við skilning flestra sköpunarsinna. Málið er bara að það eru góðar sannanir fyrir því að menn og risaeðlur lifðu á sama tíma og varla tetur af sönnunum til að styðja hið gagnstæða.
Hvernig sköpunarsinnar hafa farið með annað lögmál varmafræðinnar sýnir annað hvort fram á algjöra vanþekkingu á vísindum eða viljandi óheiðarleika. Þeir halda því fram að þróun lífsins brjóti í bága við annað lögmál varmafræðinnar sem „segir að á skala stærri fyrirbæra þar sem fjölmargir ferlar eigi sér stað geti entrópía lokaðs kerfis ekki minnkað“ (Stenger).
Það er ekki mikið af skilningi í þessari grein. Í minni umræðu við þróunarsinna þá hafa þeir frekar verið til í að afneita að þetta lögmál sé til en að vera til í að sjá afhverju þetta lögmál er vandamál fyrir þróun. Rökin eru síðan þau að annað lögmálið gerir þeirri hugmynd að úr sprengingu hafi komið fram regla og að dauð efni gætu raðað sér í lifandi veru. Þeir sem vilja ekki innantómar fullyrðinar manna sem virðast vera annað hvort fáfróðir eða óheiðarlegir, geta lesið sér til um afhverju annað lögmálið er vandamál fyrir þróun, sjá: http://www.trueorigin.org/steiger.asp
Því verður heldur ekki neitað að einn helsti munurinn er sá að frumspekileg kenning er í samræmi við allar hugsanlegar niðurstöður í reynsluheiminum, meðan að vísindakenning er það ekki. „Ég get hugsað mér athuganir og tilraunir sem gætu afsannað allar þær þróunarkenningar sem ég þekki,“ skrifar Gould, „en ég get ekki ímyndað mér hvaða hugsanlegu gögn gætu fengið sköpunarsinna til að breyta skoðunum sínum. Óbreytanleg hugmyndakerfi eru kennisetningar, ekki vísindi“ (Gould, 1983).
Og ég get ekki ímyndað mér hvaða gögn gætu fengið þróunarsinna til að skipta um skoðun. Máttleysi stökkbreytinga til að búa eitthvað nýtt til, steingervingarnir sem segja þvert nei að þróun átti sér stað og miljónir dæma um hönnun sem þróun getur ekki leyst. Nei, engin gögn virðast geta opnað augu þeirra sem hafa valið að loka þeim.
Sköpunarvísindi og kenningar þeirra munu standa óbreytt um aldur og ævi. Þau munu ekki hvetja til umræðna meðal vísindamanna um grundvallareðli alheimsins.
Þeir einu sem hafa eitthvað á móti umræðu og frjálsum skoðana skiptum eru þróunarsinnar; Bandaríkin eru gott dæmi þar sem er verið að berjast fyrir því að kennarar og prófessorar meiga gagnrýna Darwin. Kannski allt í lagi að kasta steinum búandi í glerhúsi þar sem búið er að brjóta allar rúðurnar.
Þau leiða ekki af sér neinar forspár sem hægt væri að nota til að sannreyna kenninguna. Þau eiga að vera óhrekjanleg. Og þau gefa sér það fyrirfram að aldrei verði nokkurn tímann hægt að afsanna þau.
Það væri hægt að spá því að fyrstu dýrin sem við myndum finna væru flókin og sýndu meiri fjölbreytileika en dýr í dag. Það er spá sem passar við gögnin á meðan þróun spáir akkurat öfugu og það reyndist rangt. Hægt að spá því að efni og orka er ekki hægt að búa til þar sem Guð er búinn að skapa. Hægt að spá því að líf geti ekki kviknað án inngrips vitsmunavera, öll gögn benda til þess að það er rétt. Hægt að spá því að dýr hafi aðlögunarhæfileika en geta ekki breyst í önnur dýr; allar rannsóknir styðja þetta. Sömuleiðis spáir sköpun að við myndum finna hönnunarmynstur í sköpunni sem væru endurtekin í náttúrunni.
Ef aldur steingervinga er dreginn í efa, eða þær aðferðir sem notaðar eru við aldursgreiningar á þeim, en þeir eru samt taldir vera mikilvægir fyrir sannleiksgildi trúarkenningarinnar og eru sagðir vera fyrirfram í samræmi við kenninguna, þá er kenningin frumspekilegs eðlis. Vísindakenningar geta ekki ákveðið fyrirfram hvaða niðurstöður verði að fást.
Eins og t.d. að finna C14 í steingervingum sem ætti að takmarka aldur þeirra við 100.000 ár? Eina ástæðan fyrir því að þessi gögn eru hunsuð er vegna þess að þróun gefur sér fyrirfram að jörðin sé margra miljarða ára gömul því hún þarf á tímanum að halda. Helling af ástæðum til að álykta að jörðin er ekki margra miljón ára gömul en öllum þannig gögnum er hafnað því að þá er búið af afsanna þróun.
Annars gæti enginn með viti tekið slíka órökstudda fullyrðingu trúanlega sem krefst þess af okkur að við verðum að trúa því að allt vísindasamfélagið hafi rangt fyrir sér.
Aftur notuð þessi fullyrðing og rökvilla að allt vísindasamfélagið er á ákveðni skoðun, frekar óskemmtilegu ósómi.
Talsmenn sköpunarvísinda hafa ekki haft árangur sem erfiði við að gera þróun útlæga úr kennslustofum og fá sköpunarhyggju kennda samhliða þróun.
Ég veit um enga talsmenn sköpunarsinna sem berjast fyrir þessu svo að mínu mati er þetta rangt. Ætli einhver geti stutt þessa fullyrðingu með einhverjum dæmum?
Enginn var viðstaddur þegar að lífið birtist fyrst á jörðinni. Því ætti að taka allar fullyrðingar um uppruna lífsins með þeim fyrirvara að um kenningu er að ræða, ekki staðreynd.“ Þannig að ef þú vaknar einn góðan veðurdag í Alabama og úti er allt þakið snjó og enginn sá snjókomuna þá máttu einungis setja fram kenningu um uppruna snjósins.
Öll gögn segja það afdráttarlaust að líf geti ekki kviknað með einhverjum náttúrulegum ferlum. Þegar síðan einhver vill ekki að það sé kennt að lífið hafi kviknað með einhverjum tilviljanakenndum náttúrulegum ferlum þá finnst þróunarsinnum það fáránlegt. Það er trú í algjörri andstöðu við staðreyndirnar að halda því fram að líf geti sjálfkviknað.
Á sama tíma og herskáir sköpunarsinnar reyna að ritskoða kennslubækur sem fjalla um þróun á eðlilegan hátt, kvarta þeir sjálfir yfir ritskoðun á skrifum sköpunarsinna
Eitt af aðal barráttuefnum sköpunarsinna er að þróun sé ekki kennd með lygum en það hefur reynst erfiðlega að fjarlægja lygar úr kennslubókum. Dæmi um slíkt má lesa um hér og hér
Þó að engar sannanir séu fyrir þessum fullyrðingum virðist það ekki skipta máli fyrir þá sem trúa á þær. Þegar að vísindin styðja ekki fullyrðingar þeirra þá ráðast þeir gegn vísindunum eins og þau væru verkfæri sjálfs Satans.
Ef dauði og þjáningar eru það sem skapaði hin æðri dýr eins og Darwin sagði þá er rökrétt að siðleysi og tilgangsleysi lífsins verði ráðandi í lífi þeirra sem trúa þessu. Hvort sem það er síðan rétt eða ekki er fyrir framtíðina að ráða úr. Málið er einfalt að trú á þróun tekur burt verðgildi lífsins og gerir siðferði breytilegt eftir hverjum einstaklingi fyrir sig.
Sú skoðun að kenning Darwins um náttúruvalið feli í sér rasisma eða ójafnrétti er fullyrðing frá einhverjum sem skilur ekki kenninguna eða þeim sem veit hið sanna í málinu og heldur að lygar í nafni trúarinnar sé siðferðislega réttlætanleg lygi.
Hugmynd Darwins jók rasisma svo um munaði. Darwins var rasisti, hans dyggasti stuðningsmaður í Þýskalandi og ómerkilegur lygari, Heckel var rasisti. "Bolabíturinn" hans Darwins(Huxley) sem breiddi út hans hugmyndir var ómerkilegur rasisti og svo mætti lengi telja.
Stephen J. Gould vissi það og skrifaði:
Biological arguments for racism may have been common before 1850 but they increased by orders of magnitude following the acceptance of evolutionary theory."
Sköpunarsinnar samþykkja að breytingar geta orðið innan tegunda með þróun (e. microevolution) en ekki að tegundir geti þróast í aðrar tegundir (e. macroevolution). Með þessu geta þeir útskýrt minni breytingar innan tegunda án þess að þeir þurfi að samþykkja hugtakið um náttúruvalið.
Kannski af því að við sjáum sannanir fyrir litlum breytingum en engar sannanir fyrir því að froskar geti orðið að mönnum? Sköpunarsinnar hafa síðan ekkert á móti náttúruvali, kannski af því að það er versti óvinur þróunnar, veit ekki. Náttúruvalið virkar, en það býr ekki neitt nýtt til en þróun snýst um uppruna allra þessara upplýsinga og tækja og ferla. Þar getur náttúruvalið ekki komið þróunarsinnunum til hjálpar.
Bið menn um að hafa hemil á lyklaborðsfingrum sínum og setja ekki heilar ritgerðir hér inn. Ég svara þessu innleggi Mofa síðar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Finnur - 28/09/06 11:15 #
Getur verið að sannleikurinn er einhverstaðar þarna inná milli? Bæði sköpunarsinnar og þróunarsinnar hafa rétt fyrir sér, og báðir hafa rangt fyrir sér.
Er ekki mögulegt að þróunarkenningin sé tiltölulega góð útskýring á því hvernig einstakar dýrategundir hafa myndað það form sem þær hafa núna, en sköpunarsinnar hafi athyglisverðar hugmyndir um hvernig stendur á þessu?
Þessi skipting í þróunarsinna móts við sköpunarsinna minnir mig óþægilega ræðu Bush í kjölfar 11. September - annaðhvort ertu með okkur eða með hryðjuverkum. Er ekki tími til kominn að viðurkenna að tilveran er ekki í svarthvítu; ágætt að rifja upp gamalt máltæki : "Sjaldan veldur einn þá tveir deila".