Vitræn hönnun guðleysingja eða vitfirring guðleysingja?
Sjá ég boða yður mikinn fögnuð. Frelsari mannkyns er ekki aðeins fæddur, heldur er hann sprækur og býður hverjum sem er að slást í hóp hans. Þessi frelsari kemur ekki til að boða, heldur til að fræða. Hann er arftaki Búdda, Móses, Jesú og Múhameðs. Allir fengu þessir spámenn víst boðskap frá (sömu) sköpurum mannkyns. Í Biblíunni eru þeir kallaðir Elohim (eintala: Eloha... Allah), þeir sem koma af himnum. Þessi síðasti spámaður heitir Rael og fæddist í Frakklandi 1946 (og túlkunin á orðinu Elohim er fengin frá honum).
Ég hafði aldrei heyrt á þennan merka mann minnst, svo furðulegt sem það má kallast nú á upplýsingaöld og í ljósi þess að hann er nágranni okkar. En boðskapur hans er sá að enginn guð sé til, aðeins mennskar verur á öðrum hnöttum. Þessar verur, geimverur, komust á sama stig og við erum að nálgast nú, fyrir löngu. Þeir fóru að gera tilraunir með sköpun lífs og lífvera og ákváðu að gera jörðina að tilraunastofu sinni.
Fimmtándi febrúar er haldinn hátíðlegur á eynni Tanna í Vanuatu (áður Nýju Suðureyjar eða New Hebrides) í S-Kyrrahafi og kenndur við frelsara eyjarskeggja John Frum. Söfnuðurinn er einn af mörgum farm-sértrúarsöfnuðum (cargo cults) sem spruttu upp á Kyrrahafseyjum og eiga sér merkilega en stutta sögu.
Mannfræðingar hafa skráð tvö tilvik í Nýju Kaledóníu, fjögur á Salómon-eyjum, fjögur á Fiji-eyjum, sjö í Nýju Suðureyjum og rúmlega fimmtíu í Nýju Gíneu. Flest eru þau alveg óháð og ótengd öðrum tilfellum. Í meirihluta þessara trúarbragða er því haldið fram að ákveðinn frelsari komi með farminn við lok veraldar.