Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fundarsköp félagsins

Fundurinn telst löglegur ef löglega er til hans boðað skv. lögum Vantrúar. Formaður eða varaformaður í forföllum hans setur fundinn á tilsettum tíma með því að opna spjallþráð sem heitir "Aðalþráður" og byrjar hann á að leggja fram auglýsta dagskrá. Umræður á aðalþræði eru frjálsar. Þá opnar hann þráð til að kjósa fundarstjóra og skoðunarmann reikninga. Fundarstjóri tekur við stjórn fundarins þegar hann hefur verið kosinn. Hann stjórnar fundi, úrskurðar um túlkun laga og fundarskapa, gætir þess að fundur dragist ekki óþarflega á langinn og heldur niðurstöðum fundarins til haga.

Fundarstjóri opnar sérstaka þræði fyrir hvern dagskrárlið fundarins samkvæmt lögum félagsins þegar hann hefur tekið við fundarstjórn og ákveður hve lengi þeir skulu vera opnir: Ekki minna en tvo sólarhringa, en ekki meira en tvær vikur. Fundarstjóri má þó einnig loka þræði þegar augljóst er að umræða hefur verið til lykta leidd eða mál afgreitt. Í þræði um lagabreytingar skal leggja fram allar tillögur um þær, ásamt breytingartillögum og umræðum. Að framlagðri skýrslu stjórnar, samþykkt endurskoðaðra reikninga félagsins og að loknum lagabreytingum skal fundarstjóri kalla eftir framboðum til stjórnar í þræði um stjórnarkjör. Þráð um stjórnarkjör má ekki opna fyrr en lagabreytingar hafa verið afgreiddar.

Á kjörskrá eru allir félagar í Vantrú, enda hafi þeir aðgang að spjallborðinu og enginn annar. Þeir sem ætla að taka þátt í fundinum skulu skrá sig á þar til gerðum spjallþræði. Fundarstjóri ákveður og tilkynnir með hæfilegum fyrirvara hvenær kosning hefst og hvenær henni lýkur. Almennt ræður einfaldur meirihluti, nema til dagskrárbreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða, og ef lög félagsins kveða á um annað, þá ráða þau. Ef fjórðungur fundarmanna fer fram á það, skal kjósa með nafnakalli og hver og einn gera grein fyrir atkvæði sínu. Ef krafist er aukins meirihluta skal skoða greidd atkvæði sem hlutfall af fjölda fundarmanna eftir skráningu á skráningarþráðinn.

Tillögur skulu orðaðar af þeim sem leggur þær fram í þar til gerðum þræði. Þar skulu einnig koma fram breytingar- og viðaukatillögur ef einhverjar eru, sem og umræður. Fundarstjóri ákveður og auglýsir hvenær kosning hefst og hvenær henni lýkur. Fyrst skal kosið um þær breytingar- eða viðaukatillögur sem lengst ganga að mati fundarstjóra. Ekki skal kjósa um fleiri en tvo valkosti í senn. Þegar endanleg tillaga liggur fyrir er hún borin undir atkvæði. Þeir sem vilja sitja hjá greiða ekki atkvæði. Fólki skal heimilt að gera grein fyrir atkvæði sínu ef það vill. Á meðan kosning stendur yfir skal fólk geta skipt um skoðun.

Hver sem er getur gerst meðflutningsmaður að hvaða tillögu sem er. Dragi flutningsmaður tillögu sína til baka getur annar gert hana að sinni. Sé tillaga felld má ekki bera hana aftur upp á sama fundi. Fundarstjóri má skipta tillögum upp eða sameinað þær ef það einfaldar afgreiðslu mála, enda breytist þær ekki efnislega við það. Flutningsmaður getur breytt tillögu sinni eða dregið hana til baka þangað til hún er borin undir atkvæði.

Í stjórnarkjöri og kjöri til annarra trúnaðarstarfa skal fundarstjóri auglýsa eftir framboðum, eða tilnefningum ef sá sem er tilnefndur er samþykkur því. Þeir einir eru í kjöri sem bjóða sig fram eða eru tilnefndir. Ef ekki er sjálfkjörið skal fundarstjóri meta og ákveða hvernig best er að haga kosningunni. Ef upp koma vafaatriði úrskurðar fundarstjóri.

Ef kosið er um tillögu um að slíta félaginu skal fjöldi greiddra atkvæða í þeirri kosningu skoðast sem fundarsókn skv. lögum félagsins.

Þessi fundarsköp eru samþykkt á aðalfundi Vantrúar 2015 og þeim getur löglegur aðalfundur breytt. Slíka breytingu skal afgreiða eins og lagabreytingu. Fundarsköp skulu vera aðgengileg fyrir félaga, að minnsta kosti meðan aðalfundur stendur yfir.

Fundarsköp samþykkt 2. febrúar 2015


Slagorð

Movable Type
knýr þennan vef