Í Jóhannesarguðspjalli 10:9 segir Jesús „Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.“ Það er engum blöðum um það að fletta að þarna er myndlíking á ferðinni. Eða í Lúkasarguðspjalli 22:36, þar sem Jesús er látinn segja „[Sá] sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð.“ Það er ekki erfitt að líta á þessi ummæli sem myndlíkingu, að maður skuli losa sig við jarðneskar byrðar og búa sig undir baráttu fyrir málstaðinn.
Í Matteusarguðspjalli 26:26 „tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: Takið og etið, þetta er líkami minn.“ Sá sem tekur þessu bókstaflega getur tæpast annað en álitið kristna menn vera mannætur, a.m.k. þá sem hafa gengið til altaris. Hins vegar er heldur ekki erfitt að sjá fyrir sér að þetta sé líka myndlíking. Það er urmull dæma um það í Biblíunni að texti sé fráleitur ef hann er lesinn bókstaflega en meiki sens ef hann er lesinn sem ljóð.
Þann 14. nóvember 2002 ávarpaði dr. Einar Sigurbjörnsson málstofu í Neskirkju, þar sem hann skýrði frá þeirri skoðun sinni að sköpunarsaga Biblíunnar væri í raun ljóð, a.m.k. önnur þeirra: „Raunar geymir fyrsta Mósebók tvær sköpunarsögur. Sú fyrri er ljóð sem gerir grein fyrir tilurð alheimsins fyrir tilstuðlan Guðs. Það er orð Guðs sem er sköpunarmátturinn. Guð segir: „Verði!“ og það verður svo sem hann segir.“
Það er, að mínu viti, tiltölulega nýleg stefna að guðfræðingar álíti sköpunarsöguna vera líkingu. Þar sem þessi nýlega stefna er skref frá meiri trú til minni trúar, skref frá meiri vitleysu til minni vitleysu, hlýtur að mega telja óhætt að þetta sé framför. Varfærin framför, en framför þó, að viðurkenna að Biblíuna sé hægt að líta á sem eitthvað annað en óskeikula.
Þegar opnað er fyrir þann sjálfsagða möguleika að höfundar Biblíunnar hafi haft vald á myndlíkingum eða ljóðrænni nálgun, þá vakna óneitanlega spurningar. Alþekkt er þegar húmanistar sem halda að þeir séu kristnir segja að guð sé „hið góða í manninum“ eða slíkt. Hvað ef við lítum á guð sem eina allsherjar myndlíkingu? Ef sá fyrirvari er hafður á að þetta sé bara myndlíking, þá gerbreytist ásýnd þess sem sagt er.
Guð gæti verið myndlíking fyrir náttúruna eða fyrir lífið. Til að ég misskiljist ekki er rétt að ítreka: Myndlíking. Tökum sem dæmi Jobsbók 1:21: „Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Það fer enginn aftur í móðurskaut -- og vegna þess að guð er ekki til, þá getur hann, eðli málsins samkvæmt, ekki gefið neitt né tekið. En sé versið skoðað sem myndlíking, þá má sjá út úr því hringrás lífsins, móður jörð og hverfula náttúruna persónugerða, sem stundum er gjöful og sviptir mann stundum öllu.
Sumt er á hálum ís þótt það sé skoðað sem myndlíking, til dæmis í 5. Mósebók 2:25, „Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér.“ Eða Orðskviðirnir 13:24: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“
Sumt fallegt, sumt á hálum ís -- og sumt er beinlínis ljótt. Í Sálmunum 2:8-9 segir hinn mildi og miskunnsami: „Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali. Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.“ Ég fæ ekki séð að það geti í neinum skilningi talist forsvaranlegt að „mölva“ fólk eða gefa það eins og tækifærisgjöf. Eða Orðskviðirnir, t.d. 18:6: „Varir heimskingjans valda deilum, og munnur hans kallar á högg.“ Á að berja heimskingja? Þeir geta verið pirrandi, en ef þeir eru heimskingjar í alvörunni, þá geta þeir varla að því gert og þá eiga þeir varla skilið að hljóta barsmíðar, eða hvað?
Að mínu mati er Biblían því merkilegri sem maður tekur henni með meiri fyrirvara. Hún er mannaverk og í henni má finna margt fallegt og margt ljótt, en ekkert sem kemur frá neinum „guði“.
Heimildir:
Biblían, www.biblian.is
Dr. Einar Sigurbjörnsson: „Maður og náttúra - staða mannsins í sköpunarverkinu“, erindi flutt í Neskirkju 14. nóvember 2002.
Auðvíta er orðið Guð eins konar líking. Það vísar til raunveru sem er undirstaða tilverunar. En um það má deila. Ég tel að þetta sé málefni sem hver og einn verður að taka afstöðu til.
Hinir kristnu eru nú ekkert á því að "guð" sé líking... Ég veit ekki hvert grænsápuguðfræðin væri komin ef sjálfur guð er orðin að einhverri líkingu. Ef svo væri þá væri ekki um kristni að ræða heldur einhverskonar occultisma eða nýaldarspeki.
Í hugum flestra kristinna er biblían orð guðs, hreint og ómengað. Örn Bárður og fleiri víðtúlkendur segja reyndar að biblian sé einhverskonar ljóð. Guð sem líking í svoleiðis samhengi gæti alveg gengið upp en þá er Örn og vinir hans kominr svo langt frá kristinni guðfræði að furðu sætir.
Takk fyrir vel skrifaða grein og næma athugun Vésteinn.
Í ákefðinni vill stundum gleymast að um myndmál sé að ræða.
Stundum finnst manni þó skrifin engu bættari þó þau séu myndmál og stundum er eins og um tvöfalt myndmál sé að ræða, þe. ein mynd vísi í aðra. T.d. vín á að vísa til blóðs Krists sem væntanlega á að vísa til einhvers annars og sama var með brauðið sem átti að vísa til líkama Krists. Lærisveinarnir áttu þannig að minnast hans þegar þeir borðuðu. Þetta finnst manni frekar "sick" í dag og bera vitni einhverrar megalomaniu og narcissisma hjá Jésu. Maður sér ekki beint fyrir sér leiðtoga dagsins í dag hafa slíkt eftir sér. Sjálfsagt má afsaka þetta endalaust með einhverri ljóðrænu eða menningarlegum tengslum. Það réttlætir þó ekki notkun þessa siða í dag og altarisgangan minnir á galdrakukl nema fyrir umhverfið.
Svanur, hann var að fara að deyja á krossi (eða svo segir sagan). Give him a break. Jafnvel ef hann hefði stigið til himna, hefði hann þó liðið kvalir. Það er ekkert grín að vera krossfestur. Ég get því ekki veginn verið sammála því að þetta sé narcissismi, heldur þykja mér þetta nokkuð eðlileg viðbrögð miðað við aðstæður. Ég held líka að þetta hafi fremur verið bón heldur en skipun.
Semsagt að hann hafi verið hálf sturlaður eða með óráði af hræðslu eða kvíða? Tja, það er svosem hugsanlegt. Í ævintýri Biblíunnar verður samt ekki betur séð en að Ésús líti býsma stórt á sig.
Það að hægt sé að hægt sé að líta á margt ef ekki flest í Bíblíunni sem líkingu er ekkert nýtt þó margir guðfræðingar hafi ekkert verið á þeim nótunum. Ég sé ekki heldur hvers vegna sé alltaf verið að líta til þeirra eftir útskýringu á Bíblíunni. Ekki eru þeir neitt sérstaklega sjálfstæðir í skoðun sinni á henni bundir af 1500 ára gömlum túlkunum sem, að mínu mati, eru ekkert annað en hugmyndir einhverra manna.
Sömuleiðis sýnist mér það vera svolítil óskhyggja hjá þér að segja Bíblíuna skeikula vegna þess að þeir, sumir, séu loksins farnir að skoða Bíblíuna með opnum augum. Það kann vel að vera að Bíblían sé skeikul en fyrir trúaðan mann skiptir það ekki hvort verið sé að skoða innri eða ytri boðskap Bíblíunnar þar sem í báðum tilvikum er boðskapurinn kominn frá Guði sjálfum.
Hinsvegar þýðir þetta að þeir verði að viðurkenna að þeirra eigin skilningur á Bíblúnni sé ekki óskeikull þar sem það að skoða meiningu versa krefst túlkunar. En það hefur, held ég reyndar, alltaf verið mikið vandamál hjá þessum guðfræðingum að geta viðurkennt skeikulleika sinna eigin túlkana og túlkana fyrirrennara þeirra.
Svo ég segi eitthvað smá um þetta með brauðið og líkamann. Eins og nefnt er í greininni er talið augljóst að ekki sé verið að tala um raunverulegan líkama Krists heldur sé um að ræða líkingu. Er ekki líklegt að brauðið sé líka líking? Eins og nefnt er að ofan er þessi saga ansi skrítin í þeim skilningi sem margir leggja í hana og trúaður þó ég sé kýs ég alltaf að leita skynsamlegustu svaranna (já, já trú er ekki skynsöm blabla :P).
Minn skilningur á þessari sögu er að þarna tákni brauðið orð Krists og líkami hans táknar hið lifandi orð Guðs. Semsagt þegar menn eru að lesa og stúdera orð Guðs eru þeir að leggja sér til munns ,,anda" Guðs. Sambærilegt dæmi er þegar Móses og Gyðingarnir fengu ,,manna" af himninum þegar þeir voru staddir í eyðimörkinni.
Auðvitað!! Þetta rann allt í einu upp fyrir mér og ég býsnast yfir sjálfum mér að hafa ekki séð þetta fyrir löngu.
Biblían er eitt allsherjar ljóð, guð var ljóðskáld, og ekki bara það heldur aðhylltist hann absúrdisma í ljóðagerð.
Hjörtur Magni Popp-prestur sagði sköpunarsöguna vera ljóð. Hún er ekki lýsing á því þegar guð skapaði fyrst ljósið og seinna sólina og svo allt hitt draslið á 6 dögum fyrir 6000 árum, heldur ljóð. Sköpunarsinnar eru sem sagt bara ljóðaunnendur.
Skorinorð fyrirmæli biblíunnar um að drepa beri homma eru líka bara ljóð, ef rétt er lesið í tákn ljóðsins, var auðvitað meint að blessa skyldi hjónabönd samkynhneigðra. Það þarf nú ekki hámenntaðan bókmenntafræðing til að sjá það.
Biblían er komin í hörkusamkeppni á ljóðabókamarkaðnum, og slær út bækur eins og Öfugmælavísur, þar sem meðal annars er að finna:
Á eld er best að ausa snjó eykst hans log við þetta Gott er að hafa gler í skó þá gengið er á kletta
Persónulega finnst mér að það eigi að skoða hin ýmsu lög Bíblíunnar út frá því samfélagslegu samhengi sem hún var birt í. Það er mér augljóst allavega lög sem voru birt í ákveðnu samfélagslegu samhengi geti ekki gilt í allt öðruvísi samhengi né er hægt að dæma lögin út frá þessu nýja samhengi.
T.d. lög sem voru birt hirðingjum í eyðimörkinni fyrir 3000 árum, þar sem ekki ekki var neitt lagalegt apparat, byggðust mikið á auga fyrir auga hugsuninni enda engin önnur leið til að koma í veg fyrir allt færi í bál og brand. Þessi lög geta að sjálfsögðu ekki gilt í nútíma samhengi. Því er ekki hægt að dæma þessi lög með nútíma stöðlum, að mínu mati.
Í sambandi við að lesa Bíblíuna sem ljóð þá held ég að það sé svolítil einföldun en samt sem áður er ég alveg á því að margar ef ekki flestar sögur Bíblíunnar séu fyrst og fremst táknrænar. Þetta, að mínu mati, dregur ekki úr snnleiksgildi Bíblíunnar heldur eykur það.
Dæmi af táknrænni túlkun er þessi útskýring á meiningu sögunnar af Adam og Evu:
http://reference.bahai.org/en/t/ab/SAQ/saq-30.html
Með bestu kveðjum, Jakob
Þannig er þá farið fyrir hinu eilífa orði guðs. Stór partur af því er bara ljóð, og það sem ekki er ljóð eru úrelt lög, samin af hirðingjum, um hirðingja og fyrir hirðingja, byggir á fáfræði hirðingjans fyrir 3000 árum og samfélagsgerð sem byggði á auga fyrir auga og tönn fyrir tönn réttlæti, sem er ekki aðferð til að koma í veg fyrir að allt fari í bál og brand, heldur pottþétt uppskrift að því að hleypa öllu í bál og brand, innheldur boðskap sem ekki sæmir nokkurri viti borinni manneskju í dag.( púff hvað þetta var löng setning) En sem sagt úrelt lög með ljóðrænu ívafi, ekki beisinn ritdómur á hinu háheilaga trúarriti kristinna.
Ég er nú reyndar ekki kristinn en trúi á Jesús og hina boðberanna jafnframt því sem ég samþykki Bíblíuna sem trúarrit sent frá Guði sem inniheldur eilífan andlegan boðskap en hvers trúarlög hafi bara átt við á þeim stað og tíma sem þau voru opinberuð á.
Veit ekki hversu fróður þú ert um trúabögð en ef þú þekkir bahá'í trúna þá skilur þú kannski að ég er nú ekki að tala út frá sjónarhorni sem er neitt sérstaklega vinsælt meðal harðlínu kristinna.
En svo ég svari ábendingum þínum hér að ofan þá var auga fyrir auga prinsippið, hversu ógeðfellt sem manni finnst það í dag, nauðsynlegt á þessum tíma.
Ímyndaðu þér að þú búir með fjölskyldu þinni eða ættbálki einhvers staðar í eyðimörk Sinaí skaga og þar um kring að það eina sem kemur í veg fyrir að nokkur geri þér eða fjölskyldu þinni mein er að honum verði að sama skapi gert hið sama. Ef einhver drepur son þinn á hann á hættu að sinn sonur verði drepinn. Þetta er ógeðfellt en í samfélagi þar sem engin lögregla eða dómstóll er til staðar er þetta nauðsynlegt og hluti af félagslegri þroskasögu mannkynsins hvort sem okkur líkar það eða ekki.
Þetta var snemm-gyðingdómur, síð-gyðingdómur þróaði með sér dómstólskerfi byggt á fyrirmælum og fyrirmynd bíblíunnar.
Og þetta er að sjálfsögðu bara minn skilningur byggt á því að skoða trúabrögð sem einstök stig í stærri þroskagöngu mannsins, þ.e.a.s. ég lít á öll helstu trúabrögð heims sem komin frá einni uppsprettu með ákveðnum tilgangi fyrir þann tíma sem þau birtast í.
Með bestu kveðjum, kobbi
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Eva - 22/09/06 09:23 #
Góð grein. Með þeim betri sem ég hef séð á þessum vef.