Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestur sekur um siðferðis- og lögbrot við skírn

Fréttablaðið greindi frá því 27. mars sl. að prestur þjóðkirkjunnar hefði verið kærður fyrir að skíra barn í leyfisleysi. Barnið var þó skráð við fæðingu samkvæmt lögum, að öllum forspurðum, í kaþólsku kirkjuna (af því að móðir barnsins var skráð í þann söfnuð). Í lögum um þjóðkirkjuna segir að skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veiti aðild að þjóðkirkjunni. Í lögum um trúfélög (8. gr.) stendur: „Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega.“

Forsaga málsins er sú að faðir barnsins hefur lengi reynt að verja barn sitt fyrir ásælni og yfirgangi ríkiskirkjunnar. Foreldrarnir fara saman með forsjá barnsins, það á heimili hjá föðurnum en nýtur umgengni við móðurina. Í einni heimsókn barnsins til móður var hálfsystkin barnsins skírt og móðirin vildi skíra eldra barnið líka til að því finndist það ekki vera útundan.

Formleg kvörtun til Þjóðkirkjunnar

Presturinn vissi að móðir og barn voru skráð í kaþólska söfnuðinn og mæltist til að móðirin skipti um trúfélag. Hann hélt að breytti móðirin trúfélagaskráningu sinni fylgdi barnið sjálfkrafa með og yrði því „aðili að þjóðkirkjunni“ við skírnina. Hann spurði móðurina um afstöðu föðurins til skírnar og var tjáð að honum væri mjög í nöp við Þjóðkirkjuna en finndist að barnið ætti að ráða þessu, sjö ára gamalt! Prestinum var barátta föðursins við kirkjuna vel kunn en þó gerði hann enga tilraun til að staðfesta þessa undarlegu og meintu afstöðu hans til skírnarinnar.

Þegar faðirinn frétti að barn hans hefði hlotið skírn brá honum verulega og spurði prestinn í bréfi hvort hann teldi sig ekki þurfa heimild forsjáraðila til að skíra barn. Presturinn svaraði þremur vikum síðar að hann teldi að samþykki hefði legið fyrir. Faðirinn leitaði þá til viðkomandi prófasts sem hélt að móðirin hefði skipt um trúfélag og að barnið yrði sjálfkrafa meðlimur í þjóðkirkjunni við skírn. Það er þó alrangt. Hvorki prófastur né prestur sáu nokkuð athugavert við þessa innlimun barnsins í náðarfaðm kirkjunnar að föðurnum forspurðum.

Faðirinn ákvað þá að kvarta formlega til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar, en hún tekur á siðferðis- og agabrotum og á að teljast óháð stjórnsýslunefnd en er þó skipuð af biskupi. Kirkjuþing tilnefnir einn nefndarmann, prestastefna annan en biskup formanninn. Jafnframt leitaði faðirinn til biskups og sagði farir sínar ekki sléttar. Biskup yppti þá bara öxlum og sagðist sem minnst vilja segja um málið og ekkert gera þar sem það væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd, dæmigerð viðbrögð báknsins.

Skortur á reglum

Í Fréttablaðinu var haft eftir biskupsritara að málið vekti ýmsar spurningar og að biskup ætlaði að senda frá sér reglur viku síðar, meðal annars um skírnarathöfnina. Faðirinn leitaði mánuði síðar á biskupsstofu og bað um að fá að sjá þessar reglur en biskupsritari sagði þær þá trúnaðarmál, þær ættu eftir að fá umsögn prestastefnu. Prestastefna fjallaði um málið og vísaði því til kirkjuþings nú í haust. Þar kom fram að tillaga biskups er sú að séu foreldrar með sameiginlega forsjá ósammála um skírn eigi vilji þess forsjárforeldris að ráða sem hefur lögheimili barnsins hjá sér. Þannig vill kirkjan gera sameiginlega forsjá að engu. Endanleg afgreiðsla bíður kirkjuþings 2009.

Úrskurðarnefnd biskupsins lítur svo á að agabrot geti aðeins falist í brotum á fyrirmælum yfirmanna eða brotum á reglum kirkjunnar og þar sem engar reglur eru til um skírn er ógerningur að fremja nokkuð agabrot í tengslum við hana. Faðirinn taldi reyndar að nefndin væri óhæf, ekki síst vegna þess að einn af þremur nefndarmönnum var prestur, jafnan með prestakraga á fundum nefndarinnar, en auðvitað var ekkert mark tekið á því. Nefndin sá heldur ekki að um siðferðisbrot væri að ræða þótt hún teldi að það hefði verið „ógætilegt“ af presti að ganga ekki úr skugga um afstöðu föðurins til skírnarinnar.

Fælandi málskostnaður

Faðirinn leitaði þá aftur til biskups og spurði hvort hann vildi nú gera eitthvað í málinu eða hvort hann þyrfti að vísa málinu til áfrýjunarnefndar Þjóðkirkjunnar. Biskup sá ekki ástæðu til neinna aðgerða í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar sinnar. Kirkjuþing semur reglur um störf úrskurðar- og áfrýjunarnefndar og í þeim kemur fram að kostnaður við störf áfrýjunarnefndar greiðist að fullu af málsaðilum. Lítið hefur reynt á þetta þar sem menn hafa veigrað sér við að áfrýja úrskurðum úrskurðarnefndar eftir að þessar reglur voru settar. Í einu máli fundaði áfrýjunarnefnd t.d. tvisvar (klukkustund í senn) og staðfesti frávísun úrskurðarnefndar. Reikningur fyrir þá vinnu hljóðaði upp á 56 klst. Áfrýjunarnefnd er skipuð þremur hæstarréttarlögmönnum af dóms- og kirkjumálaráðherra samkvæmt tilnefningu hæstaréttar og fær hún tvo „sérfræðinga“ til liðs við sig í hverju máli. Málskostnaður nemur því hundruðum þúsunda (hver klst. 10-15 þúsund).

Við svo búið er eðlilegt að venjulegur maður hugsi sinn gang. Er verjandi að hætta á að fá reikning upp á hundruð þúsunda til að fá úrskurð valdalausrar stjórnsýslunefndar? Annars staðar í stjórnkerfinu er kostnaður stjórnsýslunefnda greiddur af ríkinu (ráðuneytum) en stundum er farið fram á málamyndagreiðslu, 5-15 þúsund krónur. Sjá ritgerð Friðgeirs Björnssonar, (pdf) ) Ríkiskirkjan er eina opinbera stofnunin sem fælir borgarana frá því að leita réttar síns með þessum hætti.

Getulaus nefnd

Í áranna rás hefur úrskurðar- og áfrýjunarnefnd Þjóðkirkjunnar ákveðið að túlka starf- og valdsvið sitt eins þröngt og frekast er unnt. Þannig getur borgari ekki borið mál undir nefndina vegna yfirgangs presta í skólum ef borgarinn sem kvartar er ekki í þjóðkirkjunni! Og það sem meira er... nefndin er gjörsamlega valdalaus þegar kemur að siðferðisbrotum þeim sem hún fær til meðferðar. Hún getur aðeins gripið til þess að óska að maður sé færður til í starfi, vísað frá störfum eða hljóti áminningu ef hann hefur brotið reglur kirkjunnar sjálfrar eða fyrirmæli biskups, brjóti hann landslög og mannréttindasáttmála telur nefndin það mál dómstóla.

Þrátt fyrir allt þetta tók faðirinn slaginn og áfrýjaði úrskurði úrskurðarnefndar til áfrýjunarnefndar. Áfrýjunarnefnd komst að því að það hafi verið siðferðilega rangt af prestinum að skíra barnið að föðurnum forspurðum. En það er ekki agabrot því engar reglur eru til um framkvæmd skírnar hjá kirkjunni, „þótt slíkt hefði vissulega verið æskilegt“ að mati nefndarinnar.

Úrskurður áfrýjunarnefndar

Í úrskurði sínum vísaði áfrýjunarnefnd í barnasáttmála Sameinðu þjóðanna (3. gr.), barnalög (28. og 34. gr.), siðareglur presta (2.3) og lög um þjóðkirkjuna (1. og 3. gr.) og komst að því að presturinn hefði ekki tekið tillit til þeirra. Framganga hans miðaði ekki að velferð barnsins, var siðlaus og að öllum líkindum lögbrot í þokkabót. Í úrskurði nefndarinnar segir svo:

Hér að framan er því lýst að hinn 2. febrúar 2008 skírði séra Svavar Alfreð Jónsson dóttur kæranda, sem þá var sjö ára, án þess að leita eftir samþykki hans sem föður hennar, þrátt fyrir að presturinn vissi eða mætti vita (1) að kærandi færi með sameiginlega forsjá stúlkunnar ásamt móður hennar, (2) að stúlkan ætti heimili hjá kæranda og hefði þar væntanlega fasta búsetu, (3) að kærandi hefði sterkar skoðanir á þjóðkirkjunni og skírn á hennar vegum, sem varla gætu talist jákvæðar, og (4) að stúlkan og móðir hennar tilheyrðu öðru trúfélagi en þjóðkirkjunni. Við þessar aðstæður lítur áfrýjunarnefnd svo á, með skírskotun til alls þess sem fram kemur í kafla III hér að framan, að prestinum hafi borið siðferðileg skylda til þess að leita eftir samþykki eða í það minnsta afstöðu kæranda sem föður stúlkunnar, áður en hún var skírð. Þótt nefndin hafi skilning á því sjónarmiði að það hafi verið í þágu stúlkunnar að skíra hana til kristinnar trúar verður að draga mjög í efa að það hafi verið henni fyrir bestu að taka skírn í andstöðu við föður sinn, sem hún bjó hjá, ekki síst með tilliti til þeirrar áherslu, sem á það er lögð af hálfu þjóðkirkjunnar, að börn, sem skírð hafa verið, séu alin upp sem kristnir einstaklingar af ástvinum þeirra.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða áfrýjunarnefndar að séra Svavar hafi ekki breytt siðferðilega rétt í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1997 í máli því sem til úrlausnar er.

Óskammfeilni og hræsni kirkjunnar

Nú er um mánuður síðan áfrýjunarnefnd kvað upp úrskurð sinn (og felldi kostnaðinn á kirkjusjóð, ekki prestinn (gagnaðilann)) en ekki hefur heyrst múkk frá kirkjunni. Presturinn biður ekki afsökunar, biskup hunskast ekki til aðgerða. Skírnin er eitt það allrahelgasta og merkilegasta í galdra- og ruslakistu ríkiskirkjunnar, heilagt sakramenti – eilífur og órjúfanlegur sáttmáli við Guð (sbr. baráttu Helga Hóseassonar). Nú stendur kirkjan frammi fyrir að hafa framkvæmt þessa athöfn án leyfis forsjáraðila, í trássi við mannréttindasáttmála, landslög og siðareglur presta.

Kristið siðgæði lætur ekki að sér hæða. En í því sambandi má minna á nýlega prédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups:

Kirkja og kristni fær oft orð í eyra fyrir þátt sinn í að kúga fólk og ekki síst konur. Það eru því miður ótal dæmi um slíkt í sögu og samtíð. Kirkjan er ekki hafin yfir gagnrýni. Kristnin leggur áherslu á að allt mannlegt líf, samfélag, skipulag er laskað og ófullkomið og undir sömu sök selt: syndar, sektar og dauða. Líka kirkjan.

Þeir sem tala máli andtrúarviðhorfa eru gjarnir á að draga fram hvaðeina það sem saga kirkjunnar geymir illt og ljótt. Það þarf enga sérstaka skarpskyggni til að finna dæmi um slíkt. Það hrópar upp í himininn og stendur undir dómi Guðs. Krossinn á Golgata sýnir okkur það svo berlega. Í ljósi þess er kristin trú sér meðvituð um að ekkert mannlegt er óskeikult. Allir hafa syndgað. Það merkir að við erum ábyrg gerða okkar og líka aðgerðarleysis. Öll verk okkar eru því undir dómi. Enginn er þar undanskilinn, hvorki guðleysinginn né dýrlingurinn. Þegar allt kemur til alls getum við ekki vísað frá okkur ábyrgð.

Já, kirkjan er sannarlega sek og skeikul. En í hverju felst ábyrgð hennar? Hvernig axlar hún hana? Dómur er fallinn. Í sömu prédikun og vitnað er til hér að ofan sagði biskup líka:

Ég held því hiklaust fram að hin kristna guðstrú sé uppspretta góðs siðferðis og góðs samfélags, vegna þeirrar guðsmyndar og raunsæa mannskilnings og samfélagssýnar sem kristnin stendur fyrir.

En haft er eftir kristi þessum:

Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær. Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi. Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.

Ritstjórn 18.11.2008
Flokkað undir: ( Tilkynning , Vísun )

Viðbrögð


Bára Halldórsdóttir - 18/11/08 11:09 #

Hér er um háalvarlegt mál að ræða að mínu mati. Veitir sýn á hve hættulegur hugsanahátturinn "en ég er sannfærður um að kristnin sé svo fín fyrir alla" er. Eins og ég segi alltaf, þetta sama fólk myndi gefa lítið fyrir þau rök ef einhver væri "óvart" vígður inn í Búddisma eða önnur trúarbrögð.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt mál að forsjáraðilar barna ef þau eru bæði þeirrar skoðunnar skíri sín börn, en að taka svona ákvörðunarrétt af foreldri hlýtur að falla undir landslög ekki kirkjunefnd sem aldrei gæti verið fyllilega hlutlaus sama hve hún reynir.

Ég lít líka svo á að ferming eigi ekki að vera svona snemma á lífsleiðinni, að í raun sé það barnamisnotkun að láta óþroskuð ungmenni taka svona stóra ákvörðun þegar við myndum ekki treysta þeim til að taka nokkra aðra slíka ákvörðun á þessum aldri.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/08 11:33 #

Nú þegar afsagnir eru á döfinni hljótum við að spyrja hvort presturinn ætti að fara að fordæmi Bjarna og Guðna. Spurningin sem hann, og kirkjan í heild, þarf að spyrja sig að er: Hve miklu máli skiptir skírnin?

Ef skírnin er einungis merkingarlaust ritúal ætti hann að sitja áfram. Ef skírnin er hins vegar einhver innsti kjarni kristinnar trúar og kirkju er erfitt að sjá hvernig Svavar getur setið áfram. En augljóslega er þetta eitthvað sem gerist innan kirkjunnar. Nema kannski að það sé öðruvísi þar sem prestar eru ríkisstarfsmenn og þurfi þar með að setja sig á hærra siðferðisplan en ella.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 18/11/08 12:51 #

Þetta er einmitt mjög alvarlegt mál fyrir kirkjuna - og ég hvet föðurinn til að fara í dómsmál í framhaldinu, presturinn virðist hafa brotið landslög og ætti jafnvel að vera skaðabótaskyldur.


Ásta Elínardóttir - 18/11/08 12:54 #

Mér finnst þetta svo hræðilegt að ég næ bara ekki að lýsa því með orðum.

Tengdapabbi hótaði einmitt að skíra dóttir mína einhvertíman og það er skemmst frá því að segja að hann hefur aldrei fengið að passa skvísuna því að þó að landslög kveða á um forsjá foreldris þá treysti ég prestum ekki til að viðurkenna það og þá sérlega prestum sem eru í ætt viðkomandi.

Urr.. Arg.. og ÚFF!! er það sem ég hef um málið að segja.


Arnaldur - 18/11/08 13:33 #

"Þótt nefndin hafi skilning á því sjónarmiði að það hafi verið í þágu stúlkunnar að skíra hana til kristinnar trúar verður að draga mjög í efa að það hafi verið henni fyrir bestu að taka skírn í andstöðu við föður sinn, sem hún bjó hjá, ekki síst með tilliti til þeirrar áherslu, sem á það er lögð af hálfu þjóðkirkjunnar, að börn, sem skírð hafa verið, séu alin upp sem kristnir einstaklingar af ástvinum þeirra."

Afhverju segja þeir að það hafi verið í þágu hennar að vera skírð?

Það getur varla verið bara svo hún yrði ekki útundan, mér finnst það allavega mjög léleg ástæða?

Þetta er fáranlegt og má ekki láta þá komast upp með þetta. Ég hef litla trú á að kirkjan geti varið þetta fyrir dómi!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/08 13:36 #

Góð spurning Arnaldur. Þetta er í raun afskaplega undarleg yfirlýsing frá nefndinni og mér finnst að nefndarmenn mættu útskýra þetta opinberlega.


anna benkovic - 18/11/08 14:09 #

"Þeim kröfum kæranda, að skírn sú, sem að framan greinir, verði úrskurðuð marklaus eða óleyfileg og að hann eigi bótakröfu á hendur þjóðkirkjunni vegna skírnarinnar, er vísað frá. " (mbl.is)

Af hverju er þessu vísað frá án rökstuðnings? Er ekki Salvör Norðdal formaður Siðfræðinefndar HÍ og heimspekingur? Hún ætti að fara létt með að rökstyðja?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/08 16:58 #

Hver er þessi prestur, og hverjir sitja í úrskurðarnefndinni?

Spyr Jón Valur Jensson.

Þegar hefur komið fram að presturinn sem braut af sér er séra Svavar Alfreð Jónsson. Í úrskurðarnefnd eru Dögg Pálsdóttir formaður, Arnfríður Einarsdóttir og séra Hreinn Hákonarson.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/08 19:24 #

Nanna Rögnvaldsdóttir bloggar um skírn og forræði.


gimbi - 19/11/08 00:42 #

Maður hlýtur nú bara að spyrja: Hvert er vandamálið?!

Pabbinn kaþólikki, mamman mótmælandi:..og þetta er voða mál hér?

Ekki skil ég í hverju vandinn felst?

Hversu örðugt er að hafna hvoru tveggja bullinu?

Sjísus


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 19/11/08 01:15 #

Ekki skil ég í hverju vandinn felst?

Það er alveg rétt hjá þér, gimbi.

Pabbinn er ekki Kaþólikki og burtséð frá hans skoðunum þá var skírnin framkvæmd að honum forspurðum.

Hvenær var tækifæri fyrir hann til að "hafna hvoru tveggja"?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/08 01:27 #

Maður hlýtur nú bara að spyrja: Hvert er vandamálið?!

Með lesskilninginn þinn? Það er von að maður spyr.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/11/08 10:58 #

Siðferðispostuli, sem er sekur um siðferðisbrot gegn barni og foreldri þess, hlýtur að vera í afar slæmri stöðu.

Stofnun sem hreykir sér af besta siðgæði í heimi, en lætur lög- og siðferðisbrot átölu- og bótalaust er siðlaus.

Ríkisstofnun sem telur það á valdi sínu að stofna til ævarandi samnings við almáttugan guð, fyrir hönd ólögráða barna og jafnvel í trássi við vilja forsjáraðila en þykist svo valdalaus þegar ómerkja á siðlausan og ólöglegan gjörning er....

Tja, eigum við eitthvað orð yfir slíkt?


Snorri Stefánsson - 19/11/08 11:38 #

Það þarf reyndar ekki að koma á óvart að nefndin skuli hafi skilning á því að menn hafi talið að skírn barnsins hafi verið í þágu þess. Þetta virðist fyrst og fremst lúta að hvötum hlutaðeigandi en ekkert bendir til þess að þær hafi verið slæmar. Þ.e. það var ekki af illkvittni sem barnið var skírt.

en fer það nú líklega eftir því hvaða skóla í siðfræði maður aðhyllist hvort góðar hvatir rjettlæti ranglátan verknað.

Svo er ekki undarlegt að úrskurðarorð sje ekki rökstutt. Það er jú bara niðurstaðan.


gimbi - 20/11/08 22:13 #

... en má spyrja: ...er barnið kaþólikki, mótmælandi, eða mögulega bara vantrúað?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/08 22:24 #

Barn getur aldrei talist kaþóliki, mótmælandi eða vantrúað (allavega í þeirri merkingu sem þú ert vís með að meina).


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/08 22:49 #

Alveg rétt hjá Hauki, sjö ára börn eru ekki kaþólsk eða mótmælendatrúar, kannski helst jólasveinatrúar.

Foreldrar þeirra gætu hins vegar sem best verið kaþólsk eða mótmælendatrúar og það er réttur foreldra að ala börn upp í trú sinni.

Það er hins vegar ekki sjálfgefið að annað foreldri ráði trúarlífi barns þvert á vilja hins foreldrisins. Það flokkast sem siðferðilega rangt og jafnvel lögbrot. Þegar prestur tekur vísvitandi og meðvitað þátt í slíku er hann að brjóta siðareglur og lög en einnig bara einfaldlega þau grundvallar manngildi sem við viljum að stjórni gjörðum fólks í okkar samfélagi.

Þeir sem setja ímyndaða tekatla ofar mannlegum hagsmunum eru alltaf siðferðilega varasamir eins og sést hér í þessu tilfelli.


gimbi - 27/11/08 21:25 #

Segðu mér Binni, er til staðar einhver félagsfræðileg kúrva um trúarnálgun barna eftir aldri?

Þess eldri, þá hvað?


Faðirinn - 03/12/08 11:10 #

Ég átti fund með biskupi í gær og bjóst eðlilega við auðmjúkum og iðrandi biskupi í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar.

Mér mætti hins vegar algjört skilningsleysi og afneitun. Biskup viðurkennir ekki að siðferðisbrot hafi átt sér stað!

Aðspurður og þráspurður sagði hann hins vegar að honum þætti leitt að ég hefði haft "ama af þessu" og að þetta væri "óheppilegt".

Og skírnin skal standa um aldur og eilífð. Því verður ekki breytt, það eru hreinar línur.


Sveinn - 03/12/08 11:24 #

Maður hefði lúmskt gaman af því ef einhver úr öðru trúfélagi kæmi og skvetti vatni á biskup eða viðkomandi prest þar sem hann væri á gangi á Laugarveginum og tilkynnti honum að nú væri hann skráður í bækur viðkomandi trúfélags það sem eftir væri og hann gæti ekkert við því gert...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.