Nýtt
Vísindi og trú
Siðferði og trú
Stjórnmál og trú
Rökin gegn guði
Kristindómurinn
Heilagur hryllingur
Nýöld
Kjaftæðisvaktin
Fleyg orð
Ófleyg orð
Hugvekjur
Skeptíkus
Efahyggjuorðabókin
Guðlast
Rökvillur
Vísanir
Lesendabréf
Vefbókasafn
FAQ
Aftur á Vefbókasafn

Bréf til Þórðar frænda

Úlfar Þórmóðsson

Formáli

Í apríl mánuði 1983 hóf tímaritið Spegillinn, samviska þjóðarinnar, göngu sína á nýjan leik eftir nokkurt hlé.
Þremur dögum eftir að annað tbl. kom út, eða þann 30. maí 1983, fyrirskipaði saksóknari ríkisins, Þórður Björnsson, að hald skyldi lagt á allt upplag blaðsins, prentgögn öll svo og dreifilista og innheimtuplögg. Var það gert með almennu lögregluútboði um landið allt. Ástæður þær sem saksóknari gaf upp voru að í blaðinu væri klám og ærumeiðingar auk þess sem útgáfa þess væri brot á prentlögum.
Þann 3. júní sama ár gáfu aðstandendur Spegilsins út blaðið Samviska þjóðarinnar,1 sta tbl.1 sta árg. Það var að stofni til byggt á hinu lögbannaða efni Spegilsins, og gefið út í þeim tilgangi að gefa fólki kost á að dæma um lögmæti ásakana saksóknarans um ærumeiðingar og klám, en þá hafði hann ekki gefið út formlega kæru vegna efnis Spegilsins. Lögreglan gerði Samvisku þjóðarinnar upptæka að eigin frumkvæði, auk prentgagna, og hafði eitthvert erindi í því efni.
Það var svo ekki fyrr en mánuði eftir löghaldið, eða þann 28. júní, að saksóknara þóknaðist að gefa út ákæru á hendur útgefanda Spegilsins. Hljóðaði hún upp á guðlast og klám og brot á prentlögum, en hvergi getið um ærumeiðingar. Áður en þessi kæra kom fram var óskað úrskurðar Sakadóms og síðar Hæstaréttar um réttmæti aðgerða saksóknara þar sem þær þóttu brjóta í bága við lög um prentfrelsi og tjáningarfrelsi. Þann 14. júlí úrskurðaði Sakadómur að saksóknari hefði farið rétt að og 25. sama mánaðar staðfesti Hæstiréttur úrskurð Sakadóms, þó ekki einum rómi.
10. nóvember 1983 var málið tekið til dóms í Sakadómi og dómur upp kveðinn 1. desember sama ár. Þar var útg. Spegilsins dæmdur í fésektir eða tugthúsvist fyrir guðlast, klám og brot á prentlögum í báðum útgefnum blöðum, Speglinum og Samvisku þjóðarinnar. Ákærði áfrýjaði málinu þegar tif Hæstaréttar og, þegar þetta er skrifað, er þess beðið að málið verði tekið fyrir þar.
Það er flestra mat, að mál þetta hafi verið rekið af meira offorsi af hálfu ríkisvaldsins en nokkurt annað mál um langa hríð, og að dómur Sakadóms frá 1. des. sl. sé fíflskaparkóróna á það offors allt og beri réttarfari í landinu háðulegt vitni.
Bók sú, sem hér fer á eftir, er skrifuð í brotum og brotabrotum á þeim tíma sem málavafstur vegna Spegilsmálsins hefur staðið og í henni er greint frá hinum breytilegustu vangaveltum hins ákærða þann tíma. Tilgangur hennar er ma. sá að vekja fólk til umhugsunar um það, hvernig framkvæmd faga og réttar er háttað í landinu; hvort þegnarnir séu jafnir eða misjafnir fyrir fögunum; hvort í gildi séu fleiri en ein lög í þessu landi.
Og látin á þrykk út ganga til að láta á það reyna, hvort prentfrelsi, ritfrelsi og tjáningarfrelsi sé endanlega dautt og ómerkt orðagjálfur til skrauts í stjórnarskrá lýðveldisins.

I

Reykjavík og víðar 14da sept. `83 til 1 sta apríl '84.
Heill og sæll ævinlega, frændi minn!
Þú ert nú meiri ærslabelgurinn. Farinn til þess á gamalsaldri að reka mál fyrir himnafeðga gegn mér, frænda þínum, Speglinum og Samvisku þjóðarinnar vegna kláms og guðlasts og án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að komast í vistina hjá þeim þrátt fyrir þetta vafstur. Því sonurinn, Jesús, kenndi með fullu samþykki guðs föður síns almáttugs að auðveldara væri fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga en fyrir ríkan mann að komast í Himnaríki með stórum. Og þú sem ert svona fjári vel stæður. Hins vegar ertu búinn að gera mig fallítt með þessu og auðvelda mér þannig aðgang að himnaríkinu, og þakka ég kærlega fyrir það.
Nema !
Já, nema þú sért sá klækjarefur að ætla þér að tapa málinu og púnga sjálfur út með skaðabætur og málskostnað í stað ríkissjóðs, gera mig þannig að miljónera og vonlausan um himnaríkisvist, en standa sjálfur eftir öreigi og með aðgöngumiða að endalausri himnaríkissælu.
Það væri alveg eftir þér, annareins grallari og þú hefur sýnt þig vera.
Fjandi fannst mér mikið til þín koma þegar þú gekkst fram á mig á Laugaveginum á dögunum: Gráspengdur með svartan hatt í ljósbrúnum rykfrakka frá Guðsteini Eyjólfssyni, í gráum buxum og spegilfægðum skóm. Og þitt mikilúðlega andlit var svo bjart þrátt fyrir allan þann sæg af flóknum og margbrotnum hugsunum sem jafnan hljóta að eiga hug þinn allan.
Daginn eftir mætti ég þér aftur svona prúðum og fallegum í fasi. Og enn aftur daginn þar á eftir.
þá hugsaði ég :
"Get ég ekki hrekkt kallfjandann með einhverju lifandis móti hér og nú; rifið af honum hattinn og þeytt honum inn um dyrnar á Viktoríu hjá Pétri og Rúnu? Skellt honum á gangstéttina? Bitið hann á barkann?"
Og þegar ég átti hálft skref óstigið framan að þér ­og þú götumegin - hugsaði ég:
"Nú hrindi ég honum fyrir leið tvö - Grandi ­Vogar."
Heldurðu að svona þankagangur nái nú nokkurri átt? Enda gerði ég ekkert af þessu. Er ekki nógu kjarkaður til að hrinda í framkvæmd svo djöfullegum hugmyndum.
En því er ég að játa þetta fyrir þér að ljóst megi verða, bæði þér og öðrum, að það er sannarlega ekki nóg að leggja hald á það sem skrifað er, heldur er kominn tími til að fara að huga að löggjöf sem gerir ákæruvaldinu fært að leggja hald á hugsanir manna. Ég veit nefnilega til þess að menn og konur ganga hér um allan bæ, allt land, með ýmis konar lögleysishugsanir í kollinum, guðlast og jafnvel klámfenginn þankagang. Og það er ábyrgðarhlutur að láta slíkt viðgangast.
Annars urðu þessar voðalegu hugsanir mínar til þess að ég ákvað að skrifa þér bréf af snilld minni og andagift í stað þess að vera að hrekkja þig og kannski meiða. Á þessu sérðu að okkur frændum er ekki alls varnað.
Í þessu bréfi verður fjallað um alla skapaða hluti og óskapaða; þjóðfélagsmál, verðbólgu, hugaróra, ljóðrænu, glæpi og refsingu, íslenskt mál, klám, guðlast, bankamál, yfirhylmingar og fleira og fleira.
Og meira að segja um tónlist. En það geri ég nú bara til að stríða þér svolítið af því að ég veit að ekkert angrar þig meir en fagur sinfóníuhljómur eins og tillöguflutningur þinn frá borgarstjórnarárum þínum hér í Reykjavík vitnar um.
Svona hljóðaði upphafskafli bréfsins sem ég skrifaði þér síðast liðið haust og lauk við daginn fyrir réttarhöldin yfir mér fyrir Sakadómi.
Svo kom dómurinn; ég úrskurðaður klámhundur og guðníðingur og skyldi tugthúsast fyrir vikið; ég fékk ekki útgefanda að bréfinu, flosnaði upp og lenti á vergangi einmitt á sama tíma og skammdegið hvolfdist yfir og umlukti mig bikasvart, hnausþykkt og dauðakalt. Og allt lenti í helvítis undandrætti.
En nú er daginn tekið að lengja og þá léttir til í sálartötrinu og lengur hrýs mér ekki hugur við að endurskrifa bréfið til þín og einhverja smugu finn ég til þess að koma því á þrykk svo þú megir fá það í hendur.
Þrjóskan er ættareinkenni okkar eins og þú veist.

 II til IX

Þessir kaflar bókarinnar fjalla um ákærur vegna meints kláms í Speglinum og eru því ekki birtir hér.

X

"Eftir að þetta allt var skeð
einn pilsner Jesús drekka réð,
og hafði þá fengið fjóra."

 Meira þori ég ekki að birta þér af þessum kveðskap. Hvað þá að ég fari að bera það í þig hver hafi ort. Það er aldrei að vita upp á hverju þú kannt að taka. Þó get ég svo sem sagt þér að þetta er úr herlegum bálki; Jesúrímum. En svona láta nú mennirnir einu sinni með frelsara sinn og guðsson; hika jafnvel ekki við að sem ja ofan í hann áfengt öl í krossförinni.
Og góður er sopinn, satt er það.
Ekki þó endilega sá allrafyrsti. En eftir það sá fyrsti, svo ekki sé nú talað um annan og þann þriðja.
En úr því fer oft að þyngjast fyrir fæti, draga úr göfgi vínsins og glaðværð drykkjunnar.
Þá upphefst því miður ærið oft ofbeldi, rán, glæpir og morð.
Ofbeldi, rán, glæpir og morð.
Fyrir þessi orð sem fyrirsögn að greinarstúf í Speglinum hefur þú höfðað guðníðingamál gegn mér og lagt mig í fyrstu lotu. Á undan þessum orðum stóð sem yfirfyrirsögn: Afleiðingar altarisgöngunnar. Og síðan á meinleysislegan hátt fjallað um áhrif fyrsta sjússins.
Og þennan fyrsta sjúss fá flestir fyrir altarinu. Þar fékk ég minn.
Og ég var alveg kjaftbit á því hvað mér fannst hann fjandi góður!
Og nú sit ég hér, bílprófslaus, vegna ölvunar við akstur.
En auðvitað er ekki altarisgöngunni um að kenna. það vitum við báðir.
En því er ég að tala um þetta, að ég rakst á gamla úrklippu úr Mogganum þar sem sagt er frá framgöngu þinni sem saksóknara í svokölluðu Kötlufellsmáli.
Núna veit ég ekki hvers vegna ég hélt eftir þessari úrklippu. Hvort það var vegna þess að mér fannst gæta kvenfyrirlitningar í málssókninni hjá þér, eða vegna þess að mér fannst íslenska dómskerfið sýna það með dómi sínum í þessu máli, að það væri steinrunnið og ósveigjanlegt. Eða kannski vegna þess að ég hafi kennt í brjósti um þig, saksóknara ríkisins, að þurfa að krefjast þess að fólk sé svipt frelsinu til þess eins að hegna því fyrir orsakir sem það á ef til vill sáralítinn eða engan hlut að. þetta fólk stendur síðan uppi með afleiðinguna sem óafmáanlegan glæp að rogast með í huga og á herðum allt til enda hérvistarinnar.
Ofbeldi, rán, glæpir og morð.
Sex mánaða stúlkubarn er skilið eftir af móður og yfirgefið. Faðirinn kemur því í fóstur og til ættleiðingar til ofstækisfulls guðstrúarfólks, sem elur það upp í ofstæki og ógnarlegum strangleika. þroski þess vex lítið, skólanám gengur illa og það er tossi allan sinn skólaaldur og meðhöndlað sem slíkt af jafnöldrunum sem betur mega sín:
Ung stúlka í fiskvinnu. Óhamingjusöm á heimili þar sem ekkert má annað en trúa á grimman, tilfinningabrenglaðan og fúllyndan guð, sem hvorki leyfir fólki að dansa né brosa og alls ekki að syngja nema uppskrúfaða lofgerðarvellu um hann sjálfan.
Ung kona á karlmannsvegi. Vaknar til einhvers lífs sem hún veit ekki hvað er né hvað orðið geti. Tekur bónorði, eignast heimili og börn.
Fyrsti sjússinn. Annar. Þriðji. Dagar, vikur, mánuðir.
Þannig er karlmaðurinn í lífi þessarar ungu konu. Engin væntumþykja. Engin blíða. Engin ást. Heldur ofbeldi. Tilfinningarán. Kynferðisglæpir: Sálarmorð.
Allt þetta og ótalmargt annað dynur á konunni ungu. Hún örvilnast. Hún hefur reynt að slíta sig lausa án annars árangurs en þess, að ofbeldið eykst og hótanir um enn frekara ofbeldi þyngjast.
Loks gerist það. Afleiðing alls þessa. Íkveikja. Manndráp.
Og í vanmátta skilningsleysi spyr maður mann: Hvað annað?
En ríkissaksóknari uppi á Íslandi spyr ekki að slíku. Hann krefst þyngstu refsingar; sextán ára tugthúsvistar fyrir brennu og manndráp af ásettu ráði. Og leggur áherslu á það, samkv. Morgunblaðsfregn, að "hann minntist þess ekki að kona á Íslandi hafi áður verið ákærð fyrir að valda brennu, og ekki heldur að kona hafi verið ákærð fyrir manndráp ..."
Ja, það er munur að vera maður og míga standandi.
En ég vorkenni þér samt.
Ekki bara fyrir að þurfa að standa í því að krefjast óréttlætis yfir smælingjum í nafni réttlætisins, heldur ekki síður fyrir hitt, að þú skulir hafa svo mikið að gera við þessa iðju, að þú getir ekki gefið þér tíma til þess að fylgjast með því sem er að gerast í hinni lifandi veröld allt um kring.
Það gerðist nefnilega vestur í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, að sams konar atburður og að framan er greint frá átti sér stað. Drykkjuskapur, ofbeldi, rán, glæpir og morð og konan brenndi morðingjann lifandi. Alveg eins og hér heima.
Ríkissaksóknari þar vestra fór ekki fram á sextán ára tugthúsun. Og dómarinn sá og skildi; greindi á milli orsaka og afleiðinga og felldi dóm þann 3ja nóv. 1977, að konan skyldi sýkn saka vegna tímabundinnar geðveiki.
Og nú lifir kona þessi, Francine Hughes, friðsömu lífi; stundar skólanám og elur upp börn sín og hans dauðabrennda ofbeldismanns, drykkjuhunds og eiginmanns.
Og það þýðir ekkert fyrir þig að segja að aðstæður hafi verið ólíkar hér heima og vestur þar. Þetta eru sams konar mál.
Annað þar. Hitt hér.
Kaninn þar, og konan, sem stóð augliti til auglitis við afleiðingarnar, frjáls.
Þú hér og Hæstiréttur, og konan óhamingjusöm í tugthúsi, börnin í fóstri foreldralaus, og réttlætið ykkar fagnar enn einum sigri.
Því er ég nú að tuða þetta í þér, að ég vil endilega að þú takir þig á. Og reyndar þeir í dómstólunum einnig.
Fariði að gera ykkur grein fyrir samhengi hlutanna! það er algjört undirstöðuatriði, án þess munið þið halda áfram að fullnægja réttlætinu með röngum dómum og magna,með því illsku heimsins. Ekki bara í ykkar garð, heldur réttlætis og mannúðar. Spurðu sjálfan þig:
Hvar er að finna þann, sem á morgun verðskuldar það í einhvers huga að verða lifandi brenndur? Af hverju er hann þar sem hann er kominn? Get ég bjargað honum undan brennunni?
Fyrir hádegi er hann í grunnskóla, ef hann er kænn því hann vill ekki egna löggæslumenn þína á sig með því að skrópa stöðugt í skólanum. Eftir hádegi er hann á Hlemmi, eða í leiktækjasölum og á billjarðstofum. Þarna er hann líka á kvöldin, en á nóttunni er hann hér að þessu sinni og þar síðar; í mannlausum kjallara í Vesturbænum, yfirgefnu nausti við Ægisíðuna, opnum hitaveitustokki eða ólæstum bíl. Hann á hvergi heima; pabbi er fullur, atvinnulaus og óhamingjusamur í reiði sinni og mamma er farin eitthvað, hún var líka alltaf á skallanum.
Höfuðorsökin fyrir því að hinn brennda mann morgundagsins finnur þú á þessum stöðum er aldeilis kolvitlaus þjóðfélagsgerð. En vegna þess að ég veit að þú ert ekki byltingarmaður, verður aldrei og hefur aldrei verið, dettur mér ekki í hug svo mikið sem að nefna það við þig einu orði að taka þér ærlegt tak og hjálpa til við byltinguna og koma upp mannúðarþjóðfélagi án neyslubrjálæðis og eignaskyldu.
Nei, nei, nei.
En ég ætla að benda þér á hina meginorsökina. Hana geturðu upprætt sé einhver manndómur eftir í þér. Og það að óbreyttu þjóðskipulagi.
Hinn brennda mann morgundagsins er þarna að finna vegna þess að þar kemst hann yfir brennivín, sniff, hass, kókaín, heróín, ópíum. Því þarna koma leynivínsalar, dópmangarar og aðrir mannkynsbraskarar.
Hirtu þá.
Hirtu þá og komdu þeim til manns; og færri verða brenndir í hamstola réttlæti hins meidda og marða.
En nú kannski trúirðu mér ekki. Út af fyrir sig er ég ekkert hissa á því þar sem þetta eru mikil tíðindi og úr veröld sem þér er að mestu eða öllu ókunn; þetta er aldeilis annar menningarheimur en sérrýdrykkjuveröld góðborgarans.
Þannig var, að í sumar hnuplaði ég - já það er satt - greinargerð frá "starfshópi um fíkniefnamálið", dagsettri 16. maí 1983. Þetta var 10 manna hópur sem starfað hafði frá því í september árið áður en hann skilaði greinargerðinni, og hafði hluti hópsins starfað að athugun á málefnum æskufólks mun lengur. Þarna fer sum sé fólk sem veit hvað það syngur.
Þar sem mér er kunnugt um að hópurinn sendi þér ekki greinargerð sína, og ég reikna ekki með að þú gangir um hnuplandi eins og ég, ætla ég að leyfa þér að lesa nokkuð úr þessari greinargerð.
Þar segir á einum stað:
"Af starfi okkar með unglingum höfum við orðið þess vör, að neysla vímuefna hefur farið ört vaxandi undanfarið. Nú þegar er um tuttugu manna hópur unglinga, 13 ára og eldri, sem misnotar vímuefni nær daglega: Hluti þessa hóps er mjög langt leiddur og þarf á markvissri meðferð að halda. ...þörf þessara unglinga fyrir vímu er slík, að það virðist ekki skipta þau máli hvaða efni þau nota í það og það skiptið. Auk áfengis, kannabisefna, leysi- og úðunarefna (sniffefna) og lyfja, eru á stundum þyngri efni, s.s. önnur skynvilluefni (L.S.D.; S.T.P., englaryk o.fl.), kókaín, amfetamín, morfín og heroín í umferð meðal þeirra. Tvö síðast töldu efnin virðast okkur þó ekki algeng, enda mjög dýr þegar þau standa til boða og enn er framboð af þeim lítið. Ákveðin lyf eru mjög algengur og aðgengilegur vímugjafi og er okkur kunnugt um að unglingar mylji ýmsar pillur niður og sniffi þær þannig sem duft, eða leysi þær jafnvel upp í vökva og sprauti þeim þannig beint í æð. Síðast nefndu aðferðina eru unglingar einnig farnir að nota við áfengi, þ.e: að sprauta því beint í æð í stað þess að drekka það."
Á öðrum stað er lýsing á högum tíu ungra Íslendinga. Þar segir ma.:
"11 ára drengur, sem lengi hefur átt í ýmsum félagslegum erfiðleikum ... ... og hefur um nokkurra ára skeið verið viðriðinn ýmis konar afbrot. Misnotar nú ýmsa vímugjafa í töluverðum mæli, ... ... fjármagnar vímuefnakaup og spilamennsku sína með hnupli.
12 ára drengur, sem hvergi á raunverulegt heimili. Móðir hans er látin fyrir nokkrum árum og faðir er áfengissjúklingur. Hefur búið að nafninu til hjá ættingja, en einnig oft búið með öðrum unglingum í mannlausu húsi. Stundar skóla stopult og hefur á undanförnum árum neytt ýmissa vímuefna, þó einkum sniffefna.
13 ára stúlka sem býr hjá einstæðri móður og yngri bróður. ... ... hefur neytt flestra þeirra vímugjafa, sem aðgengilegir eru. Heldur öllum stundum til á Hlemmi og oft verið tekin af lögreglu fyrir óreglu og afbrot.
14 ára drengur sem var ákaflega virkur í skóla- og frístundastarfi þar til fyrir hálfu ári að hann fór að neyta sniffefna: Nú sniffar hann daglega og lifir eingöngu fyrir vímuna. Hverfur að heiman sólarhringum saman og er orðinn ofbeldishneigður og haldinn ofsóknarkennd.
15 ára drengur sem býr hjá einstæðri móður, sem er ekkja. ... ... s.l. ár hefur hann hellt sér út í neyslu alls kyns vímuefna. Er nú farinn að fá fráhvarfseinkenni (krampa og ofskynjanir) og hefur verið lagður inn á sjúkrahús vegna þessa.
16 ára stúlka sem er yngst af stórum systkinahópi. Móðir er látin fyrir allmörgum árum og faðir er áfengissjúklingur á gamals aldri. Hefur ekki átt fastan samastað frá því að móðir lést. Hefur neytt sniffefna í 7 ár, en álíka lengi misnotað róandi lyf, áfengi, kannabisefni og hugsanlega einnig heroín, þó að hún halli sér ætíð að sniffinu inn á milli. Hefur oft verið lögð á sjúkrahús vegna líkamlegra einkenna, sem eflaust má rekja til vímuefnanotkunar og einnig hefur hún fengið fóstureyðingu. Hún er ófær um að bera ábyrgð á eigin getnaðarvörnum, en er ákveðin í að ganga ekki aftur í gegn um fóstureyðingu."
Þarna sérðu svart á hvítu hvernig þið hafið brugðist við þjóðfélagsgerðina, hásætisfólkið.
En það er ekki of seint að iðrast fyrr en þá eftir dauðann. Láttu því hendur standa fram úr ermum meðan enn er tími til og gerðu eitthvað í þessu. Hjálpaðu þessu fólki. Þú hefur bæði völd og áhrif til þess arna. Þetta er aðeins spurning um vilja.
En gleymdu því ekki, að þó að megin hluta af ógæfu þessa fólks sé að leita í ómannúðlegri þjóðfélagsgerð, þá er oft upphaf ofbeldis, rána, glæpa og morða að leita í fyrsta sjússinum, hvort sem hann er tekinn undir augliti guðs fyrir altarinu eða annars staðar.

XI

Áttunda og níunda nóvember sl. skrifaði ég þér eftirfarandi austan úr Hveragerði;
"Um daginn skrapp ég upp í Sakaskrá til að kaupa sakavottorðið mitt fyrir 38 krónur, því ég vildi endurnýja passann minn. Svona til öryggis. Þá fyrst laukst það upp fyrir mér að þú ert þarna til húsa sjálfur með allt þitt lið; innanum sakaskrá landsmanna og uppi yfir kontór menntamálaráðherra.
-Jahéddna, hugsaði ég með sjálfum mér. -Við hverju er að búast? Ég sem hélt að kallinn hefði skrifstofu í húsakynnum Hæstaréttar, umvafinn réttlæti og réttsýni, en ekki afgirtur með sakaskrám uppi á þriðju hæð við Hverfisgötuna.
En þá skildi ég líka hvers vegna þú dreifir öllum þessum sakaskrám um réttarsalina.
Liðið pældi heilmikið í því hver hefði kært Spegilinn. Og eru margar getgáturnar. Ein er sú að múrararnir séu að koma á mig þakklætishöggi fyrir frímúrarabækurnar sem ég gaf út hér um árið. Aðrir halda því fram að landsölumennirnir, sem á sínum tíma gengu undir samheitinu VL-ingar, og söfnuðu undirskriftum um ævarandi hersetu á Íslandi, séu að koma fram hefndum fyrir minn þátt í því máli, þó svo þeir hafi náð fram rétti sínum með Hæstaréttardómi, þar sem kveðið er ma. á um, að aldrei skulu þeir kallaðir mannvitsbrekkur meðan þeir draga lífsandann hver og einn. Og ein kenningin er sú að sæmdarhjón nokkur, bæði í háum embættum, hafi hnippt í þig og fengið þig til verksins.
En þessu trúum við að sjálfsögðu ekki. Hvorugur okkar. Eða hvað?
Sjálfur sagðir þú mér þegar ég hringdi til þín 1. eða 2. júní sl. að elsti fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík hefði hringt í þig og bent þér á ólögmæti blaðsins. Þú hafir þá látið senda þér eintak; flett því lauslega, án þess að lesa, og kveðið upp úr með að hald skyldi lagt á upplagið allt.
Samkvæmt þessum orðum þínum ætti það að hafa verið Signý Sen sem var kveikjan að öllu þessu. En því trúi ég ekki. Ekki einu sinni þó svo þú segir það.
Ég vil ekki segja þig ljúga, en ég hef sterkan grun um að þú sért að plata.
Sjáðu nú til:
Þann fyrsta júní sl. er haft eftir þér í Tímanum: "Það er talið að efni og innihald þessa tölublaðs varði við hegningarlög. Í fyrsta lagi grein sem fjallar um klám og eins grein sem fjallar um ærumeiðingar ".
Þetta sagðir þú. Þá.
Svo leið tíminn fram eftir sumri. Þá birtir þú kæru þína.
Og sjá.
Engin kæra vegna ærumeiðinga. Þess í stað komin guðlastsákæra:
Skrýtið, ekki satt!
Nema þetta sé svona snjallt; rétt eitt kænskubragðið h já þér.
Ég held það þó ekki.
Og nú skal ég segja þér næstum því hvað ég held. En það verður bara að vera okkar á milli. Þú segir mér svo næst þegar við hittumst, hvort sem það verður í ættarboði eða einkasamkvæmi, hvað þér finnst um kenningu mína.
Hún er næstum því svona.
Það er hringt til þín. Það er þó ekki Signý Sen. Og við skulum láta það liggja á milli hluta hver það er, svona in persona. Í símanum er stórmenni/kona, sem telur sig ærumeitt og krefst aðgerða af þinni hálfu. Þú sendir eftir blaði. Flettir upp á tiltekinni síðu og sérð í hendi að vissulega geti viðkomandi persóna verið ærumeidd. Vissulega gæti það verið. Og þú fyrirskipar löghaldið.
Síðan breyttust viðhorfin hjá þeim sem hringdi. Þjóðfélagsstaðan breyttist. Eða kannski væri rétt að segja: Þegar reiðin var runnin af þeim sem hringdi rann það upp fyrir persónunni að stöðu sinnar vegna í þjóðfélaginu mætti hún ekki þykjast ærumeidd opinberlega.
Því. Já því að kæra vegna ærumeiðsla, þýðir að sá hinn meiddi þarf að koma fyrir rétt og greina frá því á hvern hátt hann telji æru sina meidda og nefna til dæmi því til sönnunar úr daglega lífinu; tíunda viðbrögð heimsins við meiðingunni og sýna fram á að hún hafi valdið viðkomandi bæði andlegum skaða og helst líka veraldlegum.
Og það gat þessi persóna ekki hugsað sér að gera. Og þá lagðist ekki bara þú undir feld heldur hún einnig.
Það var þá sem þið funduð upp þetta með guðlastið. Svona er guðskristnin í landinu órjúfanlega tengd feldum frá upphafi til vorra daga.
Það er það, Þórður karl".
Og áfram skrifaði ég austan úr Hveragerði og átti að vera lokakafli bréfsins, því ég hélt að mér tækist að koma þessu til þín í desember. Sem jólagjöf. Frá mér. Til þín.
"Ég beið.
Á kontórnum hjá lögmanni mínum, Sigurmari Albertssyni, sat ég og reyndi að gera mér þig í hugarlund þegar þú mætir til leiks fyrir Sakadómi í fullum skrúða. Þá gaukaði lögmaðurinn að mér ljósriti úr Hæstaréttardómum.
Og hvað heldurðu!
Er þar ekki kominn fyrsti og eini Hæstaréttardómurinn sem felldur hefur verið í klámmáli hér á landi.
Ákæruvaldið gegn bræðrunum Guðbergi og Hermanni Auðunssyni fyrir útgáfu á dónaplaggati. Dómur felldur fyrir rúmum 10 árum, eða þann 16. maí 1973.
Manstu ekki?
Saksóknari í því máli var Hallvarður, núverandi rannsóknarlögreglustjóri.
Og ég ætlaði ekki að trúa mínu skakka auga:
Hver sat ekki í dómarasæti annar en þú sjálfur, Þórður Björnsson:
Núverandi ríkissaksóknari.
Og kvaðst upp úr sem dómari: "Skuli ekki refsing gerð."
Húrra fyrir þér. þú hefur þó ekki verið smásmugulegur dómari. Það eitt er víst.
Jæja, kallinn. Ég hætti núna.
Sjáumst fyrir sakadómi.
Ég sakamaðurinn. þú saksóknarinn.
Á meðan bíða öll óleystu smámálin í kyrrð og rykfalli á kontórnum þínum niðri á Hverfisgötu, uppi yfir kontór menntamálaráðherra og innan seilingar frá kontór dómsmálaráðherra og forseta Hæstaréttar"
Auðvitað komstu ekki. Hefur sjálfsagt verið að dusta ryk uppi á þriðju hæðinni. Sendir þess í stað ungan mann og upprennandi að sækja fyrir þig málið.
Ég veit ekki fyllilega af hverju hugurinn fór að reika undir ræðu þíns manns. Ekki var það vegna þess að hann væri ekki nógu skörulegur, því þetta er vaskleika piltur. Kannski var það vegna dómaranna sem sátu svipbrigðalausir nema dómsforseti, Jón Abraham, sem sífellt var að fetta á sér andlitið og geifla með ótrúlegustu tilbrigðum við að bægja söltum svitaperlum frá því að komast í augun. Kannski var það vegna hins sæluríka svefns réttarþjónsins og háttbundinna hrota hans. Kannski, kannski. Ég veit það bara ekki. Enda skiptir það ekki máli.
Hugsaði. Páraði aftan á ljósrit af sakaskránni minni. Til þín.
"Heimskan er eins og eilífðin. Hún takmarkast hvorki af tíma né rúmi."
þannig mælti meistari Þórbergur. Og ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér eins og svo oft þegar hann sagði eitthvað.
Hugurinn fær ekki varist þessari setningu þegar ég hugsa til þjóðarinnar minnar, til liðsins sem hún velur sér til að fara með forsjá sinna mála, til alþingis og ríkisstjórna. Og mér sortnar fyrir augum þegar ég hugsa til þess hverja þessir merglausu stjórnmálamenn hafa valið sér til ráðuneytis eða erft frá fyrri stjórnendum; flokkar af sperrileggjum, sem þekkja ekki aðra lífsbaráttu en þá sem James Bond heyr og heimilisfólkið að Sotuhfork eða hvurn fjandann það nú heitir þarna suður í Dallasi.
Líttu inn á alþingi og leggðu við hlustir.
Það er sko skrýtin sjón og heyrn. Ekki vil ég taka frá þér undrunina með því að lýsa því hvað ég sé. Samt ætla ég að biðja þig að fylgjast með mönnum, sem halda að það fari saman að krafsa í gróðalindum fyrir sjálfa sig og að vera leiðtogar þjóðar, mönnum sem halda að hamingja þjóðarinnar mælist sem hlutfall af þeirra eigin vellíðan, mönnum sem halda að það fari saman að vera jafnaðarmenn og frímúrarar.
Og þegar þú leggur við hlustir, hlustaðu þá ekki einvörðungu á þá, sem trúa því að velferð þjóðarinnar ráðist af því hversu oft þeir sjálfir taka til máls og hversu lengi þeir tala hverju sinni. Hlustaðu ekki síður á þá sem þegja og reyndu að ráða í þögn þeirra.
Og þú munt undrast. Og segja við sjálfan þig: Hverslags eiginlega tilraunastarfsemi er þetta hjá honum guði?
Nema. Já, nema þú sért enn svo sannur framsóknarmaður í hjarta þínu, að þú skiljir ekki, heldur skynjir einvörðungu hamingju þeirra fjórtán frammara sem gleiðfættir spígspora um sali alþingis tilbúnir að skipta um skoðun við hvert fótmál. Þá náttúrulega skilurðu ekki neitt.
Og líttu á raðir embættismanna. Líttu við í Framkvæmdastofnun. Þar eiga að vera saman komnir mestu snillingar þjóðarinnar í fjárfestingum og ráðstöfun peninga.
Og hvað sérðu?
Rotna gróðapunga og spillta sérhyggjumenn. Þú sérð forstjóra sem lána fyrirtækjum sjálfra sín stórar peningafúlgur; forstjóra sem hiklaust eyða árslaunum tveggja Sóknarkvenna í heimsreisur til að skrifa undir pappíra, sem hægt hefði verið að staðfesta með símskeyti fyrir fjörutíukall; forstjóra sem láta gera sér svítur í húsnæði stofnunarinnar til þess að þeir geti í stærilæti tekið á móti erlendum mönnum, og boðið familíunni að borða með sér á helgum á okkar reikning; forstjóra, sem hafa tíföld laun Dagsbrúnarmannsins, bílastyrk og dagpeninga í reisum, en hika ekki við að koma með reikning fyrir gistingu, morgunverði og bjórkollu og krefjast endurgreiðslu.
Og þú munt undrast. Og þér mun ofbjóða. Nema, já, nema þú veist.
Réttarþjónninn er hættur að hrjóta. Jón Abraham vakti hann. Hroturnar trufluðu þinn mann í málflutningnum. Enda sagði hann undarlega setningu, þinn maður. Sagði: "Embætti saksóknara hefur ekki tök á að refsa öllum, Það hefur ekki nægan mannafla til að hreinsa markaðinn af klámi. En það veit af því á markaðinum. Og því var látið til skarar skríða. Og Spegillinn varð fyrir valinu."
Ég veit ekki hvers vegna ég er aftur farinn að hugsa um heimskuna. Hún er þó ekki saknæm. Ja. Eða hvað? Hvað með heimsku innbrotsþjófsins, drykkjumannsins, hundahaldarans og allra þeirra sem heimsku sinnar vegna fara ekki nákvæmlega eftir uppskriftinni? Já, hvað með heimskuna þá?
Hvað með heimskuna sem skaðar heilar þjóðir, efnalega velferð þeirra og andlega, sjálfstæði og virðingu? Hvað með heimsku þeirrar ríkisstjórnar sem hyggst koma upp kjarnorkuvopnahreiðrum í hverjum fjórðungi Íslands og kalla þannig yfir þjóðina meiri tortímingarhættu en nokkra aðra Evrópuþjóð; þeirrar ríkisstjórnar sem eflir óhamingju þjóðar með því að færa félagslega réttindastöðu hennar aftur um þrjátíu ár eða meir; þeirrar ríkisstjórnar sem lækkar svo laun fólksins í landinu að stór hluti þess er settur á þröskuld hungurs og örbirgðar á meðan ráðherrar slíkrar ríkisstjórnar rækta með sér fordild og aka um á niðurgreiddum lúxuskerrum með einkabílstjórum, kosningasmölum eða hestahirðum, og hjalandi hver við annan í bílasíma?
Getur það verið að einungis sum heimska sé saknæm en ekki önnur? Þeim mun minni heimska þeim mun saknæmari, því meiri ...?
Er kannski magnafsláttur af heimskunni? Blessaður góði pældu í þessu og sendu mér skrá yfir lögmæti heimskunnar. Hver veit nema þú mundir með því spara þér umstang og amstur mín vegna. Svona í framtíðinni.
 

XII

Hefurðu tekið eftir því hversu skortir á um samhengi í atburðarásinni í lífinu?
Atvikin eiga sér stað án nokkurra tengsla innbyrðis; eitt hér, annað þar; stórbrotin, ógleymanleg og ævarandi eða smávægileg og svo ómerk sum að maður gleymir þeim jafnóðum. Sum raða sér samstundis upp í samfellu, önnur falla að gleymdri mynd í hugskotinu sem framhald löngu liðinna atburða án þess nokkur rök séu fyrir því að framhaldið sé einmitt þetta og þá þennan dag en ekki einhvern annan, jafn rakalaust og þegar upphafsatvikið skaust inn í raunveruleikann án þess að gera boð á undan sér.
Sum atvik eiga ekki heima í nokkurri atburðarás, sem hafin er; standa ein og munaðarlaus í gjörningahríð lífsins. Gleymast sum, önnur ekki og eiga ef til vill eftir að verða upphaf einhvers.
Og það er lægð yfir landinu. Dumbungsveður.
þá kreppir að sálartötrinu og fram í hugann koma nokkur hinna munaðarlausu afríka, sem enn hafa ekki öll orðið að hlekk í keðju atburðanna.
Og ég set þau á blað til að gleðja þig:
Einn fyrrverandi sýslumaður bankaði uppá hjá mér í Grjótó á dögunum. Hann sagði til nafns eins og kurteisum manni sæmir og bar upp erindið þegar ég hafði boðið honum til stofu.
"Ég rakst á þetta í DV-inu á dögunum," sagði hann og rétti mér hálfa dagblaðssíðu með hópmynd af konum. Textinn við hlið myndarinnar hófst á þessum orðum:
"Á annað hundrað konur úr hestamannafélaginu Herði í Mosfellssveit fóru í sína árlegu kallalausu hópreið fyrir skömmu."
"Geturðu ekki notað þetta í Spegilinn," sagði yfirvaldið fyrrverandi, skaut síðan fram höfðinu, lækkaði röddina og horfði ísmeygilega á mig: "Áttu ekki bannaða blaðið handa mér. Ég er sko safnari. Krónískur. Eins og Þórður."
Ég átti eitt.
Hann fékk það og fór glaður.
Mér hefur áskotnast eitt og eitt blað af tugthúsaða Speglinum. Ég hef selt þau í algjöru blygðunarleysi til ýmissa manna á hundrað kall. Og það er langur biðlisti: Ráðherrar, bankastjórar, eyrarkallar, fyrrverandi þetta og hitt, lögfræðingar og dómarar. Og þeim ber saman um að þetta sé ekki lögbrot, mér sé heimilt að selja eigur mínar. Því hef ég ekki af þessu nokkurt samviskubit, og alls ekki eftir að ég frétti að löggan gerði slíkt hið sama. Nema á mun hærra verði.
Oft sit ég á kaffihúsum þessa dagana. Og við bari. Á dögunum sat ég uppi á Mensu. Það er viðkunnanlegur staður. þangað ættir þú endilega að skjótast þegar þú átt leið um Lækjartorg.
Þar sem ég sit og horfi út í loftið brunar inn tæplega tvítugt ungmenni, skimar í kring um sig, tekur stefnuna á mig, réttir mér bréfsnifsi, snýr við og gengur út við svo búið. Á snifsinu stóð:
"Ég er innbrot." Ekkert annað. Ég sat áfram, ósnortinn. Inn kom ung, tveggja barna fráskilin móðir. Hún fékk sér kaffi og settist hjá mér. Sagðist vera hætt í vinnunni. Bossinn hefði boðið sér launahækkun ef hún vildi "leyfa mér að ríða þér tvisvar í viku," eins og hann orðaði það við hana. Hún sagðist vera búin aðfá vilyrði fyrir annarri vinnu þar sem launin væru 11 þúsund á mánuði og bossinn náttúrulaus. Hún sagði að vissulega næði hún aldrei saman endum fjárhagslega því hún þyrfti að borga 7.500 í húsaleigu, þúsund kall í strætó fyrir sig og dæturnar, þúsund kall í húsgjöld, rafmagn hita of I. Eitthvað þyrfti hún að borga fyrir mat og klæði, en símanum var hún búin að farga. "Ég get ekki einu sinni hringt í Blazerinn til Steingríms og spurt hann hvað hann sé að gera fyrir mig," sagði hún og brosti þrátt fyrir allt.
Það er mergur í beinunum á svona konum.
Rétt í því hún lauk máli sínu kom ungmennið inn aftur, það sem fært hafði mér bréfsnifsið áður. Nú gekk það fumlaust að borðinu til okkar og spurði:
"Afsakið, þér eigið þó ekki tannstöngul?
Og rauk á dyr án þess að bíða svars. En sneri við í dyrunum, gekk til okkar og hvíslaði stundarhátt:
"Að skiptast á sköpum.
Að skipta sköpum. Skyggnst um af skapabrún." Og fór við svo búið.
Konan sagði mér að hún kannaðist við þennan dreng. Og sagði mér sögu hans. Hún er mjög svipuð sumum þeirra, sem starfshópur um vímuefnamálið segir frá í skýrslu sinni.
Og aftur og aftur spyr maður sjálfan sig að því til hvers þetta sé nú allt saman.
þú veist að á börum danshúsanna er markaður holdsins. Þar er fátt sagt af viti enda örvænting mikil meðal lýðsins. Þarna er ég oft.
Á einum slíkum bar, sem reyndar er ekki danshúsabar, heldur léttvínsknæpa, hitti ég fyrir frægan lögfræðing, kófdrukkinn. Hann tilkynnti mér óforvarendis að ég væri útskúfaður og fordæmdur með öllu af ættingjum hans sem eru hvorki meira né minna en öll helstu stórmenni landsins. Útskúfunin væri fyrir það hversu klámfenginn ég væri, hversu mikill guðníðingur og ærumeiðari. Hann bar þig fyrir þessum staðhæfingum öllum um mína persónu.
Svo söng hann einhvern góðskáldakveðskap um fegurð landsins og náttúrunnar.
Mælti síðan:
"En þú ert fyrst og fremst útskúfaður, úthrópaður og ævinlega afmáður af mér og mínu fólki fyrir það, hve lélegur húmoristi þú ert. Ég skal kenna þér húmor."
Svo þuldi hann blautleg kvæði, ærumeiðandi ummæli og karlrembusögur um yfirnáttúraða kvennamenn. Lauk máli sínu með eins konar falsettu sem kom utan og ofan úr alheiminum og gekk þvert á allt og án nokkurs samhengis við það sem áður var sagt og kveðið:

"Illa líst mér á þann hrút
dável þótt hann dafni.
Hann dregur annað augað í pung
og glennir upp kjaftinn."

Svo sofnaði hann með höfuðið ofan í klofi.
Þetta heitir að vaða úr einu í annað; eins konar minningabrot af hverfisknæpum, eins og Stefán Jón Hafstein orðaði það. Og held því áfram um leið og ég bið þig að gleyma ekki þjóðinni þinni, gleyma ekki að hlusta á hana, horfa til hennar og ganga til fundarvið hana svona endrum og sinnum svo að þú verðir ekki i trénun kerfisins að bráð. En það sem á eftir fer af þessum kafla er jafn mikið úr tengslum við allt og allt og annað sem i honum er að finna, og jafn samhengislaust og mannlífið í þessu óbyggilega landi okkar:
Ég var staddur á Írlandi. Fararstjóri með lítinn hóp og góðan. Þar í var uppflosnaður bóndi ofan úr Borgarfirði, Þorvaldur Þorvaldsson, þá orðinn hnífabrýnari í frystihúsi á Akranesi og kona hans yndisleg, Sigríður. Þorvaldur er sögumaður góður og kvæðamaður. Hann flutti drápu á tónleikum hjá Wolfe Tones í hverfisknæpu suður í Dyflinni þann 17da júní 1981.
Eitt sinn sagði Þorvaldur við mig:
"Heyrðu Þú sem þekkir Guðmund Hjartarson mátt til með að heyra hana þessa. En þú mátt ekki bera mig fyrir henni:  Eitt sinn var Guðmundur við nám í Reykholti í Borgarfirði. Í leikfimitíma henti hann óhapp.  Varð þá einum skólabróður hans, Erlingi Jóhannessyni á Hallkelsstöðum, að orði: 

Gvendur Hjartar hreyfði sig

heldur skarpt í æfingunum:

Skýlan svarta, minnir mig,

missti út part af kynfærunum

Þorvaldur og Sigríður búa enn á Akranesi og höfðu það gott þegar ég síðast vissi.
Og það er eins og ég geti bara ekki hætt þessum vaðli. Því hvað heldurðu að ég hafi farið að gera?
Ég fór að lesa í Biblíunni.
Ég veit að þetta kemur þér á óvart, en sannleikurinn er sá, að ég hef líklega oftar og meir lesið í henni en nokkurri annarri bók. Enda bráðskemmtileg, fyndin, erótísk, ljóðræn og dramatísk, yfirfull af hroka og hrottaskap, blíðu, mannkærleik og spennu.
Í þetta sinn fletti ég upp í guðsspjöllunum, þó þau séu óneitanlega leiðinlegasti hluti Biblíunnar.
Og lenti á þessu:
"Vei yður líka þér lögvitringar, því að þér íþyngið mönnum með líttbærum byrðum, og sjálfir snertið þér byrðarnar ekki með einum fingri." (Lúk.11.46.)
Datt í hug:
Hvað mundi þórður frændi minn vilja láta gera við þann Íslending sem kæmi vaðandi inn í sal Hæstaréttar, otaði fingri að forseta réttarins og dómurum öðrum; og hrópaði að þeim þessi orð úr Lúkasi?
Hvað finnst guðslagavörðum dagsins í dag um slíka ásökun?
Og svo fór ég að hugsa um samhengi hlutanna.

XIII

Valdsmenn tímanna hafa aldrei verið í vandræðum með að koma lögum yfir þá þegna sína sem vegið hafa að kerfinu og hornsteini þess, guðsdýrkuninni:
Höfðað gegn þeim guðlastsmál. Og unnið þau. Sjálfsagt er vesturlandabúum minnisstæðast guðlastsmálið: Ákæruvaldið gegn Jesús K. Jósefssyni, heimsspekingi frá Nasaret.
Saksóknari Gyðingalands, Heródes, vann að sjálfsögðu málið gegn Jesúsi og fékk hann dæmdan. Til dauða.
Svo krossfestu þeir hann. Fyrir guðlast.
Áður drápu valdsmennirnir Sókrates á eitri fyrir sömu sök. Síðar brenndu þeir heimsspekinga á borð við Giordano Bruno og Johan Huss á báli. Að sjálfsögðu voru þeir lifandi áður en kveikt var undir.
Og ég leita í huga mér. Get engan fundið sem í dag vildi mæla þessum dómum bót.
Ég gruna þig ekki einu sinni.
Ég er fluttur úr Grjótó. Búinn að selja. Hafurtaskið hér og þar. Ég hér. Á City - hóteli. Við Ránargötuna, held ég. þú enn þá heima hjá þér.
Og ég er að gramsa i þessari tösku sem ég hafði með mér. Athuga innihaldið. Hvað skyldi ég hafa haft með mér á þetta gistihús?
þrennar nærbuxur, fjölmargar Alþingisbækur uppfullar af fornum dómum, allar skyrturnar mínar fjórar, þrenna sokka, bókina "VÖRN í guðlastsmálinu - Íhaldsstjórnin gegn Brynjólfi Bjarnasyni;" Jesúrímur, eitt bindi og Óljóð Jóhannesar úr Kötlum. Og miða, sem er dagsettur í júní 1983. Þar stendur: Hitti Lúðvík Aðalstein Jósepsson frá Neskaupstað. Hann sagði: Auðvitað taparðu málinu. Það verður allt að lögum í höndunum á þessum mönnum. Skyldi ég nú vita það.
Og annan miða. Þar stendur þetta:

 Eg er þyrstur eins og Kristur forðum,
hvar hann gisti hátt í tré
hafandi list á edike.

Og merkt höfundi sem þú myndir aldrei þora að höfða mál gegn fyrir guðlast, einum stórsnillingi íslenskrar tungu.
Veistu það, að enn þá hefur Hæstiréttur ekki fjallað um ákæruatriði vegna guðlasts? Aðeins Alþingi og undirréttur. Lítum á nokkra dóma.
Fyrst þarftu samt að rifja það upp fyrir þér, að valdhafar árhundraðanna hafa jafnan sannfært fólkið um að þeir hafi þegið vald sitt frá guði, og að guð allra tíma hafi verið hefnigjarn og harðdrægur væri brotið gegn honum og eða umboðsmönnum hans á jörðinni. Því var guðlast hinna óupplýstu herskara fortíðarinnar álitið afbrot gegn drottni almáttugum og hefnd hans og refsing bitna á gjörvöllu samfélagi guðlastarans ef ekkert væri að gert. Því varð samfélagið sjálft að refsa guðlastaranum harðlega til að fría sjálft sig refsingu almættisins. Þessi trú fólksins var ein ólin í hnútasvipu valdhafanna, helvítiskenningin önnur, auðmýktarkenningin sú þriðja og síðan hver af annarri sem allar miðuðu að því að halda lýðnum í skefjum með fáfræði og hræðslu. Þess vegna, meðal annars, var Hjalti Skeggjason dæmdur fjörbaugsmaður fyrir vísuna:

Spari ek eigi goð geyja!
Grey þykki mér Freyja;
æ mun annar tveggja
Óðinn grey eða Freyja.

(BrennuNjáls saga, Einar ÓI. Sveinsson gaf út 1954)
Þetta var meiriháttar guðlast. Goðgá hét það reyndar þá: Freyja sögð vera tík og Óðinn hommi. Þessi vísa er enn kennd í skólum landsins. Og nú hefur Ásatrúarsöfnuður verið stofnaður í landinu og fengið löggildingu. Ber þér ekki að beita þér fyrir því að vísa þessi verði strikuð út úr námsbókum, því svo sannarlega særir hún trúarvitund ásatrúarmannsins? Eða hvernig heldurðu að þér þætti að hafa ámóta vísu fyrir hverju mannsbarni þar sem sagt væri að María mey væri bara tík og guð almáttugur kynhverfur eins og það heitir í dag?
En áfram með dómana.
Á dögum frumkristninnar í landinu, kaþólskunnar, sá kirkjan sjálf um guðlastsdóma. Guðlastarar voru settir í bann og út af sakramentinu og með því dæmdir til eilífrar helvítisvistar eftir dauðann og frá allri kirkjulegri þjónustu í lifanda lífi.
Það er ekki fyrr en um 1640 að alþingisdómur er felldur í guðlastsmáli. Þá var Sveinn skotti Axlar Bjarnarson strýktur stórkostlega fyrir guðs orða og sakramentanna foraktan og óráðvendni sína.
Í Alþingisdómi frá 1682 var Sigurður Jónsson, hlaupastrákur úr Rangárþingi, dæmdur til hýðingar eftir konungsbréfi fyrir guðlast og kirkjuníð.
Og það eru ekki nema 299 ár síðan þið brennduð mann fyrir guðlast. Þetta var Halldór nokkur Finnbogason, sem í uppreisn sinni gegn ofríki valdsins hafði snúið faðirvorinu upp á andskotann með þessu móti:
  "Skratti vor, þú sem ert í Víti. Bölvað veri þitt nafn. Tilkomi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem í Víti. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér fyrirgefum vorum skuldunautum." (Úr Alþingisbók nr. 8, Ísafoldarprentsm. 1949.)
Við svo búið lét Halldór ekki staðar numið. Skriftarganginum sneri hann og upp á andskotann og hófst þannig:
"Minn kæri og verðugi skratti. Ég bið þig gjarnan að heyra mína játning og hugga mig með Satans orði og segja mér mína syndarfyrirgefning í djöfuls nafni." (Úr sömu bók.)
Um "Kristi blessuðu kvöldmáltíð" sagði Halldór "að sér smakkaðist betur lýs og þeirra blóð heldur en berging brauðs og víns í sakramentinu." (Sama Alþbók.)
Og áfram hélt Halldór. Í margvitnaðri Alþbók segir á bls. 59:
"Í fjórða máta fram kemur, að Halldór hafi snúið þeim góða sálmi: Eilífur guð og faðir kær, á þennan hátt: 

"Eilífur skratti og faðir kær
án upphafs alls og enda.
Á þig aleinan trúum vær,
sem helvízk skrift oss kennda.
Að hafir þú fyrir þinn hæsta kraft
himinn og jörð af engu skapt
og skepnur allra handa.
Ég trúi svo á Sathan víst."

Þetta allt úrskurðuðu kollegar þínir frá þessum tíma sem fullkomna afguðadýrkun og guðlöstun.
Og "...að heilags anda náð tilkallaðri, að hértéður aumur mann, Halldór Finnbogason, skuli sem opinber guðlastari og helgidómsins forsmánari á lífinu, straffast með soddan aðferð, að kroppurinn í eldi brennist,..."
Þessi dómur hlýtur að hafa fallið guði almáttugum vel í geð. Í það minnsta er ekki frá því greint að heilagur andi hafi verið með nokkurn uppsteyt vegna hans og ekki sérálit né atkvæði.
Ég ætla út að fá mér bjór að sötra í bjórbönnuðu landi. þú veist að seldur er sæmilegasti bjór, 4,5% að styrkleika, hér niðri í Tryggvagötu. Það ku vera löglegt af því að þeir hella viskíi saman við pilsner eftir ákveðnum kúnstum, hella síðan miðinum yfir á draftkúta og maður getur alveg ímyndað sér að maður sé að drekka alvörubjór eftir að hafa horft á hann svona gullinn og freyðandi fylla kolluna.
En það er slydda og ég nenni ekki í bjórinn. Sest þess í stað í gestamóttökuna og bið um kaffi. Ætla að lesa blöðin. En þá er þar ekkert að hafa nema gamlan Mogga, svo ég bara sit og sötra kaffi.
Og læt hugann reika.
Man þá eftir því, að einn fyrrverandi næturvörður á þessu hóteli, sagði mér eitt sinn frá því, að ágætur sýslumaður og dómari hefði verið þar reglulegur gestur. Gisti sýsli alltaf í einu tilteknu herbergi í bæjarferðum sínum. Hann var reglusamur maður og röggsamur heima í héraði, en drykkfelldur og kvensamur í borginni. Oftar en ekki átti hann það til; þegar kynsvalls- og drykkjuveislur hans stóðu sem hæst, að birtast nakinn í gestamóttökunni með embættishúfuna á höfðinu, og krefjast einhverrar þjónustu af næturverðinum. Heimtaði að hann væri ávarpaður "herra sýslumaður" og brást ókvæða við öðru ávarpi.
Svo kom sýslumannsfrúin. Jafnan á fimmta eða sjötta degi bónda síns í borginni. Stormaði inn á hótelið, sigldi upp stigann án þess að kasta kveðju á nokkurn mann, hreinsaði herbergi bónda síns af saurlífisfólki, svæfði sýsla og hélt svo með hann rænulausan af timburmönnum og næfurþunnan heim í hérað 12 tímum síðar.
Alltaf sama rútínan upp aftur og aftur. Og er enn.
Þrjár manneskjur koma inn af götunni. Drukknar. Tveir karlmenn, ein kona: Það er sláttur á karlmönnunum, og þeir reyna að gantast við stúlkuna sem afhendir þeim herbergislykilinn. Hún kann á þeim lagið og þeir halda upp í herbergi með konuna á milli sín; óstöðuga á grönnum fótum og hallar undir flatt með gulgrátt hár skrúfað upp á hvirfilinn og er eins og hrakin heysáta ásýndum.
Ég fer líka upp. Sest í stól og hripa þér línu. Bara það sem kemur í hugann. þá er útvarpið á og verið að fara með orð kvöldsins. Bænarorð. Man þá eftir að hafa heyrt á slíkri helgistund útvarpsins þessi orð: Sá sem trúir á mig kemur ekki fyrir dóm. Og haft eftir Jesúsi Kristi. þetta er ég viss um að Jesús hefur aldrei látið sér um munn fara. Hann kenndi aldrei neitt í þá veruna, að menn ættu að losna við einhver óþægindi fyrir kunningsskap við sig, hvað þá í gegn um klíku. Og þar sem þú ert nú farinn að vasast í guðfræðinni á annað borð, ættirðu að sjá svo til að menn séu ekki að guðlasta með þessum hætti í ríkisútvarpinu og beri svo Jesús karlinn fyrir vitleysunni í sér. Hann á það inni hjá þér.
Oft reyni ég að hlýða á messur og predikanir í útvarpinu. En fyrr en varir er hugurinn floginn út um víðan völl. Einhvern veginn tekst þessum predikurum ekki að halda mér við efnið; helst þó Einar í Fíladelfíu og þá vegna eldmóðsins. En það er eins og þjóðkirkjuprestarnir þínir standi í andlegri eyðimörk og fái aldrei reist rödd úr sandinum hvað þá hafið hana til flugs með stórum hugsunum, rífandi samlíkingum eða ávítandi umvöndunum.
Þetta er mikið böl ykkar Kristna dóms.
Í einni messu sem ég hlýddi var verið að skýra hvítvoðung til guðskristni. Hann hrein vegna alls þessa umstangs. Hrínið jókst meðan farið var með trúarjátninguna, og grenjaði af lífs og sálar kröftum þegar farið var með faðirvorið yfir honum.
Hrín hvítvoðungsins hafði þau áhrif á prest; að hann flutti trúarjátninguna með sívaxandi hraða, og voru kirkjugestir orðnir viðskila við hann undir lokin og hver á sínum stað í játningunni. Og faðirvorið hespaði hann af í djöfulmóð.
Síðar las ég það í blaði að þegar prestur var kominn í pontu, hafi hann starað svo ógnþrungnum augum á nýskírt barnið að foreldrarnir hrökkluðust með það út úr kirkjunni. Aðspurður hvers vegna hann hafi gert þetta svaraði prestur og var eftir honum haft í blaðinu: Barnið hafði truflandi áhrif á messugjörðina.
Leyfið börnunum að koma til mín, sagði Jesús K. forðum. Og allir vita hvernig fór fyrir honum. Enda var hann ekki prestur, heldur dæmdur guðlastari.
þeir voru að ljúka kirkjuþingi. Og töluðu um Spegilinn. Mest þeir sem ekki höfðu séð hann né lesið í honum orð, en vegna yfirlýsingar Biskupsstofu frá í sumar um að hún hefði ekki átt neinn þátt í upptöku blaðsins.  Svo létu þeir biskupinn vitna; hann styddi sko ekki við bakið á þeim sem flyttu afsiðandi efni og sjálfur skyldi hann verða síðastur manna til að mæla guðlasti bót.
Ja, þakka skyldi nú.
Þessi yfirlýsing biskups þótti framsóknarmönnum svo merkileg, að málgagn þeirra, þitt og kirkjumálaráðherra, Tíminn, birti hana þrjá daga í röð. Í öll skiptin undirrituð af sama manni. Guðfræðinema, sem segist vera róttækur í þjóðfélagsmálum. Hins vegar flokka ég hann með þeim mönnum sem sjá hag sínum best borgið með því að míga utan í sósíalíska hreyfingu; menn sem ég kalla tækifærissósíalista: All fjölmennur hópur og áhrifamikill í þjóðfélaginu, því metnaður einstaklinganna innan hans er með ólíkindum; menn sem kunna ekki að gefa en þeim mun betur að þiggja.
Og nú, á vetrardögum, hefur þessi guðfræðingur, blaðamaður og tækifærissósíalisti verið vígður og smurður drottins þjónn og hefur með andlega forsjá safnaðar að gera.
Svona er guð nú góður við sína menn.
En ég sat sem sagt í herbergi á City-hóteli og beið 1sta des. Tók upp vörn Brynjólfs Bjarnasonar í guðlastsmálinu sem höfðað var gegn honum árið 1925. og las.
Eins og þú manst var Brynjólfur kærður fyrir orð sem hann viðhafði í blaðadómi um Bréf til Láru eftir meistara Þórberg. Í reyndinni voru þau hin sömu orð, og mörg óguðlegri, úr bók Þórbergs. Hin kærðu orð voru, samkv. texta ritdómsins:
"Íslendingar hafa löngum verið nokkuð treggáfaðir og einfaldir gagnvart kúgurum sínum; þeir eru orðnir þeim svo vanir, eins og hægt er að venja menn frá blautu barnsbeini að elska og virða guð almáttugan, þó að allir eiginleikar hans sjeu útskýrðir ítarlega og menn gangi þess ekki gruflandi, að hann sje ekki annað en hjegómagjarn og öfundsjúkur harðstjóri og óþokki."
Þetta var kæruefnið. En í rauninni snerist málið um allt annað. Valdastéttin var að ná sér niðri á Brynjólfi fyrir framgöngu hans í svonefndu Krossanesmáli. það snerist um yfirhylmingar landsstjórnarinnar yfir forstjóra síldarbræðslunnar í Krossanesi (og sjálfsagt söltunar einnig), en hann hafði notað svikin mæliker við löndun á síld úr bátunum, og þannig hlunnfarið sjómenn í stórum stíl. Og Brynjólfur hafði gengið manna harðast fram í að upplýsa þetta svikamál og ná rétti sjómanna.  En fyrir að var ekki hægt að sækja hann til saka og því var fundið upp guðlastsmálið, það rekið af offorsi og með ótrúlegum fölsunum dómara, hártogunum og vífillengjum, og Brynjólfur dæmdur í undirrétti til að hljóta 30 daga fangelsi, skilorðsbundið fyrir æskusakir.
Sjálfur segir Brynjólfur á einum stað í formála fyrir vörn sinni um dóminn og afleiðingar hans:
"Sjálfur tel jeg þennan málamyndadóm ekki þess verða n að eyða tíma, fje og fyrirhöfn til að áfrýja honum.
Óneitanlega er mál þetta skrípaleikur, enda er ekki laust við, að bæði jeg og aðrir hafi hent dálítið gaman að. Rjettvísin fyrir hönd guðs almáttugs gegn Brynjólfi Bjarnasyni. En það hefir verið mjer dýrt spaug. Íslenska íhaldið kann sjer ekkert hóf í ofsóknum sínum; mál þetta hefir verið notað sem átylla til þess að bægja mjer frá kennslu í náttúrufræði við Menntaskólann."
Ef nokkur döngun hefði verið í réttvísinni hefði hún átt að höfða guðníðingarmál gegn Brynjólfi fyrir formálann að vörn hans og útgáfu varnarinnar. En það gerði hún að sjálfsögðu ekki, því við málareksturinn yfir honum missti hún allt niður um sig, og hefur sjálfsagt þótt góð að sleppa með allt á hælunum.
Ég má til með að leyfa þér að sjá nokkrar tilvitnanir í skrif Brynjólfs um þetta mál; vegna þess að ég veit að bók hans er ófáanleg á markaðnum, og þú ert mikið fyrir safaríkan texta.
Í formála segir Brynjólfur á einum stað:
"Trúarbrögðin eru ópíum fyrir fólkið" (Karl Marx). Trúarbrögð, áfengir drykkir og eiturgas eru vopn hinnar ríkjandi stjettar. Trúarbrögðin svæfa skilning hins vinnandi lýðs og vilja hans til varnar. ­Í heitum löndum eru til leðurblökur, sem sjúga blóð úr sofandi mönnum og skepnum og nefnast vampýrar. Trúaður og fáfróður verkalýður er lífsskilyrði hinnar ríkjandi stjettar eins og sofandi bráð er lífsskilyrði vampýranna. Trúarbrögðin kenna mönnum að vera ánægðir með sitt hlutskipti og að sá guð sje góður, sem hefir verið gerður að verndara íhalds og afturhalds, hins illa og úrelta á jörðinni. Guð borgaranna hefir sömu rjettindi og konungar þeirra. Konungurinn er friðhelgur fyrir lögunum, honum er heimilt að drýgja glæpi. Guð er friðhelgur fyrir mannlegri skynsemi og mannlegum siðferðisreglum, fólskuverk hans og hryðjuverk verðskulda auðmýkt og lotningu, tilbeiðslu og aðdáun."
Í vörn sinni vitnar Brynjólfur jöfnum höndum til Biblíunnar, heimsbókmenntanna og veraldarsögunnar máli sínu til stuðnings.
Um grimmd og vonsku valdhafanna í guðsnafni, segir hann á einum stað í vörninni:
"Eftirfarandi ritningargrein var ekki ónýt: "Sjer hver maður sje yfirboðnum valdstjettum hlýðinn; því ekki er nein valdstjett til nema frá Guði, og þær sem til eru, eru skipaðar af guði; svo að sá; sem veitir valdstjettinni mótstöðu, hann veitir guðs tilskipun mótstöðu; ..." (Róm. 13,1-2).
Nikulás páfi V. segir í brjefi til Alfons konungs í Portúgal 1459: "Í krafti vors postulega embættis gefum vjer yður hjer með frjálst og ótakmarkað umboð til að selja Serki, heiðingja og aðra vantrúaða í eilífan þrældóm." "
Það er eins og þarna stendur: þau eru ekki ónýt fyrir ykkur trúarbrögðin. En nú sítera ég ekki meir í Brynjólf; reyndar er það synd og skömm að vörn hans skuli ekki vera skyldulesning í skólum landsins til jafns við lestur á Biblíusögum.
Síðar varð Brynjólfur menntamálaráðherra í Nýsköpunarstjórninni, sem svo var nefnd. Í forsæti fyrir henni var Ólafur Thors, og segir sagan, að Brynjólfur hafi nefnt það við Ólaf, að sig langaði til að fá kirkjumálin í sínar hendur. Á þá að hafa komið hik á Ólaf, en síðan hafi hann svarað og glott við: "Nei, það þori ég andskotann ekki".
Þetta er löng nótt. Ég dotta af og til í stólnum. Les þess á milli. Skyndilega er ég glaðvaknandi og augun stara á þennan danska texta úr lögum Kristjáns fimmta um það hvernig skuli refsa guðlösturum: "...hannem skal Tungen levendis af hans mund udskæris, dernæst hans Hoved afslagis og tillige med Tungen settis paa en Stage".
Og úr eiði frímúrara drynja þessi orð í eyrum mínum:
"... sver ég hátíðlega að gæta án undanbragða, tvímælalaust og án þegjandi undanskots af nokkru tagi að viðlagðri ekki minni refsingu við broti, en að verða skorinn á háls, tungan rifin úr mér með rótum, ..." "Svo hjálpi mér guð og haldi mér staðföstum við þessa mína miklu og hátíðlegu skuldbindingu ...".
þessi eiður, svo ótrúlega líkur miðaldalögum danska kóngsins, er svarinn enn þann dag í dag. Af stórum hópi manna. Og á morgun eiga tveir úr þessum hópi að dæma mig. Fyrir guðlast.
Svartur himinninn utan við hótelgluggann heldur áfram að slíta úr sér slydduna sem lendir hljóðlaust á glerinu, bráðnar og rennur í taumum niður í kverk. 

XIV

Þetta verður góður dagur, hugsaði ég með mér þegar réttarþjónninn opnaði dómsalinn uppi í Sakadómi þremur mínútum fyrir níu, því það taldi ég vita á gott:
Og mér var hugsað til þess, að þennan dag, 1sta desember, fullveldisdaginn, hafði Mogginn birt leiðara með yfirskriftinni Friður - frelsi - mannréttindi. Þar stóð ma:
"Yfirskrift hátíðarhaldanna, friður, frelsi og mannréttindi, höfðar til allra Íslendinga, og getur verið þeim sameiningartákn."
Og á öðru m stað :
"En þjóð, ... er á framtíðarvegi. Á þeim vegi varðar mestu að standa trúan vörð um það meginmál, sem kristallast í kjörorði hátíðarhaldanna í dag: friður ­frelsi - mannréttindi."
Og ég gekk í salinn til móts við dómara mína. Þeir brostu í kampinn, íbyggnir og glaðbeittir.
Settist í stól sakbornings, sannfærður um að þeir hefðu valið einmitt þennan dag til þess að vísa málinu frá eða sýkna mig af kærum um guðlast og klám; til að sýna þjóðinni sinni að dómstólarnir væru ekki trénaðar forneskjustofnanir heldur í takt við tímann.
Og ég beið. Glaður í huganum. Með gróskumikla von í brjóstinu.
Dómarinn hefur upp raust sína og les: Dómsorð:
Ákærði, Úlfar Þormóðsson, greiði sekt að fjárhæð 16.000 krónur til ríkissjóðs innan 4 vikna, ella sæti hann varðhaldi í 20 daga.
Ákærði sæti upptöku á 24. 25. 39. og 40. blaðsíðu í 4445 eintökum af 2. tölublaði 43. árgangs tímaritsins Spegilsins og á samhljóða blaðsíðum í 172 eintökum 1. tölublaðs 1. árgangs blaðsins Samviska þjóðarinnar. Einnig eru tilsvarandi myndmót og offsetfilmur gerð upptæk.
Ákærði greiði sakarkostnað, m.a. saksóknaralaun til ríkissjóðs, að fjárhæð 15.000 krónur, og málsvarnarlaun til Sigurmars K. Albertssonar, héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 15.000 krónur.
Jón A. Ólafsson. Bjarni Sigurðsson. Eysteinn Sigurðsson.
Þung og þrúgandi þögn eitt andartak. Síðan heyrist rödd dómsformanns:
Óskar ákærði eftir að dómsorðin verði lesin aftur? Ákærði hikar andartak, segir síðan:
Í tilefni dagsins og í minningu feðra ykkar óskar ákærði eftir því að þessi dómsorð verði aldrei aftur lesin upp.
Þegar dómsforsendur eru lesnar er I jóst að verið er að dæma mig fyrir allt annað en þú ákærðir mig fyrir. Mig grunar svo sem fyrir hvað. Segi samt ekki orð. Það verður Hæstaréttar að fá botn í það.
Og upplýstir menn undrast það klambur sem forsendurnar fyrir dómnum eru. þá hafa menn í huga hversu vel menntaðir og fjölgáfaðir menn sátu í dómnum og settu saman forsendumar.
Dómsforseti Jón Abraham Ólafsson, sakadómari. VL-ingur og löggiltur framsóknarmaður, stjórnarmaður í Varðbergi, félagi áhugamanna um vestræna samvinnu og fyrrv. formaður þess. Frægur ferðagarpur á þeirra samtaka vegum, og hefur séð veröldina allt um kring og veit hvað hún hefur að b jóða; lífsreyndur maður.
Meðdómari síra Bjarni Sigurðsson cand júrís. Var sóknarprestur að Mosfelli. Starfaði sem blaðamaður við Morgunblaðið áður en hann hóf prestskap 1954. Hefur átt sæti í siðareglunefnd Blaðamannafélags Íslands um áraraðir. Dósent í guðfræði við Háskóla Íslands. Lionsmaður, VL-ingur og frímúrari.
Meðdómari Eysteinn Sigurðsson, Ph. D., ritstjóri. Doktor í íslenskum fræðum. Blaðafulltrúi hjá SÍS. Skáti. Í stjórn Varðbergs. Átti sæti í stjórn félags ungra framsóknarmanna um tíma. Frímúrari. VL-ingur.
Það er því ekki eins og eitthvað skorti á um menntun, þekkingu og víðsýni í þessum dómi.
Alltaf er ég að gleðja þig. Nú ætla ég að birta þér glefsur úr dómsforsendum þeirra þremenninga, en ég tek loforð af þér um að hlæja ekki að þeim sem þær sömdu; amk. ekki upp í opið geðið á þeim.
Um guðlast vegna greinarinnar um áhrif altarisgöngunnar og fyrsta sjússins:
"... enda verður birting þessa efnis hvorki talið framlag til málefnalegrar umræðu um trúmál né hún talin hafa listrænt gildi."
Um klám. Birting á mynd af karlhrút, sem bundið hafði snæri um tippið á sér og halað það upp að aftan:
"Telja verður að myndin sé hluti af háðsádeilu, sem fram kemur í blaðinu, á nýtt þjóðfélagsfyrirbæri, sérframboð kvenna." "Þegar framangreind atriði eru virt verður að sýkna ákærða af þessum ákærulið."
Ergó: Það má gera grín að kvenfólki með tippamyndum. En bíðum nú við. Í Speglinum var önnur tippamynd. Strípaður kall með búrhníf í hendi brugðnum á tippið. Þar var verið að gera grín að efnahagsstefnu Alþýðubandalagsins, hinni svokölluðu styttingaleið, og talsmanni hennar, Ragnari Arnalds. Og hvað seg ja þremenningarnir við því:
"Hins vegar verður að telja að tenging kynfæris og stórhættulegs vopns ... ... hvetji til misþyrminga á kynlífssviðinu. Mynd þessi höfðar því til óeðlilegs, sjúklegs hugarfars og er ekki með nokkru móti innlegg í neina jákvæða og eðlilega umræðu, og gæti haft hættulegar afleiðingar úti í þjóðfélaginu.
Og fyrir þetta ber að refsa.
Þó komast þeir þremenningar fyrst á flug þegar þeir fjalla um skopstælingu á þeim blaðaskrifum sem urðu vegna upploginna dagbóka Hitlers. Til þeirrar stælingar var valin upplogin dagbók Ragnhildar Helgadóttur, þá alþingismanns.
Um það tiltæki segir dómaratríóið:
"... er reynt að láta líta svo út að hann (textinn­ innsk. mitt) fjalli um kynlíf þeirra. ... Orð þessi eru lágkúruleg, illkvittin, ófyrirleitin, móðgandi og í alla staði hin grófasta árás á einkalíf fólks og virðast aðeins sett fram í því skyni að svívirða hjónin á hinn grófasta hátt og selja blaðið til hagsbóta fyrir útgefandann." "... og hefur ákærði unnið til refsingar..."
Þarna er ekki skafið utan af því, lagsi. Og mér gerðar upp skoðanir og meiningar og dæmdur út frá því. En ekki fyrir klám, eins og þú fórst fram á - enda ekki um neitt klám að ræða - heldur fyrir meiðyrði. Og þú sem ekki kærðir vegna meiðyrða. Þú hættir við það, manstu ekki, og fannst upp guðlastið þess í stað.
Er þetta ekki dásamleg sönnun fyrir framhaldslífi?
Síðan þessi dómur var upp kveðinn, hefur mér oft verið hugsað til þessa fullveldisdags, árið 1983. Og ýmislegt hefur komið í ljós síðan þá. Og margar spurningar vaknað.
Var það tilviljun að þrír VL-ingar skipuðu dóm? Var það tilviljun að tveir frímúrarar sátu í dómi? hvers vegna völdu dómarar 1sta desember til að kveða upp dóm, sem hvorttveggja skerðir prentfrelsi í landinu og tjáningarfrelsi almennings?
Þennan 1sta desember var stofnað nýtt fyrirtæki í landinu. Lög og reglur þess voru staðfest þennan dag: Fjársterkustu aðilar landsins á sviði kaupsýslu, stjórnsýslu, bókaútgáfu, blaðaútgáfu og kvikmyndagerðar sameinuðust í fjölmiðlarisanum Ísfilm: SÍS, Mogginn, DV, AB, Indriði G. og Reykjavíkurborg. Og þeir munu framleiða kvikmyndir, vídeóspólur, gefa út bækur og blöð og aldrei skorta fé.  Þar verður haldið að landslýð lífsblekkingu stórkapítalsins, þaðan verður stýrt mótun á hugmyndum hinna minni máttar, þar verða mótaðar hugmyndir Íslendings framtíðarinnar.
Og þetta gerðist sama dag og einn limur þessa fjölmiðlarisa, einokunaraðila fjármagnsins, Morgunblaðið, birtir ritstjórnargrein um mikilvægi friðar, frelsis og mannréttinda í íslensku samfélagi.
Allt þetta á einu degi:
Fullveldisdegi þjóðarinnar minnar. Og þinnar. 

XV

Þú veist að guð er frekjuhundur og eigingjarn fram úr hófi. Þess vegna hefur hann fyrirskipað mönnunum, sem á hann trúa, að þeir megi ekki aðra guði hafa. Þessu hafa menn játað. Og að sjálfsögðu allir prestarnir, sem eru hans einkaþjónar á launaskrá hjá ríkinu:
En þeir svíkja guð um þetta lítilræði, margir hverjir. Amk. allir þeir sem skipa sér í raðir frímúrara, því þar eru menn að grúska með alls kyns afguði. Þetta er mikil guðlastsnáma fyrir þig, og ekki seinna vænna að hefjast handa með að kæra þá, ætlirðu að hafa málareksturinn af áður en þú lætur af störfum fyrir aldurssakir. Og þá er ég ekki að tala um mammonsdýrkun blessaðra guðsþjónanna; þú veist að það þýðir ekki að vera blankur og biðja um blessun drottins því þeir hreyfa ekki hönd til guðsverka án þess að taka stórfé fyrir; skírnin kostar sitt, fermingin, giftingin og jarðarförin. Þetta er að sjálfsögðu fullkomið guðlast og regin hneyksli að viðbættri helvítis peningagræðginni sem þetta sýnir.
Ég held að ég hafi hlýtt á einar fjórar messur á aðfangadag í útvarpi og sjónvarpi. Í einni messunni mátti ekki minna gagn gera en tróna upp með tvo frímúrara; dómkirkjuprestinn í Reykjavík og biskupinn yfir Íslandi.
Annar guðsmaðurinn mælti þessi orð: Friður guðs, sem er æðri allri skynsemi ... sé með yður.
Og ég braut heilann langtímum saman um það hverslags friður þetta gæti verið. Ég fékk engan botn í það. Næst fannst mér ég vera skilningi á þessum yfirskilvitlega friði að ímynda mér hann sem eins konar stórstyrjöld þar sem allir reyni að kála öllum og enginn viti hvers vegna.
Og það var fleira skrýtið sagt þetta kvöld. Dómkirkjupresturinn hélt því fram í stólræðu að Kristur væri sá eini sem hefði grundvallað heimsveldi á kærleika. Þetta er að sjálfsögðu algjör heilaspuni, því Kristur grundvallaði ekkert heimsveldi. Áhangendur hans voru ekki nema örfáir utangarðsmenn um það leyti sem valdsmennirnir negldu hann upp. Og megi lesa eitthvað út úr atferli Krists og orðum er það, að hann hafi barist gegn lögverndun helgisiða, og því fjarri honum að koma upp einhverju heimsveldi. En það voru eftirkomendurnir sem bjuggu til heimsveldið kristna kirkju. Og það varsko ekki grundvallað á kærleika; því ekki hálshjuggu forfeður vorir Jón Arason af kærleik; spánski rannsóknarrétturinn hafði ekki mannkærleika að leiðar ljósi í störfum sínum; Bartólómeusarvígin voru ekki heldur kærleiksverk. En þau voru unnin af guðskristnum mönnum og kirkjunni.
Og maður undrast ósvífni dómkirkjuprestsins á aðfangadag að nefna grundvöllun kirkjunnar kærleiksverk, því hverjum sæmilega upplýstum manni er ljóst að kirkjan er ein elsta nústarfandi hryðjuverkastofnun veraldar. Nema þarna sé að finna frið guðs, sem er æðri allri skynsemi, og ofbeldisverk kirkjunnar unnin í anda þess sérkennilega friðar.
Ég held að ég hafi skrifað einar tíu tilvitnanir í ræður þeirra frímúrarapresta þetta eina kvöld. Og fannst þær sniðugar margar. Velti því fyrir mér hvort orðið brandajól hefði í rauninni ekki verið brandarajól í upphafi, því sjálfsagt eru þetta ekki fyrstu jólin sem drottinssmurðir strá um sig með bröndurum. Og þessi síðustu jól voru sannkölluð stórubrandarajól.
Þessu til áréttingar að lokum:
Trúarjátninguna lærði ég eins og hvert annað þægt guðsbarn á sínum tíma. É.g kenndi hana meira að segja í ein sex ár.  Þá kenndi maður hana eins og hún hafði verið sjálfum manni kennd og þar í þessi orð:
"Upprisu holdsins og eilíft líf."
En á jólum 1983 hljómar í útvarpinu undir forsöng biskups og dómkirkjuprests:
"Upprisu mannsins og eilíft líf.''
Og velti því fyrir mér hvort þetta sé hluti í endursiðvæðingu og afklæmni alls texta að skipta á upprisu holdsins og mannsins.
Það er að minnsta kosti ekki hægt að leyfa sér neinn misskilning eftir að holdið hefur risið upp og út úr trúarjátningunni. 

XVI

Og nú er bara að bíða.
Á meðan heldur allt áfram og gengur sinn vanagang. Málin hlaðast upp hjá þér, gleymast sum og týnast önnur rétt eins og ævinlega.
Menn munu halda áfram að klæmast sumir. Og stórkrimmar og framsóknarmenn munu óáreittir halda áfram að flytja inn klámblöð, myndir og vídeó að selja kynferðislega brengluðum samlöndum sínum í nafni frelsisins.
Þeir Eggert Haukdal og síra Páll Pálsson munu halda áfram að skemmta skrattanum og ergja sinn guð og lasta með deilum sínum hvor við annan og söfnuðinn síra Páls á Bergþórshvoli.
Og áfram verður lifað og dáið, elskað, drukkið og kysst, rifist og slegist, stolið og skemmt. Á þessu verður víst ekkert lát.
Á meðan bíð ég. Eftir Hæstarétti.
Kannski fjallar hann ekki um kæruna þína fyrr en á næsta ári. Og er það vel við hæfi. Þá verða 300 ár síðan þeir dæmdu Halldór heitinn Finnbogason og brenndu á báli fyrir guðlast.
Og á meðan óska ég þess eindregið að sá guðsfriður, sem er æðri allri skynsemi, megi fylgja þér og þínum.
Sæll að sinni,

Úlfar.

Ps. Er fluttur á Óðinsgötuna ef þú þyrftir að láta senda eftir mér einhverra hluta vegna.

Sami.